Ferill 765. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 1285  —  765. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um fram­kvæmda­áætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016–2019.

(Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




    Alþingi ályktar að fram­kvæmdir í málefnum innflytjenda skuli miða að því að tryggja jöfn tækifæri allra lands­manna, óháð einstaklingsbundnum þáttum og aðstæðum. Í því skyni verði lögð áhersla á fimm stoðir:
     a.      Samfélagið. Íslenskt samfélag verði fjölskylduvænt þar sem allir þjóðfélagsþegnar búi við jöfn tækifæri og öryggi og njóti lögvarinna réttinda. Stuðlað verði að samheldni heildar­innar með jöfnu aðgengi allra að þátttöku í samfélaginu og þekkingu á réttindum og skyldum gagnvart því.
     b.      Fjölskyldan. Íslenskt samfélag taki mið af þörfum ólíkra fjölskyldugerða. Samfélagið skapi góð skilyrði fyrir allar fjölskyldur, ekki síst barnafjölskyldur, óháð þjóðerni og uppruna, sambærileg við það sem best þekkist, og styðji þær til þeirra verk­efna sem þær standa frammi fyrir.
     c.      Menntun. Innflytjendur njóti jafnrar stöðu og tækifæra til náms í raun. Hugað verði sérstaklega að menntun innflytjenda. Mat á menntun verði skilvirkt og unnið að því að verulega dragi úr brotthvarfi innflytjenda úr námi.
     d.      Vinnumarkaður. Stuðlað verði að því að fjölbreyttur bakgrunnur fólks leiði til betri og samkeppnishæfari vinnumarkaðar. Lögð verði áhersla á að kraftar innflytjenda nýtist í opinberum störf­um ekki síður en í einkageiranum til hags­bóta fyrir samfélagið allt.
     e.      Flóttafólk. Íslenskt samfélag aðstoði og veiti alþjóðlega vernd þeim einstaklingum sem slíkrar verndar þarfnast. Hugað verði strax að þeim umfangsmiklu breytingum sem eiga sér stað á alþjóðavísu og þeim áhrifum sem þær hafa á íslenskt samfélag.
    Alþingi ályktar, sbr. 7. gr. laga um málefni innflytjenda, nr. 116/2012, að samþykkja eftirfarandi áætlun:

FRAMKVÆMDAÁÆTLUN Í MÁLEFNUM INNFLYTJENDA FYRIR ÁRIN 2016–2019

A. Samfélagsstoð.
    Lögð verði áhersla á að draga fram tækifærin sem felast í ólíkum menningarlegum bakgrunni lands­manna og nýta þekkingu innflytjenda til að efla íslenskt samfélag. Hugað verði að góðu aðgengi innflytjenda að opinberum þjónustu­stofnunum, bæði á vett­vangi ríkis og sveitarfélaga, og að þjónusta stofnananna mæti þörfum samfélagsins alls. Auk þess verði lögð áhersla á að aðgerðirnar stuðli að virkri þátttöku innflytjenda í samfélaginu. Leitast verði við að ná breiðri samstöðu með félagasamtökum, fjölmiðlum, atvinnulífi og innflytjendum við fram­kvæmd aðgerða.
    Lögð verði áhersla á eftirfarandi þætti fyrir þróun samfélagsins:
     1.      Samfélagsviðhorf.
     2.      Samfélagsþátttöku innflytjenda.
     3.      Aðgang innflytjenda að þjónustu ríkis og sveitarfélaga.

A.1. Mælingar á viðhorfum.
     Markmið: Að öðlast þekkingu á viðhorfum samfélagsins til innflytjenda á gildistíma fram­kvæmda­áætlunarinnar. Þekkingin verði nýtt til að rýna árangur tiltekinna aðgerða og meta hvort nýrra sé þörf.
     Framkvæmd: Spurningar um málefni er varða innflytjendur og samfélagsvitund verði lagðar fyrir al­menning í reglulegum viðhorfskönnunum auk þess sem könnuð verði viðhorf nemenda í grunn- og fram­halds­skólum. Þetta verði gert við upphaf fram­kvæmda­áætlunarinnar og þannig mótuð grunnlína viðhorfa sem hægt verður að miða við þegar árangur aðgerða áætlunarinnar verður metinn. Aðgerðin verði endurtekin á tveggja ára fresti. Niðurstöður verði síðar vistaðar í félagsvísum.
     Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Sérfræðingar á sviði félagsvísindarannsókna, mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið, Fjöl­menningarsetur og innflytjenda­ráð.
     Mælikvarði: Samanburður á niðurstöðum kannana.
     Hagaðilar/markhópur: Samfélagið.
     Tímabil: 2016 og 2018.
     Kostn­aður: 2,5 m.kr.
     Niðurstaða: Marktækt mælitæki.

A.2. Kynning.
     Markmið: Að auka vitund um fjölbreytni samfélagsins og stuðla að aukinni þekkingu á þeim tækifærum og verk­efnum sem í því felast.
     Framkvæmd: Sett verði af stað kynningarverk­efni þar sem áhersla verði lögð á þróun innflytjenda­mála á Íslandi, tækifæri og framlag innflytjenda til samfélagsins. Leitað verði eftir samstarfi við fé­lög og hagsmunasamtök innflytjenda.
     Ábyrgð: Innflytjenda­ráð.
     Samstarfsaðilar: Fé­lög og hagsmunasamtök innflytjenda, vel­ferðar­ráðu­neytið, Fjöl­menningarsetur, aðilar vinnumarkaðarins, Rauði krossinn á Íslandi, fjölmiðlar og ­sveitarfé­lög.
     Mælikvarði: Eftir að niðurstöður fást úr fyrstu könnun samkvæmt lið A.1 setji innflytjenda­ráð fram mælanleg markmið fyrir næstu kannanir.
     Hagaðilar/markhópur: Samfélagið allt.
     Tímabil: 2016–2018.
     Kostn­aður: 10 m.kr.
     Niðurstaða: Kynningarverk­efni sem nær víðtækri athygli og eykur þekkingu al­mennings á málefnum innflytjenda.

A.3. Hvatningarverðlaun.
     Markmið: Að stuðla að faglegri, vandaðri og upplýsandi umfjöllun um innflytjendur og þátttöku þeirra í samfélaginu.
     Framkvæmd: Velferðar­ráðu­neytið óski eftir tilnefningum frá al­menningi, fyrirtækjum og stofnunum til hvatningarverðlauna vel­ferðar­ráðu­neytisins.
    Innflytjenda­ráð veiti hvatningarverðlaun sem falli að skilgreiningum einhvers þessara undirflokka:
     1.      Til fjölmiðils sem skarað hefur fram úr með faglegri umfjöllun um málefni innflytjenda og þátttöku þeirra í samfélaginu.
     2.      Til opinberrar stofnunar sem skarað hefur fram úr með því að veita þjónustu sem tekur mið af þörfum innflytjenda.
     3.      Til fyrirtækis sem skarað hefur fram úr með því að virkja hæfni og færni innflytjenda.
     4.      Til einstaklings eða félagasamtaka sem skarað hafa fram úr með vinnu í þágu hagsmuna innflytjenda í samfélaginu.
     Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Innflytjenda­ráð.
     Mælikvarði: Aukinn sýnileiki innflytjenda í samfélaginu og umræða um þróun innflytjenda­mála.
     Hagaðilar/markhópur: Samfélagið.
     Tímabil: 2016–2019.
     Kostn­aður: 1 m.kr.
     Niðurstaða: Hvatningarverðlaun veitt árlega.

A.4. Fræðsla til starfsfólks ríkis og sveitarfélaga.
     Markmið: Að auðvelda aðgengi innflytjenda að opinberri þjónustu og efla faglega þekkingu starfsfólks á menningarnæmi og -færni.
     Framkvæmd: Stofnaður verði starfshópur sem undirbúi fræðslu fyrir starfsfólk ríkis og ­sveitarfélaga. Haldin verði námskeið fyrir starfsfólk í framlínu þjónustu­stofnana og sérfræðinga í nær­þjónustu, svo sem félags­ráðgjafa, hjúkrunarfræðinga, kennara og lög­reglu­þjóna.
     Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Fé­lög og hagsmunasamtök innflytjenda, ríkis­stofnanir, mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið, sveitarfé­lög, stéttarfé­lög, Barnaverndarstofa, Samband íslenskra ­sveitarfélaga, Fjöl­menningarsetur og innflytjenda­ráð.
     Mælikvarðar: Meira en helmingur opinberra stofnana ríkis og sveitarfélaga fræði starfsfólk sitt á tímabilinu. Markmið verði sett um aukna ánægju notenda með viðmót og þekkingu starfsfólks stofnana.
     Hagaðilar/markhópur: Starfsfólk þjónustu­stofnana og innflytjendur.
     Tímabil: 2016–2019.
     Kostn­aður: 8 m.kr.
     Niðurstaða: Samþætt stjórnsýsla og þjónusta hins opinbera, ásamt fræðslu­áætlun og námskeiðsgögnum.

A.5. Málþing innflytjenda.
     Markmið: Að auka og efla lýðræðislega þátttöku innflytjenda, samstarf félags- og hagsmunasamtaka innflytjenda, áhrif þeirra á hagsmuna­mál sín og þátttöku þeirra í stjórn­málum.
     Framkvæmd: Skipuð verði undirbúnings­nefnd sem haldi tvö málþing á tímabilinu til að stuðla að auknu samstarfi félags- og hagsmunasamtaka innflytjenda frá öllum landsvæðum og efla lýðræðisleg félagasamtök þeirra.
     Ábyrgð: Innflytjenda­ráð.
     Samstarfsaðilar: Fé­lög og hagsmunasamtök innflytjenda, sveitarfé­lög, vel­ferðar­ráðu­neytið og innanríkis­ráðu­neytið.
     Mælikvarði: Virkni og sýnileiki lýðræðislegra félaga og hagsmunasamtaka innflytjenda og þátttaka innflytjenda í lýðræðislegu starfi í samfélaginu. Fulltrúar allra lýðræðislegra samtaka innflytjenda taki þátt í málþingunum.
     Hagaðilar/markhópur: Innflytjendur og fé­lög og hagsmunasamtök þeirra.
     Tímabil: 2016 og 2018.
     Kostn­aður: 1 m.kr.
     Niðurstaða: Aukið samstarf milli félaga og hagsmunasamtaka innflytjenda og aukið sam­ráð við stjórnvöld, aukin virkni og sýnileiki og al­mennt aukin lýðræðisþátttaka innflytjenda í samfélaginu.

B. Fjölskyldustoð.
    Lögð verði áhersla á upplýsingagjöf til innflytjenda fyrst eftir komu til landsins. Sveitarfé­lög setji saman móttöku­áætlanir í þeim tilgangi að stuðla að farsæld frá upphafi búsetu í nýju landi og að innflytjendur njóti sömu tækifæra og aðrir hvað varðar húsnæðis­öryggi og al­menna vel­ferð. Fundnar verði leiðir til að varpa ljósi á aðstæður innflytjenda á húsnæðismarkaði og vinna að bættu húsnæðis­öryggi. Í þessu sambandi verði einkum lögð áhersla á stuðning við þá hópa innflytjenda sem standa höllum fæti og skortir stuðningsnet hér á landi.
    Lögð verði áhersla á eftirfarandi þætti fyrir þróun samfélagsins:
     1.      Móttöku­áætlun.
     2.      Húsnæðis­mál.
     3.      Velferð.
B.1. Samstarfsteymi helstu stofnana sem koma að skráningu erlendra ríkisborgara.
     Markmið: Að efla samstarf stofnana sem koma að nýskráningu innflytjenda í íslenskt samfélag til einföldunar fyrir innflytjendur. Áhersla verði lögð á að bæta þjónustu og upplýsingagjöf til innflytjenda og sveitarfélaga um nýja íbúa.
     Framkvæmd: Stofnað verði samstarfsteymi Fjöl­menningarseturs, ríkisskattstjóra, Sjúkratrygginga Íslands, Vinnu­mála­stofnunar, Út­lend­inga­stofnunar og Þjóðskrár Íslands.
     Ábyrgð: Innanríkis­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Velferðar­ráðu­neytið, Fjöl­menningarsetur, ríkisskattstjóri, Sjúkratryggingar Íslands, Vinnu­mála­stofnun, Út­lend­inga­stofnun, sveitarfé­lög, innflytjenda­ráð og Þjóðskrá Íslands.
     Mælikvarði: Fækkun tilkynninga um rangskráningar og fækkun nýskráninga í utangarðsskrá.
     Hagaðilar/markhópur: Nýkomnir innflytjendur og nær­þjónusta við innflytjendur.
     Tímabil: 2016–2019.
     Kostn­aður: Innan ramma.
    Niðurstaða: Samþætt stjórnsýsla og þjónusta hins opinbera og skilvirkara skráningarferli.

B.2. Fyrirmynd að móttöku­áætlun.
     Markmið: Að stuðla að því að vel sé tekið á móti nýkomnum innflytjendum.
     Framkvæmd: Settur verði á fót starfshópur sem fái það hlutverk að semja fyrirmynd að formlegri móttöku­áætlun fyrir sveitarfé­lög. Starfshópurinn vinni meðal annars að því að auðvelda aðgengi að upplýsingum og þjónustu á fyrstu vikum og mánuðum sem einstaklingar og fjölskyldur búa á Íslandi. Hann vinni einnig að bættri upplýsingagjöf um nær­þjónustu til innflytjenda. Starfshópurinn hlutist til um að sveitarfé­lög taki þátt í reynsluverk­efni sem snýr að gerð og innleiðingu móttöku­áætlunar og upplýsingagjöf sveitarfélaga til innflytjenda, sbr. lið B.4.
     Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfé­lög, innanríkis­ráðu­neytið, Þjóðskrá Íslands, Út­lend­inga­stofnun, innflytjenda­ráð, Rauði krossinn á Íslandi og Fjöl­menningarsetur.
     Mælikvarði: Stefnt verði að því að minnst 15 sveitarfé­lög hafi tekið upp formlega móttöku­áætlun í lok árs 2019 og að þau sveitarfé­lög nái til þorra innflytjenda á Íslandi.
     Hagaðilar/markhópur: Opinberir þjónustuaðilar og innflytjendur.
     Tímabil: 2016–2019.
     Kostn­aður: Innan ramma.
     Niðurstaða: Fyrirmynd að móttöku­áætlun liggi fyrir.

B.3. Upplýsingagjöf til innflytjenda fyrst eftir komu til Íslands.
     Markmið: Að auðvelda aðgengi innflytjenda að upplýsingum fyrst eftir komuna til Íslands.
     Framkvæmd: Annars vegar verði upplýsingar sendar/afhentar með gögnum sem meðal annars Þjóðskrá Íslands dreifir um búsetu á Íslandi. Þar komi fram hvar sé hægt að nálgast upplýsingar um réttindi og skyldur er varða dvöl á Íslandi og þá þjónustuaðila sem viðkomandi þarf líklegast að leita til á fyrstu vikum og mánuðum dvalar. Hins vegar verði gerð myndbönd um umsóknar- og skráningarferli þar sem upplýsingar verði settar fram á einfaldan hátt.
     Ábyrgð: Innanríkis­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Velferðar­ráðu­neytið, Þjóðskrá Íslands, Út­lend­inga­stofnun, ríkisskattstjóri, Vinnu­mála­stofnun, Fjöl­menningarsetur, sveitarfé­lög og innflytjenda­ráð.
     Mælikvarði: Fjölgun heimsókna um þriðjung til stofnana sem vísað er til og á vefi þeirra.
     Hagaðilar/markhópur: Nýkomnir innflytjendur.
     Tímabil: 2016–2019.
     Kostn­aður: 3 m.kr.
     Niðurstaða: Allir innflytjendur fái viðeigandi upplýsingar um stöðu sína og hvar upplýsingarnar sé að finna.

B.4. Upplýsingar til innflytjenda frá sveitarfé­lögum.
     Markmið: Að stuðla að markvissri upplýsingagjöf sveitarfélaga til nýrra íbúa um helstu þjónustu sveitarfélagsins.
     Framkvæmd: Farið verði af stað með reynsluverk­efni, á grundvelli nýskráningar í þjóðskrá, þar sem nokkur sveitarfé­lög sendi upplýsingar til innflytjenda um helstu þjónustu ­sveitarfélagsins.
     Ábyrgð: Innanríkis­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Þjóðskrá Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, innflytjenda­ráð og ­sveitarfé­lög sem taka þátt í verk­efninu.
     Mælikvarði: Sjálfstætt mat á árangri verk­efnisins og yfirfærslugildi þess.
     Hagaðilar/markhópur: Nýkomnir innflytjendur og sveitarfé­lög.
     Tímabil: 2016–2019.
     Kostn­aður: 2 m.kr.
     Niðurstaða: Upplýsingar sendar frá sveitarfé­lögum til nýkominna innflytjenda.

B.5. Innflytjendur á húsnæðismarkaði.
     Markmið: Að jafna stöðu innflytjenda á húsnæðismarkaði við það sem al­mennt gerist á Íslandi.
     Framkvæmd: Rýnt verði í niðurstöður rannsókna á vegum þróunarsjóðs innflytjenda­mála á stöðu innflytjenda á húsnæðismarkaði, sem og niðurstöður annarra rannsókna og gagna sem fjalla um málið, og ráðist í viðeigandi aðgerðir.
     Ábyrgð: Innflytjenda­ráð.
     Samstarfsaðilar: Velferðar­ráðu­neytið, rannsóknaraðilar og há­skóla­samfélagið, Rauði krossinn á Íslandi og önnur viðeigandi fé­lög og hagsmunasamtök.
     Mælikvarði: Innflytjenda­ráð skilgreini mælikvarða fyrir þær aðgerðir sem það leggur til og skulu þeir meðal annars byggjast á framangreindum rannsóknum.
     Hagaðilar/markhópur: Innflytjendur.
     Tímabil: 2016–2018.
     Kostn­aður: Aðgerðir verði ákvarðaðar samkvæmt niðurstöðum rannsókna og frekari umfjöllunar innflytjenda­ráðs.
     Niðurstaða: Upplýsingar sem gefa greinargóða lýsingu á stöðu innflytjenda á húsnæðismarkaði. Í fram­haldi verði aðstæður metnar og farið í fram­kvæmdir ef nauðsyn krefur.

B.6. Þátttaka barna og ung­menna í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
     Markmið: Að auka þátttöku barna og ung­menna af erlendum uppruna í skipu­lögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi sem og öðru tómstundastarfi og draga úr brotthvarfi þeirra úr slíku starfi.
     Framkvæmd: Stofnaður verði starfshópur sem leiti leiða til að vinna með sveitarfé­lögum og frjálsum félagasamtökum að framangreindum markmiðum. Starfshópurinn útbúi til­lögur um aðgerðir til að ná til innflytjenda af ólíkum uppruna. Einnig verði búið til og gert aðgengilegt fyrir börn og foreldra efni á algengustu tungu­málum um íþrótta- og æskulýðsstarf ásamt leiðbeiningum til íþrótta- og æskulýðsfélaga um leiðir til að ná til og virkja börn og ung­menni af erlendum uppruna sem og foreldra þeirra.
     Ábyrgð: Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Velferðar­ráðu­neytið, innflytjenda­ráð, Æskulýðs­vett­vangurinn, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfé­lög, ÍSÍ, Landssamband æskulýðsfélaga og félagasamtök innflytjenda.
     Mælikvarði: Mæling var gerð árið 2008. Spurningar úr þeirri könnun verði lagðar fyrir að nýju við upphaf og lok aðgerðarinnar. Starfshópurinn skilgreini mælikvarða fyrir þær aðgerðir sem hann leggur til, m.a. verði horft til niðurstaðna kannana sem gerðar eru á líðan og högum barna og ung­menna í grunn- og fram­halds­skólum.
     Hagaðilar/markhópur: Börn og ung­menni af erlendum uppruna.
     Tímabil: 2016–2019.
     Kostn­aður: 5,5 m.kr.
     Niðurstaða: Fleiri börn taki þátt í skipu­lögðu tómstundastarfi og aukin vellíðan hjá börnum af erlendum uppruna og minna brotthvarf úr skipu­lögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.

B.7. Stuðningur við konur sem hafa búið við heimilisofbeldi.
     Markmið: Að efla stuðningsnet kvenna af erlendum uppruna sem búið hafa við heimilisofbeldi og draga þannig úr heimilisofbeldi.
     Framkvæmd: Stofnaður verði starfshópur sem útbúi fræðslu­áætlun og námskeið fyrir konur af erlendum uppruna sem búa við félagslega erfiðleika og lítið stuðningsnet.
     Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Innflytjenda­ráð, innanríkis­ráðu­neytið, lög­reglan, Barnaverndarstofa, félags­þjónusta sveitarfélaga, heilsugæsla, Samtök um kvennaathvarf, fé­lög og hagsmunasamtök innflytjenda og mögulega önnur félagasamtök.
     Mælikvarði: Fjöldi kvenna sem tekur þátt í námskeiðunum eða hefur fengið fræðslu með öðrum hætti.
     Hagaðilar/markhópur: Konur sem dvalist hafa í Kvennaathvarfinu og aðrar konur af erlendum uppruna sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi.
     Tímabil: 2016–2018.
     Kostn­aður: 5 m.kr.
     Niðurstaða: Fleiri úrræði og sterkara stuðningsnet fyrir konur sem verða fyrir heimilisofbeldi. Minna ofbeldi gegn innflytjendum.

B.8. Ofbeldi.
     Markmið: Að vinna gegn ofbeldi í garð innflytjenda og meðal þeirra.
     Framkvæmd: Stofnaður verði starfshópur sem leggi drög að rannsóknum á ofbeldi í garð innflytjenda og meðal þeirra hér á landi. Hópurinn leggi mat á þær rannsóknir sem þegar hafa verið unnar. Út frá rannsóknarniðurstöðum og annarri þekkingu sem liggur fyrir verði lagðar til aðgerðir til að vinna gegn ofbeldi, þ.e. hatursorðræðu, andlegu ofbeldi út frá uppruna, heimilisofbeldi og hvers konar öðru ofbeldi. Sérstaklega verði hugað að börnum í framangreindum aðstæðum.
     Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Innanríkis­ráðu­neytið, lög­reglan, innflytjenda­ráð, Barnaverndarstofa, félags­þjónusta og barnaverndar­nefndir, heilsugæsla, verk­efnastjórn sam­ráðshóps um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, Mannréttindaskrifstofa Íslands og aðrar viðeigandi opinberar stofnanir og félagasamtök.
     Mælikvarði: Tölfræðiupplýsingar frá lög­reglu og fjöldi verk­efna sem hefur fengið styrk úr þróunarsjóði innflytjenda­mála eða frá samstarfsaðilum. Starfshópurinn skilgreini mælikvarða fyrir þær aðgerðir sem hann leggur til sem byggist meðal annars á þeim rannsóknum sem fram­kvæmdar verða.
     Hagaðilar/markhópur: Innflytjendur.
     Tímabil: 2016–2019.
     Kostn­aður: 5 m.kr.
     Niðurstaða: Skýrar rannsóknarniðurstöður sem sýna hvað þurfi að gera til þess að draga úr ofbeldi gegn innflytjendum. Minna ofbeldi í garð innflytjenda.

C. Menntastoð.
    Lögð verði áhersla á jafna stöðu og tækifæri til menntunar og að þekking og reynsla innflytjenda sé metin. Börn og ung­menni með annað móður­mál en íslensku njóti sömu tækifæra til náms og önnur börn og ung­menni.
    Unnið verði markvisst gegn brottfalli innflytjenda úr fram­halds­skólum með stuðningi á öllum skóla­stigum, m.a. með aukinni áherslu á kennslu í móður­máli þeirra barna sem hafa annað móður­mál en íslensku.
    Efld verði gæði og framboð íslenskukennslu fyrir innflytjendur þannig að íslenska nýtist einstaklingum til virkrar þátttöku í samfélaginu. Til að bæta þjónustu samfélagstúlka verði útbúið námskeið fyrir túlka og haldin stöðupróf í nokkrum tungu­málum. Allar aðgerðir menntastoðar fram­kvæmda­áætlunarinnar miði með einum eða öðrum hætti að því að nýta menntun og mannauð innflytjenda, þeim sjálfum og samfélaginu öllu til hags­bóta. Innflytjendum verði auðveldað að fá menntun sína metna svo að þeir geti stundað atvinnu þar sem þekking þeirra og hæfileikar nýtast sem best.
    Lögð verði áhersla á eftirfarandi þætti fyrir þróun samfélagsins:
     1.      Jöfnuð til menntunar.
     2.      Betri þjónustu við innflytjendur.
     3.      Aukin tækifæri fyrir innflytjendur til að taka virkan þátt í samfélaginu.
     4.      Að menntun innflytjenda verði metin og nýtt.

C.1. Jöfn tækifæri til náms.
     Markmið: Að bæta námsárangur innflytjenda við lok grunn­skóla, búa þeim jöfn tækifæri og sömu aðstöðu til náms og öðrum börnum og styrkja kennslu í íslensku.
     Framkvæmd: Stofnaður verði starfshópur sem vinni að leiðum til að tryggja að innflytjendur í leik- og grunn­skólum hafi jöfn tækifæri og sömu aðstöðu til náms og önnur börn. Starfshópurinn fari meðal annars yfir gildandi lög og reglu­gerðir og aðalnámskrár, kanni fyrirkomulag og framboð íslenskukennslu á öllum stigum og leggi til leiðir til eflingar þess náms og samhæfingar þjónustu ef þörf krefur.
     Ábyrgð: Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Mennta­mála­stofnun, há­skólar, fag­ráð um sí­menntun og starfsþróun kennara, leik-, grunn- og fram­halds­skólar, innflytjenda­ráð, Samband íslenskra sveitarfélaga, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, Móður­mál – félag um móður­málskennslu tvítyngdra barna og önnur frjáls félagasamtök sem stuðla að móður­málskennslu, sí­menntunar­stofnanir og aðrar stofnanir og einstaklingar sem koma að sí­menntun kennara.
     Mælikvarði: Að jöfnuður milli nemenda mælist aukinn í PISA-könnuninni árið 2018 og verði þá fyrir ofan meðaltal OECD-ríkja.
     Hagaðilar/markhópur: Kennarar, nemendur og foreldrar.
     Tímabil: 2016–2019.
     Kostn­aður: 2 m.kr.
     Niðurstaða: Bættur námsárangur.

C.2. Virkt tvítyngi/fjöltyngi.
     Markmið: Að auka vægi móður­málskennslu hjá nemendum af erlendum uppruna í leik-, grunn- og fram­halds­skólum. Allir nemendur grunn- og fram­halds­skóla séu upplýstir um rétt sinn til að fá eigið móður­mál metið árið 2016 og fái á vitnisburðarblaði kunnáttu í móður­máli metna árið 2017; 75% nemenda með íslensku sem annað mál fái stað- eða fjarkennslu í eigin móður­máli árið 2018.
     Framkvæmd: Stofnaður verði starfshópur sem skoði lög, reglu­gerðir og aðalnámskrár og móti til­lögur um móður­málskennslu á öllum skóla­stigum ásamt til­lögum um betri nýtingu þess fjármagns sem nýtt er til tungu­málakennslu í dag. Þá verði nýting upplýsinga bætt sem og samskiptatækni. Útbúinn verði samræmdur leiðarvísir fyrir móður­málskennslu á öllum skóla­stigum með til­lögum að námsmati. Fundnar verði leiðir til að tengja móður­málskennslu betur við daglegt skólastarf á öllum skóla­stigum.
     Ábyrgð: Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Innflytjenda­ráð, Samband íslenskra sveitarfélaga, grunn­skólar og fram­halds­skólar, Tungu­málatorg, Tungu­málaver, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Móður­mál – félag um móður­málskennslu tvítyngdra barna og önnur frjáls félagasamtök sem stuðla að móður­málskennslu, Mennta­mála­stofnun.
     Mælikvarði: Fjöldi nemenda sem fær móður­málskennslu að staðaldri. Starfshópurinn móti einnig mælikvarða fyrir þær aðgerðir sem hann leggur til.
     Hagaðilar/markhópur: Nemendur á öllum skóla­stigum, foreldrar og skóla­samfélagið.
     Tímabil: 2016–2019.
     Kostn­aður: 4 m.kr.
     Niðurstaða: Samræmdur leiðarvísir fyrir móður­málskennslu á öllum skóla­stigum. Stað- og fjarnám í algengustu þjóðtungum sem notaðar eru hér á landi og aukin móður­málskennsla fyrir nemendur með annað móður­mál en íslensku.

C.3. Aðgerðir gegn brotthvarfi úr námi.
     Markmið: Að fjölga nemendum sem útskrifast úr fram­halds­skólum og hafa annað móður­mál en íslensku.
     Framkvæmd: Unnið verði að því að sem flestir fram­halds­skólar bjóði upp á viðeigandi námstilboð og skilvirkan stuðning við nemendur af erlendum uppruna á fram­halds­skóla­stigi. Þetta verði liður í al­mennum aðgerðum um bætta námsframvindu í fram­halds­skólum. Skimað verði reglulega fyrir brotthvarfi nemenda af erlendum uppruna í fram­halds­skólum og efri bekkjum grunn­skóla.
     Ábyrgð: Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Mennta­mála­stofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, innflytjenda­ráð, ­sveitarfé­lög, náms- og starfs­ráðgjafar, grunn­skólar, fram­halds­skólar og Fjöl­menningarsetur.
     Mælikvarði: Árið 2019 er stefnt að því að ekki greinist munur á innritunarhlutfalli nemenda eftir uppruna þeirra og að námsframvinda í fram­halds­skólum verði óháð uppruna. Hlutfall brautsk­ráðra nemenda af erlendum uppruna aukist jafnframt og verði jafnt og annarra hópa árið 2019.
     Hagaðilar/markhópur: Innflytjendur á unglinga­stigi grunn­skóla, fram­halds­skólanemendur af erlendum uppruna, foreldrar þeirra og skóla­samfélagið allt.
     Tímabil: 2016–2019.
     Kostn­aður: 2 m.kr.
     Niðurstaða: Fleiri úrræði og skilvirkari stuðningur við nemendur á fram­halds­skóla­stigi með annað móður­mál en íslensku.

C.4. Íslenskukennsla fyrir fullorðna.
     Markmið: Að efla gæði og framboð íslenskukennslu fyrir innflytjendur þannig að íslenska nýtist einstaklingum til virkrar þátttöku í samfélaginu. Sérstaklega verði hugað að foreldrum skólabarna sem ekki tala íslensku.
     Framkvæmd: Stofnaður verði starfshópur sem rýni niðurstöður úttektar á íslenskukennslu fyrir út­lend­inga sem Capacent gerði fyrir mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið árið 2015 og komi með til­lögur til úr­bóta. Auk þess verði hugað að kennsluháttum, nemendaskráningu, jöfnum aðgangi að námi, fjölbreyttum námsleiðum, samfélagsfræðslu og námsframvindu nemenda. Útbúin verði gæðaviðmið fyrir íslenskukennslu fyrir innflytjendur.
     Ábyrgð: Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Fræðsluaðilar, há­skóla­samfélagið, vel­ferðar­ráðu­neytið, sveitarfé­lög, Vinnu­mála­stofnun, aðilar vinnumarkaðarins og innflytjenda­ráð.
     Mælikvarði: Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið setji í sam­ráði við innflytjenda­ráð mælanleg markmið fyrir þær aðgerðir sem lagðar verða til.
     Hagaðilar/markhópur: Fullorðnir innflytjendur.
     Tímabil: 2017.
     Kostn­aður: 4 m.kr.
     Niðurstaða: Gæðaviðmið sem unnin eru út frá niðurstöðum úttektar á íslenskukennslu.

C.5. Menntun samfélagstúlka.
     Markmið: Að auka hæfni og menntun samfélagstúlka.
     Framkvæmd: Stofnaður verði starfshópur sem vinni að þróun námsleiðar og stöðuprófa fyrir samfélagstúlka. Auk þess verði þróað raunfærnimat sem undirbýr fólk fyrir nám í samfélagstúlkun í Há­skóla Íslands eða öðrum há­skólum sem bjóða slíkt nám.
     Ábyrgð: Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Há­skóli Íslands, vel­ferðar­ráðu­neytið, innflytjenda­ráð, mennta­stofnanir og túlka­þjónustufyrirtæki.
     Mælikvarði: Að meiri hluti samfélagstúlka innan vel­ferðar­þjónustunnar, í skólum og hjá sýslu­mönnum hafi árið 2019 próf sem staðfestir hæfni þeirra til túlkunar.
     Hagaðilar/markhópur: Túlkar og notendur túlka­þjónustu.
     Tímabil: 2016–2019.
     Kostn­aður: 15 m.kr.
     Niðurstaða: Stöðupróf fyrir samfélagstúlka og raunfærnimat fyrir nám í samfélagstúlkun á há­skóla­stigi.

C.6. Mat á menntun.
     Markmið: Að einfalda ferli við mat á menntun innflytjenda.
     Framkvæmd: Stofnaður verði starfshópur til að samræma verklag við mat á menntun. Hann sjái til þess að upplýsingar um málið verði aðgengilegri en nú er, verkferli einfölduð og raunfærnimat nýtist innflytjendum. Jafnframt verði unnið að því að stytta afgreiðslutíma umsókna um mat á menntun.
     Ábyrgð: Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Iðan fræðslusetur, há­skóla­samfélagið, stéttarfé­lög, Mennta­mála­stofnun og aðrir aðilar sem hafa umsjón með mati á menntun, auk innflytjenda­ráðs.
     Mælikvarði: Starfshópurinn skilgreini mælikvarða fyrir þær aðgerðir sem hann leggur til.
     Hagaðilar/markhópur: Innflytjendur og vinnumarkaðurinn.
     Tímabil: 2016–2019.
     Kostn­aður: Innan ramma.
     Niðurstaða: Aðgengilegri upplýsingar um mat á menntun.

D. Vinnumarkaðsstoð.
    Áhersla verði lögð á að hlutfall innflytjenda í opinberum störf­um og áhrifastöðum í samfélaginu endurspegli lýðfræðilega samsetningu samfélagsins. Launajafnrétti á vinnumarkaði verði sett í forgang sem og það að tryggja innflytjendum aukin tækifæri til endur­menntunar og starfstengds náms. Staða innflytjenda á vinnumarkaði verði styrkt og tryggt að þeir njóti jafnra tækifæra á við aðra.
    Lögð verði áhersla á eftirfarandi þætti fyrir þróun samfélagsins:
     1.      Að innflytjendur njóti jafnra tækifæra og réttinda á við aðra á vinnumarkaði.
     2.      Að innflytjendum á vinnumarkaði bjóðist aukin tækifæri til endur­menntunar og starfstengds náms sem styrkja muni tengslanet þeirra.

D.1. Hlutfall innflytjenda í opinberum störf­um og áhrifastöðum.
     Markmið: Að opinber þjónusta og atvinnulífið njóti þeirrar þekkingar og reynslu sem innflytjendur búa yfir og að hlutfall þeirra í þessum störf­um endurspegli lýðfræðilega samsetningu samfélagsins.
     Framkvæmd: Stofnaður verði starfshópur sem leggi til hvernig auka megi hlutfall innflytjenda í starfsliði opinberra stofnana, t.d. félags­þjónustunnar, heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins, réttarvörslukerfisins, opinberrar stjórnsýslu og í áhrifastöðum í þjóðfélaginu.
     Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Innflytjenda­ráð, Vinnu­mála­stofnun, innanríkis­ráðu­neytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og fé­lög og hagsmunasamtök innflytjenda.
     Mælikvarði: Starfshópurinn skilgreini mælikvarða fyrir þær aðgerðir sem hann leggur til.
     Hagaðilar/markhópur: Vinnumarkaðurinn, innflytjendur og samfélagið.
     Tímabil: 2016–2019.
     Kostn­aður: Innan ramma.
     Niðurstaða: Aðgerða­áætlun.

D.2. Launajafnrétti á vinnumarkaði.
     Markmið: Að innflytjendur fái greidd jöfn laun og njóti sömu kjara og aðrir fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
     Framkvæmd: Gerð verði launagreining á kjörum innflytjenda í ákveðnum atvinnugreinum þar sem hlutfall innflytjenda er hátt. Kannað verði hvort marktækur munur sé á launum erlendra og íslenskra ríkisborgara á vinnumarkaði sem ekki skýrist af öðru en uppruna. Komi í ljós munur á milli þessara hópa skal gripið til aðgerða.
     Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Vinnu­mála­stofnun, innflytjenda­ráð, stéttarfé­lög og Samtök atvinnulífsins.
     Mælikvarði: Launakönnun þar sem laun erlendra ríkisborgara á Íslandi og íslenskra ríkisborgara verði borin saman. Innflytjenda­ráð setji fram mælanlegt markmið eftir niðurstöðu könnunar.
     Hagaðilar/markhópur: Innflytjendur á vinnumarkaði og vinnumarkaðurinn í heild.
     Tímabil: 2016–2019.
     Kostn­aður: 5 m.kr.
     Niðurstaða: Launagreining sem Hagstofa Íslands mun framkvæma og aðgerðir sem stuðla að auknu launajafnrétti á vinnumarkaði.

D.3. Tengslanet innflytjenda á vinnumarkaði.
     Markmið: Að fjölga innflytjendum í tilteknum fagstéttum með því að auka tengingu menntunar þeirra og sérsviðs við atvinnulífið.
     Framkvæmd: Tengslanet innflytjenda verði styrkt með samstarfi við tiltekin stéttarfé­lög og sett á laggirnar tilraunaverk­efni þar sem stofnað verði til félagsvinatengsla. Innflytjendur fái þá tækifæri til að komast í tengsl við einstaklinga með svipaðan menntunarbakgrunn og þeir sjálfir.
     Ábyrgð: Innflytjenda­ráð.
     Samstarfsaðilar: Velferðar­ráðu­neytið, há­skóla­samfélagið, fé­lög og hagsmunasamtök innflytjenda, Rauði krossinn á Íslandi og mögulega önnur félagasamtök og stéttarfé­lög.
     Mælikvarði: Fimm stéttarfé­lög taki þátt í tilraunaverk­efninu.
     Hagaðilar/markhópur: Innflytjendur, stéttarfé­lög og vinnumarkaðurinn.
     Tímabil: 2016–2018.
     Kostn­aður: Innan ramma.
     Niðurstaða: Skilvirkt verk­efni sem stuðlar að auknum möguleikum innflytjenda á sérfræðistörf­um.

D.4. Auknir möguleikar til endur­menntunar og starfstengds náms.
     Markmið: Að gefa innflytjendum ný tækifæri í atvinnulífinu með því að laga starfstengt nám og námsleiðir betur að þörfum þeirra. Hugað verði að því að vinna sérstaklega gegn langtímaatvinnuleysi.
     Framkvæmd: Stofnaður verði starfshópur sem rýni námskrár og meti hvort þörfum innflytjenda sé mætt. Komi í ljós að þörf sé á að auka framboð á endur­menntunarnámskeiðum og starfstengdu námi verði gripið til aðgerða.
     Ábyrgð: Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Fræðsluaðilar, há­skóla­samfélagið og innflytjenda­ráð.
     Mælikvarði: Að innflytjendum sem stunda og ljúka starfstengdu námi fjölgi um þriðjung á tímabilinu.
     Hagaðilar/markhópur: Innflytjendur og samfélagið.
     Tímabil: 2016–2019.
     Kostn­aður: 8 m.kr.
     Niðurstaða: Námskrá, námskeið og námsleiðir.

D.5. Fjölgun sérfræði­menntaðra innflytjenda á Íslandi.
     Markmið: Að fleiri sérfræði­menntaðir innflytjendur geti nýtt þekkingu sína og færni á íslenskum vinnumarkaði.
     Framkvæmd: Stofnaður verði vinnuhópur sérfræðinga sem fái það hlutverk að stuðla að því að fleiri sérfræði­menntaðir einstaklingar af erlendum uppruna geti nýtt þekkingu sína á íslenskum vinnumarkaði. Hópurinn rýni meðal annars ferli við veitingu dvalar- og atvinnuleyfa, á grundvelli sérfræðiþekkingar, með hliðsjón af þörfum bæði atvinnurekenda og umsækjenda. Hópurinn skoði einnig hvernig styðja megi við erlendar fjölskyldur sem flytja til Íslands, sérstaklega með tilliti til aðgengis að upplýsingum um íslenskt samfélag og möguleika barna til alþjóðlegrar menntunar. Þá verði aðgengi maka að vinnumarkaði einnig skoðað.
     Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Innanríkis­ráðu­neytið, mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið, Vinnu­mála­stofnun, Út­lend­inga­stofnun, Íslandsstofa, há­skóla­samfélagið, aðilar vinnumarkaðarins og innflytjenda­ráð.
     Mælikvarði: Fleiri sérfræðileyfi verði veitt á tímabilinu. Þeim fjölgað um 20%.
     Hagaðilar/markhópur: Atvinnulífið.
     Tímabil: 2016–2018.
     Kostn­aður: Innan ramma.
     Niðurstaða: Til­lögur að aðgerðum sem stuðla að því að fleiri sérfræði­menntaðir innflytjendur nýti hæfileika sína á innlendum vinnumarkaði og verði virkir samfélagsþegnar á Íslandi.

D.6. Bætt eftirlit með vinnustöðum.
     Markmið: Innflytjendur á innlendum vinnumarkaði njóti sömu kjara og réttinda og aðrir og séu upplýstir um réttindi sín og skyldur.
     Framkvæmd: Samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar um eftirlit með vinnumarkaðs­löggjöfinni, svo sem lögum um starfs­mannaleigur, lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfs­menn tímabundið til Íslands. Fræðsluefni um réttindi og skyldur á vinnumarkaði verði útbúið á helstu tungu­málum.
     Ábyrgð: Vinnu­mála­stofnun.
     Samstarfsaðilar: Verkalýðsfé­lög, Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, vel­ferðar­ráðu­neytið og lög­reglan.
     Tímabil: Viðvarandi verk­efni.
     Kostn­aður: 6 m.kr.
     Niðurstaða: Bætt eftirlit.

E. Flóttafólk.
    Lögð verði áhersla á að flóttafólk fái nauðsynlega aðstoð til að vinna úr þeim áföllum sem það þarf að kljást við, en jafnframt að það fái fljótt tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, hvort sem er á vinnumarkaði, varðandi menntun eða á öðrum sviðum. Lögð verði áhersla á að hjálpa fólki til að koma sér vel fyrir hér á landi, jafnt flótta­mönnum sem hingað koma fyrir milli­göngu Flótta­manna­stofnunar Sameinuðu þjóðanna og þeim sem koma til landsins eftir öðrum leiðum. Til að þjónusta og stefnumörkun vegna móttöku flóttafólks verði sem skilvirkust verði lögð áhersla á að rannsaka hagi flóttafólks eftir komu þess til landsins.
    Lögð verði áhersla á eftirfarandi þætti fyrir farsæla móttöku flóttafólks:
     1.      Samræmda og bætta móttöku.
     2.      Virka þátttöku í samfélaginu.
     3.      Rannsóknir og bættar upplýsingar.

E.1. Móttaka flóttafólks eftir hælisleit.
     Markmið: Samræmd og bætt móttaka flóttafólks eftir hælismeðferð.
     Framkvæmd: Sett verði á stofn nefnd sem kortleggi núverandi þjónustu og setji fram til­lögur um hvernig hægt sé að bæta þjónustu við flóttafólk eftir hælismeðferð. Þá geri nefndin til­lögu um samræmt móttökukerfi fyrir flóttafólk. Sérstaklega verði hugað að þætti ­sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka við móttöku flóttafólks, einnig að tengslum á milli stjórnsýslu­stofnana og fræðslu fyrir starfsfólk ríkis og sveitarfélaga sem kemur að móttöku flóttafólks.
     Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga, Út­lend­inga­stofnun, innanríkis­ráðu­neytið, Fjöl­menningarsetur, Rauði krossinn á Íslandi og önnur félagasamtök.
     Mælikvarði: Nefndin skili til­lögum til félags- og húsnæðis­mála­ráð­herra.
     Hagaðilar/markhópur: Flóttafólk eftir hælismeðferð.
     Tímabil: 2016.
     Kostn­aður: Til­lögur verði kostnaðarmetnar eftir skil nefnd­ar­innar.
     Niðurstaða: Bætt og samræmd þjónusta við flóttafólk eftir hælismeðferð.

E.2. Fræðsla og ráðgjöf fyrir flóttafólk.
     Markmið: Öllum einstaklingum sem fá stöðu flóttafólks verði boðið upp á fræðslu og ráðgjöf um réttindi og skyldur og helstu upplýsingar um íslenskt samfélag, þar á meðal upplýsingar um atvinnutækifæri, húsnæðis­mál, íslenskukennslu og menntun al­mennt. Lögð verði áhersla á að flóttafólkið fái fræðslu og ráðgjöf sem allra fyrst eftir að búið er að veita því stöðu flótta­manns hér á landi sem og aðstoð við að tengjast því sveitarfélagi sem það hyggst flytjast til.
     Framkvæmd: Útbúið verði fræðsluefni á ýmsum tungu­málum fyrir flóttafólk svo hægt sé að veita þeim sem fá stöðu flótta­manns upplýsingar á viðeigandi tungu­máli. Þá verði mótaðar til­lögur um fyrirkomulag fræðslu og ráðgjafar, m.a. um búsetu- og atvinnu­mál og félagslegan stuðning.
     Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Innanríkis­ráðu­neytið, Út­lend­inga­stofnun, Samband íslenskra ­sveitarfélaga, þjónustuaðilar hælisleitenda, Fjöl­menningarsetur, Rauði krossinn á Íslandi og Vinnu­mála­stofnun.
     Mælikvarði: Öllum sem fengið hafa stöðu flótta­manns standi til boða að fá fræðslu og ráðgjöf á fyrstu fjórum vikum eftir að þeir hafa fengið stöðu flótta­manns hér á landi.
     Hagaðilar/markhópur: Flóttafólk.
     Tímabil: 2017–2019.
     Kostn­aður: 6 m.kr.
     Niðurstaða: Fræðsla og ráðgjöf fyrir flóttafólk.

E.3. Endurskoðun lagaum­hverfis.
     Markmið: Al­menn löggjöf taki tillit til flóttafólks.
     Framkvæmd: Sett verði á laggirnar nefnd sem verði falið að fara yfir ábendingar um misræmi þegar kemur að sérstöðu flóttafólks gagnvart al­mennum lögum um opinbera þjónustu.
     Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.
     Samstarfsaðilar: Innanríkis­ráðu­neytið, mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Mælikvarði: Til­lögur að laga- og reglu­gerðar­breytingum sé þess þörf.
     Hagaðilar/markhópur: Flóttafólk.
     Tímabil: 2016–2018.
     Kostn­aður: Innan ramma.

E.4. Rannsókn á stöðu og líðan flóttafólks.
     Markmið: Betri upplýsingar um stöðu flóttafólks á Íslandi til að stefnumótun verði markvissari.
     Framkvæmd: Hrundið verði af stað rannsókn um hvernig flóttafólki hafi vegnað í íslensku samfélagi með tilliti til menntunar, atvinnumöguleika, félagslegrar þátttöku og heilbrigðisþátta.
     Ábyrgð: Innanríkis­ráðu­neytið og vel­ferðar­ráðu­neytið.
     Samstarf: Há­skóla­samfélagið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Út­lend­inga­stofnun og Fjöl­menningarsetur.
     Mælikvarði: Niðurstaða rannsóknarinnar.
     Hagaðilar/markhópur: Þjónustuveitendur, flóttafólk og samfélagið.
     Tímabil: 2016–2017.
     Kostn­aður: 5 m.kr.

E.5. Vinnumarkaðurinn.
     Markmið: Að auðvelda flóttafólki að komast inn á vinnumarkaðinn.
     Framkvæmd: Starfshópur verði settur á laggirnar sem komi með til­lögur um hvernig hægt sé að stuðla að því að flóttafólk hefji þátttöku á atvinnumarkaði sem fyrst eftir komuna til landsins.
     Ábyrgð: Velferðar­ráðu­neytið.
     Samstarf: Vinnu­mála­stofnun, Alþýðusamband Íslands, Virk, Keilir, há­skóla­samfélagið og Samtök atvinnulífsins.
     Mælikvarði: Að atvinnuþátttaka flóttafólks sé sambærileg og meðal innflytjenda al­mennt ári eftir komu til landsins.
     Hagaðilar/markhópur: Samfélagið.
     Tímabil: 2016–2017.
     Kostn­aður: Innan ramma.

Athugasemdir við þingsályktunartil­lögu þessa.

    Sú fram­kvæmda­áætlun sem hér er lögð fram er sú fyrsta eftir að lög um málefni innflytjenda voru samþykkt í nóvember 2012. Áður hefur ein fram­kvæmda­áætlun í málefnum innflytjenda verið samþykkt af Alþingi, en það var árið 2008. Markmið laga um málefni innflytjenda er að stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Því skal meðal annars ná fram með því að taka tillit til hagsmuna innflytjenda í allri stefnumótun, stjórnsýslu og opinberri þjónustu. Auk þess sem stuðlað sé að víðtæku samstarfi allra þjónustuaðila og innflytjenda. Framkvæmda­áætlun þessari er ætlað að vinna að framangreindum markmiðum og er áhersla lögð á fimm stoðir: samfélag, fjölskyldu, menntun, vinnumarkað og flóttafólk. Aðgerðir áætlunarinnar eru flokkaðar niður eftir stoðunum. Markmið eru tilgreind sem og ábyrgðar- og samstarfsaðilar.
    Innflytjendum á Íslandi hefur fjölgað mikið síðustu áratugi og íslenskt samfélag tekið breytingum þar með. Árið 2000 voru 2,6% þjóðarinnar með erlent ríkisfang en árið 2015 var hlutfallið 8,9%. Sé önnur kynslóð innflytjenda talin með er hlutfallið 10% af þjóðinni. Breyttu samfélagsmynstri fylgja bæði tækifæri og áskoranir. Samfélag samanstendur af mörgum hópum sem mynda eina heild og stuðla þarf að samheldni heildar­innar með jöfnu aðgengi allra að þátttöku í samfélaginu og þekkingu á réttindum og skyldum gagnvart því.
    Mikilvægt er að vel sé tekið á móti einstaklingum og fjölskyldum sem flytja til Íslands og að þær fái tækifæri til að skapa sér farsælt líf hér á landi. Á Íslandi eiga öll börn að búa við öryggi og jöfn tækifæri og njóta lögvarinna réttinda líkt og aðrir þjóðfélagsþegnar. Fjölskylduvænt samfélag, framfarir og bætt lífskjör byggjast á samvinnu og samheldni. Huga þarf að þörfum innflytjenda við opinbera stefnumótun og samfélagið í heild þarf að takast á við nýjar aðstæður hvort sem er á vinnumarkaði, í skólakerfinu, heilbrigðis­þjónustu eða annarri vel­ferðar­þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Innflytjendur hafa sömu réttindi og skyldur og aðrir þegnar samfélagsins. Markmið þessarar fram­kvæmda­áætlunar er að vinna að því að innflytjendur hafi jöfn tækifæri á við aðra og auðvelda þeim að vera virkir þátttakendur í samfélaginu.
    Einstaklingum sem koma hingað í leit að alþjóðlegri vernd hefur fjölgað á síðasta ári og að sama skapi hefur einstaklingum sem fá stöðu flótta­manns fjölgað. Mikilvægt er að huga strax að þeim umfangsmiklu breytingum sem eiga sér nú stað á alþjóðavísu og þeim áhrifum sem þær hafa á íslenskt samfélag.
    Með fram­kvæmda­áætlun þessari er unnið að því að tryggja jöfn tækifæri allra lands- manna, óháð einstaklingsbundnum þáttum og aðstæðum. Stuðlað verði að samfélagi án að- greiningar, að hver einstaklingur fái tækifæri til að njóta sín óháð uppruna og auðga sam- félagið. Samstarf fólks með ólíkan bakgrunn stuðlar að aukinni víðsýni og betra samfélagi. Mikilvægt er að hlúð sé að þeim sem þurfa á aðstoð að halda og jafnframt að fólk fái notið árangurs erfiðis síns og hugkvæmni.
    Samhliða til­lögu þessari er lögð fram á Alþingi skýrsla félags- og húsnæðis­mála­ráð­herra um stöðu og þróun í málefnum innflytjenda árið 2016, þar sem frekari tölfræði er rakin og stoðum er rennt undir þær aðgerðir sem valdar hafa verið í fram­kvæmda­áætlunina að þessu sinni. Tekið hefur verið mið af reynslunni af fyrri fram­kvæmda­áætlun í málefnum innflytjenda og ábendingum sem borist hafa frá innlendum samstarfsaðilum og alþjóðlegum eftirlits­stofnunum og nefndum. Við mótun áætlunarinnar voru eftirfarandi skýrslur og alþjóðlegar skuldbindingar hafðar að leiðarljósi: mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamningur um afnám alls kynþáttamisréttis, skýrsla Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttinda­mála á Íslandi, skýrsla Evrópu­nefnd­ar gegn kynþáttafor­dómum og umburðarleysi, samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum, samningur Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórn­málaleg réttindi og samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem tók gildi á Íslandi 13. mars 2013, með lögum nr. 19/2013. Í þessari fram­kvæmda­áætlun er horft til ákvæða sátt­málanna og þeirra markmiða sem sett eru fram með þeim. Um leið er hvatt til að stjórnsýslan öll og opinberar stofnanir innleiði ákvæði þeirra á markvissan hátt, sérstaklega þau er varða samning um réttindi barnsins og fylgi mannréttindayfirlýsingunni í stefnumótun og fram­kvæmdum.