Ferill 804. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1419  —  804. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu.


Flm.: Helgi Hrafn Gunnarsson, Katrín Jakobsdóttir, Páll Valur Björnsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Róbert Marshall, Össur Skarphéðinsson, Óttarr Proppé, Líneik Anna Sævarsdóttir,
Vilhjálmur Árnason, Svandís Svavarsdóttir


    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að sækja um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu.

Greinargerð.

    Geimvísindastofnun Evrópu (e. European Space Agency, ESA) var sett á laggirnar árið 1975 og eru aðildarríki hennar nú 22 talsins. Öll Norðurlöndin eru aðilar að ESA, að frátöldu Íslandi.
    Markmið ESA er að vera samstarfsvettvangur Evrópuríkja í geim- og tæknirannsóknum. ESA eru sjálfstæð samtök en eiga í nánu samstarfi við Evrópusambandið um rammaáætlanir á sviði geim- og tæknivísinda. Hvert aðildarríki á fulltrúa í ráði ESA og hefur eitt atkvæði, óháð stærð og fjárframlögum viðkomandi ríkis.
    Helstu verkefni stofnunarinnar lúta m.a. að framkvæmd og útfærslu langtímastefnu í geimvísindum og tillögum um sameiginleg markmið aðildarríkjanna í geimvísindum sem og annarra alþjóðastofnana. ESA sér einnig um samræmingu evrópsku geimferðaáætlunarinnar og áætlana aðildarríkjanna, einkum er varðar þróun gervihnattabúnaðar.
    Starf stofnunarinnar snýst þó ekki síður um rannsóknir á jörðinni og eru áherslur hennar því ekki einungis á sviði geimvísinda heldur einnig á ýmsum sviðum sem varða fyrst og fremst jörðina, svo sem veðurfræði, líffræði og jarðfræði. Einnig er lögð áhersla á rannsóknir á sviðum eðlisfræði, efnafræði, stærðfræði, tölvuvísinda og svo mætti lengi telja.

Vísindarannsóknir, nýsköpun og atvinnuuppbygging.
    Stóran þátt í hagvexti Íslands undanfarin missiri má rekja til vaxtar í ferðaþjónustu. Sú grein krefst mikils vinnuafls en almennt ekki sérfræðimenntunar. Þrátt fyrir vöxt íslenska hagkerfisins sýna tölur að fjöldi íslenskra ríkisborgara sem flyst frá landinu er meiri en sá sem flytur til landsins. Meðal helstu tilmæla í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sem lúta að framleiðniaukningu er að efla þurfi nýsköpun og tengsl atvinnulífs og háskóla. Í skýrslunni er bent á að þeir sem flytja til landsins hafa minni menntun en þeir sem flytja frá landinu sem er afleiðing þess að menntaðir Íslendingar flytja úr landi í leit að fjölbreyttari atvinnumöguleikum á meðan aðfluttir sinna láglaunastörfum á Íslandi, svo sem störfum í ferðamennsku. Þetta gefur til kynna ákveðið misræmi sem getur reynst íslenska ríkinu dýrkeypt þegar fram líða stundir þar sem fjárfest er í menntun sem síðan nýtist ekki að fullu heima fyrir. Íslenskt hagkerfi er á hinn bóginn að þróast frá því að vera hráefnahagkerfi byggt á sjávarútvegi en að mati OECD hefur enn ekki tekist að móta nýja atvinnustefnu á Íslandi þar sem vel menntað vinnuafl er fullnýtt.
    Mikil þörf er á að stjórnvöld móti atvinnustefnu á Íslandi með nýjum vaxtartækifærum þar sem vel menntað vinnuafl nýtist til fulls. Menntað fólk flytur úr landi og er aðild Íslands að ESA þáttur í að efla atvinnumöguleika á sviði hvers konar tækni og vísinda heima fyrir. Tillagan felur í sér aukningu á útgjöldum ríkissjóðs en sú aukning ætti að skila sér til baka í formi verkefna sem síðan styðja við innlendar rannsóknir, ásamt því að veita ný menntunar- og atvinnutækifæri til frambúðar.
    Aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu mundi skapa fjölbreyttari atvinnutækifæri og gera háskólamenntuðu fólki auðveldara að nýta sérþekkingu sína hérlendis, sjálfu sér og þjóðinni allri til hagsbóta.
    Líklegt er að helstu verkefnin sem bærust til Íslands við aðild yrðu fyrst um sinn hugbúnaðarverkefni. Íslenskur hugbúnaðariðnaður er rótgróinn, þróaður og framsækinn og ætti að hafa alla burði til þess að takast á við slík verkefni. Ein helsta áskorunin felst líklega í því að íslenskir sérfræðingar sjá fleiri og fjölbreyttari tækifæri erlendis, en tillögunni er ætlað að sporna við og helst snúa við þeirri þróun. Aðildarríkin ákveða þó sjálf á hvaða sérsviðum þau vilja helst taka þátt.
    Þá má ætla að aðild Íslands að Geimvísindastofun Evrópu mundi stuðla að auknum áhuga barna og ungmenna á raungreinum sem spennandi viðfangsefni.

Íslenskt vísindastarf og hátækniiðnaður.
    Þótt tillagan geti í fljótu bragði virst róttæk telja flutningsmenn tillögunnar aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu eðlilegt framhald þess vísindastarfs sem þegar hefur verið byggt upp á Íslandi. Íslenskir vísindamenn nota nú þegar gögn frá Geimvísindastofnun Evrópu, m.a. við rannsóknir á jarðhræringum og veðurfari. Ísland stendur framarlega í rannsóknum á segulsviði jarðar og hingað til lands koma vísindamenn á vegum stofnunarinnar til þess að prófa tæki sem eru t.d. notuð í gervihnetti.
    Með aðild gæti Ísland notfært sér í auknum mæli þau tæki sem stofnunin býr yfir og haft áhrif á rannsóknarstarf hennar, svo sem hvernig ferðir gervitungla eru skipulagðar. Slík áhrif kæmu íslensku vísinda- og rannsóknarstarfi mjög til góða, svo sem við rannsóknir á landrisi og þróun jökla, veðurfari, hafís og hitabreytingum sem geta gert viðvart um eldgos, svo fátt eitt sé nefnt.

Loftslagsbreytingar.
    Einn stærsti vandi sem blasir við heimsbyggðinni nú eru loftslagsbreytingar af mannavöldum. Ísland mun ekki fara varhuga af hlýnun jarðar, einkum er varðar bráðnun íshellunnar á Norður-Íshafi. Loftlagsbreytingum fylgja nýjar áskoranir fyrir Íslandi og eru málefni norðurslóða mikilvæg nú sem aldrei fyrr í utanríksstefnu Íslands, enda eiga Íslendingar þar mikilla hagsmuna að gæta. Alþjóðleg samvinna er grundvallaratriði í rannsóknum og aðgerðum gegn loftslagsbreytingum.
    Eitt af hlutverkum Geimvísindastofnunar Evrópu er að fylgjast með loftslagsbreytingum jarðar frá geimnum, t.d. með sérstökum skynjurum sem safna gögnum og fylgjast með veðurkerfi jarðar, og geta spáð fyrir um ofsaveður og afleiðingar þess fyrir ákveðin landsvæði.
    Ef Ísland ætlar að gera sig gildandi í málefnum norðurslóða er aðild að samtökum eins og Geimvísindastofnun Evrópu afar mikilvæg. Hnattræn staða Íslands skiptir einnig máli þar sem landið liggur á milli NASA í Bandaríkjunum annars vegar og ESA í Evrópu hins vegar. Ísland er þar í góðri stöðu til að brúa bilið á mörgum sviðum, svo sem á sviði jarðfræði, eins og reyndar er gert nú þegar.

Kostnaður.
    Aðildarríkjum er sameiginlega skylt að standa undir um þriðjungi af starfsemi stofnunarinnar en þar fyrir utan eru valfrjáls verkefni fjármögnuð af aðildarríkjum. Hverju aðildarríki er í sjálfsvald sett í hvaða valfrjálsu verkefnum það tekur þátt og því eru fjárframlög misjöfn eftir því hvaða verkefnum hvert ríki ákveður að taka þátt í. Í staðinn fjárfestir stofnunin í aðildarríkjum með úthlutun verkefna sem efla rannsóknir og nýsköpun og miðast þá fjárhæðin við fjárframlag frá viðkomandi ríki.
    Þótt stofnunin sé ekki hluti af Evrópusambandinu er mikið náin samvinna þar á milli og um 22% af árlegum fjárframlögum til stofnunarinnar kemur frá Evrópusambandinu.
    Í töflu í fylgiskjali má glöggva sig á mögulegum fjárframlögum miðað við landsframleiðslu Íslands árið 2015 borið saman við nokkur aðildarríki og það hlutfall landsframleiðslu sem þau ríki lögðu til sama ár.

Fylgiskjal.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.