Ferill 783. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.Þingskjal 1338  —  783. mál.Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

(Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Evrópusambandsins um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur, í formi bréfaskipta og sem breytingu á bókun 3 við EES-samninginn, sem áritaður var 17. september 2015.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi milli Íslands og Evrópusambandsins (ESB) um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur, í formi bréfaskipta og sem breytingu á bókun 3 við EES-samninginn, sem áritaður var 17. september 2015. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari auk viðauka II (tollfrjálsir kvótar inn til Íslands) og viðauka V (tollfrjálsir kvótar inn til ESB) en aðrir viðaukar samningsins verða sendir utanríkismálanefnd og birtir á vef Alþingis.

1. Inngangur.
    Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningnum) frá 1992 varð Ísland hluti af innri markaði Evrópusambandsins (ESB) og innleiddi alla löggjöf sambandsins er laut að meginreglum innri markaðarins, hinu svonefnda fjórfrelsi. Í því fólst meðal annars að innleiddar voru allar reglur er lutu að frjálsu flæði á vörum. Frjálst flæði á vörum felur í sér að allir tollar og sambærileg gjöld eru felld niður á vörur í viðskiptum á milli aðildarríkja innri markaðarins, þar með talið hér á landi.
    Tveir vöruflokkar voru undanþegnir EES-samningnum og þar með þessari meginreglu en það eru sjávarafurðir og landbúnaðarvörur.
    Að því er varðar landbúnaðarvörur þá er að finna ákvæði í 19. gr. EES-samningsins þar sem fram kemur að samningsaðilar skuli taka til athugunar alla erfiðleika sem upp kunna að koma í viðskiptum þeirra með landbúnaðarafurðir og leitast við að finna viðeigandi lausn á þeim. Jafnframt skuldbindi samningsaðilar sig til að halda áfram viðleitni sinni til að auka smám saman frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarafurðir. Í þeim tilgangi skuli samningsaðilar framkvæma endurskoðun á skilyrðum fyrir viðskipti með landbúnaðarafurðir fyrir árslok 1993 og á tveggja ára fresti þaðan í frá.
    Þá er að finna í bókun 3 við samninginn ákvæði um viðskiptakjör með unnar landbúnaðarafurðir. Hvorki 19. gr. né bókun 3 fela í sér skuldbindingar af hálfu samningsaðila til að innleiða fulla fríverslun með landbúnaðarvörur. Allar frekari ívilnanir gerast á grundvelli nýrra og sérstakra samninga þar um sem eftir atvikum byggjast á 19. gr. EES-samningsins (óunnar landbúnaðarafurðir) og hins vegar með breytingum á bókun 3 (unnar landbúnaðarafurðir).
    Þær samningaviðræður sem staðið hafa undanfarin ár og lauk haustið 2015 sneru að þremur þáttum; að viðskiptum með óunnar landbúnaðarvörur, viðskiptum með unnar landbúnaðarvörur og að gagnkvæmri vernd afurðaheita sem vísa til uppruna. Tillaga þessi tekur til tveggja fyrsttöldu þáttanna en Alþingi hefur þegar samþykkt fullnægjandi heimildir er lúta að upprunamerkingum, sbr. lög nr. 130/2014, um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu.

2. Fyrri samningar.
    Þrátt fyrir framangreindar skuldbindingar EES-samningsins um endurskoðun að jafnaði á tveggja ára fresti er sá samningur um viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur sem tillaga þessi tekur til einungis sá annar í röðinni frá því að EES-samningurinn tók gildi árið 1994.
    Hinn 1. mars 2007 tók gildi samningur Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur á grundvelli framangreinds ákvæðis, en sá samningur leysti af hólmi viðskiptasamning frá árinu 1972. Samningurinn fól í sér að tollar á ýmsar landbúnaðarvörur voru felldir niður í viðskiptum milli Íslands og ESB. Samningnum var meðal annars ætlað að leiða til fjölbreyttara vöruframboðs, aukinnar verðsamkeppni og um leið að skapa ný sóknarfæri til útflutnings íslenskra landbúnaðarafurða.
    Tollar féllu niður í viðskiptum samningslandanna með tilteknar landbúnaðarvörur. Í því fólust meðal annars gagnkvæmar niðurfellingar á tollum, svo sem á blómum (þó ekki afskornum blómum né pottaplöntum undir einum metra að hæð), ýmsu fersku og frosnu grænmeti og jólatrjám, svo eitthvað sé nefnt. Innflutningstollar á hestum voru einnig felldir niður með gagnkvæmum hætti en heilbrigðisreglur koma þó áfram í veg fyrir innflutning á lifandi hestum til Íslands. Í samningnum var einnig samið um að tollfrjáls kvóti fyrir íslenskt lambakjöt yrði aukinn úr 1.350 tonnum í 1.850 tonn. Þá fékk Ísland 350 tonna tollkvóta fyrir smjör og 380 tonna innflutningskvóta fyrir skyr til aðildarríkja ESB. Í staðinn fékk ESB tollfrjálsan kvóta til Íslands fyrir 100 tonn af nautakjöti, 200 tonn af svínakjöti, 200 tonn af kjúklingakjöti, 100 tonn af ostum, 100 tonn af kartöflum og 20 tonn af rjúpum. Þá voru samþykktir gagnkvæmir 100 tonna tollfrjálsir kvótar fyrir pylsur.
    Til viðbótar gagnkvæmu tollfrelsi og tollkvótum var samið um að Ísland lækkaði toll á kjötvörum í 2. kafla tollskrár um 40% frá almennum verð- og magntolli.
    Innflutningur á kjötvörum á lægri tollum er háður skilyrðum um evrópskan uppruna.
    Tollkvótar samkvæmt samkomulaginu hafa verið auglýstir einu sinni á ári, í nóvember/desember. Fyrirkomulag er það sama og ef um væri að ræða WTO-tollkvóta og er innflutningstímabil almanaksárið. Innflutningur á vörum samkvæmt ESB-tollkvóta er tollfrjáls, en kvótarnir eru boðnir út ef umsóknir eru um meira magn en í boði er.
    Í júlí 1999 náðist samkomulag við framkvæmdastjórn ESB um bókun 3 og tók það gildi í ársbyrjun 2000. Þar náðist samkomulag um að Ísland lækkaði innflutningsgjöld á unnum landbúnaðarvörum um 2% frá því sem áður gilti. Þá var samið um að innflutningur á bjór, sódavatni og ýmsum sterkum drykkjum yrði tollfrjáls inn til aðildarríkja ESB.
    Á árunum 2005–2008 var unnið að því að endurskoða bókun 3. Samningar um þessa endurskoðun voru á lokastigi á árinu 2008. Ísland var fyrir sitt leyti tilbúið að afnema tolla á 44 tollskrárnúmerum, en þar var um að ræða magntoll frá 3 kr./kg og upp í 88 kr./kg af þeim 100 tollskrárnúmerum sem bera magntoll og falla undir bókunina. Á móti fór Ísland fram á gagnkvæmni. Slík gagnkvæmni hefur ekki verið fyrir hendi hingað til. Þessum viðræðum varð ekki lokið.

3. Nýjar samningaviðræður.
    Í maí 2011, fjórum árum eftir gildistöku framangreinds samnings, fóru Landssamtök sláturleyfishafa og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði þess á leit við stjórnvöld að þau beittu sér fyrir samningum við ESB um stærri tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir lambakjöt og skyr á markaði sambandsins. Ástæða þessa var sú að stóraukin viðskipti áttu sér stað með lambakjöt inn til ESB á þessum tíma auk þess sem fljótt kom í ljós að veruleg tækifæri reyndust á markaði ESB fyrir íslenskt skyr. Í júní sama ár óskaði Svínaræktarfélag Íslands eftir því við landbúnaðarráðuneytið að greininni yrði tryggður útflutningskvóti til ESB eins og fram kemur í tillögu félagsins til Búnaðarþings 2011. Í júní 2013 lýstu einstakir alifuglaframleiðendur því yfir á fundi með landbúnaðarráðherra að ef samið yrði um stækkun á kvótum fyrir kjúkling væri nauðsynlegt að Ísland nyti gagnkvæmni.
    Í viðræðum stjórnvalda við þessa hagsmunaaðila var skýrt tekið fram að ef gengið yrði á ný til viðræðna af þessu tagi við ESB mætti búast við því að gefa yrði frekari ívilnanir á móti. Auk þess var skýrt tekið fram að það væri ekki á vísan að róa með það að slíkar ívilnanir yrðu allar þess eðlis að þær mundu ekki snerta viðkvæma hluta búvöruframleiðslu á Íslandi með einhverjum hætti.
    Að loknum könnunarviðræðum sem stóðu um nokkurt skeið hófust formlegar samningaviðræður Íslands og ESB um mitt ár 2012.
    Ákveðið var að viðræðurnar mundu ekki einvörðungu lúta að hefðbundnum landbúnaðarvörum heldur yrði þráðurinn einnig tekin upp að því er varðar unnar vörur með það að markmiði að leita endurskoðunar á ákvæðum bókunar 3. Skapaði þetta ekki hvað síst tækifæri til að tengja samningaviðræður á milli þessara tveggja vöruflokka þar sem útflutningshagsmunir Íslands hafa hingað til verið meiri hvað varðar óunnar landbúnaðarvörur og svigrúm til aukinna ívilnana til innflutnings á unnum vörum að sama skapi meira. Jafnframt var samið um vernd afurðaheita eins og áður er getið.
    Samningarnir tryggja nýjan markaðsaðgang sem mun auka tækifæri íslensks landbúnaðar til að auka framleiðslu og þróa útflutning á íslenskum afurðum. Á sama tíma munu nýir samningar einnig verða neytendum til hagsbóta án þess að ganga of nærri stöðu íslenskrar framleiðslu á innlendum markaði.

4. Efnisatriði nýja samningsins.
    Rétt er að hafa í huga í upphafi að áður en til samninga kom, hvort heldur er árið 2007 eða 2015, höfðu tollar á verulegum fjölda vörutegunda landbúnaðarvara verið felldir niður. Er þá um að ræða einhliða ákvarðanir Íslands sem teknar hafa verið í gegnum tíðina. Þrátt fyrir að slíkar vörur beri í raun enga tolla tekur samningurinn við ESB einnig til þeirra en í því felst skuldbinding Íslands um að notfæra sér ekki heimildir sínar til að hækka þessa tolla á nýjan leik.
    Samningurinn er að öðru leyti þannig byggður upp að hann skiptist í neðangreinda fimm viðauka:
     1.      viðauki tilgreinir tollfrjálsar vörur frá ESB til Íslands,
     2.      viðauki tilgreinir tollfrjálsa innflutningskvóta sem Ísland veitir ESB,
     3.      viðauki tilgreinir tollalækkanir sem Ísland veitir á innflutning frá ESB,
     4.      viðauki tilgreinir tollfrjálsar vörur frá Íslandi til ESB,
     5.      viðauki tilgreinir tollfrjálsa kvóta sem ESB veitir Íslandi.
    Samningurinn kemur í stað samningsins frá árinu 2007 og inniheldur því allar þær ívilnanir sem sá samningur fól í sér auk nýrra ívilnana sem samið var um nú.
    Almennt eru ekki felldir niður tollar á þeim vörum sem teljast viðkvæmar íslenskum landbúnaði, þ.e. kjöti og mjólkurafurðum sem framleiddar eru hér á landi, en ívilnanir í þeim tilvikum eru veittar í formi tollfrjálsra kvóta.
    Til viðbótar við samninginn frá árinu 2007 er samið um núllbindingu á toll á yfir 340 tollskrárnúmerum, bæði fyrir óunnar og unnar landbúnaðarafurðir, en þar af falla tollar nú alfarið niður á yfir 100 nýjum tollskrárnúmerum sem áður báru tolla. Auk þess er samið um lækkun tolla á yfir 20 tollskrárnúmerum. Gagnkvæmni ríkir að mestu milli samningsaðila hvað þetta varðar sem felur í sér að ESB afnemur einnig tolla á þessum vörutegundum.
    Í samningnum frá árinu 2007 samdi Ísland um aukna tollfrjálsa kvóta inn á markað ESB. Fram að þeim tíma var eingöngu um að ræða kvóta fyrir lambakjöt. Með samningnum var sá kvóti aukinn nokkuð auk þess sem samið var um nýja kvóta fyrir pylsur, skyr og smjör. Í þeim samningi sem hér er fjallað um eru þessir kvótar auknir umtalsvert, sbr. viðauka V við samninginn, sjá fylgiskjal III. Munar þar mest um nálægt tíföldun á tollfrjálsum kvóta fyrir skyr ásamt stækkun á kvóta fyrir lambakjöt. Auk þess er samið um nýja kvóta fyrir svínakjöt, alifuglakjöt, unnið lambakjöt og ost. Kvótarnir verða innleiddir í skrefum á fjórum árum.
    Í samningnum frá árinu 2007 var í fyrsta skipti samið um tiltekna tollfrjálsa kvóta til handa ESB fyrir óunnar landbúnaðarvörur fluttar inn til Íslands. Í þeim samningi sem hér um ræðir er aukið umtalsvert við þá kvóta líkt og nánar er getið í viðauka II við samninginn, sbr. fylgiskjal II. Líkt og þar kemur fram ná kvótarnir yfir nautakjöt, svínakjöt, alifuglakjöt, ost, pylsur og unnar kjötvörur og koma til framkvæmda í skrefum á fjórum árum.
    Eins og fram kemur í báðum þeim viðaukum sem vísað er til hér að framan er um umtalsverða aukningu á tollfrjálsum kvótum að ræða. Í því sambandi er vert að hafa í huga að reynslan sýnir að almennt líður langur tími milli endurskoðunar samninga þrátt fyrir ákvæði um að endurskoðun skuli fara fram á tveggja ára fresti. Ástæða er til að ætla, að öllu óbreyttu, að sá samningur sem hér um ræðir muni ekki koma til endurskoðunar fyrr en eftir tiltölulega langan tíma. Í því ljósi var talið mikilvægt að stíga skref af því tagi sem hér er gert og skapa þannig tækifæri fyrir íslenskan landbúnað og koma til móts við það sjónarmið að auka samkeppni á innlendum markaði.
    Samningurinn felur í sér gagnkvæmni í meginatriðum sem þýðir að ívilnanir sem veittar eru eru sambærilegar milli samningsaðila.
    Bókun 3 við EES-samninginn mun áfram innihalda um 20 tollskrárnúmer með unnum landbúnaðarvörum sem bera tolla og er þar aðallega um að ræða vörur úr mjólkurafurðum, svo sem jógúrt, ís og smjörva.
    Á árinu 2008 hafði í öllum aðalatriðum náðst samkomulag við ESB um að fella niður tolla á fjölda afurða sem undir bókunina falla, á gagnkvæmnisgrundvelli. Þeim samningum lauk ekki og var þráðurinn tekinn upp á nýjan leik samhliða viðræðum á grunni 19. gr. EES-samningsins á árinu 2012.
    Vert er að hafa í huga þegar kemur að þeim vörum sem hér um ræðir að ekki hefur verið hróflað við bókuninni hvað Ísland varðar frá því á árinu 2000 og má því segja að bókunin hafi verið orðin barn síns tíma.
    Dæmi um vörutegundir sem er að finna í bókuninni eru vörur sem innihalda landbúnaðarhráefni, mjólkur- eða kjöthráefni. Má hér nefna pizzur, pasta, súkkulaði, bökunarvörur o.s.frv.
    Niðurstaða samninganna varð sú að allir tollar sem greinir í bókun 3 eru felldir niður fyrir utan tolla á mjólkurafurðir, jógúrt, ís og smjörva, en þær vörutegundir teljast vera meðal þeirra sem hvað viðkvæmastar eru fyrir íslenskan landbúnað vegna þess hve hátt hlutfall þeirra er mjólk. Eigi að síður er með þessari niðurstöðu stigið stórt skref til einföldunar á því tollaumhverfi sem gildir fyrir unnar landbúnaðarvörur.

5. Gildistaka og framkvæmd samningsins.
    Samningurinn mun ganga í gildi að lokinni nauðsynlegri fullgildingarmeðferð hjá samningsaðilum.

Fylgiskjal I.


SAMNINGUR

í mynd bréfaskipta milli Evrópusambandsins og Íslands um viðbótarfríðindi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir.

A. Bréf frá Evrópusambandinu.

    Herra,
    Mér veitist sá heiður að vísa til tvíhliða viðskiptaviðræðna milli Evrópusambandsins og Íslands (samningsaðilarnir) sem var lokið hinn 17. september 2015. Ný lota viðskiptaviðræðna um landbúnaðarafurðir milli framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Íslands fór fram á grundvelli 19. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins). Markmiðið var að ýta undir viðskiptafrelsi með landbúnaðarafurðir milli samningsaðilanna í skrefum, á grundvelli fríðinda, gagnkvæmni og hags beggja. Samningaviðræðurnar fóru fram á skipulegan hátt, þar sem viðeigandi tillit var tekið til framvindu innan landbúnaðarstefnu hvors samningsaðila um sig, meðal annars framvindu í tvíhliða viðskiptum við aðra viðskiptaaðila og hvað varðar viðskiptaskilyrði gagnvart þeim.
    Ég staðfesti hér með að niðurstöður samningaviðræðnanna voru sem hér segir:
     1.      Ísland skuldbindur sig til þess að veita tollfrjálsan aðgang fyrir vörur sem eru upprunnar í Evrópusambandinu og taldar upp í I. viðauka.
     2.      Ísland skuldbindur sig til þess að bjóða fram tollkvóta fyrir vörur upprunnar í Evrópusambandinu, eins og tilgreint er og talið upp í II. viðauka.
     3.      Ísland skuldbindur sig til þess að lækka innflutningstolla á vörur sem eru upprunnar í Evrópusambandinu og taldar upp í III. viðauka.
     4.      Evrópusambandið skuldbindur sig til þess að veita tollfrjálsan aðgang fyrir vörur sem eru upprunnar á Íslandi og taldar upp í IV. viðauka.
     5.      Evrópusambandið skuldbindur sig til þess að bjóða fram tollkvóta fyrir vörur upprunnar á Íslandi, eins og tilgreint er og talið upp í V. viðauka.
     6.      Tollnúmer, sem eru tilgreind í I. til V. viðauka, vísa til þeirra sem gilda fyrir samningsaðilanna 1. janúar 2015.
     7.      Þessar tvíhliða ívilnanir koma í stað og sameina allar tvíhliða ívilnanir, sem nú eru í gildi að því er varðar landbúnaðarafurðir, með skírskotun til 19. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
     8.      Ákvæði bókunar 3 við samninginn milli Efnahagsbandalags Evrópu og Íslands, með áorðnum breytingum samkvæmt ákvörðun sameiginlegrar nefndar EB og Íslands nr. 2/2005 um skilgreiningu á hugtakinu „upprunavörur“ og um samvinnu á sviði stjórnsýslu 1 , gilda að breyttu breytanda um þær afurðir sem um getur í I. til V. viðauka.
     9.      Samningsaðilarnir eru sammála því að tryggja að ávinningnum, sem þeir veita hvor öðrum, verði ekki stefnt í hættu með öðrum takmarkandi innflutningsráðstöfunum.
     10.      Samningsaðilarnir eru sammála því að tryggja að tollkvótum verði stjórnað á þann veg að reglubundinn innflutningur geti farið fram og að unnt verði í reynd að flytja inn það magn sem samið hefur verið um til innflutnings.
     11.      Samningsaðilarnir eru sammála því að stuðla að viðskiptum með umhverfisvænar afurðir og landfræðilega merktar afurðir. Samningur um landfræðilegar merkingar var gerður samhliða samningi þessum í því skyni að vernda enn frekar landfræðilegar merkingar á yfirráðasvæðum beggja samningsaðila.
     12.      Samningsaðilarnir eru sammála því að skiptast með reglulegu millibili á upplýsingum um afurðir sem viðskipti eru stunduð með, um stýringu tollkvóta og verðskrár og á gagnlegum upplýsingum um innanlandsmarkaði hvors um sig og um framkvæmd samnings þessa.
     13.      Samráðsfundir verða haldnir um öll álitaefni varðandi framkvæmd samnings þessa, fari annar samningsaðilinn fram á það. Komi upp vandkvæði við framkvæmd samnings þessa verða þessir samráðsfundir haldnir eins skjótt og auðið er í því skyni að samþykkja viðeigandi ráðstafanir til úrbóta.
     14.      Fyrstu samráðsfundir viðvíkjandi samningi þessum munu fara fram áður en tilhögun framkvæmdar er komið á. Þetta er gert til þess að auðvelda góða framkvæmd samnings þessa.
     15.      Samningur þessi öðlast gildi fyrsta dag sjöunda mánaðar eftir þann dag þegar samningsaðilarnir hafa tilkynnt hvor öðrum að nauðsynlegri innlendri málsmeðferð sé lokið. Ef sá dagur er fyrir gildistökudag samningsins milli Evrópusambandsins og Íslands um vernd landfræðilegra merkinga landbúnaðarafurða og matvæla, sem var gerður í Brussel hinn …, skal samningur þessi fyrst öðlast gildi sama dag og síðarnefndi samningurinn. Ef nauðsyn krefur verða tollkvótar opnaðir á hlutfallsgrundvelli.
     16.      Samningsaðilarnir eru sammála því að taka að nýju upp tvíhliða samningaviðræður á grundvelli 19. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að tveimur árum liðnum og huga þá sérstaklega að niðurstöðu samningaferlis Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um landbúnað.
    Mér veitist sá heiður að staðfesta að Evrópusambandið samþykkir efni þessa bréfs.
    Ég væri yður þakklátur ef þér vilduð staðfesta að ríkisstjórn Íslands samþykki það sem á undan fer.
    Ég votta yður fyllstu virðingu mína.

Gjört í Brussel,
Fyrir hönd Evrópusambandsins

B. Bréf frá Íslandi.

    Herra,
    Mér veitist sá heiður að staðfesta viðtöku svohljóðandi bréfs yðar dagsettu í dag:
    „Mér veitist sá heiður að vísa til tvíhliða viðskiptaviðræðna milli Evrópusambandsins og Íslands (samningsaðilarnir) sem var lokið hinn 17. september 2015. Ný lota viðskiptaviðræðna um landbúnaðarafurðir milli framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Íslands fór fram á grundvelli 19. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins). Markmiðið var að ýta undir viðskiptafrelsi með landbúnaðarafurðir milli samningsaðilanna í skrefum, á grundvelli fríðinda, gagnkvæmni og hags beggja. Samningaviðræðurnar fóru fram á skipulegan hátt, þar sem viðeigandi tillit var tekið til framvindu innan landbúnaðarstefnu hvors samningsaðila um sig, meðal annars framvindu í tvíhliða viðskiptum við aðra viðskiptaaðila og hvað varðar viðskiptaskilyrði gagnvart þeim.
    Ég staðfesti hér með að niðurstöður samningaviðræðnanna voru sem hér segir:
     1.      Ísland skuldbindur sig til þess að veita tollfrjálsan aðgang fyrir vörur sem eru upprunnar í Evrópusambandinu og taldar upp í I. viðauka.
     2.      Ísland skuldbindur sig til þess að bjóða fram tollkvóta fyrir vörur upprunnar í Evrópusambandinu, eins og tilgreint er og talið upp í II. viðauka.
     3.      Ísland skuldbindur sig til þess að lækka innflutningstolla á vörur sem eru upprunnar í Evrópusambandinu og taldar upp í III. viðauka.
     4.      Evrópusambandið skuldbindur sig til þess að veita tollfrjálsan aðgang fyrir vörur sem eru upprunnar á Íslandi og taldar upp í IV. viðauka.
     5.      Evrópusambandið skuldbindur sig til þess að bjóða fram tollkvóta fyrir vörur upprunnar á Íslandi, eins og tilgreint er og talið upp í V. viðauka.
     6.      Tollnúmer, sem eru tilgreind í I. til V. viðauka, vísa til þeirra sem gilda fyrir samningsaðilanna 1. janúar 2015.
     7.      Þessar tvíhliða ívilnanir koma í stað og sameina allar tvíhliða ívilnanir, sem nú eru í gildi að því er varðar landbúnaðarafurðir, með skírskotun til 19. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
     8.      Ákvæði bókunar 3 við samninginn milli Efnahagsbandalags Evrópu og Íslands, með áorðnum breytingum samkvæmt ákvörðun sameiginlegrar nefndar EB og Íslands nr. 2/2005 um skilgreiningu á hugtakinu „upprunavörur“ og um samvinnu á sviði stjórnsýslu 2 , gilda að breyttu breytanda um þær afurðir sem um getur í I. til V. viðauka.
     9.      Samningsaðilarnir eru sammála því að tryggja að ávinningnum, sem þeir veita hvor öðrum, verði ekki stefnt í hættu með öðrum takmarkandi innflutningsráðstöfunum.
     10.      Samningsaðilarnir eru sammála því að tryggja að tollkvótum verði stjórnað á þann veg að reglubundinn innflutningur geti farið fram og að unnt verði í reynd að flytja inn það magn sem samið hefur verið um til innflutnings.
     11.      Samningsaðilarnir eru sammála því að stuðla að viðskiptum með umhverfisvænar afurðir og landfræðilega merktar afurðir. Samningur um landfræðilegar merkingar var gerður samhliða samningi þessum í því skyni að vernda enn frekar landfræðilegar merkingar á yfirráðasvæðum beggja samningsaðila.
     12.      Samningsaðilarnir eru sammála því að skiptast með reglulegu millibili á upplýsingum um afurðir sem viðskipti eru stunduð með, um stýringu tollkvóta og verðskrár og á gagnlegum upplýsingum um innanlandsmarkaði hvors um sig og um framkvæmd samnings þessa.
     13.      Samráðsfundir verða haldnir um öll álitaefni varðandi framkvæmd samnings þessa, fari annar samningsaðilinn fram á það. Komi upp vandkvæði við framkvæmd samnings þessa verða þessir samráðsfundir haldnir eins skjótt og auðið er í því skyni að samþykkja viðeigandi ráðstafanir til úrbóta.
     14.      Fyrstu samráðsfundir viðvíkjandi samningi þessum munu fara fram áður en tilhögun framkvæmdar er komið á. Þetta er gert til þess að auðvelda góða framkvæmd samnings þessa.
     15.      Samningur þessi öðlast gildi fyrsta dag sjöunda mánaðar eftir þann dag þegar samningsaðilarnir hafa tilkynnt hvor öðrum að nauðsynlegri innlendri málsmeðferð sé lokið. Ef sá dagur er fyrir gildistökudag samningsins milli Evrópusambandsins og Íslands um vernd landfræðilegra merkinga landbúnaðarafurða og matvæla, sem var gerður í Brussel hinn ..., skal samningur þessi fyrst öðlast gildi sama dag og síðarnefndi samningurinn. Ef nauðsyn krefur verða tollkvótar opnaðir á hlutfallsgrundvelli.
     16.      Samningsaðilarnir eru sammála því að taka að nýju upp tvíhliða samningaviðræður á grundvelli 19. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að tveimur árum liðnum og huga þá sérstaklega að niðurstöðu samningaferlis Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um landbúnað.“
    Mér veitist sá heiður að staðfesta að ríkisstjórn Íslands samþykkir efni bréfs yðar.
    Ég votta yður fyllstu virðingu mína.

Gjört í Reykjavík
Fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands

Fylgiskjal II.


II. viðauki

Ísland mun opna eftirfarandi árlega tollkvóta fyrir neðangreindar vörur sem eru upprunnar í Evrópusambandinu (*):
ST Vara Núgildandi Samtals
viðbótarmagn
Gildistökuár (fyrsta ár) 2. ár 3. ár 4. ár Kvótar samtals
Kvóti Tonn (náð eigi
síðar en eftir 4 ár)
Tonn
(***)
Tonn
(****)
Tonn
(****)
Tonn
(****)
Tonn (náð eigi
síðar en eftir 4 ár)
Vöruliður Tonn
0201 og 0202 Nautakjöt 100 596 149 149 149 149 696
0203 Svínakjöt 200 500 250 250 700
0207 Alifuglar 200 656 328 328 856
úr 0207 Alifuglar – lífrænir/útifuglar -- 200 100 100 200
úr 0210 Kjöt, saltað, þurrkað eða reykt 50 50 50 100
úr 0406 Ostur (vernduð upprunatáknun VUT eða vernduð, landfræðileg merking VLM) (**) 20 210 55 55 55 45 230
0406 Ostur 80 300 75 75 75 75 380
úr 1601 Pylsur 50 200 100 100 250
1602 Unnar kjötafurðir 50 350 120 120 110 400
( *) Kvótarnir skulu gilda fyrir almanaksárið (1. janúar – 31. desember) að undanskildu gildistökuárinu (fyrsta ár) þegar viðbótarmagnið skal gilda frá gildistökudegi til enda almanaksársins.
( **) Skráð samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1151/2012 frá 21. nóvember 2012 um gæðakerfi fyrir landbúnaðarafurðir og matvæli (Stjtíð. ESB L 343, 14.12.2012, bls. 1).
( ***) Það viðbótarmagn sem skal koma til framkvæmdar á gildistökuárinu skal ákveðið á hlutfallsgrundvelli og aukið við hvaða gildandi kvóta sem er á því almanaksári.
( ****) Magn sem skal aukið á þessu ári við kvótann frá árinu á undan. Fyrir annað árið er kvótinn frá árinu á undan einnig heildarkvóti gildistökuársins og ekki magnið á hlutfallsgrundvelli fyrir gildistökuárið. Að auki skal bæta magninu, sem ekki er notað vegna útreikningsins á hlutfallsgrundvelli á gildistökuárinu, við annað árið.

Fylgiskjal III.


V. viðauki

Evrópusambandið skal opna eftirfarandi árlega tollkvóta fyrir neðangreindar vörur sem eru upprunnar á Íslandi (*):
ST Vara Núgildandi Samtals
viðbótarmagn
Gildistökuár (fyrsta ár) 2. ár 3. ár 4. ár Kvótar samtals
Kvóti Tonn (náð eigi
síðar en eftir 4 ár)
Tonn
(**)
Tonn
(***)
Tonn
(***)
Tonn
(***)
Tonn (náð eigi
síðar en eftir 4 ár)
Vöruliður Tonn
0204 og 0210 Kindakjöt 1.850 1.200 400 400 400 3.050
úr 1602* Unnið kindakjöt (1602.90) 300 100 100 100 300
0203 Svínakjöt 500 250 250 500
0207 Alifuglar 300 150 150 300
úr 0406 Skyr 380 3.620 905 905 905 905 4.000
úr 0405 Smjör 350 150 39 37 37 37 500
0406 Ostur 50 14 12 12 12 50
úr 1601 Pylsur 100 100
( *) Kvótarnir skulu gilda fyrir almanaksárið (1. janúar – 31. desember) að undanskildu gildistökuárinu (fyrsta ár) þegar viðbótarmagnið skal gilda frá gildistökudegi til enda almanaksársins.
( **) Það viðbótarmagn sem skal koma til framkvæmdar á gildistökuárinu skal ákveðið á hlutfallsgrundvelli og aukið við hvaða gildandi kvóta sem er á því almanaksári.
( ***) Magn sem skal aukið á þessu ári við kvótann frá árinu á undan. Fyrir annað árið er kvótinn frá árinu á undan einnig heildarkvóti gildistökuársins og ekki magnið á hlutfallsgrundvelli fyrir gildistökuárið. Að auki skal bæta magninu, sem ekki er notað vegna útreikningsins á hlutfallsgrundvelli á gildistökuárinu, við annað árið.
Neðanmálsgrein: 1
1     Ákvörðun sameiginlegrar nefndar EB og Íslands nr. 2/2005 frá 22. desember 2005 um breytingu á bókun 3 við samninginn um skilgreiningu á hugtakinu „upprunavörur“ og um samvinnu á sviði stjórnsýslu (Stjtíð. EB L 131, 18.5.2006, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 2
2     Ákvörðun sameiginlegrar nefndar EB og Íslands nr. 2/2005 frá 22. desember 2005 um breytingu á bókun 3 við samninginn um skilgreiningu á hugtakinu „upprunavörur“ og um samvinnu á sviði stjórnsýslu (Stjtíð. EB L 131, 18.5.2006, bls. 1).