Ferill 184. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1416  —  184. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um Laxnesssetur að Gljúfrasteini í Mosfellsbæ.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðnýju Dóru Gestsdóttur, Huldu M. Rútsdóttur og Kristínu Lilju Thorlacius Björnsdóttur frá Gljúfrasteini, Guðrúnu Pétursdóttur og Kolbrúnu Halldórsdóttur frá Vinafélagi Gljúfrasteins og Harald Sverrisson, bæjarstjóra Mosfellsbæjar. Umsagnir bárust frá Mosfellsbæ, safnstjóra og stjórn Gljúfrasteins, starfsmönnum Gljúfrasteins og Vinafélagi Gljúfrasteins.
    Þingsályktunartillagan lýtur að því að mennta- og menningarmálaráðherra stuðli í samvinnu við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ að uppbyggingu Laxnessseturs að Gljúfrasteini í Mosfellsbæ til að heiðra minningu Halldórs Laxness. Verði þar starfrækt miðstöð þekkingar um skáldið og bókmenntasetur með aðstöðu til fræðistarfa.
    Líkt og fram kemur í greinargerð tillögunnar voru í fyrra liðin 60 ár frá því að Halldór Laxness hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels. Nefndin tekur undir það sem þar kemur fram að tímamótin gefi tilefni til að huga að uppbyggingu menningarseturs sem heiðri minningu skáldsins svo sómi sé að. Á Gljúfrasteini, heimili skáldsins, hefur í rúman áratug verið starfrækt safn og hafa þar farið fram sýningar og menningarviðburðir. Safnið hefur þó verið lokað það sem af er árinu 2016 og verður um nokkurt skeið enn vegna viðgerða að því er fram kemur í umsögn stjórnar Gljúfrasteins. Þar er áréttað mikilvægi þess að reisa viðbyggingu við húsið til að verja það miklum ágangi og tryggja varðveislu þess. Með viðbyggingunni mætti auka til muna möguleika safnsins til að sinna hlutverki sínu.
    Allir sem komið hafa að umfjöllun nefndarinnar um mál þetta hafa lýst yfir stuðningi við tillöguna. Nefndin tekur undir mikilvægi þess að íslensk yfirvöld hafi aðkomu að uppbyggingu menningarseturs sem hafi það hlutverk að halda á lofti framlagi Halldórs Laxness til íslenskra bókmennta og heiðra minningu hans, án þess þó að sú aðkoma feli í sér skuldbindingu til fjárveitinga á þessu stigi. Nefndin vekur athygli á því að Gljúfrasteinn stendur við eina fjölförnustu ferðamannaleið landsins og því sé mikilvægt að uppbyggingin taki mið af því, bæði við framsetningu og skipulag rekstrar. Þannig mætti fjármagna a.m.k. hluta starfsins með sjálfsaflafé.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Guðmundur Steingrímsson og Haraldur Einarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins og rita þeir undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 1. júní 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Guðmundur Steingrímsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Haraldur Einarsson. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Vilhjálmur Árnason.