Ferill 764. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 1284  —  764. mál.Tillaga til þingsályktunar

um fram­kvæmda­áætlun í jafnréttis­málum fyrir árin 2016–2019.

(Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)
    Alþingi ályktar skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, að samþykkja eftirfarandi fram­kvæmda­áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttis­málum fyrir árin 2016–2019:

A. STJÓRNSÝSLAN
1. Jafnréttissjóður Íslands.
    Varið verði 100 millj. kr. af fjár­lögum árlega til Jafnréttissjóðs Íslands. Jafnréttissjóður Íslands skal fjármagna eða styrkja verk­efni sem eru til þess fallin að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Stjórn Jafnréttissjóðs Íslands auglýsir eftir umsóknum um styrki og úthlutar þessu fé í samræmi við þingsályktun 13/144.
    Tíma­áætlun: 2016–2019.
    Kostnaðar­áætlun: 100 millj. kr. á ári.
    Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.

2. Framkvæmdasjóður jafnréttis­mála.
    Varið verði 30 millj. kr. samtals af fjár­lögum tímabundið til þriggja ára, 2017–2019, 10 millj. kr. árlega, til jafnréttisverk­efna á vegum ráðuneyta til að nýta niðurstöður, reynslu og þekkingu eða innleiða til­lögur sem telja má til afraksturs verk­efna í fram­kvæmda­áætlun ríkisstjórnarinnar. Velferðar­ráðu­neytið úthluti þessu fé að fengnum til­lögum annarra ráðuneyta. Viðmið við úthlutun verði kynnt ráðuneytum fyrir árslok 2016.
    Tíma­áætlun: 2017–2019.
    Kostnaðar­áætlun: 30 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.

3. Jafnréttis­áætlun Stjórnar­ráðsins, ráðuneyta og stofnana.
    Jafnréttis­áætlun Stjórnar­ráðsins sem gerð er í samræmi við 2. mgr. 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, og jafnréttis­áætlanir einstakra ráðuneyta verði endur­skoðaðar á gildistíma fram­kvæmda­áætlunarinnar. Við endur­skoðun jafnréttis­áætlana verði tekið mið af jafnréttissátt­mála UN Women og UN Global Compact. Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna hafi umsjón með endur­skoðun og eftirfylgni jafnréttis­áætlana í umboði ráðu­neytisstjóra og í samstarfi við Jafnréttisstofu.
    Tíma­áætlun: Árslok 2016.
    Kostnaðar­áætlun: Rúmast innan fjárheimilda ráðuneytanna.
    Ábyrgð: Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta og vel­ferðar­ráðu­neytið.

4. Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta.
    Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna vinni að kynjasamþættingu á málefnasviði hlutaðeigandi ráðu­neytis. Enn fremur fjalli jafnréttisfulltrúar um jafnréttisstarf og hafi eftirlit með jafnréttisstarfi á málefnasviði viðkomandi ráðu­neytis og stofnana þess. Þar á meðal komi þeir að gerð og endur­skoðun jafnréttis­áætlana ráðuneyta og gæti þess að allar skýrslur og rannsóknir sem gerðar eru á vegum hlutaðeigandi ráðu­neytis eða stofnana séu kyngreindar.
    Jafnréttisfulltrúar afli sér þekkingar á sviði jafnréttis­mála og starfi eftir samþykktri starfs- og fræðslu­áætlun.
    Starf jafnréttisfulltrúa feli m.a. í sér:
     a.      Að útbúa starfs­áætlun jafnréttisfulltrúa allra ráðuneyta með mælikvörðum sem verði tilbúnir innan hálfs árs frá gildistöku fram­kvæmda­áætlunarinnar.
     b.      Að fylgja eftir verk­efnum fram­kvæmda­áætlunar ríkisstjórnarinnar í jafnréttis­málum og skila framvinduskýrslum til Jafnréttisstofu. Gera skal grein fyrir stöðu verk­efna í skýrslu ráð­herra um stöðu og þróun jafnréttis­mála sem lögð er fyrir Jafnréttisþing sem haldið er annað hvert ár.
     c.      Að móta heildstæða áætlun um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og stofnana ríkisins.
     d.      Að vinna að samræmingu á rafrænni skráningu ráðuneytanna á skipan í nefndir, ráð og stjórnir til að auðvelda eftirlit með 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
    Tíma­áætlun: 2016–2019.
    Kostnaðar­áætlun: 1 millj. kr. til fræðslu jafnréttisfulltrúa og 300 þús. kr. til að­lögunar tölvukerfis.
    Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.

5. Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða.
    Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna móti í samstarfi við Jafnréttisstofu og undir forystu vel­ferðar­ráðu­neytisins heildstæða áætlun til fjögurra ára um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og stofnana ríkisins. Skipuð verði formlega verk­efnisstjórn um verk­efnið sem gert verði kleift að ráða sér starfs­mann.
    Áætlunin taki mið af þeim samþættingarverk­efnum sem þegar hafa verið unnin í ráðuneytunum, m.a. í tengslum við fyrri fram­kvæmda­áætlanir ríkisstjórnarinnar í jafnréttis­málum og áætlanir um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð.
    Í áætluninni felist m.a.:
     a.      Til­lögur um innleiðingu kynjasamþættingar í starfsemi ráðuneytanna og stofnana ríkisins.
     b.      Til­lögur um verk­efni á málefnasviði hvers ráðu­neytis sem tilraunaverk­efni fyrsta árið og síðan ný verk­efni á hverju ári.
     c.      Til­lögur um gátlista um jafnréttis­mál sem fylgi stjórnarfrumvörpum og innleiðingu verkferlis við jafnréttismat.
     d.      Til­lögur um fyrirliggjandi kyngreindar upplýsingar til stuðnings stefnumörkun og ákvörðunum. Greint verði á hvaða sviðum reglulegri upplýsingaöflun er á­bótavant og úr­bætur gerðar.
    Tíma­áætlun: 2016–2019.
    Kostnaðar­áætlun: 4 millj. kr. til fram­kvæmdar verk­efna auk launa sérfræðings.
    Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.

6. Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð.
    Unnið verði að kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð samkvæmt innleiðingar­áætlun til fimm ára. Fjár­mála- og efnahags­ráðu­neytið beri ábyrgð á verk­efninu og skal því stýrt af verk­efnisstjórn sem skipuð er fulltrúum allra ráðuneyta auk fulltrúa Jafnréttisstofu. Gerð verði grein fyrir stöðu verk­efna í fjárlagafrumvarpi hvers árs. Verkefnisstjóri geri til­lögur um eftirfylgni innleiðingar­áætlunar með mælikvörðum fyrir öll ráðu­neyti og vinni í nánu samstarfi við verk­efnisstjórn um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða.
    Tíma­áætlun: Viðvarandi verk­efni.
    Kostnaðar­áætlun: Laun sérfræðings í hálfu starfi.
    Ábyrgð: Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna og fjár­mála- og efnahags­ráðu­neytið.

7. Úttekt á jafnréttis­lögum og stjórnsýslu jafnréttis­mála.
    Skipaður verði starfshópur sérfræðinga sem stýri úttekt á þróun, fram­kvæmd og eftirfylgni íslenskrar jafnréttis­löggjafar og stjórnsýslu jafnréttis­mála. Kannað verði hvort markmið núgildandi laga og stjórnsýsla jafnréttis­mála sé í samræmi við alþjóðlega þróun og breytingar í íslensku samfélagi. Starfshópur skili skýrslu til ráð­herra um niðurstöður sínar og leggi fram til­lögur um úr­bætur.
    Tíma­áætlun: 2016–2018.
    Kostnaðar­áætlun: 4 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.

B. VINNUMARKAÐUR – LAUNAJAFNRÉTTI KYNJA
8. Jafnrétti á vinnumarkaði og launajafnrétti kynja.
    Á gildistíma fram­kvæmda­áætlunarinnar verði áfram unnið að fram­kvæmd og eftirfylgni þeirra verk­efna sem tilgreind eru í aðgerða­áætlun um launajafnrétti kynja. Í lok 2016 verði metið hvort verk­efni aðgerða­áætlunarinnar hafi náð markmiðum sínum. Verkefni á sviði launajafnréttis­mála feli m.a. í sér eftirfarandi:
     a.      Skipunartími fram­kvæmda­nefnd­ar um launajafnrétti verði framlengdur til 2019.
     b.      Unnið verði að útbreiðslu og innleiðingu staðalsins ÍST 85:2012, jafnlaunakerfi, kröfur og leiðbeiningar.
     c.      Fram fari markvisst kynningarstarf á faggildri vottun jafnlaunakerfa samkvæmt reglu­gerð nr. 929/2014, um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012.
     d.      Velferðar­ráðu­neytið safni upplýsingum um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana og birti yfirlit í skýrslu ráð­herra um stöðu og þróun jafnréttis­mála sem gefin er út annað hvert ár.
     e.      Rannsóknarverk­efnum aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti verði fylgt eftir með vitundar- og kynningarátaki stjórnvalda um aðgerðir gegn kynbundnum launamun.
     f.      Ríkisstjórnin samþykki að halda árlega jafnlaunadag sem nýttur verði til vitundarvakningar um jafnlauna­mál og jafnrétti á vinnumarkaði.
     g.      Unnin verði fram­kvæmda­áætlun um leiðir til að brjóta upp kynbundið náms- og starfsval. Sérstaklega verði hugað að því að fjölga konum í iðngreinum, verk- og raunvísindum og körlum í u­mönnunar- og kennslustörf­um.
     h.      Unnin verði fram­kvæmda­áætlun um leiðir til samræmingar fjölskyldu- og atvinnulífs.
    Tíma­áætlun: 2016–2019.
    Kostnaðar­áætlun: 7 millj. kr. árlega.
    Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið og fjár­mála- og efnahags­ráðu­neytið í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðu­neytið, forsætis­ráðu­neytið og mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið.

9. Fæðingarorlof.
    Megintil­lögur starfshóps að framtíðarstefnu í fæðingarorlofs­málum verði nýttar sem leiðarljós við endurreisn fæðingarorlofskerfisins. Unnið verði að því að brúa bili milli fæðingarorlofs og leik­skólavistar.
    Tíma­áætlun: 2016–2021.
    Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.

10. Lánatryggingasjóður kvenna.
    Starfsemi Svanna – lánatryggingasjóðs kvenna verði fram­haldið. Markmið sjóðsins verði áfram að styðja nýsköpun í atvinnurekstri kvenna með því að veita ábyrgðir á lánum. Verkefnið verði unnið í samstarfi við fjár­mála­stofnanir og aðila sem veita ráðgjöf og handleiðslu við fram­kvæmd verk­efna.
    Tíma­áætlun: 2016–2019.
    Kostnaðar­áætlun: 60 millj. kr. Fjármagn er til í sjóði.
    Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið og atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðu­neytið í samstarfi við Reykjavíkurborg.

C. KYN OG LÝÐRÆÐI
11. Kyn og fjölmiðlar.
    Á gildistíma fram­kvæmda­áætlunarinnar beiti mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið sér fyrir fram­kvæmd könnunar á aðgengi og birtingarmyndum kvenna og karla, stúlkna og drengja í fjölmiðlum og vinni að stefnumótun á þessu sviði.
    Verkefnið felist m.a. í eftirfarandi:
     a.      Að kanna aðgengi kvenna og karla að mismunandi fjölmiðlaefni.
     b.      Að kanna hvort og þá hvernig umfjöllun um konur og karla sé lituð af staðalmyndum um kynhlutverk.
     c.      Að kanna umfang og eðli kynbundinnar hatursorðræðu í fjölmiðlum.
     d.      Að vinna að stefnumótun og vitundarvakningu meðal fjölmiðla.
    Tíma­áætlun: 2016–2019.
    Kostnaðar­áætlun: 4 millj. kr. með fyrirvara um að fjárfram­lög fáist til verk­efnisins.
    Ábyrgð: Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið.

12. Greining á stöðu flótta­manna og hælisleitenda út frá kyni og jafnrétti kynja.
    Innanríkis­ráðu­neytið beri á gildistíma fram­kvæmda­áætlunarinnar ábyrgð á fram­kvæmd rannsóknar um stöðu hælisleitenda og flótta­manna út frá jafnréttis- og mannréttindasjónarmiðum.
    Verkefnið felist m.a. í eftirfarandi:
     a.      Að kanna hvort fullnægjandi tillit sé tekið til jafnréttis- og mannréttindasjónarmiða í íslenskri löggjöf og fram­kvæmd, m.a. með hliðsjón af kyni, kynhneigð eða kynímynd, viðkvæmum einstaklingum, þolendum ofbeldisbrota og mansals.
     b.      Að setja fram til­lögur að úr­bótum til að tryggja hælisleitendum og flótta­mönnum sanngjarna málsmeðferð og viðeigandi vernd.
    Tíma­áætlun: 2016–2019.
    Kostnaðar­áætlun: 3,5 millj. kr.
    Ábyrgð: Innanríkis­ráðu­neytið.

D. KYNBUNDIÐ OFBELDI OG OFBELDI Í NÁNUM SAMBÖNDUM
13. Samstarfsverk­efni þriggja ráð­herra um aðgerðir gegn ofbeldi.
    Velferðar­ráðu­neytið hafi yfirumsjón með samstarfsverk­efni þriggja ráðuneyta um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Markmið verk­efnisins verði að bæta samvinnu og verklag við ofbeldisfor­varnir og að styrkja samstarf við rannsókn ofbeldis­mála. Auk samvinnu milli stofnana verði rík áhersla lögð á samvinnu við frjáls félagasamtök.
    Verkefnið feli m.a. í sér:
     a.      Að efna til sam­ráðs á landsvísu með það að markmiði að bæta samvinnu og verklag við ofbeldisfor­varnir og styrkja samstarf við rannsókn mála.
     b.      Að undirbúa á vett­vangi landssam­ráðsins aðgerða­áætlun til fjögurra ára.
     c.      Að efla getu og hæfni lög­reglu við uppljóstrun ofbeldisbrota svo tryggja megi skjóta og örugga málsmeðferð.
     d.      Að auka þjálfun og menntun innan réttarvörslukerfisins.
     e.      Að styrkja vel­ferðar­þjónustuna við að veita þolendum ofbeldis uppbyggilegan stuðning og vernd.
     f.      Að veita gerendum ofbeldis aðstoð við að horfast í augu við vanda sinn og takast á við hann svo draga megi úr ofbeldi.
     g.      Að auka fræðslu- og for­varnastarf sem byggist á rannsóknum og faglegri þekkingu.
    Tíma­áætlun: 2016–2018.
    Kostnaðar­áætlun: 4 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.

14. Heimilisfriður.
    Meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem beita ofbeldi í nánum samböndum, sem sálfræðingar hafa veitt um árabil samkvæmt samningi við stjórnvöld, verði endur­skoðað á gildistíma fram­kvæmda­áætlunarinnar. Endurskoðun hafi að markmiði að verk­efnið bjóði upp á sérhæfða þjónustu fyrir konur og karla sem beitt hafa ofbeldi í nánum samböndum. Efnt verði til útboðs um þjónustuna á grundvelli kröfulýsingar og í fram­haldi verði gerður þjónustusamningur til reynslu í tvö ár. Í þjónustusamningi skal m.a. gerð krafa um sérþekkingu starfsfólks á málaflokknum, reglulega miðlun upplýsinga til ráðu­neytisins og möguleika á bæði einstaklings- og hópmeðferð.
    Tíma­áætlun: 2016–2019.
    Kostnaðar­áætlun: 12 millj. kr. árlega í fjögur ár.
    Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.

E. JAFNRÉTTI Í SKÓLASTARFI
15. Jafnrétti í skólastarfi.
    Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið hafi á gildistíma fram­kvæmda­áætlunarinnar yfirumsjón með eftirfarandi verk­efnum:
     a.      Eflingu jafnréttisfræðslu á öllum skóla­stigum þar sem áhersla verði lögð m.a. á jöfn tækifæri til starfsnáms.
     b.      Að jafna þátttöku kynja í félagslífi fram­halds­skólanna.
     c.      Að koma á samstarfi við jafnréttis­nefnd Kennarafélags Íslands um leiðir til að efla jafnréttisstarf í leik-, grunn- og fram­halds­skólum.
     d.      Að efla samstarf jafnréttisfulltrúa íslenskra há­skóla með árlegum fræðslufundum sem ráðu­neytið sjái um.
     e.      Framkvæmd rannsóknar á stöðu kynja­menningar í há­skólum.
     f.      Gerð aðgerða­áætlunar gegn mismunun og staðalmyndum í há­skóla­samfélaginu.
    Tíma­áætlun: 2016–2019.
    Kostnaðar­áætlun: 7,5 millj. kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið.

16. Jafnrétti við úthlutanir úr sjóðum á vegum mennta- og menningar­mála­ráðu­neytis.
    Í fram­haldi af tilraunaverk­efni mennta- og menningar­mála­ráðu­neytisins í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð um útdeilingu fjármagns úr opinberum samkeppnissjóðum verði niðurstöðum fylgt eftir, m.a. með því að breyta umsóknar- og vinnureglum sjóðanna til að gæta jafnréttis og uppfylla kröfur um jafnt aðgengi kynja að fjármagni. Jafnframt verði unnið að því að tryggja jafnt aðgengi kvenna og karla að lista­mannalaunum og úthlutunum úr Kvikmyndasjóði.
    Tíma­áætlun: 2016–2019.
    Kostnaðar­áætlun: 1,5 millj. kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið.

17. Þátttaka kvenna í íþróttastarfi.
    Á gildistíma fram­kvæmda­áætlunarinnar verði þátttaka kvenna í íþróttum efld. Aðgerðir miði að því að konur hætti síður iðkun íþrótta á unglingsárum, taki þátt í stjórnum íþróttafélaga til jafns við karla, verði virkari sem þjálfarar og dómarar sem og í öllu íþróttastarfi. Umfjöllun um íþróttir í fjölmiðlum verði skoðuð.
    Tíma­áætlun: 2016–2019.
    Kostnaðar­áætlun: 2 millj. kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið.

F. KARLAR OG JAFNRÉTTI
18. Karlar og jafnrétti.
    Til­lögum nefnd­ar um karla og jafnrétti sem skipuð var á grundvelli fram­kvæmda­áætlunar í jafnréttis­málum 2011–2014 verði hrint í fram­kvæmd. Markmið stefnumótunar og verk­efna verði að auka hlut drengja og karla í öllu jafnréttisstarfi og að kanna hvernig stefnumótun á sviði jafnréttis­mála geti betur tekið mið af samfélagslegri stöðu karla. Skipa skal formlega aðgerðahóp um verk­efnið. Með hópnum starfi sérfræðingur á sviði jafnréttis­mála í vel­ferðar­ráðu­neytinu.
    Helstu verk­efni á gildistíma fram­kvæmda­áætlunarinnar felist m.a. í eftirfarandi:
     a.      Að kanna hvernig auðvelda megi körlum samhæfingu ábyrgðar á fjölskyldu- og atvinnulífi.
     b.      Að efna til vitundarvakningar um áhrif karl­mennskuhugmynda á heilsu og lífsgæði karla. Hugað verði sérstaklega að því hvort karlar fari á mis við þjónustu í heilbrigðiskerfinu.
     c.      Að rannsaka áhrif staðalmynda og karl­mennskuhugmynda á náms- og starfsval drengja.
     d.      Að kanna tengsl milli námsvals og brottfalls drengja úr fram­halds­skólum og há­skólum.
     e.      Að mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið, vel­ferðar­ráðu­neytið og Samband íslenskra ­sveitarfélaga undirbúi og hrindi í fram­kvæmd sérstöku átaksverk­efni með það að markmiði að fjölga körlum í u­mönnunar- og kennslustörf­um á grundvelli fram­kvæmda­áætlunar um uppbrot hins kynskipta vinnumarkaðar.
    Tíma­áætlun: 2016–2019.
    Kostnaðar­áætlun: 3 millj. kr. árlega í þrjú ár.
    Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.

19. Þátttaka karla í jafnréttis­málum.
    Utanríkis­ráðu­neytið leggi áherslu á hlutverk karla í jafnréttis­málum á alþjóða­vett­vangi.
    Í því felist m.a. eftirfarandi:
     a.      Að haldnar verði rakarastofu­ráðstefnur hjá alþjóða­stofnunum sem Ísland er aðili að í þeim tilgangi að fá karla til að axla ábyrgð á kynjajafnrétti.
     b.      Að halda uppi málflutningi af hálfu Íslands um þetta málefni hjá alþjóða­stofnunum sem Ísland á aðild að og í tvíhliða samskiptum við önnur ríki.
     c.      Að hvetja íslenska karl­menn til að taka undir markmið HeforShe-herferðar UN Women í samræmi við skuldbindingar Íslands í IMPACT-átaki UN Women.
     d.      Að efla samvinnu innan íslenska stjórnkerfisins og við frjáls félagasamtök.
    Tíma­áætlun: 2016–2017.
    Kostnaðar­áætlun: 6 millj. kr.
    Ábyrgð: Utanríkis­ráðu­neytið.

G. ALÞJÓÐASTARF
20. Staða jafnréttis­mála á norðurslóðum.
    Umræða um jafnréttis­mál á norðurslóðum verði efld og kastljósinu beint að stöðu kvenna og karla þar.
    Helstu verk­efni á gildistíma fram­kvæmda­áætlunarinnar felist m.a. í eftirfarandi:
     a.      Eftirfylgni alþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin var í október 2014, á vegum utanríkis­ráðu­neytisins, í samvinnu við Jafnréttisstofu, norðurslóðanet Íslands og samstarfsríki innan Norðurskauts­ráðsins, um stöðu kynjanna á norðurslóðum.
     b.      Stofnun alþjóðlegs samstarfsnets um jafnréttis­mál á norðurslóðum og uppsetningu vefgáttar til að tengja saman ólíka hagsmunaaðila.
     c.      Að Ísland leggi áfram áherslu á jafnréttis­mál á vett­vangi Norðurskauts­ráðsins á komandi árum sem byggist á niðurstöðum fyrr­nefndrar ráðstefnuskýrslu.
    Tíma­áætlun: 2016–2017.
    Kostnaðar­áætlun: Að fullu fjármagnað.
    Ábyrgð: Utanríkis­ráðu­neytið.

21. Kyn og loftslag.
    Um­hverfis- og auðlinda­ráðu­neytið og utanríkis­ráðu­neytið fylgi eftir áherslum um mikilvægi kynjasjónarmiða í nýju alþjóðlegu samkomulagi um loftslags­mál.
    Verkefnið felist m.a. í eftirfarandi:
     a.      Að lögð verði áhersla á að alþjóðleg verk­efni á sviði þróunarsamvinnu, sem Ísland veitir fjármagn til á sviði loftslags­mála, stuðli að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna.
     b.      Að samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða verði gætt við úthlutun fjármagns til verk­efna á sviði loftslags­mála.
    Tíma­áætlun: 2016–2019.
    Kostnaðar­áætlun: Að fullu fjármagnað.
    Ábyrgð: Utanríkis­ráðu­neytið.

Athugasemdir við þingsályktunartil­lögu þessa.

    Samkvæmt 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, hefur félags- og húsnæðis­mála­ráð­herra lagt fram sjöttu fram­kvæmda­áætlun íslenskra ríkisstjórna til að ná fram jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla á Íslandi. Fyrsta áætlunin var lögð fram í samræmi við ný jafnréttis­lög frá árinu 1985 en þau voru samþykkt við lok kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna 1976–1985 og byggðust m.a. á samþykktum kvenna­ráðstefna Sameinuðu þjóðanna. Framkvæmda­áætlunum er ætlað það hlutverk að skilgreina stefnu stjórnvalda á hverjum tíma og lýsa verk­efnum sem ýmist varpa ljósi á stöðu kynjanna eða fela í sér beinar aðgerðir í þágu kynjajafnréttis. Er áætlunin lögð fram að fengnum til­lögum ráðuneyta, Jafnréttisstofu og Jafnréttis­ráðs, auk þess sem hliðsjón skal höfð af umræðum á jafnréttisþingi, sbr. 10. gr. laganna. Þingsályktun um fram­kvæmda­áætlun í jafnréttis­málum skal fela í sér verk­efni sem ætlað er að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í íslensku samfélagi.
    Jafnréttisþing var haldið í fjórða skipti 25. nóvember 2015. Til­lögu þessari um fram­kvæmda­áætlun í jafnréttis­málum 2016–2019 fylgir skýrsla félags- og húsnæðis­mála­ráð­herra um stöðu og þróun jafnréttis­mála 2013–2015 sem lögð var fyrir jafnréttisþingið.
    Í nýjustu skýrslu Alþjóðaefnahags­ráðsins (e. World Economic Forum) sem birt var 19. nóvember 2015 kemur fram að jafnrétti kynja er hvergi meira en á Íslandi miðað við aðferðafræði ráðsins. Ísland er í fyrsta sæti lista ráðsins, sjöunda árið í röð. Myndin sem dregin er upp af stöðu kynajafnréttis hér á landi í úttekt ráðsins segir þó ekki alla söguna. Í úttektinni er ekki spurt um vinnutíma, álag í starfi, skiptingu heimilisstarfa eða ábyrgð á uppeldi barna og u­mönnun aldraðra þótt framangreindir þættir hafi mikil áhrif á stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Kvarðinn sem notaður er byggist á einföldum skýringarbreytum sem gefa ekki rétta heildar­mynd af stöðu kvenna og karla. Með tilliti til stöðu Íslands í efsta sæti listans er til að mynda athyglisvert að líta til kynjaskiptingar starfa á vinnumarkaði. Afleiðingar hennar eru m.a. þær að hlutfallslega fáar konur gegna stjórnunarstöðum á íslenskum vinnumarkaði og starfsþróunarmöguleikar kvenna virðast al­mennt minni en karla. Mælikvarði Alþjóðaefnahags­ráðsins nær því ekki að skýra valdaójafnvægi milli kvenna og karla á vinnumarkaði og í forystu atvinnulífsins og því óhætt að fullyrða að staða Íslands í efsta sæti lista ráðsins gefi ekki tæmandi mynd um stöðu jafnréttis­mála á Íslandi.
    Hér á landi ríkir formlegt kynjajafnrétti. Konur og karlar búa við lagalegt jafnrétti og í samanburði við það sem gerist víða annars staðar í heiminum hafa á undanförnum áratugum verið stigin stór skref til jafnrar stöðu kynjanna á Íslandi. Til framfaraskrefa á sviði jafnréttis­mála má nefna verulega fjölgun kvenna á Alþingi og í sveit­ar­stjórnum landsins. Laga­breytingar hafa verið samþykktar sem ætlað er að tryggja áhrif kvenna í stjórnum fyrirtækja og í atvinnulífi og styrkja baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi, vændi og mansali. Velferðarkerfi sem styður þátttöku á vinnumarkaði og atvinnuhættir sem þarfnast mikils vinnuafls hafa skapað góð tækifæri fyrir hátt atvinnu­stig bæði karla og kvenna. Hvergi á Vesturlöndum er hlutfall kvenna á vinnumarkaði hærra en á Íslandi. Á árinu 2014 var atvinnuþátttaka kvenna á aldrinum 16–74 ára 78,2% en annars staðar á Norðurlöndunum mælist hún rétt um 70 af hundraði. Einkennandi fyrir íslenskan vinnumarkað er mikil kynjaskipting starfa. Konur og karlar gegna ólíkum störf­um og kynbundið námsval og kynjaskipting milli starfsgreina er enn mjög áberandi. Þá eru karlar, eins og áður sagði, ofar í valda­stigum atvinnulífsins en konur. Á undanförnum árum hefur dregið saman með kynjunum í launum og kynbundinn launamunur minnkar ár frá ári.
    Staðan á vinnumarkaði sýnir að enn er langt í land á sviði jafnréttis­mála. Í íslenskri löggjöf hefur allt frá því að fyrstu jafnréttis­lögin voru samþykkt árið 1976 verið lögð mikil áhersla á jafnrétti á vinnumarkaði. Með áherslunni á vinnumarkaðinn var litið svo á að atvinnuþátttaka og efnahagslegt sjálfstæði kvenna væri forsenda framþróunar jafnréttis á öðrum sviðum samfélagsins. Í því ljósi er athyglisvert hversu erfitt hefur reynst að brjóta upp kynjaskiptingu starfa, tryggja launajafnrétti og jafna völd og áhrif kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði. Þessi þversögn sem hér er lýst er að mati fræði­manna á Norðurlöndum einkennandi fyrir norrænu vel­ferðarkerfin sem, þrátt fyrir mikla atvinnuþátttöku kvenna, hefti möguleika þeirra til valda og áhrifa og viðhaldi kynjaskiptingu starfa á vinnumarkaði. Stjórnvöld hafi lagt of mikla áherslu á að auðvelda konum samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs með auknum sveigjanleika á vinnumarkaði á meðan of lítið hafi verið gert til að auka starfsþróunarmöguleika kvenna og jafna völd og áhrif kynjanna í atvinnulífinu. Stjórnvaldsaðgerðir, eins og fæðingarorlof, dagvistunarúrræði fyrir börn og ríkt framboð hlutastarfa á opinberum vinnumarkaði, hafi vissulega tryggt mikla atvinnuþátttöku kvenna en hafi í raun fest í sessi hefðbundnar hugmyndir um u­mönnunarhlutverk kvenna. Mikilvægt sé að horfa til breytinga á samfélagslegri stöðu karla og hvetja til aukinna afskipta þeirra af u­mönnun barna og heimilisstörf­um.
    Áfangasigrar í jafnréttisbaráttunni hafa vissulega fært konum aukin samfélagsleg völd á þeim rúmlega 100 árum sem liðin eru frá því að þær fengu kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis. En víða er mikið verk að vinna. Aðgreining starfa í sérstök karla- og kvennastörf á stóran þátt í launa- og aðstöðumun kynjanna en leiða má líkum að því að aðgreining milli kynja hefjist strax á leik­skóla­stigi. Hún er síðan enn til staðar í mismunandi námsvali á fram­halds- og há­skóla­stigi og að lokum í atvinnulífinu. Af þeim sökum er nauðsynlegt að uppræta úreltar staðalmyndir sem virðast enn vera miklir örlagavaldar í lífi og starfi þeirra kynslóða sem nú vaxa úr grasi.
    Kynjajafnrétti snýst ekki um að allir séu greyptir í sama mót, heldur að fólk fái tækifæri til að njóta sín á eigin forsendum, óháð kyni. Þrátt fyrir hátt í 40 ára gamla löggjöf um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla virðist kynferði enn takmarka frelsi einstaklinga. Íslendingar geta vissulega verið stoltir af því að verma efsta sætið á lista sem mælir kynjabil á alþjóðavísu en mikilvægt er að vera meðvituð um að í samfélaginu ríkir enn valdaójafnvægi sem ekki eru gerð fyllileg skil í úttekt Alþjóðaefnahags­ráðsins.
    Margt er enn óunnið og er þessari fram­kvæmda­áætlun ætlað að ná utan um brýnustu verk­efni ríkisstjórnarinnar á sviði kynjajafnréttis enda þótt ekki sé um að ræða tæmandi talningu á verk­efnum sem brýn eru á þessu sviði. Framkvæmda­áætlunin skiptist að þessu sinni í sjö kafla og er þar kynnt 21 verk­efni sem áætlað er að framkvæma á gildistíma hennar. Er þessu fyrirkomulagi ætlað að tryggja að áherslur og forgangsröðun stjórnvalda á sviði jafnréttis­mála birtist með skýrum hætti í fram­kvæmda­áætluninni. Fyrst ber að nefna átak um samþættingu jafnréttissjónarmiða við alla ákvörðunartöku og stefnumótun í stjórnkerfinu í samræmi við jafnréttis­lög og áherslu á kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Gerð er tillaga um úttekt á jafnréttis­lögum og stjórnsýslu jafnréttis­mála þar sem kannað verði hvort markmið núgildandi laga og stjórnsýslu jafnréttis­mála sé í samræmi við alþjóðlega þróun og breytingar í íslensku samfélagi.
    Á gildistíma áætlunarinnar verði áfram unnið að fram­kvæmd og eftirfylgni þeirra verk­efna sem tilgreind eru í aðgerða­áætlun um launajafnrétti kynja og árangur þeirra metinn. Mikilvægt er að tryggja innleiðingu staðalsins ÍST-85:2012, jafnlaunakerfi, kröfur og leiðbeiningar og að fram fari markvisst kynningarstarf á faggiltri vottun jafnlaunakerfa samkvæmt reglu­gerð um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins. Lögð er áhersla á verk­efni sem vinni gegn staðalmyndum kynjanna í fjölmiðlum og auknum hlut kvenna í fjölmiðlum og kvikmyndum. Nýlegar rannsóknir sýna að konur og karlar birtast ekki í jöfnum hlutföllum í fjölmiðlum og sú mynd sem dregin er upp af konum endurspeglar hvorki fjölda þeirra á vett­vangi stjórn­mála, í forystu atvinnulífsins né hátt menntunar­stig íslenskra kvenna. Kynjaskekkju gætir einnig meðal frétta­manna og fjölmiðlafólks og konur eru í minni hluta þeirra sem taka stefnumótandi ákvarðanir í fjölmiðlum þar sem þær eru enn í minni hluta stjórnenda og eigenda miðlanna. Kynjuð og stöðluð framsetning um konur og karla og hlutverk þeirra vinnur gegn markmiði okkar um aukið jafnrétti og það gera líka auglýsingar sem birta snyrtar og afbakaðar ljósmyndir af konum og körlum og bjóða stúlkum og drengjum upp á takmarkað úrval fyrirmynda. Framsetning fjölmiðla hefur m.a. áhrif á vaxandi klámvæðingu í öllum miðlum og því mikilvægt að hið opinbera vinni gegn framsetningu á stöðluðum hlutverkum kynjanna í samfélaginu. Sérstök árhersla er einnig lögð á menntir og kynin í þessari fram­kvæmda­áætlun. Lagt er til að jafnréttisfræðsla verði eflt á öllum skóla­stigum og að ríkari áhersla verði lögð á jöfn tækifæri til starfsnáms. Þá er ráðgert að framkvæma rannsókn á stöðu kynja­menningar í há­skólum og vinna aðgerða­áætlun gegn mismunun og staðalmyndum í há­skóla­samfélaginu. Á gildistíma áætlunarinnar er einnig lagt til að mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið beiti sér fyrir aðgerðum til að efla hlut stúlkna og kvenna í íþróttum. Aðgerðir skulu miða að því að konur hætti síður iðkun íþrótta og verði virkari þátttakendur í öllu íþróttastarfi.
    Í fram­kvæmda­áætluninni er í fyrsta skipti sérstakur kafli um karla og jafnrétti. Markmið stefnumótunar og verk­efna er að auka hlut drengja og karla í öllu jafnréttisstarfi, bæði hér á landi og á alþjóða­vett­vangi, sem og að kanna hvernig öll stefnumótun á sviði jafnréttis­mála geti betur tekið mið af samfélagslegri stöðu karla. Lagt er til að til­lögum starfshóps um karla og jafnrétti sem skilaði skýrslu til vel­ferðar­ráð­herra árið 2013 verði hrint í fram­kvæmd.
    Ríkisstjórnin leggur enn fremur áherslu á verk­efni sem hafa að markmiði að útrýma kynbundnu ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Kynbundið ofbeldi er lýðheilsuvanda­mál en afleiðingar þess fyrir hvert samfélag eru efnahagslegar, pólitískar, félags- og heilsufarslegar. Til að ná árangri í að uppræta kynbundið ofbeldi er nauðsynlegt að ólíkar fagstéttir vinni saman, að vandinn sé greindur á fyrstu stigum og því nauðsynlegt að stjórnvöld hverju sinni vinni samkvæmt nákvæmum aðgerða­áætlunum.
    Á gildistíma áætlunarinnar verði unnið að fram­kvæmd þeirra verk­efna sem tilgreind eru í samstarfsyfirlýsingu félags- og húsnæðis­mála­ráð­herra, innanríkis­ráð­herra og mennta- og menningar­mála­ráð­herra um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Samstarfið er liður í áætlunum gegn kynbundnu ofbeldi og er ætlað að ná til ofbeldis gegn börnum, ofbeldis í nánum samböndum, kynferðislegs, andlegs og líkamlegs ofbeldis sem og ofbeldis gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum með aðgerða­áætlun til fjögurra ára. Síðastliðin ár hefur fjöldi verk­efna verið unninn á vett­vangi stjórnvalda en viðvarandi verk­efni er að stuðla að bætttum vinnubrögðum og viðhorfs­breytingu innan og utan kerfis.
    Að lokum ber að nefna alþjóðlegar skyldur Íslendinga á sviði jafnréttis­mála. Stjórnvöldum ber að styðja jafnréttisbaráttu fátækra þjóða, ekki síst þeirra sem búa á ófriðarsvæðum. Jafnréttis­skóli Sameinuðu þjóðanna, sem starfræktur er við Há­skóla Íslands, er dæmi um verk­efni sem nýtist nemendum sem koma frá fjarlægum löndum og veitir þeim sem koma að námi og kennslu tækifæri til að auka skilning sinn og þekkingu á aðstæðum kvenna og karla og uppbyggingu samfélaga í kjölfar átaka.
    Ísland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum og valfrjálsa bókun hans og hefur hvatt önnur ríki til að framfylgja ákvæðum hans að fullu. Árið 2014 skiluðu íslensk stjórnvöld í einu lagi sjöundu og áttundu skýrslu sinni um fram­kvæmd samningsins til kvennaréttar­nefnd­ar Sameinuðu þjóðanna og vorið 2016 fór fram fyrirtaka Íslands á grundvelli samningsins. Utanríkis­ráðu­neytið á gott samstarf við lands­nefnd UN Women á Íslandi og árið 2014 undirritaði fulltrúi Stjórnar­ráðs Íslands yfirlýsingu um að fylgja Jafnréttissátt­mála stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna. Í fram­kvæmda­áætluninni er kveðið á um sérstakt samstarfsverk­efni um­hverfis- og auðlinda­ráðu­neytisins og utanríkis­ráðu­neytisins um að lögð verði áhersla á að rödd kvenna heyrist í loftslags­málum og að ákvæði sem stuðli að samþættingu jafnréttissjónarmiða séu tekin inn í alþjóðlega samninga sem varða um­hverfis- og loftslags­mál. Íslendingar munu halda áfram að styðja jafnréttisbaráttu á alþjóða­vett­vangi með margvíslegum hætti, ekki síst með því að vera framsækin þjóð og til fyrirmyndar í hvívetna á sviði jafnréttis­mála og með því að standa vörð um mannréttindi og framþróun í heiminum.

Athugasemdir við einstaka kafla til­lögunnar.

A. STJÓRNSÝSLAN

    Í tilefni af aldarafmæli kosningarréttar íslenskra kvenna árið 2015 samþykkti Alþingi 19. júní 2015 þingsályktun um stofnun Jafnréttissjóðs Íslands. Markmið sjóðsins er að fjármagna eða styrkja verk­efni sem eru til þess fallin að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi. Jafnréttissjóður Íslands nýtur framlaga af fjár­lögum í fimm ár, 100 millj. kr. á ári, frá ársbyrjun 2016 til ársloka 2020. Jafnréttissjóður Íslands kemur tímabundið í stað Jafnréttissjóðs sem starfaði samkvæmt reglum um úthlutun styrkja Jafnréttissjóðs, nr. 513/2006. Niðurstöður verk­efna og rannsókna sem styrkt eru úr Jafnréttissjóði Íslands verða gerðar aðgengilegar á vefsvæði Stjórnar­ráðsins í þeim tilgangi að verk­efnin nýtist sem best til framfara á sviði jafnréttis­mála.
    Samkvæmt lögum nr. 10/2008 ber stjórnvöldum að setja upp kynjagleraugun og samþætta kynjasjónarmið inn í alla stefnumörkun, áætlanagerð og ákvarðanatöku. Samþætting felur í sér að spyrja hvernig ákvarðanir og áætlanir snerta hvort kyn um sig, hverjir njóta gæða samfélagsins, hvernig og hvers vegna. Eftir að ný jafnréttis­lög voru samþykkt árið 2008 hefur hlutur kvenna í stjórnum og ráðum sem skipuð eru af stjórnvöldum aukist verulega enda kveður 15. gr. jafnréttislaga á um að jafna skuli stöðu kynjanna og að hlutur hvors kyns um sig sé ekki minni en 40% í stjórnum, ráðum og nefndum sem hafa þrjá fulltrúa eða fleiri. Brýnt er að öll ráðu­neyti setji sér jafnréttis­áætlanir, starf jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna verði nánar skilgreint og þeim gert kleift að sinna starfi sínu í samræmi við lög.
    Framkvæmdasjóður jafnréttis­mála mun starfa í vel­ferðar­ráðu­neytinu og hefur ríkisstjórnin samþykkt að varið verði 30 millj. kr. samtals af fjár­lögum tímabundið til þriggja ára, 2017–2019, eða 10 millj. kr. árlega, til jafnréttisverk­efna á vegum ráðuneyta. Ætlunin er að nýta niðurstöður, reynslu og þekkingu, eða innleiða til­lögur sem telja má afrakstur af verk­efnum í fram­kvæmda­áætlun ríkisstjórnarinnar. Velferðar­ráðu­neytið mun fara með úthlutun þessarar fjárveitingar. Viðmið um þær verða kynntar ráðuneytum fyrir árslok 2016.
    Hlutverk jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna er skilgreint í 13. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnréttisfulltrúar skulu fá tækifæri til að afla sér sérþekkingar á sviði jafnréttis­mála með því að sækja námskeið, fyrirlestra og endur­menntun. Þeir starfa í samræmi við starfsreglur og jafnréttis­áætlun Stjórnar­ráðsins og í samstarfi við Jafnréttisstofu. Í samræmi við a-lið 1. gr. og 17. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna, í samstarfi við Jafnréttisstofu og undir forystu vel­ferðar­ráðu­neytisins, móta heildstæða áætlun til fjögurra ára um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og stofnana ríkisins. Skipa skal formlega verk­efnisstjórn um verk­efnið sem gert verði kleift að ráða sér starfs­mann. Fyrirmynd verk­efnisins er innleiðing kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar og vinnur verk­efnisstjórn hennar nú að innleiðingar­áætlun fyrir öll ráðu­neytin til næstu fimm ára.
    Félags- og húsnæðis­mála­ráð­herra fer með fram­kvæmd laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum, sbr. einnig 9. tölul. 8. gr. forsetaúrskurðar nr. 71/2013, um skiptingu stjórnar­málefna milli ráðuneyta í Stjórnar­ráði Íslands, frá 24. maí 2013. Jafnréttisstofa annast fram­kvæmd jafnréttis­mála í umboði félags- og húsnæðis­mála­ráð­herra og Jafnréttis­ráð er ráð­herra til ráðgjafar. Ráðuneytið hefur jafnframt reglulegt sam­ráð við önnur ráðu­neyti um verk­efni á sviði kynjajafnréttis, svo sem forsætis­ráðu­neytið, fjár­mála- og efnahags­ráðu­neytið, utanríkis­ráðu­neytið, innanríkis­ráðu­neytið og mennta- og menninga­mála­ráðu­neytið. Í fram­kvæmda­áætluninni er lagt til að skipaður verði starfshópur sérfræðinga sem stýri úttekt á þróun, fram­kvæmd og eftirfylgni íslenskrar löggjafar og stjórnsýslu jafnréttis­mála. Mikilvægt þykir að kanna hvort markmið núgildandi laga og stjórnsýsla jafnréttis­mála sé í samræmi við alþjóðalega þróun og breytingar í íslensku samfélagi eða hvort tímabært þyki að leggja til breytingar á gildandi löggjöf.

B. VINNUMARKAÐUR – LAUNAJAFNRÉTTI KYNJA

    Mikil umræða hefur verið um jafnrétti kvenna og karla og kynbundinn launamun í íslensku samfélagi. Launajafnrétti hefur verið eitt helsta baráttu­málið þegar kemur að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og allir stjórn­málaflokkar eru sam­mála um að aðgerðir til að vinna gegn kynbundnum launamun séu meðal brýnustu verk­efna jafnréttis­mála. Niðurstöður rannsókna benda til þess að ekki hafi tekist að uppræta kynbundinn launamun þrátt fyrir að mikilvæg skref hafi verið stigin í þeim efnum á undanförnum misserum. Í maí 2015 kynnti aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðar niðurstöður tveggja rannsóknarverk­efna sem unnin voru á vegum hópsins. Annars vegar var um að ræða fyrstu rannsóknina á kynbundnum launamun sem tekur til vinnumarkaðarins í heild. Hins vegar viðamikla rannsóknarskýrslu um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Rannsóknin á kynbundnum launamun var unnin af Hagstofu Íslands og byggist hún á miklum gagnagrunni um laun og margvíslega þætti um stöðu launa­manna og tekur til áranna 2008–2013.
    Gögnin sýna að fleiri konur en karlar eru með há­skólapróf en karlar hafa mannafor­ráð í meira mæli. Jafnframt sýna gögnin að óleiðréttur launamunur er aldursbundinn, mestur hjá eldri aldurshópum. Með tölfræðilegum aðferðum er metið hvaða áhrif einstaka þættir, svo sem kyn, menntun, aldur, starfsaldur og atvinnu- og starfsgrein, hafa á laun. Þannig er hægt að meta hversu mikil áhrif breytan kyn hefur þegar tekið hefur verið tillit til allra annarra þátta. Þegar horft er til alls gagnatímabilsins kemur í ljós að þannig metinn kynbundinn launamunur er 7,6% á vinnumarkaðnum í heild, meiri á al­mennum vinnumarkaði (7,8%) en á opinberum vinnumarkaði (7,0%). Í skýrslunni er einnig leitast við að skýra launamyndun hjá körlum annars vegar og konum hins vegar. Sú greining gerir kleift að skipta launamuninum milli skýrðs og óskýrðs hluta þar sem síðari hlutinn felur í sér mat á kynbundnum launamun. Niðurstöður þeirrar greiningar eru þær að óskýrður launamunur er metinn 5,6% fyrir árin 2008–2013 en 5% árin 2011–2013. Þessi greining leiðir einnig í ljós að launamun má að verulegu leyti rekja til kynjaskiptingar starfa á vinnumarkaði. Á þetta við um lóðrétta skiptingu (eftir starfsstéttum) og lárétta skiptingu vinnumarkaðar (eftir atvinnugreinum).
    Í rannsóknarskýrslunni Staða kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði var leitast við að kortleggja stöðu kynjanna á íslenskum vinnumarkaði og setja hina mörgu þætti sem staða kynjanna ræðst af í samhengi. Í skýrslunni kemur fram að lagalegt jafnrétti sé mikið hér á landi en þó sýna kannanir og rannsóknir fram á viðvarandi kynbundinn launamun sem er undantekningarlaust konum í óhag og skilar sér m.a. í lægri lífeyrisgreiðslum til kvenna. Rannsóknarskýrslan staðfestir að enn er staða kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði, þrátt fyrir miklar framfarir, ólík. Samfélagið nýtir í vaxandi mæli mannauð kvenna í stjórnunarstörf­um þótt enn séu hindranir á vegi þeirra. Konur eru, eins og áður sagði, líklegri til að vinna hlutastörf og hverfa frekar af vinnumarkaði til að sinna ólaunuðum u­mönnunarstörf­um. Einnig kemur fram í skýrslunni að vinnuveitendur eru tregari til að fjárfesta í starfsþróun kvenna. Í umfjöllun um ráðningar og starfsþróunar­mál kemur í ljós að kynbundið misrétti á sér stað og að körlum eru oftar boðin hærri laun en konum. Þá eru konur líklegri til að taka fyrsta launatilboði sem býðst á meðan karlar gera frekar gagntilboð um hærri laun. Launamunar getur því myndast strax í ráðningarferlinu. Meðal tillagna skýrsluhöfunda er að stjórnvöld þurfi að brúa hið svokallaða u­mönnunartímabil milli fæðingarorlofs og leik­skóla. Bilið er í dag að miklu leyti brúað með því að móðirin er lengur í fæðingarorlofi og aðlagar vinnumarkaðsþátttöku sína að þörfum fjölskyldunnar. Þá benda skýrsluhöfundar á þá staðreynd að ábyrgðin á auknu jafnrétti á vinnumarkaði liggi ekki síður hjá stjórnendum stofnana og fyrirtækja en hjá starfsfólki. Atvinnurekendur verði að hvetja karla til að taka fæðingarorlof og veita bæði körlum og konum sveigjanleika vegna fjölskylduábyrgðar.
    Meðal verk­efna fram­kvæmda­nefnd­ar stjórnvalda á sviði launajafnréttis­mála og aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðar var að vinna að samræmingu launarannsókna, innleiðingu jafnlaunastaðals og aðgerðum gegn launamisrétti. Framkvæmda­áætlun ríkisstjórnarinnar leggur til að áfram verði unnið að fram­kvæmd og eftirfylgni þeirra verk­efna sem tilgreind eru í aðgerða­áætlun um launajafnrétti kynja. Framkvæmda­nefnd um launajafnrétti verði skipuð fulltrúum fimm ráðuneyta og með nefndinni starfi starfsmaður Jafnréttisstofu. Framkvæmda­nefnd hafi með höndum yfirumsjón og samhæfingu aðgerða Stjórnar­ráðsins til að draga úr launamun kynja á íslenskum vinnumarkaði.
    Mikilvægt er að hefja endurreisn fæðingarorlofskerfisins þannig að unnt verði að tryggja að markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof, um að tryggja barni samvistir við báða forelda sína og að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf, verði sem best náð. Í því skyni skipaði félags- og húsnæðis­mála­ráð­herra starfshóp um mótun til­lögu að framtíðarstefnu í fæðingarorlofs­málum í desember 2014 og lauk hann störf­um í mars 2016. Starfshópurinn var sam­mála um að það skuli vera meginmarkmið að báðir foreldrar nýti að fullu rétt sinn til fæðingarorlofs til að vera með börnum sínum, að foreldrar nýti sam­eigin­legan rétt sinn að jöfnu, að dregið verði úr tekjumissi foreldra meðan á orlofi stendur og að fæðingarorlofskerfið sé til þess fallið að jafna stöðu kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði. Til­lögurnar lúta að hærri hámarkgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og hærri tekjutryggingu fyrir þá sem hafa lægri en 300 þús. kr. í mánaðartekjur en einnig er fjallað um lengingu orlofsins og skiptingu þess milli foreldra. Loks er lagt til að bil milli fæðingarorlofs og leik­skólavistar verði brúað.
    Markmið Svanna – lánatryggingasjóðs kvenna er að styðja nýsköpun í atvinnurekstri kvenna með því að veita ábyrgðir á lánum. Verkefnið er unnið í samstarfi við fjár­mála­stofnanir og aðila sem veita ráðgjöf og handleiðslu við fram­kvæmd verk­efna. Sjóðurinn hefur nú starfað í fjögur ár og veitt 16 lánatryggingar. Stjórn sjóðsins hefur unnið að endur­skoðun hans og mun leggja til við eigendur áfram­haldandi starfsemi hans til næstu fjögurra ára.

C. KYN OG LÝÐRÆÐI

    Fjölmiðlar gegna veigamiklu hlutverki í lýðræðis­samfélagi og mikilvægt er að tryggja aðgengi allra að opinberri umræðu. Áratugum saman var birtingarmynd kvenna í fjölmiðlum sú að þær voru sýndar sem neytendur heimilis­varnings eða fylgihlutir karla. Fáar sögur voru sagðar af konum og ekkert viðtal var tekið við konu fyrstu fimm ár íslenskrar sjónvarpsfréttasögu. Lengi vel störfuðu konur ekki við fjölmiðla. Við lestur dagblaða fyrri tíma má g­löggt greina kynjaskekkju en fréttir af körlum eru þar í miklum meiri hluta. Samkvæmt upplýsingum frá Fjölmiðla­nefnd voru konur árið 1986 13% viðmælenda í sjónvarpsfréttum og áratug síðar voru þær með 32% sýnileika í öllum fjölmiðlum samkvæmt skýrslu mennta- og menningar­mála­ráðu­neytisins.
    Samkvæmt viðmælendakönnun Creditinfo á tímabilinu febrúar 2009 til ágúst 2013, sem unnin var fyrir Félag kvenna í atvinnulífinu, eru konur oftar viðmælendur í þáttum þar sem þjóðfélagsumræða fer fram heldur en í fréttum. Hlutur þeirra í þáttum var 30–35% en í fréttum 26–28%. Karlkyns viðmælendur eru því að meðaltali tvöfalt fleiri en kvenkyns í spjallþáttum ljósvakamiðlanna á sama tímabili og af viðmælendum í ljósvakafréttum eru að meðaltali um það bil þrefalt fleiri karlar. Samkvæmt sambærilegri viðmælendagreiningu sem gerð var fyrir vel­ferðar­ráðu­neytið fyrir tímabilið september 2014 til september 2015 hefur sýnileiki kvenna lítið sem ekkert breyst á árabilinu 2001–2015. Karlar eru 70% viðmælenda og konur 30% í fréttum RÚV og 365 miðla á tímabilinu september 2014 til september 2015.
    Miðað við hlutverk fjölmiðla og vald þeirra er ljóst að með því að breyta bæði birtingarmynd kynjanna og ekki síst samsetningu vinnuafls á fréttastofum og miðlum geti þeir gegnt lykilhlutverki við það að breyta staðalmyndum og valdaójafnvægi, uppræta hatursorðræðu og spegla samfélagið á réttlátari og betri hátt, ekki einungis með tilliti til vægis karla og kvenna heldur einnig minnihlutahópa al­mennt í íslensku samfélagi. Á gildistíma fram­kvæmda­áætlunarinnar er lagt til að mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið beiti sér fyrir fram­kvæmd könnunar á aðgengi og birtingarmyndum kvenna og karla, stúlkna og drengja í fjölmiðlum og vinni að stefnumótun og vitundarvakningu fjölmiðla á þessu sviði.
    Flótta­menn og hælisleitendur eru sundurleitur hópur með það eitt sam­eigin­legt að vera á flótta frá ofsóknum eða erfiðum aðstæðum í upprunalöndum sínum. Þeir koma úr ólíku um­hverfi á mismunandi forsendum og búa yfir ólíkri reynslu. Margir hafa sætt mismunun, t.d. vegna félagslegra og efnahagslegra þátta. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að hælisleitendur og flótta­menn geta upplifað margvísleg vanda­mál og misrétti í því landi þar sem þeir óska eftir vernd. Þá geta þarfir verið mismunandi milli hópa og einstaklinga, t.d. kvenna og karla. Ekki hefur verið fram­kvæmd heildar­rannsókn hér á landi varðandi áhrif kyns í hælis- og flótta­manna­málum og er í fram­kvæmda­áætluninni lagt til að innanríkis­ráðu­neytið beri ábyrgð á fram­kvæmd rannsóknar um stöðu hælisleitenda og flótta­manna út frá jafnréttis- og mannréttindasjónarmiðum.


D. KYNBUNDIÐ OFBELDI OG OFBELDI Í NÁNUM SAMBÖNDUM

    Hinn 18. desember 2014 skrifuðu félags- og húsnæðis­mála­ráð­herra, innanríkis­ráð­herra og mennta- og menningar­mála­ráð­herra undir samstarfsyfirlýsingu gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess, auka skyldi fræðslu og for­varnastarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldis­mála. Ráðherrarnir voru sam­mála um að efna til sam­ráðs á landsvísu milli félags­þjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfisins, lög­reglu og ákæruvalds undir forystu ráðuneytanna þriggja. Á vett­vangi landssam­ráðsins verði undirbúin aðgerða­áætlun til fjögurra ára gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og er nú verið að vinna að henni í vel­ferðar­ráðu­neytinu.
    Samstarfinu er einkum ætlað að ná til ofbeldis gegn börnum, ofbeldis í nánum samböndum, kynferðislegs, andlegs og líkamlegs ofbeldis sem og ofbeldis gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Til ofbeldis sem yfirlýsing þessi tekur til telst einnig hatursfull orðræða sem hvetur til ofbeldis eða annarrar refsiverðrar háttsemi sem er lítillækkandi eða ógnandi í garð einstaklinga eða hópa fólks, svo sem vegna þjóðernis, kynþáttar, trúar, fötlunar, kynhneigðar eða kyns. Meðal annarra verður eftirtöldum aðilum boðið til sam­ráðs um þessi mál: Barna­húsi, Barnaverndarstofu, Fjöl­menningarsetri, réttindavakt vel­ferðar­ráðu­neytisins, ríkis­lög­reglu­stjóra, ríkissaksóknara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, umboðs­manni barna og Vitundarvakningu um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum. Enn fremur verður leitað til frjálsra félagasamtaka sem koma að vel­ferð þessara hópa.
    Lögð verður áhersla á að bæta verklag og samvinnu allra sem tekið geta þátt í að draga úr ofbeldi, m.a. með því að auka for­varnir og fræðslu meðal barna, fólks sem vinnur með börnum, hjá réttarvörslukerfinu og meðal al­mennings. Efla á getu og hæfni lög­reglu við uppljóstrun ofbeldisbrota svo tryggja megi skjótan og öruggan framgang mála og auka þjálfun og menntun innan réttarvörslukerfisins til að taka á ofbeldis­málum. Efla skal getu og hæfni vel­ferðar­þjónustunnar til að veita þolendum ofbeldis uppbyggilegan stuðning og vernd. Styrkja skal samstarf lög­reglu, mennta- og barnaverndaryfirvalda og félags­þjónustu við rannsókn mála, aðstoða gerendur ofbeldis við að horfast í augu við vanda sinn og takast á við hann svo draga megi úr ofbeldi í samfélaginu. Ráðherrarnir leggja einnig áherslu á að koma á svæðisbundnu sam­ráði, sem m.a. er ætlað að bæta verklag við fyrirbyggjandi aðgerðir og ­rannsóknir ofbeldis­mála með sérstakri áherslu á ofbeldi gegn börnum og fötluðu fólki. Að samstarfinu komi félags­þjónusta, skólastjórnendur, sérfræði­þjónusta sveitarfélaga, barnaverndaryfirvöld, lög­reglu­stjórar og eftir atvikum réttindagæslu­menn fatlaðs fólks.
    Stýrihópur með fulltrúum ráðuneytanna þriggja hóf störf í haust til að vinna að framgangi yfirlýsingarinnar. Hefur vinna hópsins fram til þessa snúist um verklag og vinnu­áætlun, yfirlit og flokkun verk­efna í hverju ráðu­neyti og skörun verk­efna innan Stjórnar­ráðsins, undirbúning og skipulag landssam­ráðs. Þá hefur hópurinn látið vinna samantekt á helstu alþjóðasátt­málum og yfirlýsingum á umræddu sviði.
    Í mars 2015 ákvað félags- og húsnæðis­mála­ráð­herra að veita tveggja milljóna króna við­bótarframlag til meðferðarúrræðisins Karlar til ábyrgðar svo unnt væri að veita fleiri einstaklingum meðferð. Aðsókn í úrræðið hefur aukist jafnt og þétt frá því að það hófst að nýju árið 2006. Nýleg úttekt á úrræðinu hefur sýnt fram á marktækan árangur meðferðarinnar. Karlar til ábyrgðar hófst sem sérhæft meðferðarúrræði fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum en hefur nú verið útvíkkað þannig að það standi konum einnig til boða og ber nú heitið Heimilisfriður. Markmiðið er að bjóða upp á sérhæfða þjónustu fyrir konur og karla sem beitt hafa ofbeldi í nánum samböndum og tryggja sem besta nýtingu fjármagns til verk­efnisins. Meðferðin felst í einstaklingsviðtölum og hópmeðferð hjá sálfræðingum og miðar að því að fá gerendur ofbeldis til að viðurkenna ábyrgð og breyta hegðun sinni. Verkefnið er staðsett hjá vel­ferðar­ráðu­neytinu.

E. JAFNRÉTTI Í SKÓLASTARFI

    Í 23. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir m.a. að á öllum skóla­stigum skuli nemendur hljóta fræðslu um jafnréttis­mál og að kennslu- og námsgögn skuli vera þannig gerð að þau mismuni ekki kynjunum. Hugmyndir um jafnrétti kynja mótast á unga aldri og eru áhrifavaldar margir. Skólinn er stofnun sem getur veitt börnum og unglingum aðstoð við greiningu á valdakerfum og viðteknum hugmyndum samfélagsins. Með áherslu á samfélag jafnaðar, jafnréttis og réttlætis í mennta­málum er stefnt að því að inntak kennslu, kennsluhættir og námsum­hverfi stuðli að markmiðum jafnréttis­menntunar. Jafnréttis­ráðgjafi í mennta- og menningar­mála­ráðu­neytinu veitir upplýsingar, aðstoð og eftirfylgni. Áhersla verður lögð á verk­efni sem veita öllum jöfn tækifæri til að þroskast á eigin forsendum og rækta hæfileika sína í námi, listsköpun, íþróttum og öðrum áhuga­málum. Jafnframt er stefnt að því að skapa rannsóknarum­hverfi sem fellur jafnt að kvenlægu sem karllægu gildismati. Íslendingar sækja íþrótta- og aðra menningarviðburði vel og nota gjarnan frítíma sinn til listrænnar sköpunar og vinnu við menningarstarfsemi. Munur er hins vegar á menningarneyslu kynja og verður leitast við að stuðla að jöfnum tækifærum fyrir konur og karla.

F. KARLAR OG JAFNRÉTTI

    Starfshópur þáverandi vel­ferðar­ráð­herra um karla og jafnrétti skilaði skýrslu í apríl 2013 með fimmtán til­lögum um leiðir til að auka þátttöku karla í umræðu um jafnréttis­mál. Í vinnu starfshópsins var leitast við að finna jafnvægi á milli ólíkra viðhorfa til hlutverks karla í umræðum um jafnréttis­mál og tók skipun starfshópsins mið af því að skapa grundvöll umræðu aðila með ólíkan bakgrunn og reynslu á sviðinu. Til að takast á við svo vítt svið sem jafnréttis­mál eru kaus starfshópurinn að afmarka umfjöllunarefni sitt við fimm áherslusvið. Slík afmörkun var talin auðvelda framsetningu og gefa umræðum innan hópsins skýrari ramma. Skýrslunni, ásamt til­lögum til vel­ferðar­ráð­herra, er því skipt í eftirfarandi kafla: Karlar og ofbeldi – kynbundið ofbeldi; Karlar og u­mönnunarstefna – fæðingarorlof og forsjá barna; Karlar, heilsa og lífsgæði; Karlar, klám og vændiskaup; Karlar, menntun og kynskiptur vinnumarkaður.
    Í til­lögunum bendir starfshópurinn á nauðsyn þess að efla rannsóknir á ýmsum sviðum jafnréttis­mála. Sérstaklega telur starfshópurinn að rannsóknir á vændi þurfi að stórefla þar sem varpa þurfi ljósi á karla sem vændiskaupendur. Efla þarf rannsóknir á ofbeldis­menningu og þætti karla í henni, bæði hvað varðar ofbeldi í nánum samböndum en ekki síður ofbeldi karla al­mennt.
    Starfshópurinn telur að rannsaka þurfi efnahags- og félagslega stöðu meðlagsgreiðenda sem í flestum tilfellum eru karlar. Þá telur starfshópurinn að kanna verði þörf námskeiðs fyrir foreldra um afleiðingar skilnaðar á börn sem hefðu það að markmiði að milda neikvæð áhrif skilnaða og styrkja markmið um jöfnun foreldraábyrgðar. Starfshópurinn leggur til að báðir foreldrar verði skyldugir til að taka fæðingarorlof fyrstu tvær vikur eftir fæðingu barns. Þá er mælst til að gert verði átak til þess að efla hlut karla í u­mönnunarstörf­um, sérstaklega innan starfsgreina á borð við hjúkrun og leik­skóla. Í fram­kvæmda­áætluninni er lagt til að til­lögum nefnd­ar­innar verði hrint í fram­kvæmd. Skipaður verði sérstakur aðgerðahópur um verk­efnið og ráðinn sérfræðingur til að vinna með hópnum.
    Í janúar 2015 stóð Ísland ásamt Súrínam fyrir svo­nefndri rakarastofu­ráðstefnu (e. Barbershop Conference) í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem sjónum var beint að hlutverki karla í jafnréttisbaráttunni. Þátttakendur voru á fimmta hundraðið, þar á meðal stjórn­mála­menn, fastafulltrúar aðildarríkja og aðrir diplómatar og starfs­menn Sameinuðu þjóðanna, sérfræðingar og fulltrúar félagasamtaka. Var ráðstefnan haldin í samhengi við 20 ára afmæli aðgerða­áætlunarinnar sem samþykkt var á kvenna­ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking og jafnframt sem framlag til HeForShe-herferðar UN Women. Markmiðið með ráðstefnunni var að virkja karla og drengi í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og stuðla að umræðu um samskipti kynjanna og kynhlutverk. Sérstök áhersla var lögð á það brot á mannréttindum sem útbreiddast er í heiminum, ofbeldi gegn konum, en það er eitt af tólf áherslusviðum Peking-aðgerða­áætlunarinnar. Utanríkis­ráðu­neytið hefur einnig staðið fyrir rakarastofu­ráðstefnum já Mannréttinda­ráði Sameinuðu þjóðanna í Genf og hjá Atlantshafsbandalaginu (NATO) í Brussel og er markmiðið að halda slíkar ráðstefnur í öllum helstu alþjóða­stofnunum sem Ísland á aðild að, en ráðu­neytið mun jafnframt hvetja karla til að taka undir markmið HeforShe-herferðar UN Women í samræmi við skuldbindingar Íslands í IMPACT-átaki UN Women. Markmið verk­efnisins er að einn af hverjum fimm karl­mönnum á Íslandi gangi til liðs við átakið fyrir árslok 2016 og verður herferð lands­nefnd­ar UN Women studd til að ná megi því markmiði.
    Sigurður Ingi Jóhannsson forsætis­ráð­herra er einn tíu þjóðarleiðtoga sem leiða nýtt verk­efni HeforShe, svokallað IMPACT 10x10x10. Leiðtogarnir tíu munu takast á hendur mikilvægar skuldbindingar til að ná jafnrétti bæði innan lands og á heimsvísu. Skuldbindingarnar eru unnar í samstarfi við UN Women, jafnréttis­stofnun Sameinuðu þjóðanna.
     IMPACT 10x10x10 verk­efnið var fyrst kynnt í janúar á World Economic Forum í Davos í Sviss. Það leiðir saman leiðtoga tíu þjóða, tíu fyrirtækja og tíu mennta­stofnana um allan heim. Allir þrjátíu leiðtogarnir hafa skuldbundið sig til að takast á við mismunandi þætti kynjamisréttis en skuldbindingar Íslands snúa m.a. að því að útrýma launamun á Íslandi fyrir 2022, jafna hlut kynjanna í fjölmiðlum fyrir 2020 og fá fleiri karla til liðs við jafnréttisbaráttuna bæði á Íslandi og á alþjóða­vett­vangi. Hópurinn mun svo vinna saman til að nýta reynsluna af fram­kvæmd verk­efnanna til að hvetja aðra leiðtoga til að taka upp sömu málefni í sínum ríkjum, fyrirtækjum og há­skólum.

G. ALÞJÓÐASTARF

    Verkefnið Staða jafnréttis­mála á norðurslóðum verði unnið á vett­vangi vinnuhóps Norðurskauts­ráðsins um sjálfbæra þróun sem var hluti af for­mennsku­áætlun Íslands í Norrænu ráð­herra­nefndinni árið 2014. Takmörkuð þátttaka kvenna er á sviði vísinda, viðskipta og stjórnsýslu á norðurslóðum og konur kjósa frekar að flytja frá jaðarsvæðum norðurslóða sem má að einhverju leyti rekja til þess að atvinnutækifæri á svæðinu virðast höfða meira til karla. Verkefnið mun fylgja eftir alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var í október 2014 á vegum utanríkis­ráðu­neytisins í samvinnu við Jafnréttisstofu, norðurslóðanet Íslands og samstarfsríki innan Norðurskauts­ráðsins um stöðu kynjanna á norðurslóðum og ólíka aðkomu þeirra að stefnumótun og ákvarðanatöku í málefnum er varða samfélags- og hagþróun. Tilgangur ráðstefnunnar var að fylgja eftir stefnu Íslands í málefnum norðurslóða og efla þátttöku og rödd kvenna í umræðu og ákvarðanatöku um málefnið.
    Þátttakendur voru um 120 frá níu löndum á norðurhveli jarðar. Tilgangurinn með ráðstefnunni var að stuðla að víðtækri, markvissri umræðu um jafnréttis­mál samtímans. Einnig að beina sjónum að áskorunum sem framtíðin kann að bera í skauti sér með tilliti til þeirra loftslags- og um­hverfis­breytinga sem eru að verða og í samhengi við efnahags- og félagslega þróun ríkja og samfélaga á norðurslóðum. Utanríkis­ráð­herra Íslands flutti opnunarávarp á ráðstefnunni og Tarja Halonen, fyrrverandi forseti Finnlands, var meðal þátttakenda. Sérstök ráðstefnuskýrsla var gefin út í apríl 2015 þar sem gerð var grein fyrir efni og niðurstöðum ráðstefnunnar. Einnig er stefnt að stofnun alþjóðlegs samstarfsnets um jafnréttis­mál og norðurslóðir og uppsetningu vefgáttar til að tengja saman ólíka hagsmunaaðila.
    Um­hverfis- og auðlinda­ráðu­neytið og utanríkis­ráðu­neytið, fyrir hönd Íslands, lögðu áherslu á kynjasjónarmið í samningaviðræðunum um nýtt alþjóðlegt samkomulag sem samþykkt var á vett­vangi Sameinuðu þjóðanna í desember 2015. Í alþjóðlegum samningaviðræðum um loftslags­mál hefur Ísland haldið uppi sjónarmiðum kynjajafnréttis og aukinnar þátttöku kvenna í ákvarðanatöku og aðgerðum og náðst þar þónokkur árangur. Sem dæmi má nefna að á 18. ríkja­ráðstefnu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, sem haldin var í Doha í Katar í árslok 2012, var í fyrsta skipti haldinn þemadagur tileinkaður jafnréttis­málum. Á ráðstefnunni var samþykkt sérstök ákvörðun um jafnréttis­mál sem m.a. fjallar um bætt kynjahlutföll í stofnunum samningsins og eru jafnréttis­mál gerð að föstum dagskrárlið innan samningsins í framtíðinni. Evrópusambandið lagði fram drög að ákvörðuninni, ekki síst að frum­kvæði Mary Robinson Foundation, en Ísland tók mikinn þátt í ferlinu. Á ráðstefnunni í Doha hélt Ísland vel heppnaðan hliðarviðburð í samvinnu við Noreg, Danmörku og Úganda um þróunarsamvinnuverk­efni í Úganda sem snýst um að kynjasamþætta vinnu stjórnvalda varðandi loftslags­mál. Verkefnið beinist fyrst og fremst að því að koma jafnréttissjónarmiðum inn í aðgerðir til að vinna gegn loftslags­breytingum sem og aðgerðum til að aðlagast loftslags­breytingum og auka færni og þekkingu fólks til að vinna að verk­efnum á sviði jafnréttis og loftslags­breytinga. Efnt hefur verið til ráðstefna í Úganda, gerð heimildarkvikmynd og gefið út fræðsluefni.
    Þróunarsamvinnuverk­efni Íslands tengd loftslags­málum taka mið af kynjasjónarmiðum eins og öll þróunarsamvinna Íslands. Þrjú verk­efni fjalla beinlínis um þau. Ísland, í samvinnu við Noreg og Danmörku, heldur úti áður­nefndu verk­efni um kyn og loftslags­mál í Úganda og styrkir annað verk­efni ásamt FAO (Matvæla- og landbúnaðar­stofnun Sameinuðu þjóðanna) um kynbundin áhrif loftslags­breytinga á fiskveiðisamfé­lög í tilteknum Afríkulöndum auk þess að styrkja verk­efnið Women's Delegate Fund. Síðast­nefnda verk­efnið snýr að því að styrkja konur frá fátækustu þróunarríkjunum til þess að taka þátt fyrir hönd sinna ríkja í loftslagsviðræðunum. Þær fá þjálfun í samningaviðræðum og beita sér mikið í jafnréttis­málum á vett­vangi loftslagssamningsins svo segja má að verk­efnið hafi tvöföld jákvæð áhrif út frá markmiðum Íslands. Íslenska sendi­nefndin hefur átt gott samstarf við þessar konur, auk mikils samstarfs við UN Women og óháð félagasamtök sem vinna að jafnréttis­málum innan loftslagssamningsins.

Fylgiskjal.


Skýrsla félags- og húsnæðis­mála­ráð­herra um stöðu og þróun jafnréttis­mála 2013–2015.


www.althingi.is/altext/pdf/145/fylgiskjol/r0001-f_I.pdf