Ferill 40. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1417  —  40. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um eflingu náms í mjólkurfræði.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Grétar Kristjánsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Katrínu Dóru Þorsteinsdóttur frá Samtökum iðnaðarins, Bjarna Ragnar Brynjólfsson frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Anton Tómasson frá Fagráði mjólkuriðnaðarins og Erlend Ástgeirsson og Gísla Jósep Hreggviðsson frá Mjólkurfræðingafélagi Íslands. Umsagnir bárust frá Fagráði mjólkuriðnaðarins, Mjólkurfræðingafélagi Íslands, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði og Samtökum iðnaðarins. Málið var áður flutt á 144. löggjafarþingi (336. mál) og hefur nefndin kynnt sér þær umsagnir sem bárust um það þá.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að gripið verði til aðgerða sem tryggi að íslenskum nemendum standi til boða að sækja nám í mjólkurfræði. Slíkt nám fer ekki fram hér á landi og hafa íslenskir mjólkurfræðingar því þurft að sækja þá menntun annað. Flestir hafa leitað til Danmerkur, nánar tiltekið Kold College í Óðinsvéum. Undanfarna áratugi hefur námið byggst á samstarfi Fræðslunefndar mjólkuriðnaðarins hér á landi og Kold College. Í þeim umsögnum sem nefndinni bárust um málið og meðal gesta á fundum hennar hefur verið samhljómur um að samstarfið við þennan tiltekna skóla hafi reynst afar vel og átt stóran þátt í velgengni og styrk íslensks mjólkuriðnaðar. Nú ríkir hins vegar óvissa um framtíð náms í mjólkurfræði fyrir íslenska nemendur þar sem kostnaður sem þeir þurfa sjálfir að standa straum af hefur stóraukist á undanförnum árum vegna breyttrar umgjarðar, m.a. varðandi skólagjöld og verknám. Vegna mikilvægis þess að viðhalda þekkingu í mjólkurfræði í landinu og þeirrar staðreyndar að nám í greininni fer ekki fram hér á landi þykir flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld grípi til aðgerða. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið.
    Fram kom á fundum nefndarinnar að á árunum 1999–2013 hefðu að meðaltali tveir íslenskir mjólkurfræðingar útskrifast á ári, en enginn Íslendingur hefði hafið nám í greininni síðan 2012 svo kunnugt væri, meðalaldur mjólkurfræðinga á Íslandi væri um 50 ár og á næstu 10 árum mundu 14 mjólkurfræðingar hætta störfum sökum aldurs. Nýliðun í greininni er hæg og vegna nýtilkomins vanda varðandi skólagjöld o.fl., sem fyrr var getið, er veruleg hætta á að nýliðun verði lítil sem engin á næstu árum með ófyrirséðum afleiðingum fyrir íslenskan mjólkuriðnað og ýmsan annan matvælaiðnað þar sem mjólkurfræðinga er þörf. Nefndinni hefur verið bent á að nú þegar megi greina áhrif skorts á mjólkurfræðingum í auknu vinnuálagi þeirra sem eftir eru í greininni.
    Nefndin telur brýnt að brugðist verði við þeim vanda sem að iðngrein þessari steðjar. Þar sem vænta má að útskrift tveggja til þriggja mjólkurfræðinga á ári dugi til að viðhalda nauðsynlegri þekkingu í landinu telur nefndin þjóðhagslega hagkvæmara að ráðuneytið semji við yfirvöld og skóla erlendis um menntun íslenskra nema í mjólkurfræði en að námið verði með einhverjum hætti stofnsett hér á landi. Leggur nefndin til breytingu á orðalagi tillögugreinarinnar í samræmi við það. Sem fyrr segir eru umsagnaraðilar sammála um gæði mjólkurfræðikennslu í Kold College-skólanum í Danmörku og kemur m.a. fram í umsögn Mjólkurfræðingafélags Íslands að skólinn sé einn sá virtasti í heimi á sínu sviði. Þykir nefndinni liggja beint við að ráðuneytið leiti samninga við dönsk yfirvöld og þennan tiltekna skóla til að tryggja íslenskum nemum tækifæri til að sækja nám í mjólkurfræði. Ráðuneytið hafi við þessa vinnu samráð við Fagráð mjólkuriðnaðarins.
    Nefndin tekur undir fram komin sjónarmið um að auk þjóðhagslegs ávinnings séu jafnréttisrök fyrir því að hið opinbera komi að niðurgreiðslu náms íslenskra ungmenna í fámennum greinum þegar þau þurfa að sækja námið utan landsteinanna. Nefndin styður þá þingsályktunartillögu sem hér er til umfjöllunar en bendir jafnframt á að sams konar vandi steðji að öðrum fámennum iðngreinum á borð við húsgagnabólstrun, veggfóðrun, dúklagningu, einstakar greinar bakaraiðnar, úrsmíði, eldsmíði og fámennar greinar innan rafiðnar. Nefndin telur mikilvægt að stuðlað verði að stöðugri endurnýjun í þessum greinum. Beinir nefndin því til ráðuneytisins að leitast verði við að koma á sams konar samningssamböndum við erlend yfirvöld og skóla um nám í öðrum fámennum greinum sem ekki eru kenndar hér á landi og lagt hefur verið til um nám í mjólkurfræði.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „ráðast í endurskoðun á tilhögun náms“ í tillögugreininni komi: leita samninga við erlend yfirvöld og skóla um nám.

    Guðmundur Steingrímsson og Haraldur Einarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins og rita þeir undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir rita undir álitið með fyrirvara um samhengi við aðrar iðngreinar og faglega frumkvæðisskyldu mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Alþingi, 1. júní 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Jóhanna María Sigmundsdóttir,
frsm.
Guðmundur Steingrímsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
með fyrirvara.
Haraldur Einarsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir,
með fyrirvara.
Vilhjálmur Árnason.