Ferill 684. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 1112  —  684. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 230/2015
um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 230/2015, frá 25. september 2015, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 660/2014 frá 15. maí 2014 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1013/2006 um tilflutning úrgangs og reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1234/2014 frá 18. nóvember 2014 um breytingu á III. viðauka B og V. og VIII. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1013/2006 um tilflutning úrgangs.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 230/2015, frá 25. september 2015, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 660/2014 frá 15. maí 2014 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1013/2006 um tilflutning úrgangs og reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1234/2014 frá 18. nóvember 2014 um breytingu á III. viðauka B og V. og VIII. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1013/2006 um tilflutning úrgangs.
    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 660/2014 frá 15. maí 2014 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1013/2006 um tilflutning úrgangs og reglugerð framkvæmdastjórn­arinnar (ESB) nr. 1234/2014 frá 18. nóvember 2014 um breytingu á III. viðauka B og V. og VIII. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1013/2006 um tilflutning úrgangs, kveða einkum á um bætta framfylgni og eftirlit með flutningi úrgangs.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðanna sem um ræðir, en þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðunum sjálfum.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt sam­þykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en jafnframt getur Alþingi heimilað stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en lands­réttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Sam­kvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samn­ingnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipu­legum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir og 7. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, sem kveður á um að stjórnskipulegum fyrirvara skv. 103. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið beri að aflétta með þingsályktun, er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 660/2014 frá 15. maí 2014 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1013/2006 um tilflutning úrgangs og reglugerð fram­kvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1234/2014 frá 18. nóvember 2014 um breytingu á III. viðauka B og V. og VIII. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1013/2006 um tilflutning úrgangs.
    Með reglugerð (ESB) nr. 660/2014 er ætlunin að bæta framfylgni og eftirlit með flutningi úrgangs og koma í veg fyrir ólöglegan flutning á úrgangi milli ríkja. Komið skal á laggirnar eftirlitsáætlun sem byggist á áhættumati. Áhættumatið skal byggt á greiningum lögreglu­yfirvalda og tollyfirvalda ef þær liggja fyrir. Skila skal árlega skýrslu um eftirlitið til Eftirlitsstofnunar EFTA. Eftirlitsáætlun skal beinast að fyrirtækjum, söfnunaraðilum og flutningsaðilum og skal innihalda markmið og forgangsatriði, eftirlitssvæði, upplýsingar um áætlað eftirlit, verkaskiptingu stofnana og samvinnu, upplýsingar um þjálfun eftirlitsaðila og upplýsingar um mannaforráð og fjármögnun eftirlits. Eftirlitsáætlun skal endurskoða á þriggja ára fresti í ljósi reynslu. Eftirlitsáætlanirnar geta staðið einar og sér eða verið hluti af öðrum eftirlitsáætlunum innan ríkisins. Gerð er krafa um virkt eftirlit, eftirlitsferðir eða skoðanir. Eftirlitsáætlanirnar skulu taka gildi í síðasta lagi 1. janúar 2017. Reglugerðin mælir jafnframt fyrir um heimild fyrir rafrænar sendingar á gögnum sem og rafrænum undir­skriftum. Með henni eru einnig skilgreindar betur forsendur þess að skilgreina sendingu sem úrgang. Setja þarf ákvæði inn í gjaldskrá Umhverfisstofnunar um kostnað vegna eftirlits. Áætlað er að kostnaður við innleiðingu gerðarinnar nemi 4 millj. kr. á ári. Tekið skal fram að einungis önnur reglugerðin sem í ákvörðuninni felst kallar á lagabreytingar, þ.e. reglugerð (ESB) nr. 660/2014.
    Reglugerð 1234/2014 breytir III. viðauka B og V. og VIII. viðauka í reglugerð (EB) nr. 1013/2006 um flutning úrgangs. Í 2. lið III. viðauka B eru felldar niður úrgangstegundir BEU01, BEU02 og BEU03. Í 1. hluta V. viðauka er í lista B tveimur tegundum úrgangs aukið við eftir færslu B 3020, það er færslu B 3026 og B 3027, sem eru sömu tegundir úrgangs og áður voru skilgreindar með BEU01, BEU02 og BEU03. Í VIII. viðauka er ný tilvísun við punkt I.14 (vísað í nýjar leiðbeiningar frá Basel-samningnum, dagsettar apríl/maí 2013, um flutning á hættulegum úrgangi). Undir þessum punkti er undirpunkti II breytt þannig að hann nái yfir úrgangseinkatölvur.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing reglugerðanna hér á landi kallar á breytingar á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Gert er ráð fyrir því að umhverfis- og auðlindaráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á framangreindum lögum á yfirstandandi þingi.


Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR
nr. 230/2015
frá 25. september 2015
um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn

SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN
með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
     1)      Fella ber inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 660/2014 frá 15. maí 2014 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1013/2006 um tilflutning úrgangs ( 1 ).
     2)      Fella ber inn í EES-samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1234/2014 frá 18. nóvember 2014 um breytingu á III. viðauka B og V. og VIII. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1013/2006 um tilflutning úrgangs ( 2 ).
     3)      XX. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.
ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.

Eftirfarandi undirliðir bætist við í lið 32c (reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1013/2006) í XX. viðauka við EES-samninginn:
„–          32014 R 0660: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 660/2014 frá 15. maí 2014 (Stjtíð. ESB L 189, 27.6.2014, bls. 135),
          32014 R 1234: Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1234/2014 frá 18. nóvember 2014 (Stjtíð. ESB L 332, 19.11.2014, bls. 15).“

2. gr.

Íslenskur og norskur texti reglugerða (ESB) nr. 660/2014 og (ESB) nr. 1234/2014, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi 26. september 2015, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins hafi borist ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 25. september 2015.
Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
Ingrid Schulerud
formaður.



Fylgiskjal II.



Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 660/2014 frá 15. maí 2014
um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1013/2006 um tilflutning úrgangs.

www.althingi.is/altext/pdf/145/fylgiskjol/s1112-f_II.pdf



Fylgiskjal III.



Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1234/2014 frá 18. nóvember 2014
um breytingu á III. viðauka B og V. og VIII. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins
og ráðsins (EB) nr. 1013/2006 um tilflutning úrgangs.

www.althingi.is/altext/pdf/145/fylgiskjol/s1112-f_III.pdf

Neðanmálsgrein: 1
    1 Stjtíð. ESB L 189, 27.6.2014, bls. 135.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Stjtíð. ESB L 332, 19.11.2014, bls. 15.
Neðanmálsgrein: 3
    * Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.