Ferill 740. máls. Ferill 741. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1548  —  740. og 741. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 og tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2021.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar telur nauðsynlegt að gerðar séu langtímaáætlanir í opinberum fjármálum sem þessar, þó ljóst sé að spár um efnahagsumsvif svo langt fram í tímann séu háðar ákveðinni óvissu. Í því ljósi er mikilvægt að stjórnvöld séu meðvituð um að reynist hagvöxtur ekki jafnmikill og áætlað hefur verið næstu fimm ár getur það haft áhrif á tekjur hins opinbera og áætlaður hagnaður hæglega snúist í halla.
    Fyrsti minni hluti vill jafnframt benda á að hagvöxtur segir ekki til um hagsæld meðal íbúa landsins og er langt því frá að vera mælikvarði á hag og hamingju landsmanna. Þar skiptir mestu forgangsröðun fjármuna til velferðarmála og réttlát skipting þjóðarkökunnar. Með lögum um opinber fjármál sem samþykkt voru á síðasta þingi var stigið stórt umbótaskref í undirbúningi fyrir fjárlagagerð og betri yfirsýn fengin yfir opinber fjármál og áhrif þeirra á hagkerfið. Lögin voru unnin að mestu á síðasta kjörtímabili, m.a. með þátttöku Samfylkingarinnar.
    Þá grein sem kom ný inn í lög um opinber fjármál með nýrri ríkisstjórn og fjallar um fjármálareglu gat Samfylkingin hins vegar ekki sætt sig við vegna þess hversu takmarkandi hún er fyrir sveiflujöfnun í hagkerfinu. Samfylkingin vill fella lagagreinar um fjármálareglu úr gildi en gera þess í stað þá kröfu að ný ríkisstjórn setji sér sveiflujafnandi fjármálareglu fyrir kjörtímabil miðað við aðstæður hverju sinni.
    Fyrir stöðugleika skiptir öllu máli að ríkisfjármálastefna stjórnvalda og peningamálastefna Seðlabanka Íslands vinni saman að því draga úr hagsveiflum og tryggja efnahagslegan stöðugleika. Ef ríkissjóður fer í miklar fjárfestingar og lækkar samtímis skatta í uppsveiflu er voðinn vís og þá aukast líkur á að neikvæður spírall myndist sem við Íslendingar þekkjum allt of vel. Seðlabankinn bendir á í sinni umsögn um fjármálastefnuna að ef ekki sé talið álitlegt að draga úr fjárfestingum opinberra aðila á tímabilinu þurfi að draga úr öðrum útgjöldum eða afla hinu opinbera aukinna tekna, t.d. með hærri sköttum.
    Það er ljóst að veikleikar fjármálastefnunnar og fjármálaáætlunarinnar eru á tekjuhliðinni og eru tilkomnir vegna þess að ríkisstjórnin hefur afsalað sér tekjum á kjörtímabilinu. Ríkisstjórnin hefur lækkað veiðigjöld umtalsvert, afnumið auðlegðarskatt og orkuskatt, dregið úr jöfnunarhlutverki tekjuskattskerfisins og gefið ferðamönnum afslátt af virðisaukaskatti. Þá var sérstakur bankaskattur innheimtur sem gekk þó beint til lánastofnana til að niðurgreiða verðtryggð húsnæðislán sumra heimila, mest þó hjá efnamestu skuldurunum. Samanlagt hafa tekjur ríkissjóðs lækkað um tugi milljarða á kjörtímabilinu. Á sama tíma er fjárfestingarþörf mikil í samgöngukerfinu og bót á velferðarþjónustu og almannatryggingum afar aðkallandi.
    Fyrsti minni hluti gagnrýnir harðlega þessa forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Samfylkingin leggur áherslu á að breytingar verði gerðar á sköttum og gjöldum þannig að svigrúm myndist fyrir endurreisn heilbrigðiskerfisins og betri skóla, fyrir samgöngukerfið og löggæslu og einnig til þess að bæta kjör almennings á öllum stigum lífsins.
    Fyrsti minni hluti tekur undir gagnrýni Alþýðusambands Íslands á þá forgangsröðun í ríkisfjármálum sem fram kemur í fjármálaáætlun til næstu fimm ára og skorti á að félagsleg velferð sé undirbyggð og unnið að auknum jöfnuði í samfélaginu. Nái áætlunin fram að ganga mun misskipting aukast og innviðir velferðarsamfélagsins veikjast. Um þetta eru skýr merki víða í áætluninni.

Barnabætur.
    Í fjármálaáætluninni eru boðaðar breytingar á barnabótum. Barnabætur hér á landi eru nú þegar nánast eins og styrkur til fátækra og mjög ólíkar barnabótum annars staðar á Norðurlöndunum. Meginmarkmið ríkisstjórnarinnar, samkvæmt nýrri fjármálaáætlun, er að barnabætur verði eingöngu stuðningur við tekjulægstu fjölskyldurnar og er þar farið eftir tillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um endurskoðun barnabótakerfisins. Sjóðurinn ráðlagði ríkisstjórninni að einfalda kerfið og beina greiðslum til lágtekjuheimila með hærra skerðingarhlutfalli miðað við laun. Einnig lagði sjóðurinn til að einstæðir foreldrar fengju ekki hærri greiðslur en sambýlisfólk. Þannig verði einungis greidd ein föst fjárhæð fyrir börn undir 18 ára aldri og aldrei með fleiri börnum en þremur. Slíkt fyrirkomulag þekkist hvergi annars staðar á Norðurlöndunum.
    Það vekur furðu 1. minni hluta að ríkisstjórnin leiti í hugmyndir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um útfærslu barnabóta þegar beinast liggur við að líta til annarra norrænna ríkja. Þar eru bæturnar almennt ekki tekjutengdar og markmið þeirra er að jafna stöðu barnafólks við þá sem ekki eru með börn á framfæri. Ótekjutengdar barnabætur draga jafnframt síður úr sjálfstæði og atvinnuþátttöku kvenna en tekjutengdar bætur. Ungum fjölskyldum á Norðurlöndunum munar um stuðninginn sem barnabætur veita og jöfnunarhlutverk þeirra er mikilvægt fyrir samfélagið allt.
    Jafnaðarmenn tækju ekki einu sinni til athugunar tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um barnabætur í líki fátækrastyrks. Barnabótakerfi norrænu ríkjanna er fyrirmynd Samfylkingarinnar enda góð reynsla af þeim fyrir börnin og foreldra þeirra. Verði jafnaðarmenn í næstu ríkisstjórn munu þeir standa við bakið á barnafjölskyldum og hækka barnabæturnar þannig að fleiri njóti þeirra.
    Þá bendir 1. minni hluti á það sérstaklega að í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að hámarkgreiðslur í fæðingarorlofi verði 500.000 kr. á mánuði en ekki 600.000 kr. líkt og boðað hefur verið. Jafnframt er lenging fæðingarorlofsins í 12 mánuði ekki fjármögnuð sérstaklega samkvæmt áætluninni heldur bent á að breyting á fæðingarorlofi verði að rúmast innan tryggingagjaldsins. Ef sú leið er farin eingöngu er líklegt að hækka þurfi tryggingagjaldið til að lengja fæðingarorlofið. 1. minni hluti vill að annarra leiða verði leitað til að brúa bilið sem kann að myndast með breytingunni á milli framlags með tryggingagjaldi í fæðingarorlofssjóð og kostnaðar við lengra fæðingarorlof.
    Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur hins vegar kynnt áform um bæði lenginguna og hækkun hámarksgreiðslunnar. Verði frumvarp ráðherrans að lögum þarf því að breyta áætluninni og gera ráð fyrir töluvert meira fjármagni til fæðingarorlofsins.

Húsnæðisstuðningur.
    Í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að útgjöld vegna vaxtabóta fari smám saman lækkandi á komandi árum eftir því sem tekjur heimila hækki og skuldastaða batni. Í áætluninni er samt sem áður gengið út frá þeirri forsendu að fjárhæðir og frítekjumörk í kerfinu verði hækkaðar árlega þannig að heildarframlög til kerfisins haldist óbreytt að raunvirði. Hins vegar er tekið fram að til skoðunar séu áform um aukinn stuðning við þá sem kaupa sína fyrstu fasteign og gæti það eftir atvikum falið í sér að framlög til vaxtabóta yrðu látin fjara út smám saman yfir tíma, samhliða því sem stuðningur við fyrstu kaup yrði aukinn í annarri mynd.
    Nú voru slíkar hugmyndir kynntar á blaðamannafundi í Hörpu 15. ágúst sl. Því má gera ráð fyrir að vaxtabætur falli niður eins og fjármálaáætlunin boðar. Í því ljósi verður að meta nýjar hugmyndir ríkisstjórnarinnar um stuðning við fyrstu íbúðarkaup. Meta þarf í fyrsta lagi hvort skattalækkunin af séreignarsparnaðinum sé hærri en vaxtabæturnar og í öðru lagi hvort staða ungs fólks verði í raun betri við boðaðar breytingar.
    Samhliða skuldaleiðréttingunni svokölluðu fyrr á kjörtímabilinu lækkuðu stjórnvöld vaxtabætur, létu barnabætur tapa verðgildi sínu og gerðu tekjuskerðingar bótanna þar að auki grimmari. Það eru því aðeins hinir tekjuhærri og þeir sem skulda mest sem standa betur eftir hina svokölluðu skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar.
    Það fólk sem áður hafði fallið innan skilgreininga vaxtabóta sjá afborganir sínar lækka lítillega en vaxtabæturnar lækka miklu meira. Mörg heimili sitja því eftir með mun minna ráðstöfunarfé en áður. Hinir efnaminni borga því sjálfir fyrir leiðréttinguna svokölluðu en ekki kröfuhafar föllnu bankanna eins og lofað var.
    Þeir sem koma best út úr fyrri kerfisbreytingu ríkisstjórnarinnar, það er lækkun vaxtabóta á móti sérstakri skuldaniðurfærslu, eru þau heimili sem áður áttu ekki rétt á vaxtabótum vegna mikilla eigna eða hárra tekna. Ríkisstjórnin lagði því allt kapp á að nýta almannafé til að lækka skuldir auðugasta fólksins í landinu. Hinir tekjulægri og eignalitlu sitja hins vegar margir hverjir í verri stöðu. Fyrir það fólk hefði verið miklu betra ef ríkisstjórnin hefði ekki reynt að standa við neitt af því sem Framsóknarflokkurinn lofaði fyrir síðustu kosningar.
    Ekki er hægt að lesa út úr fjármálaáætluninni hvort húsnæðisstuðningur við leigjendur sé að fullu fjármagnaður. Á Íslandi er tæplega þriðjungur heimila í leiguhúsnæði. Það er algjörlega óásættanlegt ef enn einu sinni á að skilja þann hóp eftir án húsnæðisstuðnings sem sambærilegur er við þann stuðning sem þeir fá sem kaupa sér íbúð.
    Auk þess bendir 1. minni hluti á að uppbygging almennra leiguíbúða er án fullnægjandi fjármögnunar og fjölga þarf íbúðum á næstu árum í samræmi við þörf

Almannatryggingar.
    Í fjármálaáætluninni er minnst á að verið sé að vinna að breytingum á almannatryggingakerfinu til einföldunar og hagsbóta fyrir aldraða. Nú hefur félags- og húsnæðismálaráðherra sett frumvarp þess efnis á vef ráðuneytisins til umsagnar. Breytingarnar eru sagðar kosta rúma 5 milljarða kr. árið 2017 og alls 33 milljarða kr. á næstu 10 árum. Fjármálaáætlunin gerir ekki ráð fyrir þessum kostnaði.
    Í athugasemdum við fjármálaáætlunina segir að markmið stjórnvalda sé að stuðningur við aldraða, sem eru með mjög lágar eða engar tekjur sér til framfærslu aðrar en bætur almannatrygginga, verði aukinn. Hvergi virðist hins vegar gert ráð fyrir fjármunum til að ná þessu markmiði.
    Í umræðum um fjáraukalagafrumvarp 2015 og um fjárlagafrumvarp 2016 lagði 1. minni hluti ríka áherslu á að bætur almannatrygginga hækkuðu á sama tíma og almennar launahækkanir urðu í landinu, og með sama hætti og lægstu laun að 300.000 kr. mánaðargreiðslum. Þessu hafnaði ríkisstjórnin og stjórnarþingmenn. Í því ljósi verður afar ótrúverðugt ófjármagnað markmið fjármálaáætlunar um kjarabætur fyrir þá sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar.
    Hefðu greiðslur almannatrygginga hækkað 1. maí, í sama hlutfalli og lægstu laun, hefði sú breyting kostað ríkissjóð rúma 5 milljarða kr. á árinu 2016 eða um það bil það sama og það kostaði ríkissjóð að taka fyrra skref ríkisstjórnarinnar við að fækka skattþrepum í tekjuskattskerfinu. Ríkisstjórnin ákvað að forgangsraða með þeim hætti að rétta þeim sem eru með 700.000 kr. á mánuði 6.000 kr. á mánuði, öðrum minna og þeim með lægstu launin ekkert og neita um leið öldruðum og öryrkjum um kjarabót í samræmi við hækkanir lægstu launa.
    Samfylkingin hefur á sinni stefnuskrá að bæta kjör aldraðra og öryrkja og tryggja að þeim hópum sé ekki haldið fátækustum á Íslandi eins og gert er nú og áætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára gerir ekki ráð fyrir að bæta úr því.

Heilbrigðisþjónusta.
    Mikið hefur verið rætt um uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar undanfarin ár. Ákall um 86.000 Íslendinga um að heilbrigðiskerfið verði endurreist og að 11% af vergri landsframleiðslu verði varið til heilbrigðiskerfisins er einstakt. Stjórnmálamenn verða að svara því hvernig skuli ná því markmiði og beina fjármunum í þau verkefni. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára mætir á engan hátt þessum kröfum og gerir ekki ráð fyrir fjármunum sem munu breyta heilbrigðisþjónustunni til hins betra.
    Slæm staða Landspítalans er með þeim hætti að ástæða er til að hafa áhyggjur af öryggi sjúklinga ef ekki verður bætt hratt úr á næstu árum. Ef krafa fólks gengi eftir um að 11% af vergri landsframleiðslu færi til heilbrigðismála fengi Landspítalinn um 18 milljarða kr. aukningu. Það er gott langtímamarkmið og ekki raunhæft að gera ráð fyrir slíkri hækkun í einu skrefi en þangað ætti Ísland að stefna
    Til þess að halda í horfinu með sömu þjónustu og viðhaldi húsnæðis og nú er þyrfti Landspítalinn 5,3 milljarða kr. til viðbótar á næsta ári. Fjölgun sjúklinga á spítalanum er um 1,7% á ári. Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að aukning til sjúkrahússþjónustu sem bæði tekur til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri verði 2,3 milljarðar kr. Ef þessi áætlun ríkisstjórnarinnar verður að veruleika er ljóst að þjónusta Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri mun dragast saman á næstu árum. Við það verður ekki unað og mótmælir 1. minni hluti þessari stefnu ríkisstjórnarinnar harðlega. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum til næstu fimm ára er í hróplegri mótsögn við ákall almennings.
    Sjúklingum hefur fjölgað vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar en uppbygging sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva hefur ekki fylgt þeirri þróun undanfarna áratugi. Aftur á móti hefur hlutur sjúklinga í rekstri kerfisins vaxið jafnt og þétt. En sjúklingar eiga ekki að þurfa að taka upp veskið þegar þeir þurfa á læknishjálp að halda, og Íslendingar munu seint sætta sig við lakari og dýrari þjónustu en þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar.
    Samfylkingin vill bæta heilbrigðisþjónustuna og það er hægt ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Skýr forgangsröðun, samtakamáttur og skipulag mun skila okkur betri stöðu á fáum árum. Fyrst og síðast þurfa stjórnvöld að afla tekna til að setja í heilbrigðisþjónustuna. 1. minni hluta finnst liggja beinast við að fullt verð fáist fyrir afnot af auðlindunum, svo sem veiðiheimildum og að það renni til heilbrigðismála.
    Mikið hefur verið rætt um stöðu lækna á Íslandi, enda áhyggjuefni að ungir læknar snúi ekki aftur heim að loknu námi. Vandi Landspítalans er m.a. sá að þar er þörf fyrir mun fleiri lækna en þar starfa. Staða hjúkrunarfræðinga er ekki síður áhyggjuefni. Á næstu þremur árum komast um það bil 700–900 hjúkrunarfræðingar á eftirlaunaaldur. Í staðinn útskrifast aðeins um 450 hjúkrunarfræðingar úr námi og margir þeirra munu velja sér önnur störf. Fækkun hjúkrunarfræðinga hefði víðtækari áhrif á næstu árum heldur en fækkun lækna og það verður að finna leiðir til þess að fjölga í stéttinni. Fleiri stéttir, sem konur fylla að mestu, þurfa jafnframt athygli stjórnvalda svo sem geislafræðingar, sjúkraþjálfarar og líftæknifræðingar. Það þarf að grípa til aðgerða nú þegar og efla háskólana á þessum sviðum og gera ráð fyrir kostnaði sem þessu fylgir í fjármálaáætlun stjórnvalda.
    Ásamt því að rétta við stöðu sjúkrahúsanna verður að auka fjárveitingu á næstu fimm árum til þess að efla heilsugæsluna um allt land, byggja við Sjúkrahúsið á Akureyri, eyða löngum biðlistum eftir nauðsynlegum aðgerðum hratt og örugglega, hefja uppbyggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða og langveika þar sem búið er vel að fólki með persónulegri þjónustu, bæta aðgengi að geð- og sálfræðiþjónustu með áherslu á börn og ungt fólk og lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Þá er mikilvægt að staðið verði við áætlanir um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut.
    Halda mætti að almenn sátt ríkti um þessi markmið en svo virðist ekki vera. Í ríkisfjármálaáætlun stjórnvalda til næstu fimm ára er ekki að finna þá aukningu á fjárframlögum sem nauðsynleg er til að viðhalda núverandi ástandi, hvað þá til að bæta þjónustuna. Ef við ætlum að fá betri heilbrigðisþjónustu á næstu árum verður ný ríkisstjórn, sem skilur að heilbrigði er undirstaða velmegunar og hamingju, að gera nýja fjármálaáætlun.

Skólamál.
    Staða framhaldsskólanna hefur verið erfið undanfarin ár. Mikil hagræðing átti sér stað á framhaldsskólastiginu öllu árin fyrir hrun. Þegar krafa var gerð um aðhald eftir hrun var því sáralitla fitu að skera.
    Nú eykst kostnaður skólana enn tímabundið umfram fjárveitingar vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs.
    Í sumum skólum verður nánast rekið tvöfalt bóknámskerfi næstu þrjú árin og það verkefni verður að fjármagna með því að auka við fjárveitingu til framhaldsskólanna á næstu þremur árum umfram það sem fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir. Síðustu tvö ár fjármálaáætlunarinnar eru skaplegri fyrir rekstur framhaldsskólanna. 1. minni hluti leggur á það ríka áherslu að skólarnir fái að lokum að njóta hagræðingarinnar sem til verður vegna styttra stúdentsprófs með fjölbreyttara námsframboði og aukinni þjónustu við nemendur. Þá kallar 1. minni hluti eftir því að engum verði meinaður aðgangur að bóknámi í opinbera framhaldsskólakerfinu vegna aldurs.
    Staða háskólanna lítur aftur á móti illa út ef fyrirliggjandi áætlun kemst til framkvæmda. Ef ekki verða gerðar breytingar munu háskólarnir verða að fækka námsbrautum og/eða fækka nemendum. Viðvarandi fjárskortur mun hafa verulega neikvæð áhrif á vísindastarf, framþróun í atvinnusköpun og samkeppnisstöðu Íslands.
    Fyrsti minni hluti telur nauðsyn á því að sett sé metnaðarfull menntastefna sem tekur tillit til þess að í nútíma samfélagi eru háskólarnir mikilvægur drifkraftur. Í samræmi við menntastefnuna yrði síðan gerð fjármálaáætlun sem gerði mögulegt að uppfylla stefnuna.

Tekjur af ferðamönnum og innviðir.
    Ferðaþjónustan er á örstuttum tíma orðin ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar en enginn heldur almennilega um stjórnartaumana.
    Núverandi stjórnvöld virðast ófær um að sinna því mikilvæga hlutverki að setja fram stefnu um hvernig sé hagkvæmast og best að ferðaþjónustan þróist til framtíðar, meta kostnað við ágang ferðamanna og hvað teljast megi æskilegt rekstrarumhverfi atvinnugreinar í miklum vexti. Í fjármálaáætluninni er ekki að sjá að gert sé ráð fyrir fjármögnun á nauðsynlegri innviðauppbyggingu. Ef ekkert verður að gert er líklegt að orðspor Íslands sem ferðamannastaðar skaðist, ferðamönnum fækki og fjárfestingar í greininni beri sig ekki með slæmum fjárhagslegum afleiðingum.
    Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að gripið sé til aðgerða áður en illa fer og minnir á áherslur Samfylkingarinnar í þeim efnum sem eru að heilbrigðisþjónusta og sjúkraflutningar verði styrkt um allt land, lögreglunni verði gert kleift að sinna íbúum jafnt sem ferðamönnum, viðhald vega verði aukið umtalsvert og öryggismál ferðamanna verði bætt með markvissari hætti.
    Á sama tíma og ferðamönnum fjölgar stórkostlega lækka skatttekjur af hverjum og einum þeirra. Greininni er leyft að vaxa með byltingarkenndum hætti og ferðamenn greiða á sama tíma virðisaukaskatt af gistingu og afþreyingu í lægra þrepi. Ef horfið væri frá þeirri undanþágu fengjust um 10 milljarðar kr. í ríkissjóð.
    Fyrsti minni hluti telur nauðsynlegt að stýra þróuninni og skapa ferðaþjónustunni almenn rekstrarskilyrði sem gefa tekjur til að byggja upp innviði. Þannig greiði ferðamenn virðisaukaskatt í almennu þrepi fyrir gistiþjónustu og afþreyingu. Það skapar tekjur í ríkissjóð sem rynnu til uppbyggingar sem nýtist greininni og um leið íbúum um allt land.
    Ásamt því að verulega verði bætt í þá fjármuni sem ætlaðir eru í viðhald vegakerfisins er nauðsynlegt að samgönguáætlun og fjármálaáætlun verði samhljóma en svo verður ekki nema að gerð sé breyting á fjármálaáætluninni og áætluð fjárframlög til samgöngumála verði hækkuð.

Lokaorð.
    Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára teiknast upp framtíðarsýn sem ekki samræmist væntingum landsmanna til þess velferðarsamfélags sem við viljum byggja á Íslandi. Komist hún til framkvæmda afsalar ríkissjóður sér tugum milljarða króna árlega í tekjur sem nýta mætti til að bæta lífskjör almennings. Þær skattalækkanir sem ráðist hefur verið í á kjörtímabilinu hafa fyrst og síðast miðað að þeim sem mest eiga og fátt verið aðhafst sem gagnast má fólki með lágar tekjur og millitekjur.
    Af áætlun ríkisstjórnarinnar að dæma er jafnframt ljóst að innviðir samfélagsins verða ekki byggðir upp á næstu árum og opinber þjónusta verður áfram holuð að innan. Svar ríkisstjórnarinnar við þeirri þróun er aukinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni, í skólum og samgöngum. Það er ekki framtíðarsýn sem hugnast 1. minni hluta eða Samfylkingunni sem leggur áherslu á jöfn tækifæri landsmanna til að njóta góðrar heilbrigðisþjónustu, menntunar og öryggis í daglegu lífi.

Alþingi, 17. ágúst 2016.

Oddný G. Harðardóttir.