Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1500  —  114. mál.
Nr. 52/145.


Þingsályktun

um undirbúning að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra, fyrir hönd framkvæmdarvaldsins, að hefja undirbúning að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma á Íslandi. Í því skyni verði m.a.:
     a.      þróuð, eða eftir atvikum löguð að íslenskum aðstæðum, hagfræðilíkön og spálíkön sem geri kleift að vinna langtímaspár um líklega þjóðhagsframvindu í landinu næstu áratugi og út þessa öld; í því sambandi verði hugað sérstaklega að mikilvægum þáttum í fjármálakerfinu, svo sem þróun lífeyrisskuldbindinga og ávöxtun eignasafns lífeyrissjóðakerfisins,
     b.      greindir mikilvægustu áhrifavaldar líklegrar og/eða mögulegrar þjóðhagsframvindu á Íslandi næstu tvo til þrjá áratugi og út öldina,
     c.      greind sérstaklega líkleg og/eða möguleg þróun félagslegra, umhverfislegra og lýðfræðilegra þátta sem hluta af forsendum slíkrar langtímaáætlanagerðar,
     d.      greindir sérstaklega styrkleikar og veikleikar Íslands með tilliti til náttúru og umhverfisaðstæðna, auðlinda, landfræðilegrar legu, landrýmis, fólksfjölda og mannauðs og annarra efnislegra og óefnislegra þátta sem áhrif kunna að hafa við slíka langtímaáætlanagerð,
     e.      sett fram dæmi um mögulega kynslóðareikninga þar sem borið er saman hlutskipti núlifandi kynslóða, þeirra sem byggja munu landið að þremur áratugum liðnum, og kynslóðanna sem verða á dögum við lok þessarar aldar,
     f.      skoðað hvernig verkefninu verði best fyrir komið og hverjum skuli fela að annast gerð, birtingu og reglubundna endurskoðun þjóðhagsáætlana til langs tíma.
    Forsætisráðherra skipi verkefnisstjórn til að undirbúa verkefnið og kalli á þann vettvang fulltrúa frá mennta- og vísindasamfélaginu, vinnumarkaðnum, sveitarfélögum og almannasamtökum, auk fulltrúa ráðuneyta og stofnana.
    Forsætisráðherra, í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra, leggi fyrir Alþingi innan árs frá samþykkt þessarar ályktunar tímasetta og útfærða verkáætlun, ásamt kostnaðarmati, til endanlegrar samþykktar.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2016.