Ferill 683. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 1111  —  683. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 252/2015
um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar,
prófanir og vottun) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 252/2015, frá 30. október 2015, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 210/2013 frá ll. mars 2013 um samþykki fyrir starfsstöðvum, sem framleiða spírur, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 252/2015, frá 30. október 2015, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 210/2013 frá ll. mars 2013 um samþykki fyrir starfsstöðvum, sem framleiða spírur, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004.
    Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 210/2013 frá ll. mars 2013 um samþykki fyrir starfsstöðvum, sem framleiða spírur, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004, kveður einkum á um leyfi fyrir starfsstöðvum sem framleiða spírur.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sam­eigin­legu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sam­eigin­legu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en jafnframt getur Alþingi heimilað stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir og 7. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, sem kveður á um að stjórnskipulegum fyrirvara skv. 103. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið beri að aflétta með þingsályktun, er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 210/2013 frá ll. mars 2013 um samþykki fyrir starfsstöðvum, sem framleiða spírur, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004.
    Með reglugerðinni eru settar kröfur um að spíruframleiðendur skuli metnir með tilliti til tiltekinna krafna áður en þeir hefja starfsemi. Tilteknar eru þær kröfur sem þeir eiga að uppfylla til að fá starfsleyfi. Reglugerðin kallar á lagabreytingar þar sem ákvæði í núgildandi lögum undanskilur matvælafyrirtæki sem annast frumframleiðslu matjurta kröfunni um starfsleyfi.
    Þar sem reglugerðin gerir kröfu um leyfi fyrir starfsstöð er ekki mögulegt að innleiða hana án lagabreytingar. Kostn­aður vegna leyfisúttekta fellur á framleiðendur. Ekki er um umtalsverðan kostnað að ræða en framleiðendur spíra hér á landi eru smáir. Matvælastofnun, sem mun hafa eftirlit með þessari starfsemi, gerir sér grein fyrir þessu og mun taka mið af stærð fyrirtækjanna. Er það í samræmi við tilmæli utanríkismálanefndar um að við innleiðingu reglugerðarinnar verði útgáfa starfsleyfa ekki óþarflega íþyngjandi fyrir framleiðendur.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing reglugerðarinnar hér á landi kallar á breytingar á lögum nr. 93/1995, um matvæli. Gert er ráð fyrir því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á framangreindum lögum á yfirstandandi þingi.


Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR
nr. 252/2015

frá 30. október 2015

um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun)
við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Fella ber inn í EES-samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 210/2013 frá 11. mars 2013 um samþykki fyrir starfsstöðvum, sem framleiða spírur, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 ( 1 ).
     2)      Ákvörðun þessi varðar löggjöf um matvæli. Ákvæði löggjafar um matvæli skulu ekki gilda að því er varðar Liechtenstein meðan ákvæði samnings Evrópubandalagsins og Sambandsríkisins Sviss um verslun með landbúnaðarvörur taka einnig til Liechtensteins, eins og fram kemur í inngangsorðum XII. kafla II. viðauka við EES-samninginn. Ákvörðun þessi á því ekki að taka til Liechtensteins.
     3)      II. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður bætist við á eftir 104. lið (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/1052) í XII. kafla II. viðauka við EES-samninginn:
    „105.     32013 R 0210: Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 210/2013 frá 11. mars 2013 um samþykki fyrir starfsstöðvum, sem framleiða spírur, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 (Stjtíð. ESB L 68, 12.3.2013, bls. 24).“

2. gr.

Íslenskur og norskur texti reglugerðar (ESB) nr. 210/2013, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi 1. nóvember 2015, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins hafi borist ( * ).


4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 30. október 2015.
Fyrir hönd sam­eigin­legu EES-nefndarinnar
Oda Sletnes
formaður.



Fylgiskjal II.


Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 210/2013 frá ll. mars 2013 um samþykki fyrir starfsstöðvum, sem framleiða spírur, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004.


www.althingi.is/altext/pdf/145/fylgiskjol/s1111-f_II.pdf


Neðanmálsgrein: 1
    1 Stjtíð. ESB L 68, 12.3.2013, bls. 24.
Neðanmálsgrein: 2
    * Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.