Ferill 327. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1021  —  327. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jörund Valtýsson, Arnór Sigurjónsson og Axel Nikulásson frá utanríkisráðuneyti, Þórunni J. Hafstein og Sigurð Emil Pálsson frá innanríkisráðuneyti, Huga Ólafsson frá um­hverfis- og auðlindaráðuneyti, Ásgrím L. Ásgrímsson og Jón B. Guðnason frá Landhelgisgæslunni, Jón Svanberg Hjartarson frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Stefán Pálsson frá Samtökum hernaðarandstæðinga, Guðjón Idir Guðnýjarson frá IMMI, alþjóðlegri stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, og Júlíus Sigurþórsson. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Landhelgisgæslunni, Samtökum hernaðarandstæðinga, IMMI, alþjóðlegri stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, og Júlíusi Sigurþórssyni.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi feli ríkisstjórninni að fylgja stefnu um þjóðaröryggi í tíu tölusettum liðum sem tryggi sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins. Stefnan byggist á tillögum þingmannanefndar um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem Alþingi fól utanríkisráðherra að setja á fót með þingsályktun nr. 45/139 frá 16. september 2011.
    Í tillögunni felst að þjóðaröryggisstefna verði byggð á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafi grunngildi þjóðarinnar að leiðarljósi, lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti allra og sjálfbæra þróun, afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Grundvallarforsenda stefnunnar er staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her og tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana.
    Helstu áherslur þjóðaröryggisstefnunnar samkvæmt tillögunni eru: að horft verði sérstaklega til um­hverfis- og öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum í alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði; að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands; að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 tryggi áfram varnir Íslands og áfram verði unnið að þróun samstarfsins á grundvelli samningsins; að efld verði og þróuð enn frekar norræn samvinna um öryggis- og varnarmál og annað grannríkjasamstarf; að tryggðir verði víðtækir öryggishagsmunir Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi; að tryggt verði að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum; að stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum verði hluti af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland; að stuðlað verði að auknu netöryggi; að Ísland og íslensk landhelgi verði friðlýst fyrir kjarnavopnum að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga; og að sett verði á laggirnar með sérstökum lögum þjóðaröryggisráð sem meti ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum með reglulegum hætti og standi fyrir endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.
    Eins og fram kemur hér að framan er þingsályktunartillagan byggð á vinnu þingmannanefndar um mótun þjóðaröryggisstefnu. Þingmannanefndinni var komið á fót í janúar 2012 og var skipuð fulltrúum allra þingflokka sem þá áttu sæti á Alþingi. Nefndin skilaði utanríkisráðherra tillögum í febrúar 2014 ásamt bókunum einstakra þingflokka. Tillögur nefndarinnar mörkuðu tímamót þar sem með þeim var í fyrsta sinn frá lýðveldisstofnun gerð atlaga að því að móta heildstæða stefnu um þjóðaröryggismál.
    Nefndin fagnar framkominni tillögu og telur tímabært að Alþingi samþykki stefnu um þjóðaröryggi sem það feli ríkisstjórn að fylgja. Á þeim stutta tíma sem liðinn er síðan fyrrnefndri þingmannanefnd um mótun þjóðaröryggisstefnu var komið á fót hafa viðsjár verið miklar í alþjóðamálum, ekki síst hafa öryggismál í Evrópu tekið örum breytingum á síðustu missirum. Átökin í Úkraínu og innlimun Krímskaga, gríðarlegur flóttamannastraumur af völdum átaka í Miðausturlöndum og hryðjuverk í hjarta Evrópu eru til áréttingar um að skjótt skipast veður í lofti í öryggismálum og hættuástand getur skapast fyrirvaralítið. Í því ljósi er brýnt að koma boðuðu þjóðaröryggisráði á fót sem meti reglulega ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum og standi fyrir endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.
    Nefndin telur mikilvægt að tiltaka sérstaklega að tekið skuli mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum. Þá telur nefndin jafnframt að tiltaka skuli sérstaklega að stefna stjórnvalda skuli taka mið af öðrum ógnum sem þarfnast fullrar athygli, líkt og hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og fjármála- og efnahagsöryggi. Loks telur nefndin að í lögum um þjóðaröryggisráð skuli hlutverk þess endurspegla þá breiðu sýn á þjóðaröryggi sem birtist í þjóðaröryggisstefnunni.
    Nokkur umræða var í nefndinni um framsetningu stefnunnar í tíu töluliðum. Nefndin leggur áherslu á að í töluliðunum felist ekki forgangs- eða áhersluröðun af neinu tagi heldur beri að líta svo á að áherslurnar hafi allar jafnt vægi. Því til undirstrikunar og til að koma í veg fyrir misskilning leggur nefndin til orðalagsbreytingu þessu til samræmis.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 5. mgr. tillögugreinarinnar.
     a.      Á eftir orðunum „eftirfarandi áherslur“ komi: sem hafi jafnt vægi.
     b.      5. tölul verði 1. tölul.
     c.      Við 7. tölul. bætist: og þar verði tekið mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum.
     d.      Á eftir 8. tölul. komi nýr töluliður, svohljóðandi: Að stefna stjórnvalda taki mið af öðrum ógnum sem þarfnast fullrar athygli, svo sem hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og ógnum við fjármála- og efnahagsöryggi.
     e.      Á eftir orðunum „framfylgd þjóðaröryggisstefnunnar“ í 10. tölul. komi: endurspegli þá breiðu sýn á þjóðaröryggi sem birtist í stefnunni.

    Elín Hirst og Frosti Sigurjónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Birgitta Jónsdóttir áheyrnarfulltrúi í nefndinni er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 3. mars 2016.

Hanna Birna Kristjánsdóttir,
form., frsm.
Karl Garðarsson. Elín Hirst.
Vilhjálmur Bjarnason. Frosti Sigurjónsson. Óttarr Proppé.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir,
með fyrirvara.
Valgerður Bjarnadóttir.