Ferill 460. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 953  —  460. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur
um lágmarksréttindi öryrkja og aldraðra.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvert telur ráðherra vera inntak þeirra lágmarksréttinda sem tryggja ber öryrkjum og öldruðum skv. 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 125/2000?
    
    Samkvæmt 1. mgr. 76 gr. stjórnarskrárinnar skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Þannig fellur það í hlut löggjafans að ákveða efnislegt inntak þessa réttar til aðstoðar og hvernig henni skuli háttað, þ.m.t. þeirri opinberu aðstoð sem öryrkjum og öldruðum er látin í té.
    Réttur einstaklinga til félagslegrar aðstoðar skv. 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, einskorðast við þá sem þess þurfa og er að finna leiðbeiningar í ákvæðinu sjálfu um hvers konar ástæður geti orðið til þess að maður þarfnist opinberrar aðstoðar af þessum toga. Með orðinu „aðstoð“ er ekki einungis átt við peningagreiðslur enda er unnt að veita aðstoð með ýmsum öðrum hætti. Þá segir í athugasemdum við ákvæðið að ekki sé ráðgert að sá sem geti séð nægilega fyrir sér sjálfur þurfi að njóta réttar til slíkrar aðstoðar. Í ákvæðinu er gengið út frá því að nánari reglur um félagslega aðstoð af þessum meiði verði settar með lögum, en með ákvæðinu er markaður sá rammi að til þurfi að vera reglur sem tryggi þessa aðstoð.
    Löggjafinn hefur því komið á ákveðnu velferðarkerfi hér á landi í þeim tilgangi að tryggja þessa aðstoð. Lífeyriskerfin eru meðal þeirra kerfa ásamt opinberum húsnæðisstuðningi, félagsþjónustu sveitarfélaga og atvinnuleysistryggingakerfi.
    Með lögum hefur verið komið á tvenns konar lífeyriskerfi. Annars vegar er um að ræða atvinnutengda lífeyrissjóði þar sem lífeyrisréttindi ávinnast á grundvelli iðgjalda, sbr. lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Öllum á vinnumarkaði er skylt að greiða iðgjald til lífeyrissjóðs. Lögin og lífeyrissjóðirnir falla undir málefnasvið fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Hins vegar er um að ræða lífeyriskerfi almannatrygginga þar sem lífeyrisréttindi ávinnast á grundvelli búsetu, sbr. lög nr. 100/2007, um almannatryggingar. Almannatryggingalögin og lífeyriskerfi almannatrygginga falla undir málefnasvið félags- og húsnæðismálaráðherra.
    Markmið laga um almannatryggingar er að tryggja þeim sem lögin taka til og þess þurfa lífeyri og aðrar greiðslur, m.a. vegna elli og örorku, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum. Með lífeyri og greiðslum ásamt þjónustu og aðstoð sem kveðið er á um í öðrum lögum skal stuðlað að því að þeir sem lögin taki til geti framfleytt sér og lifað sjálfstæðu lífi. Réttindi innan lífeyriskerfis almannatrygginga fer því eftir þörfum og aðstæðum hvers og eins, sem og önnur þjónusta og aðstoð sem veitt er öryrkjum og öldruðum.
    Útreikningur bóta til aldraðra og öryrkja í lífeyriskerfi almannatrygginga byggist á reiknireglum sem eru ólíkar hvað varðar einstaka bótaflokka og áhrif annarra tekna á bætur. Til viðbótar við lífeyri almannatrygginga er heimilt að greiða uppbætur til lífeyrisþega samkvæmt lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, og fer það eftir aðstæðum hvers og eins hvort skilyrði slíkra uppbóta séu uppfyllt.
    Varðandi önnur velferðarkerfi má nefna að löggjafinn kveður á um greiðslu húsaleigubóta í lögum nr. 138/1997, um húsaleigubætur, til að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum. Enn fremur hefur það verið skilgreint sem hlutverk sveitarfélaga í lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, að stuðla að fjárhagslegu og félagslegu öryggi íbúa sinna í samræmi við aðstæður þeirra. Þar er um að ræða grunnaðstoð en réttur til hennar er ekki bundinn við réttindaávinnslukerfi líkt og almannatryggingar. Geti einstaklingar ekki lifað af tekjum sínum, þ.m.t. þeim tekjum sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum um almannatryggingar og greiðslum frá þeim lífeyrissjóði sem greitt hefur verið til, geta þeir óskað eftir félagslegri aðstoð í búsetusveitarfélagi sínu.
    Það er undirstöðuregla íslenskrar stjórnskipunar að stjórnvöld eru bundin af lögum. Í því felst m.a. að ákvarðanir stjórnvalda verða að eiga sér stoð í lögum og mega ekki vera í andstöðu við lög. Þannig ber stjórnvöldum að starfa innan þess lagaramma sem Alþingi setur þeim og er þeim óheimilt að fara út fyrir valdsvið sitt.
    Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fara dómendur með dómsvaldið. Að uppfylltum ákveðnum réttarfarsskilyrðum skera dómendur úr ágreiningi um hvort stjórnvöld hafi byggt ákvarðanir sínar á lögum og málefnalegum sjónarmiðum. Áhersla er lögð á sjálfstæði dómstóla og geta stjórnvöld ekki sagt dómstólum fyrir verkum. Enn fremur ber að geta þess að svigrúmi löggjafans eru sett þau takmörk að dómstólar eru bærir til að meta hvort lagasetning um tiltekin málefni samrýmist grundvallarreglum stjórnarskrárinnar.
    Telji aðilar á sér brotið með einhverjum hætti geta þeir ávallt höfðað mál fyrir almennum dómstólum og fela dómar Hæstaréttar í sér endanlega niðurstöðu innan íslensks réttarkerfis. Mál þar sem Hæstiréttur fjallar um túlkun 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar eru ekki mörg en mjög mikilvæg fordæmi fyrir löggjafann. Hvað varðar inntak réttarins til aðstoðar sem kveðið er á um í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal vísað til dóma Hæstaréttar nr. 125/ 2000, nr. 549/2002 og nr. 61/2013 auk dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu E-4192/2012, sbr. einnig dóm Hæstaréttar nr. 12/2016.