Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1425, 126. löggjafarþing 675. mál: Seðlabanki Íslands (heildarlög).
Lög nr. 36 22. maí 2001.

Lög um Seðlabanka Íslands.


I. KAFLI
Staða, markmið og verkefni.

1. gr.

     Seðlabanki Íslands er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Um stjórn hans fer samkvæmt lögum þessum.
     Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum Seðlabankans.

2. gr.

     Aðsetur og varnarþing Seðlabanka Íslands er í Reykjavík.

3. gr.

     Meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi. Með samþykki forsætisráðherra er Seðlabankanum heimilt að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu.
     Seðlabankinn skal stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn meginmarkmiði sínu skv. 1. mgr.

4. gr.

     Seðlabanki Íslands skal sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd.

II. KAFLI
Útgáfa seðla og myntar.

5. gr.

     Seðlabanki Íslands hefur einkarétt til þess að gefa út peningaseðla og láta slá og gefa út mynt eða annan gjaldmiðil sem geti gengið manna á milli í stað peningaseðla eða löglegrar myntar.
     Seðlar og mynt sem Seðlabankinn gefur út skulu vera lögeyrir til allra greiðslna með fullu ákvæðisverði.
     Tilefnismynt sem Seðlabankinn gefur út skal vera lögeyrir til allra greiðslna með fullu ákvæðisverði. Seðlabankanum er heimilt að ákveða að tilefnismynt sé seld með álagi á ákvæðisverð hennar. Ágóða af sölu tilefnismyntar skal varið til lista, menningar eða vísinda samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra.
     Forsætisráðherra ákveður að fengnum tillögum Seðlabankans lögun, útlit og fjárhæð seðla þeirra og myntar sem bankinn gefur út og lætur birta auglýsingu um það efni.

III. KAFLI
Innlend viðskipti.

6. gr.

     Seðlabanki Íslands tekur við innlánum frá innlánsstofnunum en til þeirra teljast viðskiptabankar, sparisjóðir, útibú erlendra innlánsstofnana og aðrar stofnanir og félög sem heimilt er lögum samkvæmt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. Honum er einnig heimilt að taka við innlánum frá öðrum lánastofnunum og fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu.
     Seðlabankinn setur nánari reglur um viðskipti sín samkvæmt þessari grein, þar á meðal hvaða lánastofnunum öðrum en innlánsstofnunum er heimilt að eiga innstæður í bankanum.

7. gr.

     Seðlabanki Íslands getur veitt lánastofnunum, sem geta átt innlánsviðskipti við bankann, sbr. 6. gr., lán með kaupum á verðbréfum eða á annan hátt gegn tryggingum sem bankinn metur gildar. Lánsviðskipti þessi geta verið í innlendri eða erlendri mynt. Bankinn setur nánari reglur um viðskipti sín samkvæmt þessari málsgrein.
     Þegar sérstaklega stendur á og Seðlabankinn telur þess þörf til að varðveita traust á fjármálakerfi landsins getur hann veitt lánastofnunum í lausafjárvanda ábyrgðir eða önnur lán en um ræðir í 1. mgr. á sérstökum kjörum og gegn öðrum tryggingum en um getur í 1. mgr. eða öðrum skilyrðum sem bankinn setur.

8. gr.

     Til að ná markmiðum sínum skv. 3. gr. kaupir Seðlabanki Íslands og selur ríkistryggð verðbréf og önnur trygg innlend verðbréf á verðbréfamarkaði eða í beinum viðskiptum við lánastofnanir.

9. gr.

     Seðlabanka Íslands er heimilt að gefa út framseljanleg verðbréf í innlendri eða erlendri mynt til að selja lánastofnunum sem geta átt innlánsviðskipti við hann, sbr. 6. gr.

10. gr.

     Seðlabanki Íslands ákveður vexti af innlánum við bankann, af lánum sem hann veitir og af verðbréfum sem hann gefur út.

11. gr.

     Seðlabanka Íslands er heimilt að ákveða að lánastofnanir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum. Honum er einnig heimilt að ákveða að tiltekinn hluti aukningar innlána eða ráðstöfunarfjár við hverja stofnun skuli bundinn á reikningi í bankanum, enda fari heildarfjárhæð sem viðkomandi stofnun er skylt að eiga í Seðlabankanum ekki fram úr því hámarki sem sett er skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar. Enn fremur er Seðlabankanum heimilt að ákveða að verðbréfasjóðir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum.
     Seðlabankinn setur nánari reglur um grundvöll og framkvæmd bindingar samkvæmt þessari grein, þar á meðal til hvaða lánastofnana hún tekur. Í þeim má ákveða að bindihlutfall sé mismunandi eftir eðli lánastofnana og verðbréfasjóða og flokkum innlána og annarra skuldbindinga sem bindingin nær til. Gæta skal jafnræðis við ákvörðun bindiskyldu þannig að hún valdi ekki röskun á samkeppnisstöðu á milli þeirra innlendu fyrirtækja sem sæta innlánsbindingu.

12. gr.

     Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um lágmark eða meðaltal lauss fjár lánastofnana sem þeim ber ætíð að hafa yfir að ráða í þeim tilgangi að mæta fyrirsjáanlegum og hugsanlegum greiðsluskuldbindingum á tilteknu tímabili, sbr. 4. gr. Í þeim má ákveða að mismunandi ákvæði gildi um einstaka flokka lánastofnana.

13. gr.

     Seðlabanka Íslands er heimilt að setja lánastofnunum reglur um gjaldeyrisjöfnuð. Í slíkum jöfnuði skal auk gengisbundinna eigna og skulda telja skuldbindingar og kröfur sem tengdar eru erlendum gjaldmiðlum utan efnahags, svo sem framvirka samninga og valréttarsamninga.

14. gr.

     Seðlabanki Íslands annast hvers konar bankaþjónustu fyrir ríkissjóð aðra en lánafyrirgreiðslu, sbr. 16. gr. Innstæður ríkissjóðs skulu varðveittar á reikningum í Seðlabankanum nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til annars.
     Seðlabankinn skal vera ríkisstjórn til ráðuneytis um allt sem varðar gjaldeyrismál, þar á meðal erlendar lántökur, og taka að sér framkvæmd í þeim efnum eftir því sem um verður samið.

15. gr.

     Stjórnvöld veita Seðlabanka Íslands þær upplýsingar um efnahagsmál almennt og um ríkisfjármál, lántökur og greiðsluáætlanir ríkissjóðs sem nauðsynlegar eru fyrir starfsemi bankans.

16. gr.

     Seðlabanka Íslands er óheimilt að veita ríkissjóði, sveitarfélögum og ríkisstofnunum öðrum en lánastofnunum lán.
     Verðbréf, sem skráð eru í opinberri kauphöll og gefin eru út af þeim aðilum sem um ræðir í 1. mgr. og Seðlabankinn kaupir á verðbréfamarkaði eða af lánastofnunum til að ná markmiðum sínum í peningamálum, skulu ekki teljast lán samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.

17. gr.

     Seðlabanki Íslands stundar önnur banka- og verðbréfaviðskipti sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka. Í því skyni er bankanum meðal annars heimilt að eiga aðild að og hlut í fyrirtækjum og stofnunum á sviði kauphallarstarfsemi, verðbréfaskráningar og greiðslukerfa.
     Seðlabankanum er óheimilt að annast viðskipti við einstaklinga og fyrirtæki sem samkvæmt lögum, venju eða eðli máls teljast verkefni annarra. Honum er þó heimilt að annast frumsölu og innlausn verðbréfa sem ríkissjóður hefur gefið út.

IV. KAFLI
Gengismál, gjaldeyrismarkaður og erlend viðskipti.

18. gr.

     Seðlabanki Íslands verslar með erlendan gjaldeyri, hefur milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og stundar önnur erlend viðskipti sem samrýmast markmiðum og hlutverki bankans.
     Að fengnu samþykki forsætisráðherra ákveður Seðlabankinn hvaða stefna skuli gilda um ákvörðun á verðgildi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum.
     Seðlabankinn setur reglur um starfsemi skipulegra gjaldeyrismarkaða eftir því sem kveðið er á um í lögum um gjaldeyrismál. Þegar sérstaklega stendur á getur Seðlabankinn tímabundið takmarkað eða stöðvað viðskipti á skipulegum gjaldeyrismörkuðum.

19. gr.

     Hvern virkan dag sem skipulegir gjaldeyrismarkaðir eru almennt starfandi skal Seðlabanki Íslands skrá gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum. Það gengi skal notað til viðmiðunar í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmiðun er ekki sérstaklega tiltekin. Enn fremur getur Seðlabankinn ákveðið að skrá gengi krónunnar á þeim dögum sem skipulegir gjaldeyrismarkaðir eru almennt ekki starfandi. Þegar sérstaklega stendur á getur Seðlabankinn tímabundið fellt niður skráningu á gengi krónunnar.

20. gr.

     Seðlabanki Íslands varðveitir gjaldeyrisvarasjóð í samræmi við markmið og hlutverk bankans. Bankastjórn setur starfsreglur um varðveislu gjaldeyrisvarasjóðsins sem bankaráð staðfestir, sbr. 28. gr.
     Seðlabankanum er heimilt að taka lán til að efla gjaldeyrisvarasjóðinn. Honum er jafnframt heimilt að taka þátt í samstarfi erlendra seðlabanka og alþjóðlegra banka- eða fjármálastofnana um lánveitingar til að efla gjaldeyrisvarasjóð þátttakenda.

21. gr.

     Seðlabanki Íslands annast samskipti og viðskipti við alþjóðlegar stofnanir á starfssviði sínu í umboði ríkisstjórnarinnar eða eftir því sem honum er falið með lögum.
     Seðlabankinn fer með fjárhagsleg tengsl við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir hönd ríkisins. Forsætisráðherra skipar einn mann og annan til vara til fimm ára í senn til þess að taka sæti í sjóðsráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
     Seðlabankanum er jafnframt heimilt að eiga aðild að öðrum alþjóðlegum stofnunum, enda samrýmist það hlutverki hans sem seðlabanka.

V. KAFLI
Stjórnskipulag.

22. gr.

     Yfirstjórn Seðlabanka Íslands er í höndum forsætisráðherra og bankaráðs svo sem fyrir er mælt í lögum þessum. Stjórn bankans er að öðru leyti í höndum bankastjórnar.

23. gr.

     Í bankastjórn Seðlabanka Íslands sitja þrír bankastjórar og er einn þeirra formaður bankastjórnar. Bankastjórn ber ábyrgð á rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin með lögum þessum.
     Forsætisráðherra skipar formann bankastjórnar Seðlabankans og aðra bankastjóra til sjö ára í senn. Ekki er skylt að auglýsa þessi embætti laus til umsóknar. Aðeins er heimilt að skipa sama mann bankastjóra tvisvar sinnum. Þó má skipa bankastjóra sem ekki er formaður bankastjórnar og er á síðara skipunartímabili sínu formann bankastjórnar til sjö ára. Um endurskipun gilda ekki ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
     Forfallist bankastjóri þannig að bankastjórn sé ekki fullskipuð getur forsætisráðherra sett bankastjóra tímabundið í stað hans.
     Undirskrift tveggja bankastjóra Seðlabankans þarf til þess að skuldbinda bankann. Þó er bankastjórn heimilt að veita tilteknum starfsmönnum umboð til þess að skuldbinda bankann með undirskrift sinni í tilteknum málefnum samkvæmt reglum sem hún setur og staðfestar skulu af bankaráði, sbr. 28. gr.

24. gr.

     Formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands er talsmaður bankans og kemur fram fyrir hönd bankastjórnar. Bankastjórn skiptir að öðru leyti með sér verkum, sbr. ákvæði 1. mgr. 23. gr., þ.m.t. hver skuli vera staðgengill formanns bankastjórnar í fjarveru hans.
     Formaður bankastjórnar Seðlabankans kallar bankastjórn saman til fundar. Ávallt skal boðað til fundar þegar annar hinna bankastjóranna óskar. Fundurinn er ályktunarhæfur ef meiri hluti bankastjórnar situr hann. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu mála. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns bankastjórnar.
     Ákvarðanir bankastjórnar skulu skráðar og áritaðar af bankastjórn. Bankastjórn setur starfsreglur sem bankaráð staðfestir um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana sinna í peningamálum. Opinberlega skal gerð grein fyrir ákvörðunum bankastjórnar í peningamálum og forsendum þeirra.

25. gr.

     Bankastjórum Seðlabanka Íslands er óheimilt að sitja í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti nema slíkt sé boðið í lögum eða um sé að ræða stofnun eða atvinnufyrirtæki sem bankinn á aðild að. Rísi ágreiningur um ákvæði þessarar greinar gagnvart bankastjórum skal ráðherra skera úr. Með samþykki bankaráðs setur bankastjórn reglur um þátttöku annarra starfsmanna í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans, sbr. 28. gr.

26. gr.

     Kjósa skal bankaráð Seðlabanka Íslands að loknum kosningum til Alþingis. Bankaráð skipa sjö fulltrúar kjörnir hlutbundinni kosningu af Alþingi ásamt jafnmörgum til vara. Eigi má kjósa stjórnendur eða starfsmenn lánastofnana eða annarra fjármálastofnana sem eiga viðskipti við bankann til setu í bankaráði. Umboð bankaráðs gildir þar til nýtt bankaráð hefur verið kjörið. Láti bankaráðsmaður af störfum tekur varamaður sæti hans þar til Alþingi hefur kosið nýjan aðalmann til loka kjörtímabils bankaráðsins.
     Bankaráð velur formann og varaformann úr eigin röðum. Ráðherra ákveður þóknun bankaráðs sem greidd er af Seðlabankanum.

27. gr.

     Formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands kallar bankaráð saman til fundar. Ætíð skal þó halda bankaráðsfund þegar tveir bankaráðsmenn óska þess. Fundur bankaráðs er ályktunarhæfur ef meiri hluti bankaráðs situr fund. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu mála. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns. Á fundum bankaráðs skal halda gerðabók.
     Bankastjórar sitja fundi bankaráðs og taka þátt í umræðum. Þeir skulu þó víkja af fundi ef bankaráð ákveður.

28. gr.

     Bankaráð hefur eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda. Bankastjórn skal jafnan upplýsa bankaráð um helstu þætti í stefnu bankans og um reglur sem hann setur. Að öðru leyti skal bankaráð sérstaklega sinna eftirtöldum verkefnum:
  1. Staðfesta tillögur bankastjórnar um höfuðþætti í stjórnskipulagi bankans.
  2. Ákveða laun og önnur starfskjör bankastjóra, þ.m.t. rétt til biðlauna og eftirlauna og önnur atriði sem varða fjárhagslega hagsmuni þeirra.
  3. Hafa umsjón með innri endurskoðun við bankann og ráða aðalendurskoðanda.
  4. Staðfesta starfsreglur sem bankastjórn setur um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana í peningamálum, sbr. 24. gr.
  5. Staðfesta reglur sem bankastjórn setur um umboð starfsmanna bankans til þess að skuldbinda bankann, sbr. 23. gr.
  6. Staðfesta kjarasamninga við starfsmenn bankans, fjalla um reglur um lífeyrissjóð þeirra og staðfesta skipun fulltrúa í stjórn hans þegar svo ber undir.
  7. Staðfesta tillögu Seðlabankans til forsætisráðherra um reglur um reikningsskil og ársreikning bankans, sbr. 32. gr.
  8. Veita forsætisráðherra umsögn um reglugerð um framkvæmd einstakra þátta laga þessara þegar svo ber undir, sbr. 39. gr.
  9. Staðfesta ársreikning bankans, sbr. 32. gr.
  10. Staðfesta áætlun um rekstrarkostnað bankans sem bankastjórn leggur fram í upphafi hvers starfsárs.
  11. Hafa eftirlit með eignum og rekstri bankans og staðfesta ákvarðanir um meiri háttar fjárfestingar.
  12. Staðfesta reglur sem bankastjórn setur um viðurlög í formi dagsekta, sbr. 37. gr.
  13. Staðfesta reglur sem bankastjórn setur um heimild starfsmanna bankans til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans, sbr. 25. gr.
  14. Staðfesta starfsreglur sem bankastjórn setur um varðveislu gjaldeyrisforðans, sbr. 20. gr.


VI. KAFLI
Öflun upplýsinga, rannsóknir og skýrslugerð.

29. gr.

     Til þess að sinna hlutverki sínu skv. 3. og 4. gr. getur Seðlabanki Íslands milliliðalaust aflað upplýsinga frá þeim sem eru í viðskiptum við bankann skv. 6. gr., sbr. 7. gr., auk fyrirtækja í greiðslumiðlun og annarra fyrirtækja eða aðila sem lúta opinberu eftirliti með starfsemi sinni, sbr. lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     Skylt skal öllum að láta Seðlabankanum í té þær upplýsingar sem hann þarf á að halda til hagskýrslugerðar að viðlögðum viðurlögum skv. 37. gr.

30. gr.

     Seðlabanki Íslands gerir skýrslur og áætlanir um peningamál, greiðslujöfnuð, gengis- og gjaldeyrismál og annað sem hlutverk og stefnu bankans varðar. Seðlabankinn skal eigi sjaldnar en ársfjórðungslega gera opinberlega grein fyrir stefnu sinni í peningamálum og fyrir þróun peningamála, gengis- og gjaldeyrismála og aðgerðum sínum á þeim sviðum. Þá skal Seðlabankinn gefa út ársskýrslu þar sem hann gerir ítarlega grein fyrir starfsemi sinni.

31. gr.

     Seðlabanki Íslands stundar hagrannsóknir sem lúta að viðfangsefnum bankans á sviði peningamála og fjármálakerfis. Jafnframt er bankanum heimilt að stuðla að rannsóknum annarra á þessum sviðum.

VII. KAFLI
Reikningsskil og ráðstöfun hagnaðar.

32. gr.

     Reikningsár Seðlabanka Íslands er almanaksárið. Fyrir hvert reikningsár skal gera ársreikning og skal gerð hans lokið innan þriggja mánaða frá lokum reikningsárs. Um gerð ársreiknings fer eftir lögum, reglum og góðri reikningsskilavenju.
     Forsætisráðherra setur nánari reglur um reikningsskil og ársreikning að fengnum tillögum Seðlabankans, sbr. 28. gr.

33. gr.

     Innri endurskoðun í Seðlabanka Íslands er í höndum aðalendurskoðanda, sbr. 28. gr. Auk þess skal Ríkisendurskoðun annast endurskoðun hjá Seðlabankanum.
     Að lokinni endurskoðun á ársreikningi bankans skal hann undirritaður af bankastjórn og staðfestur af bankaráði, sbr. 28. gr. Hafi bankaráðsmaður fram að færa athugasemdir við ársreikning skal hann undirritaður með fyrirvara og koma skal fram hvers eðlis fyrirvarinn er.
     Endurskoðaður reikningur skal lagður fyrir forsætisráðherra til áritunar eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs.
     Ársreikning Seðlabankans skal birta í ársskýrslu bankans, sbr. 30. gr. Enn fremur skal bankinn birta mánaðarlegt efnahagsyfirlit.

34. gr.

     Árlega skal fjárhæð sem svarar til tveggja þriðju hluta hagnaðar Seðlabanka Íslands á liðnu reikningsári greidd í ríkissjóð. Greiðsla fer fram eigi síðar en 1. júní ár hvert.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal Seðlabankinn aðeins greiða þriðjung hagnaðar síns í ríkissjóð ef eigið fé bankans í lok reikningsárs svarar ekki að lágmarki til 2,25% af fjárhæð útlána og innlendrar verðbréfaeignar lánakerfisins í lok reikningsársins á undan.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.

35. gr.

     Bankaráðsmenn, bankastjórar og aðrir starfsmenn Seðlabanka Íslands eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
     Bankaráðsmönnum, bankastjórum og öðrum starfsmönnum Seðlabankans er óheimilt að nýta sér trúnaðarupplýsingar, sem þeir komast yfir vegna starfs síns í bankanum, í þeim tilgangi að hagnast eða forðast fjárhagslegt tjón í viðskiptum.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Seðlabankanum heimilt að eiga gagnkvæm upplýsingaskipti við opinbera aðila erlendis um atriði sem lög þessi taka til að því tilskildu að sá sem óskar upplýsinga sé háður samsvarandi þagnarskyldu.
     Seðlabanki Íslands skal veita Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar sem bankinn býr yfir og nýtast kunna í starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Upplýsingar sem veittar eru samkvæmt þessari grein eru háðar þagnarskyldu samkvæmt lögum þessum og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið skulu gera með sér samstarfssamning þar sem m.a. er kveðið nánar á um samskipti stofnananna.

36. gr.

     Seðlabanki Íslands er undanþeginn tekju- og eignarskatti samkvæmt lögum um tekju- og eignarskatt eins og þau eru á hverjum tíma.
     Hvers konar skuldbindingar, sem gefnar eru út af bankanum og í nafni hans, svo og skuldbindingar sem veita bankanum handveðsrétt, arðmiðar af skuldabréfum bankans og framsöl þeirra skulu undanþegin stimpilgjaldi.

37. gr.

     Fyrir brot á lögum þessum skal refsa með sektum eða fangelsi liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum. Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
     Seðlabanka Íslands er heimilt að beita lánastofnanir og verðbréfasjóði viðurlögum í formi dagsekta sem ákveðnar eru samkvæmt reglum sem settar eru af bankastjórn með samþykki bankaráðs, sbr. 28. gr., hlíti þær ekki reglum bankans um bindiskyldu, laust fé og gjaldeyrisjöfnuð. Dagsektir sem ákveðnar eru samkvæmt þessari grein má innheimta með aðför að lögum. Reglur um viðurlög skulu kynntar Fjármálaeftirlitinu og þeim stofnunum sem þær taka til. Ákvörðun um að beita dagsektum má kæra til ráðherra. Innheimt viðurlög samkvæmt þessari grein skulu renna að 3/ 4 hlutum til ríkissjóðs og skulu þau greidd 1. júní ár hvert fyrir næstliðið ár.
     Seðlabankanum er heimilt að beita þá aðila viðurlögum í formi dagsekta sem vanrækja að veita bankanum upplýsingar, sem hann á rétt á samkvæmt lögum þessum, eða veita bankanum vísvitandi rangar upplýsingar. Bankastjórn setur reglur um þessi viðurlög sem skulu staðfestar af bankaráði.

38. gr.

     Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um viðfangsefni sín samkvæmt lögum þessum eftir því sem ástæða verður talin til. Seðlabankinn birtir reglur sem hann setur samkvæmt lögum þessum þannig að þær séu aðgengilegar almenningi.

IX. KAFLI
Gildistaka o.fl.

39. gr.

     Forsætisráðherra getur, að fengnu áliti bankaráðs, sett með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd einstakra ákvæða laga þessara.

40. gr.

     Lög þessi öðlast gildi nú þegar. Um leið falla úr gildi lög nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, með áorðnum breytingum. Ákvæði 5. gr. laga nr. 54/1974 um þátttöku Seðlabanka Íslands í greiðslu kostnaðar af starfsemi Þjóðhagsstofnunar fellur úr gildi 1. janúar 2002. Framlag Seðlabanka Íslands í Vísindasjóð greiðist í síðasta skipti á árinu 2001.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Við gildistöku laga þessara kýs Alþingi sjö fulltrúa í bankaráð Seðlabanka Íslands og jafnmarga til vara. Frá sama tíma fellur niður umboð þeirra er þá sitja í bankaráðinu.

II.
     Bankastjórar Seðlabanka Íslands við gildistöku laga þessara halda störfum sínum til loka skipunartíma síns. Ákvæði 2. mgr. 23. gr. um skipun bankastjóra gildir frá og með fyrstu skipun í embætti bankastjóra eftir gildistöku laganna. Við gildistöku laganna skipar forsætisráðherra formann bankastjórnar úr röðum bankastjóra til sama tíma og skipun hans í embætti bankastjóra varir.

Samþykkt á Alþingi 18. maí 2001.