Ferill 23. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1483  —  23. mál.
Nr. 42/145.


Þingsályktun

um að efla samstarf Íslands og Grænlands.


    Alþingi lýsir stuðningi við söguleg skref sem vina- og nágrannaþjóð Íslendinga á Grænlandi hefur á síðustu áratugum tekið til aukinnar sjálfstjórnar og felur ríkisstjórninni að leita leiða til að efla tengsl og samvinnu við Grænland með áherslu á eftirfarandi:
     a.      vinna að gerð samkomulags sem tryggi fullt tollfrelsi varðandi sölu varnings og þjónustu og jafnhliða verði unnið að því að ryðja öðrum hindrunum úr vegi greiðra viðskipta og þátttöku í atvinnulífi,
     b.      örva tengsl milli yngstu kynslóða þjóðanna, m.a. með sameiginlegum verkefnum á leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólastigi; slíkt samstarf verði stutt af Grænlandssjóði og ríkisstjórninni falið að efla hann með viðeigandi hætti,
     c.      auka samstarf háskóla landanna, m.a. með því að tryggja að háskólanemar geti fengið námskeið metin milli háskóla beggja landa til lokaprófs, stofna íslenskan samkeppnissjóð sem veiti árlega örvunarstyrki til sameiginlegra rannsóknarverkefna ungra fræðimanna á sviði norðurslóða og samhliða verði starfsmönnum háskólanna gert kleift að stunda gestakennslu eða starfsþjálfun við samstarfsskóla eða -stofnanir,
     d.      koma á öflugu rannsóknasamstarfi milli Pinngortitaleriffik, umhverfisstofnunar Grænlands, og íslenskra stofnana á sviði jökla, hafs, veðurfars, fiskistofna, umhverfis, náttúruverndar, súrnunar sjávar og annarra fræðasviða sem tengjast norðurslóðum,
     e.      bjóða til samstarfs á sviði sjávarútvegs í því augnamiði að auka afrakstur af sjávarauðlindum landanna,
     f.      koma á samstarfi milli grænlensku jarðfræðistofnunarinnar og Orkustofnunar með þátttöku fræðasamfélagsins á sviði málma og annarra hagnýtra jarðefna, með áherslu á stjórnsýslu, rannsóknir og samstarf á alþjóðavettvangi,
     g.      beita sér fyrir formlegu samkomulagi milli samtaka atvinnulífs landanna um tímabundið starfsnám hjá fyrirtækjum sem hafa hlutverki að gegna í þróun viðskipta milli þjóðanna,
     h.      taka frumkvæði að úttekt á mögulegri samvinnu á sviði læknis- og heilbrigðisþjónustu sem verði undirstaða rammasamnings um stóreflt samstarf á þeim sviðum,
     i.      efla samstarf um ferðaþjónustu, m.a. um að auka aðdráttarafl beggja landanna með því að gera Grænland að áfangastað ferðamanna sem koma til Íslands,
     j.      efla samstarf og ráðgjöf á sviði vatnsaflsverkefna á Grænlandi,
     k.      undirbúa samkomulag um þjónustu við hugsanlega starfsemi á austurströnd Grænlands í tengslum við sjálfbæra auðlindanýtingu,
     l.      vinna að sameiginlegri framtíðarsýn um nýjar skipaleiðir á norðurslóðum og úttekt á ávinningum Grænlands og Íslands af miðleiðinni um norðurskautið,
     m.      efla samvinnu gegn loftslagsvá og taka upp formlegt samstarf á sviði umhverfisverndar og náttúruverndar samhliða auknum umsvifum á hafinu milli Íslands og Grænlands; sérstaklega verði hugað að áhrifum aukinna vöruflutninga um Norður-Íshafið og vaxandi skipaumferðar á norðurslóðum,
     n.      efla á alla lund starfsemi Vestnorræna ráðsins í því skyni að styrkja enn frekar pólitísk, menningarleg og viðskiptaleg tengsl Íslands, Færeyja og Grænlands, og vinna að því að formfesta árlega fundi æðstu manna þjóðanna,
     o.      tryggja að aukið samstarf við Grænland verði þáttur í að efla samstarf milli íbúa á vesturhluta vestnorræna svæðisins,
     p.      leggja fyrir Alþingi stefnumótun um málefni frumbyggja á heimskautasvæðum þar sem áhersla verði lögð á að styðja aðkomu þeirra og áhrif varðandi málefni sem snerta þá með beinum og óbeinum hætti.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2016.