Ferill 686. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1321  —  686. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 197/2015 um breytingu á I. viðauka (Heilbrigði dýra og plantna) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur frá utanríkisráðuneyti og Eggert Ólafsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 197/2015, frá 25. september 2015, um breytingu á I. viðauka (Heilbrigði dýra og plantna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1069/2009 frá 21. október 2009 um heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1774/2002 (reglugerð um aukaafurðir úr dýrum), auk sex skyldra reglugerða.
    Með reglugerð 1069/2009 eru settar reglur um við hvaða aðstæður skuli farga aukaafurðum úr dýrum til að fyrirbyggja útbreiðslu áhættu fyrir heilbrigði manna og dýra. Reglugerðin kemur í stað eldri reglugerðar um sama efni frá 2002 og er ætlað að gera reglur skýrari, eyða óvissu um gildissvið reglugerðarinnar til að tryggja öryggi matvælakeðju, einfalda leyfisveitingar, minnka byrðar á hagsmunaaðila og skilgreina endapunkt framleiðsluferils en sú skilgreining er mikilvæg til að skýrt sé hvort vörur falli undir gildissvið reglugerðarinnar.
    Í áliti atvinnuveganefndar um upptöku gerðanna í EES-samninginn, sbr. 2. gr. reglna Alþingis um þinglega meðferð EES-mála, var lögð áhersla á náið samráð við sláturleyfishafa og aðra hagsmunaaðila í málinu og því beint til hlutaðeigandi ráðuneyta að reynt yrði að finna lausnir til að reglurnar hefðu ekki í för með sér óþarfa kostnað, tafir eða annað óhagræði fyrir innlenda framleiðendur. Í athugasemdum við tillöguna kemur fram að reglugerðirnar voru sendar til hagsmunaaðila til umsagnar og að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi fundað með hagsmunaaðilum um förgun áhættuvefja og lausnir í þeim efnum. Þar kemur jafnframt fram að fyrri reglugerðir um sama efni frá árinu 2002 hafi verið í gildi hér á landi síðan 2010 og hafi falið í sér talsverðan kostnað við framkvæmd og eftirlit en að ekki sé gert ráð fyrir viðbótarkostnaði við upptöku þeirra gerða sem ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nær til.
    Innleiðing reglugerðanna hér á landi kalla á breytingar á lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 96/1997, um slátrun og sláturafurðir, og lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Í athugasemdum við tillöguna segir að gert sé ráð fyrir því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á framangreindum lögum á yfirstandandi þingi.
    Nefndin leggur til að málið verði samþykkt.
    Vilhjálmur Bjarnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Össur Skarphéðinsson og Óttarr Proppé voru einnig fjarverandi en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 19. maí 2016.

Hanna Birna Kristjánsdóttir,
form., frsm.
Karl Garðarsson. Frosti Sigurjónsson.
Elín Hirst. Óttarr Proppé. Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Össur Skarphéðinsson.