Ferill 372. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 998  —  372. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um stefnu um nýfjárfestingar.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórð Hilmarsson frá Íslandsstofu, Geir Arnar Marelsson og Ríkarð Ríkarðsson frá Landsvirkjun, Elínrós Líndal og Davíð Lúðvíksson frá Samtökum iðnaðarins og Margréti Berg Sverrisdóttur frá Viðskiptaráði Íslands. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bandalagi háskólamanna, Byggðastofnun, Íslandsstofu, Landsvirkjun, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði Íslands.
    Í tillögunni eru tilgreind verkefni sem lögð verði áhersla á til að efla nýfjárfestingu í íslensku atvinnulífi og að auki kemur fram að markaðs- og kynningarstarfsemi stjórnvalda taki mið af þeirri áherslu. Tilgangur þingsályktunartillögunnar er að tilgreina ákveðin viðmið sem endurspegli áherslu stjórnvalda hvað nýfjárfestingar varðar. Í athugasemdum með tillögunni kemur fram að með nýfjárfestingum sé átt við fjárfestingar sem auka fjölbreytni atvinnulífsins, koma með nýja þekkingu og tækni og efla samkeppnishæfni landsins. Þau nýmæli felast í tillögunni að stefnan beinist jafnt að innlendri fjárfestingu sem erlendri auk þess sem lögð er áhersla á aukna fjölbreytni og afleidda innlenda starfsemi.
    Meiri hlutinn fagnar tillögunni og bendir á að flestir þeirra sem skiluðu umsögn til nefndarinnar lýstu ánægju með hana. Þó var bent á að orðalag tillögunnar sé fremur almennt og mögulega hætta á að fyrirheit hennar gangi ekki eftir. Meiri hlutinn telur mikilvægt að stefnunni verði fylgt skipulega eftir verði hún afgreidd frá þinginu og tekur undir ábendingar sem fram komu fyrir nefndinni um að oft nái fyrirheit ekki fram að ganga í stjórnsýslunni.
    Meiri hlutinn hvetur til þess að samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins verði eflt með það fyrir augum að þáttur þeirra síðarnefndu við framkvæmd stefnumörkunar verði aukinn m.a. á vettvangi Íslandsstofu.
    Við umfjöllun um málið kom fram að Ísland standi frammi fyrir miklum tækifærum hvað varðar fjárfestingar innlendra sem erlendra aðila á fjölbreyttu sviði atvinnulífsins. Meiri hlutinn fjallaði sérstaklega um landsbyggðina og stöðu hennar samanborið við þéttbýl svæði, t.d. á suðvesturhorninu. Meiri hlutinn telur mikilvægt að í stefnu stjórnvalda verði sérstaklega horft til uppbyggingar fjölbreyttra atvinnutækifæra á landsbyggðinni og telur það grunn að byggðafestu í framtíðinni. Meiri hlutinn bendir m.a. á heimild stjórnvalda til að veita sérstakan byggðastuðning samkvæmt lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 41/2015. Meiri hlutinn telur ljóst að t.d. sjávarútvegur og landbúnaður muni ekki að óbreyttu gegna því lykilhlutverki við að tryggja byggðafestu sem verið hefur undanfarna áratugi og því mikilvægt að skjóta fjölbreyttari stoðum undir þær greinar sem og aðrar. Samkvæmt byggðakorti ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, er heimilt að veita byggðaaðstoð á tilteknum svæðum hér á landi, þ.e. í Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmi. Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á aukin atvinnutækifæri á landsbyggðinni og aðgerðir sem stuðli að byggðafestu vítt og breitt um landið. Telur meiri hlutinn vert að kanna fýsileika þess að taka upp annars konar byggðakort hér á landi eða innanlandsstefnu sem byggðist til að mynda á því að með aukinni fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu gæti stuðningur orðið meiri.
    Þá bendir meiri hlutinn á að brýnt er að styrkja dreifikerfi raforku og efla flutningsgetu þess til að tryggja nægjanlegt framboð raforku um allt land. Fram hefur komið að fyrir utan Suðvesturland og hluta Norðausturlands eru takmarkaðir möguleikar til uppbyggingar á aðstöðu fyrir verkefni sem krefjast teljandi orku. Meiri hlutinn leggur því til að sérstaklega verði horft til þess að efla uppbyggingu innviða í dreifi- og flutningskerfi raforku.
    Fram kom fyrir nefndinni að greina þyrfti á milli annars vegar orkuiðnaðar og hins vegar stóriðju. Með orkuiðnaði er almennt átt við fyrirtæki sem þurfa t.d. 5–50 MW fyrir rekstur sinn og var í því sambandi t.d. minnst á rafvæðingu hafna en allt að 10 MW eru nauðsynleg fyrir stærri hafnir. Nægur aðgangur að orku gefur mikil tækifæri m.a. við að efla nýsköpun og þekkingariðnað á tækni- og vísindasviðinu. Glöggt dæmi um þetta eru áhugaverð verkefni sem hafa skapast á vettvangi Sjávarklasans í þróun á fullvinnslu afurða. Þá hefur fjölbreytt starfsemi, sem segja má að sé einstök á heimsmælikvarða, skapast í tengslum við orkuvinnslu í Auðlindagarðinum á Suðurnesjum.
    Ýmis tækifæri liggja í upplýsingatækni hér á landi og er brýnt að mati meiri hlutans að stuðla að ódýrari gagnaflutningi milli Íslands og annarra landa þar sem verð á slíkum flutningi er 5–10 sinnum dýrari hér en í samkeppnislöndum. Til að lækka verðið þarf kaupendur að miklu flutningsmagni sem aftur leiðir til hagkvæmari rekstrar á flutningsleiðum. Meiri hlutinn hvetur því til þess að farið verði í sérstakt átak í samvinnu opinberra aðila og atvinnulífsins til að fá hingað til lands stórnotendur á þessu sviði. Samhliða því verður að stórefla innviði fjarskipta um land allt með aukinni útbreiðslu ljósleiðaratenginga. Stefna ber að því að 99,9% landsmanna hafi aðgang að tengingum sem eru a.m.k. 100 Mb/s.
    Í tillögugreininni er gegnumgangandi vísun í þekkingariðnað og nýsköpun sem er sá iðnaður sem lýtur að því að skapa eitthvað nýtt eða bæta það sem þegar er til. Í stefnunni er t.d. lögð áhersla á nýfjárfestingar sem stuðla að aukinni fjölbreytni og afleiddri innlendri starfsemi, sem ýta undir vöxt alþjóðlega samkeppnishæfs þekkingariðnaðar og sem styðjast við nýjustu og bestu fáanlegu tækni og umhverfisviðmið. Jafnframt er talað um samstarf við íslensk fyrirtæki og fjárfestingar í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum.
    Mikilvægt er að markmið Íslands varðandi losun gróðurhúsalofttegunda séu höfð til hliðsjónar í uppbyggingu atvinnutækifæra í framtíðinni. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að Íslendingar hafa fleiri tækifæri en margar aðrar þjóðir til sjálfbærrar nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa. Við stefnumörkun og ákvarðanatöku skal heildarmyndin um losun gróðurhúsalofttegunda höfð til hliðsjónar þegar kemur að uppbyggingu í atvinnulífi m.a. með tilliti til skuldbindinga Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember 2015. Meiri hlutinn leggur til viðbót við 4. tölul. 1. mgr. tillögugreinarinnar í þá veru að vísa til skuldbindinga Íslands á loftslagsráðstefnunni. Með þeirri skuldbindingu gengu íslensk stjórnvöld til liðs við framsæknustu þjóðir heims um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Þessar skuldbindingar skulu hafðar að leiðarljósi við mat á umhverfislausnum nýrra fjárfestingarverkefna og fléttast inn í mat á nýjum fjárfestingaverkefnum. Það verður ekki gert öðru vísi en með því að skoða rækilega hvernig fyrirtæki leysa umhverfismál sín, einkum losun gróðurhúsalofttegunda, sem er inntak 4. tölul. Ef loftslagsliðurinn verður tekinn úr því rökrétta samhengi er hætt við að hann standi eftir sem innantóm orð. Hvað loftslagsmarkmiðin varðar og íslenskt atvinnulíf almennt telur meiri hlutinn að forðast eigi að stilla atvinnugreinum hverri upp á móti annarri. Nefna má sem dæmi að mikið er rætt um kolefnislosun stóriðju en einnig má benda á óhjákvæmilega kolefnislosun vegna flutnings ferðamanna til og frá landinu.
    Meiri hlutinn bendir á að sérstaða Íslands liggur m.a. í framleiðslu og dreifingu á grænni orku. Á öðrum sviðum er samkeppnisstaða Íslands erfiðari, svo sem hvað varðar samgöngur, fjölbreytta reynslu og viðeigandi menntun starfsfólks og er þar einkum átt við skort á iðn- og tæknimenntuðu fólki hér á landi. Mikilvægt er að sérstök áhersla verði lögð á þessa þætti við framkvæmd stefnunnar.
    Líkt og framar er getið felast í tillögu þessari ákveðin viðmið sem endurspegla áherslu stjórnvalda hvað nýfjárfestingar snertir. Meiri hlutinn telur að stöðugt þurfi að leita eftir því að hér á landi verði sköpuð fjölbreytt starfstækifæri. Að mati meiri hlutans er það í samræmi við stefnuna að í framtíðinni verði einkum horft til iðnaðaruppbyggingar sem er smærri að umfangi en ef til vill hefur verið hingað til og sem krefst hæfilegrar orku. Meiri hlutinn leggur áherslu á að sköpuð séu skilyrði hér á landi til að ungu fólki bjóðist fjölbreytt og vel launuð störf.
    Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir ritar undir álit þetta með fyrirvara og leggur áherslu á mikilvægi þess að hraða allri uppbygginu innviða hér á landi til að mæta kröfum nútímasamfélags um meiri verðmætasköpun, góð búsetuskilyrði og aukna möguleika til nýfjárfestinga. Enn fremur leggur hún ríka áherslu á þingsályktun um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi sem var samþykkt á Alþingi í mars 2012 með öllum greiddum atkvæðum, mikilvægi skapandi greina, nýsköpun, rannsóknir og þróun atvinnugreina, fjölbreytni og hvetjandi rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
    Páll Jóhann Pálsson ritar undir álit þetta með fyrirvara og leggur áherslu á að líta þurfi hnattrænt á loftslagsmál þegar tekin er ákvörðun um staðsetningu tiltekinnar starfsemi.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 4. tölul. 1. mgr. tillögugreinarinnar bætist: m.a. með tilliti til skuldbindinga Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember 2015.

Alþingi, 10. mars 2016.

Jón Gunnarsson,
form., frsm.
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
með fyrirvara.
Haraldur Benediktsson.
Ásmundur Friðriksson. Kristján L. Möller. Páll Jóhann Pálsson,
með fyrirvara.
Þorsteinn Sæmundsson. Þórunn Egilsdóttir.