Ferill 131. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1450  —  131. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um stofnun loftslagsráðs.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Aðalstein Sigurgeirsson frá Skógrækt ríkisins, Brynjólf Jónsson frá Skógræktarfélagi Íslands og Halldór Björnsson frá Veðurstofu Íslands. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Háskólanum á Akureyri, Náttúrufræðistofu Kópavogs, Samtökum náttúrustofa, Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélagi Íslands og Veðurstofu Íslands.
    Með tillögunni er lagt til að fela ríkisstjórninni að koma á fót loftslagsráði sem hafi það meginhlutverk að gera ráðstafanir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Ráðinu verði falin víðtæk verkefni á sviði loftslagsmála og þá er lagt til að ráðið verði fjölskipað vísindamönnum frá helstu rannsóknarstofnunum og samtökum landsins. Í lokamálslið tillögugreinarinnar er lagt til að á fimmta starfsári loftslagsráðs skipi umhverfis- og auðlindaráðherra nefnd sem leggi mat á skipan þess og starfshætti og geri eftir atvikum tillögur um breytingar.
    Ekki er lengur um það deilt að miklar loftslagsbreytingar eiga sér nú stað á jörðinni. Hitamet í meðalhita hafa nú verið slegin í hverjum mánuði samfleytt í meira en ár. Afleiðingar loftslagsbreytinga geta verið mismunandi eftir því hvar á jörðinni komið er niður. Sums staðar eru eyríki á mörkum þess að sökkva í sæ, hitamet eru slegin og á ýmsum stöðum sjást afleiðingarnar í breytingum á lífríki hafsins með súrnun þess og áhrifum súrnunar. Ljóst er að ríki heims þurfa að taka höndum saman í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og er árangur Parísarfundarins seint á síðasta ári og samkomulagið sem náðist á þeim fundi stórt skref í þá átt að fá þjóðir heims í sameiginlega baráttu gegn loftslagsbreytingum. Ástæða þeirra er einkum útblástur gróðurhúsalofttegunda vegna brennslu jarðefnaeldsneytis. Það að snúa þróun í loftslagsmálum við þannig að hlýnun jarðar haldist innan viðráðanlegra marka á þessari öld kallar því á miklar breytingar í samfélaginu.
    Gestir og umsagnaraðilar nefndarinnar voru almennt jákvæðir gagnvart efni tillögunnar enda mikilvægt að reyna að vinna gegn loftslagsbreytingum og neikvæðum afleiðingum þeirra. Töluvert hefur verið rannsakað og unnið síðustu ár á þessum vettvangi og fyrir nefndinni var m.a. bent á að árið 2008 hefði vísindanefnd um loftslagsbreytingar skilað af sér skýrslu þar sem hnattrænum loftslagsbreytingum var lýst og líklegum áhrifum þeirra á Íslandi. Árið 2009 skilaði sérfræðinganefnd umhverfisráðuneytisins skýrslu um möguleika á því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Nú hefur umhverfis- og auðlindaráðuneytið falið vísindanefnd um loftslagsbreytingar að vinna aðra skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga hér á landi og þá er einnig á vegum háskólasamfélagsins unnið að frekari úttekt á möguleikum til að draga úr loftslagsbreytingum. Þá bendir nefndin á að ýmsir opinberir aðilar hafa í auknum mæli síðustu ár tekið mið af loftslagsmálum í starfsemi sinni og því ber að fagna. Jafnframt þarf að auka hvata hjá einkaaðilum til að taka skref í átt að minni losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingu.
    Nefndin bendir á að loftslagsráði er ætlað víðtækt hlutverk og það muni því þjóna nokkurs konar samhæfingarhlutverki með yfirsýn yfir þá vinnu sem unnin er í loftslagsmálum hér á landi. Ráðinu er ætlað að miðla upplýsingum um loftslagsmál en ekki að stunda tilteknar rannsóknir eða stuðla að þeim. Þá er ráðinu falið ráðgjafarhlutverk við að koma með tillögur að leiðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til stjórnvalda og annarra aðila. Að mati nefndarinnar er skipan ráðsins til þess fallin að ýta undir vægi þeirra ráðlegginga sem frá ráðinu kæmu en það yrði skipað sérfræðingum á sviði náttúruvísinda.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Ásta Guðrún Helgadóttir og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. júní 2016.

Höskuldur Þórhallsson,
form., frsm.
Katrín Júlíusdóttir. Haraldur Einarsson.
Birgir Ármannsson. Elín Hirst. Svandís Svavarsdóttir.
Róbert Marshall.