Ferill 372. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1008  —  372. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um stefnu um nýfjárfestingar.

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Björt framtíð leggur mikla áherslu á að styrkja umhverfi til nýfjárfestinga á Íslandi og að slíkar aðgerðir séu almenns eðlis. Mikilvægt er að aðgerðir séu í anda sjálfbærni og langtímauppbyggingar og þar eru skapandi greinar mikilvægur þáttur sem má ekki verða út undan í stefnumótun sem þessari. Við stefnumörkun er mikilvægt að leggja upp með hvaða markmiðum á að ná fram. Því er mikilvægt að kynna og færa rök fyrir því hvernig stefna um nýfjárfestingar muni ná umræddum markmiðum. Til þess þarf að vera ljóst hvaða leiðir á að fara við innleiðingu stefnunnar. Verða aðgerðir almenns eðlis eða sértækar? Hafa þær í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkisjóð eða sveitarfélög? Hvernig rímar nýfjárfestingastefnan við meginstoðir í íslensku mannlífi, umhverfi og efnahag. Er horft til jafnræðis, samkeppnissjónarmiða, náttúruverndar o.s.frv.?
    Björt framtíð hafði frumkvæði að því á síðasta kjörtímabili að þingið samþykkti metnaðarfulla fjárfestingaráætlun. Í henni var fjármagn aukið verulega til samkeppnissjóða á sviði skapandi greina, í rannsóknir, nýsköpun og þróun og uppbyggingu græns iðnaðar. Þessi stefna byggðist á ítarlegum greiningum á sóknarfærum í nýfjárfestingum á Íslandi og lykilatriðið var að fjármagn fylgdi stefnunni. Því er ekki að heilsa í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir.
    Minni hlutinn telur að í tillögunni skorti alveg að skýra hvað liggur fyrir. Af því leiðir að rökstuðningi er ábótavant. Flestir sem skiluðu umsögn til nefndarinnar voru jákvæðir fyrir því að efla nýfjárfestingar en gagnrýnt var að orðalag væri almennt auk þess sem talið var að skýrar tillögur skorti. Minni hlutinn telur ljóst að almennt orðalag tillögunnar leiði til þess að umsagnaraðilar skilji hana á ólíkan hátt.
    Minni hlutinn bendir á að Viðskiptaráð fagnar því að alþjóðageiranum sé gert hærra undir höfði. Viðskiptaráð kýs að skilgreina alþjóðageirann á sama hátt og gert er í svonefndri McKinsey-skýrslu 1 , þ.e. sem ,,öll íslensk fyrirtæki sem starfa í alþjóðlegri samkeppni og byggja ekki starfsemi sína á nýtingu takmarkaðra náttúruauðlinda“. Í þessu ljósi fagnar Viðskiptaráð tillögunni og hvetur stjórnvöld til að „einbeita sér að því að skapa hagfelld almenn skilyrði fyrir fjárfestingu í öllum atvinnugreinum í stað þess að veita tilteknum atvinnugreinum eða fyrirtækjum forskot umfram aðra“.
    Í umsögn Byggðastofnunar er kallað eftir því að þingsályktunartillagan verði skýrari. Jafnframt er þar bent á skilgreiningar laga um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 41/2015, en stofnunin telur þær ná yfir efni tillögunnar. Í þeim lögum er gert ráð fyrir því að einstök fyrirtæki fái ívilnanir umfram önnur.
    Umsögn Landsvirkjunar og nefndarálit meiri hlutans eru allrar athygli verð. Landsvirkjun fagnar tillögunni og segist „gjarnan vilja sjá viðbætur við tillöguna sér í lagi í athugasemdum við hana, sem lúta að nýfjárfestingu og málefnum tengdum orkuiðnaði“. Meiri hlutinn bregst við þessu með því að lýsa sínum skilningi á sérstöðu Íslands og leggur þar áherslu á að nýta þá orku sem hér er að finna og hægt er að virkja. Þar sem þingsályktunartillagan er óskýr koma fram skýrari línur og aðgerðir í áliti meiri hlutans. Þar ber hæst frekari stuðningur við orkufrekan iðnað á landsbyggðinni.
    Minni hlutinn tekur undir með meiri hlutanum um að mikilvægt sé að efla flutningskerfi raforku og að ljósleiðaravæða landið allt. Minni hlutinn vekur athygli á því að þau brýnu mál eru nú þegar í vinnslu og ályktanir þar að lútandi hafa fyrir nokkru verið afgreiddar frá Alþingi.
    Þeir flokkar sem standa að áliti meiri hlutans kjósa að einblína á landsbyggðina hvað stefnu um nýfjárfestingu varðar. Lagt er til að stuðst verði við byggðakort ESA um ívilnanir sem undanskilur höfuðborgarsvæðið með öllu. Meiri hlutinn bætir um betur og telur vert að kanna fýsileika þess að taka upp annars konar byggðakort hér á landi eða innanlandsstefnu sem byggist til að mynda á því að með aukinni fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu geti stuðningur orðið meiri. Björt framtíð telur nauðsynlegt að stefna um nýfjárfestingar eigi við um landið allt. Slík stefna þarf að styðja við allar byggðir landsins þar með talið höfuðborgarsvæðið. Til þess að ná tilætluðum áhrifum þarf stefna um nýfjárfestingar að tryggja að aðgerðir séu almennar og stuðli að sjálfbærri langtímauppbyggingu.

Alþingi, 14. mars 2016.

Björt Ólafsdóttir.


Neðanmálsgrein: 1
1     McKinsey & Company (2012): „Charting a Growth Path for Iceland“. Slóð:
     www.forsaetisraduneyti.is/samradsvettvangur/gogn/skyrsla-mckinsey-charting-a-growth-path-for-iceland