Ferill 685. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1310  —  685. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 229/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur frá utanríkisráðuneyti og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 229/2015, frá 29. september 2015, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB frá 24. nóvember 2010 um losun í iðnaði (samþættar mengunarvarnir og eftirlit með mengun) (endurútgefin), auk tengdra gerða.
    Tilskipun 2010/75/ESB sameinar sjö eldri gerðir um samþættar mengunarvarnir og gengur lengra en eldri tilskipanir. Byggist hún á heildstæðri nálgun um að tekið sé tillit til umhverfisins í heild, þ.e. mengunar í lofti, vatni og jarðvegi. Helstu nýmæli sem tilskipunin felur í sér eru ákvarðanir um bestu fáanlegu eða aðgengilegu tækni (BAT) og gildi þeirra með tilkomu svokallaðra BAT-niðurstaðna (BATC) sem tilgreina hvaða skilyrði skulu gilda um starfsemi í starfsleyfum. Í leyfunum skal vísað beint til viðeigandi BATC-viðmiða en einnig er að finna ákvæði um að heimilt sé að gera strangari kröfur en BATC gerir ráð fyrir. Með tilskipuninni er gengið lengra í mengunarvörnum en áður var og er þar m.a. að finna strangari viðurlög við brotum á starfsleyfum.
    Auk tilskipunarinnar voru með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 229/2015 teknar upp 12 ákvarðanir framkvæmdastjórnar ESB sem allar eiga stoð í tilskipuninni og útfæra efni hennar nánar. Ákvarðanirnar eru endurútgáfur og uppfærslur á eldri gerðum og er ætlað að auka skýrleika reglnanna.
    Áætlað er að kostnaður við innleiðingu tilskipunarinnar og tengdra gerða verði óverulegur og rúmist innan núverandi fjárheimilda Umhverfisstofnunar. Auknar kröfur geta þó leitt til kostnaðar fyrir fyrirtæki við endurskoðun og uppfærslu starfsleyfa. Nefndin bendir þó á að í áliti umhverfis- og samgöngunefndar um upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn, sbr. 2. gr. reglna Alþingis um þinglega meðferð EES-mála, kemur fram að í mörgum starfsleyfum fyrir mengandi starfsemi hér á landi eru strangari skilyrði en tilgreind eru í gildandi tilskipun.
    Innleiðing gerðanna kallar á breytingar á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í athugasemdum við tillöguna kemur fram að gert sé ráð fyrir því að umhverfis- og auðlindaráðherra leggi fram frumvarp til breytinga lögunum á yfirstandandi þingi.
    Nefndin leggur til að málið verði samþykkt.
    Vilhjálmur Bjarnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Össur Skarphéðinsson og Óttarr Proppé voru einnig fjarverandi en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 19. maí 2016.

Hanna Birna Kristjánsdóttir,
form., frsm.
Karl Garðarsson. Frosti Sigurjónsson.
Elín Hirst. Óttarr Proppé. Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Össur Skarphéðinsson.