Ferill 32. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1414  —  32. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um endurskoðun laga um lögheimili.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.

    
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Fanneyju Óskarsdóttur og Ólaf Kr. Hjörleifsson frá innanríkisráðuneyti og Indriða B. Ármannsson og Björgu Finnbogadóttur frá Þjóðskrá Íslands. Umsögn barst frá Þjóðskrá Íslands. Málið var áður flutt á 144. löggjafarþingi og hefur nefndin jafnframt kynnt sér þær umsagnir sem bárust um málið þá.
    Samkvæmt tillögunni skal ráðist í endurskoðun laga um lögheimili með það að markmiði að hjónum verði gert kleift að skrá lögheimili hvort í sínu lagi. Markmiðið er að tekið verði tillit til mismunandi aðstæðna fólks og viðurkennt að lögum að hjón geti verið búsett hvort á sínum stað, til dæmis, en þó ekki eingöngu, ef annað þeirra býr erlendis. Í greinargerð tillögunnar eru tínd til ýmis rök fyrir þessari breytingu. Lög um lögheimili hafi verið samin á níunda áratug síðustu aldar og viðamiklar breytingar orðið á íslensku samfélagi síðan þá, svo sem með tilkomu internetsins, aðild Íslands að EES og í kjölfar efnahagshrunsins. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og telur mörg rök hníga að því að heimila hjónum að skrá lögheimili hvort á sínum stað.
    Fulltrúar Þjóðskrár Íslands hafa jafnt í umsögn sem á fundi nefndarinnar lýst yfir stuðningi við tillöguna og bent á að samhliða endurskoðun laga um lögheimili þurfi að endurskoða lög um aðsetursskipti. Nefndin tekur undir það. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um málið á síðasta löggjafarþingi var einnig tekið undir markmið tillögunnar en jafnframt lýst yfir að huga þyrfti að mörgum öðrum atriðum sem til væru komin vegna örra samfélagsbreytinga undanfarinna áratuga. Nefndin hefur verið upplýst um að í innanríkisráðuneytinu sé hafin vinna við heildarendurskoðun laga um lögheimili og beinir nefndin því til ráðuneytisins að hafa hliðsjón af sjónarmiðum sveitarfélaganna í þeirri vinnu auk þessarar þingsályktunartillögu. Á fundum nefndarinnar kom enn fremur upp sú spurning hvernig haga skyldi lögheimilisskráningu barna hjóna sem ættu hvort sitt lögheimilið, yrði það heimilað að lögum. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að við fyrrgreinda vinnu verði kannaður sá möguleiki að börn verði skráð með tvö lögheimili þegar svo ber undir.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað ártalsins „2016“ í tillögugreininni komi: 2017.
    
    Guðmundur Steingrímsson og Haraldur Einarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins og rita þeir undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 1. júní 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Guðmundur Steingrímsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Haraldur Einarsson. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Vilhjálmur Árnason.