Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1043, 145. löggjafarþing 420. mál: Seðlabanki Íslands (stöðugleikaframlag).
Lög nr. 24 31. mars 2016.

Lög um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum (stöðugleikaframlag).


1. gr.

     Í stað 3., 4. og 5. málsl. í ákvæði til bráðabirgða III í lögunum koma fjórar nýjar málsgreinar, 2., 3., 4. og 5. mgr., svohljóðandi:
     Þau verðmæti sem Seðlabankinn tekur á móti á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. skulu renna í ríkissjóð. Laust fé, þ.m.t. söluandvirði eigna að frádregnum kostnaði við úrvinnslu og ráðstöfun eignanna, skal varðveitt á sérstökum reikningum ríkissjóðs í bankanum. Bankasýsla ríkisins fer með eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.
     Ráðherra er heimilt að stofna einkahlutafélag í eigu ríkissjóðs og leggja því til allt að 150 millj. kr. Tilgangur félagsins skal vera að annast umsýslu annarra eigna og fullnusta þær og selja eftir því sem við á. Stjórn félagsins skal skipuð af ráðherra og skulu stjórnarmenn hafa víðtæka og haldgóða þekkingu og reynslu af sambærilegum verkefnum.
     Við umsýslu, fullnustu og sölu verðmæta skv. 2. málsl. 1. mgr. skal félagið leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar. Gerður skal samningur milli félagsins og ráðherra um verkefni þess og starfshætti. Ríkisendurskoðun hefur eftirlit með framkvæmd samnings við félagið. Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk á vegum félagsins skulu gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa sinna og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Ráðherra skal gera efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd Alþingis ársfjórðungslega grein fyrir framvindu við úrvinnslu eignanna á grundvelli áætlana og annarra upplýsinga frá félaginu. Félaginu skal slitið þegar það hefur lokið störfum sínum og eigi síðar en 31. desember 2018.
     Ráðstöfun ríkisins á verðmætum skv. 2. málsl. 1. mgr. skal samrýmast markmiðum um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Í frumvarpi til fjárlaga skal gerð grein fyrir áætlaðri meðferð og ráðstöfun verðmætanna. Ráðherra skal hafa samráð við Seðlabankann um mat á áhrifum þessa á efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika og kynna málið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd á undirbúningsstigi fjárlagafrumvarps.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. mars 2016.