Ferill 160. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1475  —  160. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn súrnun sjávar á norðurslóðum.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldór Björnsson frá Veðurstofu Íslands, Helga Jensson og Sigurrós Friðriksdóttur frá Umhverfisstofnun, Jóhann Sigurðsson og Sólveigu Ólafsdóttur frá Hafrannsóknastofnun, Jón Ólafsson og Hrönn Egilsdóttur frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Sigurð Björnsson frá Rannís, Harald Ingvason frá Náttúrufræðistofu Kópavogs og Kristján Þórarinsson og Steinar Inga Matthíasson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Byggðastofnun, Hafrannsóknastofnun, Háskólanum á Akureyri, Hrönn Egilsdóttur, Jóni Ólafssyni, Náttúrufræðistofu Kópavogs, Rannís – Rannsóknamiðstöð Íslands, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Landssambandi fiskeldisstöðva, Samtökum náttúrustofa, Umhverfisstofnun, Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands.
    Með tillögunni er lagt til að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp til að vinna aðgerðaáætlun um viðbrögð við súrnun sjávar á norðurslóðum. Starfshópurinn rannsaki hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á lífríki hafsins í kringum Ísland og til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að sporna við þeim og að umhverfis- og auðlindaráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum starfshópsins árlega eða oftar ef þurfa þykir.
    Gestir og umsagnaraðilar nefndarinnar voru almennt jákvæðir gagnvart efni tillögunnar. Súrnun sjávar á norðurslóðum getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir Íslendinga sem reiða sig mikið á sjávarútveg. Súrnun hafsins breytir vistkerfi þess og getur haft skaðleg áhrif á fiskstofna og fæðukeðju hafsins. Á fundum nefndarinnar kom fram að súrnun hafsins væri afleiðing af útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Súrnunin hefði verið viðvarandi frá upphafi iðnbyltingarinnar fyrir ríflega 150 árum og líklega aukist jafnt og þétt síðan þá þó svo að menn hefðu tiltölulega nýlega komist að raun um þau umhverfisáhrif sem hún veldur. Súrnun sjávar er því einn fylgifiskur loftslagsbreytinga sem eru aðsteðjandi ógn við lífsviðurværi milljóna manna um allan heim. Varla væri hægt að líta á súrnun sjávar sem einangrað fyrirbæri heldur þyrfti að horfa á það í víðara samhengi með tilliti til útblásturs og mengunar og þá sérstaklega útblásturs á koldíoxíði.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að rannsóknir á hafinu hjá Hafrannsóknastofnun og Háskóla Íslands hefðu dregist mikið saman á undanförnum árum vegna niðurskurðar. Nú væri svo komið að Hafrannsóknastofnun sinnti nánast engum rannsóknum á lífríki hafsins öðrum en á fiskstofnum og að áhrif súrnunar væru nú að mestu rannsökuð af einum vísindamanni, Hrönn Egilsdóttur, doktorsnema við Háskóla Íslands. Hún hefur á undanförnum árum rannsakað afleiðingar af súrnun sjávar. Á fundi nefndarinnar kom fram að auka þyrfti fjármagn til málaflokksins svo að hægt yrði að rannsaka áhrif súrnunar hafsins í teymisvinnu fleiri aðila, t.d. háskólasamfélagsins, Hafrannsóknastofnunar, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, og að byggja þyrfti upp og efla rannsóknaraðstöðu líkt og Þekkingarsetur Suðurnesja í Sandgerði. Þá kom einnig fram að ólíklegt væri að aðgerðaáætlun til að bregðast við súrnun sjávar hér á landi hefði breytingar í för með sér enda er um hnattrænt vandamál að ræða þó svo að súrnun sjávar kunni að hafa meiri áhrif og öðruvísi hér á landi en annars staðar í heiminum.
    Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og telur brýnt að efla rannsóknir á hafi og lífríki þess enda afar mikilvægt fyrir lífsafkomu landsmanna. Hér á landi er líklegt að loftslagsbreytingar muni koma fram í hlýnandi veðri og súrnun sjávar. Það sem Íslendingar geta raunverulega lagt af mörkum til alþjóðasamfélagsins í baráttunni gegn loftslagsbreytingum eru rannsóknir á hafinu og áhrifum súrnunar þess. Að mati nefndarinnar er rétt að nýta þá innviði sem þegar eru til staðar en efla þá enn frekar með betri samþættingu og auknum fjármunum. Nefndin leggur því til þá breytingu að í stað þess að starfshópnum verði falið að vinna aðgerðaáætlun um viðbrögð við súrnun sjávar á norðurslóðum verði honum falið að vinna skýrslu um hvernig efla megi rannsóknir á hafinu og lífríki þess með tilliti til súrnunar og loftslagsbreytinga.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að skipa starfshóp sem vinni skýrslu um hvernig efla megi hafrannsóknir hér á landi með tilliti til súrnunar hafsins og þeirra breytinga sem verða á lífríki þess. Í starfshópnum verði m.a. fulltrúar Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnunar, Umhverfisstofnunar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Starfshópurinn skili ráðherra skýrslu fyrir árslok 2016 sem ráðherra kynnir fyrir Alþingi.


Alþingi, 2. júní 2016.

Höskuldur Þórhallsson,
form., frsm.
Katrín Júlíusdóttir. Haraldur Einarsson.
Birgir Ármannsson. Elín Hirst. Ásta Guðrún Helgadóttir.
Svandís Svavarsdóttir. Róbert Marshall. Vilhjálmur Árnason.