Ferill 776. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1313  —  776. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007 (bifreiðastyrkir).

Flm.: Guðmundur Steingrímsson, Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson og Róbert Marshall.


1. gr.

    Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Styrkir og uppbætur til bifreiðakaupa og reksturs bifreiða skulu veitt óháð því hver annast að jafnaði akstur bifreiðanna, enda sé bifreiðin nýtt til aksturs með bótaþega. Óheimilt er að binda styrkveitingar því skilyrði að bótaþegi hafi sjálfur ökuréttindi eða einhver annar á heimili hans.

2. gr.     

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í reglugerð um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, nr. 170/2009, er kveðið á um að slíka styrki megi aðeins veita ef bótaþegi hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður á lögheimili hans. Fjölmargt fólk sem fellur undir skilgreiningu laganna um mögulega bótaþega getur af augljósum ástæðum ekki öðlast ökuréttindi og er þar með útilokað frá þessum styrkveitingum. Bifreið getur engu að síður verið þessu fólki nauðsynleg þótt aðrir annist akstur hennar fyrir þeirra hönd. Að mati flutningsmanna er hér um óréttlæti og mismunun að ræða í reglugerð sem nauðsynlegt er að koma í veg fyrir í lögum. Það er jafnframt með öllu óásættanlegt að mati flutningsmanna að einstaklingar án ökuréttinda geti einungis fengið styrki til nauðsynlegra bifreiðakaupa ef þeir búa með manneskju sem hefur ökuréttindi. Það eru sjálfsögð mannréttindi hvers og eins að ákveða með hverjum, ef nokkrum, hann eða hún býr. Styrk til slíkra nauðþurfta, eins og bifreið oft er, má með öðrum orðum ekki binda því skilyrði að manneskja gefi eftir þann grundvallarrétt sinn að mega ákveða sjálf, óbundin og sjálfstæð, með hverjum, ef nokkrum, hún deilir lögheimili. Taka má dæmi til glöggvunar. Ein leið fyrir mögulega bótaþega til að fá styrk til bifreiðakaupa samkvæmt reglugerðinni er að maki þeirra hafi ökuréttindi. Það er vart réttlætanlegt að bótaþegi missi rétt sinn til slíkra styrkja komi til hjónaskilnaðar eða sambúðarslita.
    Bent skal á í þessu samhengi að færst hefur mjög í vöxt, og á vonandi eftir að verða enn algengara, að fötluðu fólki sé kleift að njóta sjálfstæðs lífs með því að ráða til sín aðstoðarfólk. Aðstoðarfólkið er þá alla jafna með ökuréttindi og annast akstur bifreiðar heimilisins. Núgildandi reglugerðarákvæði útilokar fatlað fólk, sem vill lifa sjálfstæðu lífi með þessum hætti, frá bifreiðastyrkjum og uppbótum. Það er bæði röng velferðarstefna og mismunun sem ekki verður séð að eigi sér nokkra stoð í markmiðum eða efnisákvæðum laganna. Það er brýnt mannréttindamál að mati flutningsmanna að frumvarp þetta nái fram að ganga svo því óréttlæti sem allt of lengi hefur staðið óbreytt í reglugerð verði með öllu eytt.