Ferill 826. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 1556  —  826. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum (losun fjármagnshafta).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. b laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                 Allar fjármagnshreyfingar á milli landa í erlendum gjaldeyri skv. 1. mgr. eru óheimilar að undanskildum fjármagnshreyfingum sem sýnt er fram á að séu vegna:
                  1.      Vöru- eða þjónustuviðskipta.
                  2.      Launa sem erlendur aðili eða innlendur aðili búsettur erlendis, svo sem vegna starfs eða náms, hefur aflað hérlendis síðastliðna sex mánuði. Launatengd gjöld, námslán, atvinnuleysisbætur, lífeyrisgreiðslur, þ.m.t. elli- og örorkulífeyrir og greiðslur vegna félagslegrar aðstoðar og aðrar sambærilegar greiðslur, teljast laun í skilningi þessa töluliðar.
                  3.      Gjafa og styrkja til erlendra aðila, svo sem einstaklinga, góðgerðasamtaka eða hlið­stæðra aðila, fyrir allt að 6.000.000 kr. á almanaksári. Fjármagnshreyfingar vegna gjafa og styrkja skulu lagðar inn á reikning í eigu móttakanda og skal gefandi eða styrkveitandi vera raunverulegur eigandi þeirra fjármuna sem um ræðir.
                  4.      Vaxta, verðbóta, samningsbundinna afborgana og arðs skv. 13. gr. j.
                  5.      Leigutekna af fasteignum sem erlendur aðili aflar hérlendis.
                  6.      Fyrirframgreiðslu og uppgreiðslu lána eða fjárfestinga í verðbréfum, hlutdeildar­skírteinum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, peningamarkaðsskjölum, öðrum fram­seljanlegum fjármálagerningum, peningakröfum og öðrum sambærilegum kröfurétt­indum í erlendum gjaldeyri, inn- og útflutnings verðbréfa eða innleggs á og úttektar af reikningum hjá fjármálafyrirtæki, þ.m.t. með úttekt í reiðufé skv. 4. málsl. 2. mgr. 13. c, að samanlögðu jafnvirði allt að 100.000.000 kr. fyrir hvern aðila. Fjármagns­hreyfingar eða reiðufjárúttektir á grundvelli ákvæðisins eru háðar eftirfarandi skil­yrðum:
                      a.      Aðili sem nýtir heimildina sé raunverulegur eigandi fjármuna.
                      b.      Einstaklingur sem nýtir heimildina hafi náð 18 ára aldri.
                      c.      Eignastaða lögaðila sem nýtir heimildina hafi hinn 1. ágúst 2016 numið að minnsta kosti fjárhæð fyrirhugaðrar fjármagnshreyfingar eða reiðufjárúttektar.
                      d.      Fjármálafyrirtæki sem framkvæmir fjármagnshreyfingu hafi tilkynnt hana til Seðlabanka Íslands áður en hún er framkvæmd, þar sem tilefni hennar er til­greint sérstaklega. Afgreiðsla reiðufjárúttektar skal tilkynnt af viðkomandi fjármálafyrirtæki á því formi sem Seðlabanki Íslands ákveður.
                  7.      Beinnar fjárfestingar innlends aðila. Fjármagnshreyfingar á grundvelli þessa töluliðar eru háðar því skilyrði að fjárfestir sé raunverulegur eigandi fjármunanna, að um sé að ræða kaup á 10% eignarhlut hlutafjár hið minnsta og að Seðlabankinn hafi staðfest að um beina fjárfestingu sé að ræða.
                  8.      Innflutnings á erlendum gjaldeyri á innlánsreikning hjá innlendu fjármálafyrirtæki, þó ekki þegar greiðandi er innlendur aðili og viðtakandi erlendur aðili.
                  9.      Framfærslu einstaklinga erlendis.
                  10.      Greiðslu skatta og opinberra gjalda, málskostnaðar samkvæmt dómsorði, slysa- og skaðabóta til erlends aðila eða arfs sem erlendum aðila hefur hlotnast samkvæmt erfðafjárskýrslu staðfestri af sýslumanni.
                  11.      Kaupa einstaklings á einni fasteign erlendis á almanaksári, að undangenginni stað­festingu Seðlabanka Íslands. Einstaklingi er heimilt að greiða staðfestingargjald vegna fasteignaviðskipta sem nemur allt að 15% af kaupverði fasteignar án undan­genginnar staðfestingar. Ef einstaklingur selur eða móttekur tjónabætur vegna fast­eignar erlendis er honum heimilt að nýta söluandvirðið eða tjónabæturnar til endur­fjárfestingar í annarri fasteign erlendis innan sex mánaða.
                  12.      Annarra fjármagnshreyfinga sem eru sérstaklega undanþegnar samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara.
     b.      4. tölul. 3. mgr. orðast svo: Fjármagnshreyfingar vegna greiðslu málskostnaðar sam­kvæmt dómsorði, andvirðis slysa- og skaðabóta eða arfs sem aðila hefur hlotnast sam­kvæmt erfðafjárskýrslu staðfestri af sýslumanni þar sem greiðslan fer fram með úttektum af reikningi í eigu greiðanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi.
     c.      Við 3. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Fjármagnshreyfingar vegna fasteignavið­skipta hér á landi og viðskipta með fjármálagerninga útgefna í innlendum gjaldeyri sam­kvæmt reglum sem Seðlabanki Íslands setur þegar greiðsla fer fram með úttektum af reikningi í innlendum gjaldeyri í eigu kaupanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. Heimild 1. málsl. á þó ekki við þegar greiðsla á sér stað með úttekt af reikningi sem háður er sérstökum takmörkunum í skilningi laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Fjárfestingar lögaðila á grundvelli ákvæðis þessa eru háðar því skilyrði að kaupandi sé raunverulegur eigandi fjármunanna við gildistöku þessara laga. Fjármunir sem losna við sölu fjárfestinganna skulu greiddir inn á reikning í eigu seljanda í innlendum gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. Seðlabanki Íslands getur sett reglur um frekari skilyrði fjármagnshreyfinga samkvæmt ákvæðinu.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. c laganna:
     a.      Í stað 1. málsl. 2. mgr. koma fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Óheimilt er að kaupa er­lendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi, þegar greiðsla fer fram með innlendum gjaldeyri, nema sýnt sé fram á að gjaldeyriskaupin séu vegna fjármagnshreyfinga á milli landa sem undanþegnar eru samkvæmt ákvæðum 1.–7. og 9.–11. tölul. 2. mgr. 13. gr. b. Gjaldeyriskaup skv. 1. málsl. vegna fjármagnshreyfinga á milli landa skv. 1., 3.–7. og 10.–11. tölul. 2. mgr. 13. gr. b eru háð því skilyrði að greiðslan sé til erlends aðila. Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. málsl. eru gjaldeyriskaup erlendra aðila á grundvelli 4. tölul. 2. mgr. 13. gr. b, sbr. 13. gr. j, háð því skilyrði að gjaldeyriskaupin séu vegna slíkra greiðslna frá innlendum aðila hér á landi. Óheimilt er að kaupa erlendan gjaldeyri í reiðufé eða taka út erlendan gjaldeyri í reiðufé af gjaldeyrisreikningum hjá fjármálafyrir­tækjum hér á landi nema innan heimildar 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. b.
     b.      Í stað „3. málsl.“ í 4. málsl. 2. mgr. kemur: 6. málsl.
     c.      3. mgr. fellur brott.
     d.      Í stað „1.–3. mgr.“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: 1.–2. mgr.

3. gr.

    13. gr. d laganna fellur brott.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. e laganna:
     a.      Orðin „fyrir 28. nóvember 2008“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Söluandvirði beinnar fjárfestingar skv. 7. tölul. 2. mgr. 13. gr. b er ekki endurfjárfestanlegt samkvæmt ákvæði þessu.

5. gr.

    13. gr. f laganna fellur brott.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. j laganna:
     a.      Í stað „2. og 3. mgr.“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 2. mgr.
     b.      3. mgr. fellur brott.
     c.      Orðin „afborganir og verðbætur af höfuðstól skuldabréfa ekki undanþegnar bannákvæði 2. og 3. mgr. 13. gr. c. Jafnframt skulu“ í 1. og 2. málsl. 5. mgr. falla brott.
     d.      Í stað „2. og 3. mgr.“ í 2. málsl. og lokamálslið 5. mgr. kemur: 2. mgr.

7. gr.

    13. gr. k laganna fellur brott.

8. gr.

    2. mgr. 13. gr. l laganna orðast svo:
    Skilaskylda skv. 1. mgr. nær ekki til eftirfarandi:
     1.      Einstaklings sem er innlendur aðili en hefur búsetu erlendis, t.d. tímabundið vegna starfs eða náms.
     2.      Fjármuna vegna lántöku einstaklings hjá erlendum aðilum til kaupa hans á fasteign skv. 11. tölul. 2. mgr. 13. gr. b eða farartæki erlendis.
     3.      Fjármuna vegna lántöku aðila sem nýtt er til fjárfestinga hans skv. 6. og 7. tölul. 2. mgr. 13. gr. b.
     4.      Fjármuna skv. 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. e, enda séu þeir nýttir til endurfjárfestingar innan sex mánaða.
     5.      Fjármuna sem losna við sölu eða greiðslu tjónabóta fasteignar erlendis í eigu einstak­lings, enda séu þeir nýttir til að fjárfesta í annarri fasteign innan sex mánaða.
     6.      Leigutekna sem innlendur aðili fær af fasteign sinni erlendis, enda séu þær nýttar til að greiða fyrir rekstrarkostnað af þeirri fasteign. Með rekstrarkostnaði er m.a. átt við greiðslur afborgana af láni sem hvílir á og/eða tekið var vegna kaupa á fasteigninni.
     7.      Fjármuna sem losna við sölu eða greiðslu tjónabóta farartækis erlendis í eigu einstaklings, enda séu þeir nýttir til að kaupa annað farartæki innan sex mánaða.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. m laganna:
     a.      Í stað orðanna „tveggja vikna“ í 4. mgr. kemur: þriggja vikna.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Söluandvirði og aðrar greiðslur vegna fjárfestinga skv. 6. og 7. tölul. 2. mgr. 13. gr. b teljast ekki nýtt innstreymi erlends gjaldeyris í skilningi 2. mgr.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. n laganna:
     a.      Í stað „1. mgr. 13. gr. f“ í 3. mgr. kemur: og fjárhæðarmarki í 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. b, en þó ekki 2. mgr. 13. gr. c.
     b.      4. og 5. mgr. falla brott.
     c.      Í stað „1. mgr. 13. gr. f“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: og fjárhæðarmarki í 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. b, en þó ekki 2. mgr. 13. gr. c, og ákvæðum.
     d.      Orðin „aðrir en lögaðilar sem falla undir 4. mgr.“ í 7. mgr. falla brott.
     e.      8. og 9. mgr. falla brott.
     f.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Aðilar geta nýtt heimildir sínar skv. 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. b og 2. mgr. 13. gr. c til fjárfestinga í verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóðum samkvæmt lögum um verð­bréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Rekstraraðili viðkomandi sjóðs skal tilkynna Seðlabanka Íslands um fjárfestingar á grundvelli ákvæðisins. Seðlabankanum er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

11. gr.

    4. mgr. 13. gr. o laganna orðast svo:
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um undanþágur frá takmörkunum 13. gr. e – 13. gr. n. Seðlabankinn getur bundið undanþágur í reglunum skilyrðum sem m.a. lúta að uppruna og eignarhaldi fjármuna, tilgangi einstakra fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisvið­skipta, fjárhæðum einstakra fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipta og eftirliti og upplýs­ingagjöf til Seðlabankans.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      1. málsl. orðast svo: Skylt er, að viðlögðum dagsektum skv. 15. gr. h, að veita Seðla­banka Íslands allar þær upplýsingar og gögn er varða gjaldeyrisviðskipti og fjármagns­hreyfingar á milli landa sem hann óskar eftir til að sinna nauðsynlegu eftirliti á grund­velli laga þessara.
     b.      Á eftir orðunum „til hagskýrslugerðar“ í 2. málsl. kemur: og til að sinna öðrum við­fangsefnum sem samræmast hlutverki hans, svo sem að stuðla að verðlags- og fjármála­stöðugleika.
     c.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til að veita upplýsingar og aðgang að gögnum á grundvelli þessa ákvæðis.
     d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Skylt er, að viðlögðum dagsektum skv. 15. gr. h, að tilkynna Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa. Þá er innlendum aðilum skylt að tilkynna fjármagnshreyfingar þeirra á milli í erlendum gjaldeyri. Seðlabankanum er heimilt að setja reglur um nánari framkvæmd þessa ákvæðis, þ.m.t. um undanþágur frá tilkynningarskyldu ákvæðisins.

13. gr.

    Orðin „eða 13. gr. f“ í 2. tölul. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III í lögunum falla brott.

14. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (IV.)
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. b skulu fjármagnshreyfingar hvers aðila samkvæmt ákvæðinu aðeins heimilar að samanlögðu jafnvirði 30.000.000 kr. fram til 1. janúar 2017.
    Seðlabanki Íslands skal endurskoða fjárhæðarmark 1. málsl. 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. b fyrir 1. júlí 2017, sbr. reglusetningarheimild skv. 4. mgr. 13. gr. b.
    Þrátt fyrir heimild 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. b til fjárfestinga skulu vörslur verðbréfa vera hjá innlendum vörsluaðila fram til 1. janúar 2017. Þá skulu fjármagnshreyfingar á milli landa í erlendum gjaldeyri sem fela í sér inn- og útflutning verðbréfa eða innlegg á og úttekt af reikningum í innlánsstofnunum fram til sama tíma vera óheimilar. Sama gildir um úttektir í reiðufé skv. 4. málsl. 2. mgr. 13. c.
    Brot gegn ákvæði þessu varðar stjórnvaldssektum og refsingu skv. 15. gr. a – 15. gr. d, 16. gr., 16. gr. a og 16. gr. b.

    b. (V.)
    Þrátt fyrir ákvæði 4. málsl. 2. mgr. 13. gr. c er einstaklingi heimilt fram til 1. janúar 2017 að kaupa eða taka út erlendan gjaldeyri í reiðufé hjá fjármálafyrirtæki hér á landi að eftirtöld­um skilyrðum uppfylltum:
     1.      Að erlendi gjaldeyririnn sé ætlaður til notkunar vegna ferðalaga erlendis. Við kaup eða úttekt skal einstaklingur sýna fram á fyrirhugaða ferð með framvísun farmiða eða kvitt­unar fyrir greiðslu á ferð sinni sem fyrirhuguð er innan fjögurra vikna. Þegar um er að ræða áhafnarmeðlimi sem ekki hafa farseðil skal sýnt fram á ferðalag með framvísun vaktaskipulags eða öðrum sannanlegum hætti.
     2.      Að ekki sé keyptur eða tekinn út erlendur gjaldeyrir í reiðufé fyrir hærri fjárhæð en sem nemur jafnvirði 700.000 kr. fyrir hvern einstakling skv. 1. tölul. vegna hverrar ferðar, nema sýnt sé fram á sérstaka þörf fyrir aukna reiðufjárúttekt.
     3.      Að einstaklingur sem er innlendur aðili kaupi eða taki út erlendan gjaldeyri í reiðufé hjá fjármálafyrirtæki hér á landi þar sem hann er með viðskipti sín.
     4.      Að sýnt sé fram á að einstaklingur, eða forráðamaður hans ef um ólögráða einstakling er að ræða, sé eigandi fjármunanna sem greiddir eru fyrir erlenda gjaldeyrinn eða gjald­eyrisreikningsins sem tekið er út af. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. er einstaklingi þó heimilt að kaupa gjaldeyri fyrir maka.
     5.      Að einstaklingurinn sem tilgreindur var við kaup eða úttekt erlenda gjaldeyrisins fari sjálfur með féð úr landi.
    Fjármálafyrirtæki hér á landi getur sótt um undanþágu frá 1. mgr. sem heimilar útibúi fjármálafyrirtækis að selja einstaklingi, sem er innlendur aðili en ekki með viðskipti sín hjá við­komandi fjármálafyrirtæki, erlendan gjaldeyri fyrir allt 700.000 kr. í reiðufé vegna hverrar ferðar, ef sýnt er fram á að féð sé til notkunar á ferðalögum erlendis. Seðlabanki Íslands skal birta opinberlega upplýsingar um þá aðila sem fá undanþágu á grundvelli ákvæðisins.
    Brot gegn ákvæði þessu varðar stjórnvaldssektum og refsingu skv. 15. gr. a – 15. gr. d, 16. gr., 16. gr. a og 16. gr. b.

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

16. gr.
Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum: Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Skylt er öllum að láta Seðlabanka Íslands í té þær upplýsingar og gögn sem hann þarf á að halda til að stuðla að verðlags- og fjármálastöðugleika að viðlögðum viðurlögum skv. 37. gr. Seðlabankinn getur sett reglur um nánari framkvæmd þessa ákvæðis. Laga­ákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.
     2.      Lög um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016, með síðari breytingum:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
                      1.      Á eftir orðunum „erlendra rafeyrisfyrirtækja“ í 3. tölul. kemur: og greiðslustofnana.
                      2.      Í stað orðanna „3. mgr. 13. gr. c“ í 3. tölul. kemur: 2. mgr. 13. gr. c.
                      3.      Í stað orðsins „Þær“ í upphafi 4. tölul. kemur: Staðfestar nýfjárfestingar skv. 13. gr. m og þær.
                  b.      Við 1. málsl. 2. tölul. 3. mgr. 9. gr. laganna bætist: eða bókfært virði undirliggjandi eigna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneyti í samvinnu við forsætisráðu­neyti og Seðlabanka Íslands. Frumvarpið er liður í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta sem var birt opinberlega í júní 2015. Með því eru lagðar til ýmsar breytingar sem miða að því að losa fjármagnshöft á heimili og fyrirtæki í varfærnum áföngum, með efnahagslegan stöðugleika og almannahag að leiðarljósi. Er þar bæði horft til þess að losa um takmarkanir sem gilda um einstaklinga og lögaðila, innlenda og erlenda. Aðstæður til losunar fjármagnshafta eru að mörgu leyti ákjósanlegar og ekki stafar lengur ógn af stórum einstökum áhættuþáttum á borð við uppgjör slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja eða aflandskrónuvandanum. Þrátt fyrir hagstæð skilyrði er mikilvægt að losun hafta sé gerð í skipulegum áföngum þar sem varfærni er gætt, einkum hvað varðar álag á lausafjárstöðu fjármálakerfisins og greiðslujöfnuð.
    Verði frumvarpið að lögum eykst frelsi einstaklinga og fyrirtækja til fjármagnshreyfinga til og frá landinu og gjaldeyrisviðskipta í áföngum í samræmi við almenna ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1 við losun fjármagnshafta og áætlanir stjórnvalda. Nánar tiltekið er í frumvarpinu lagt til að lögfest verði tvö veigamikil skref í átt að endanlegri losun fjármagnshafta, sem nánar er fjallað um í köflum 2.3. og 3.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Fjármagnshöft.
    Fjármagnshöft sem sett voru á hinn 28. nóvember 2008 í kjölfar fjármálaáfallsins höfðu það að markmiði að takmarka tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga á milli landa og gjaldeyrisviðskipti sem valdið gætu óstöðugleika í gengis- og peningamálum á meðan unnið væri að endurreisn íslensks efnahagslífs og fjármálakerfisins. Fjármagnshöftin eiga ótvíræðan þátt í þeim árangri sem hefur náðst á undanförnum árum við að snúa djúpri efnahagslægð í efnahagsbata, auka viðnámsþrótt endurreistra fjármálafyrirtækja og stuðla að sjálfbærari efnahagsstöðu innlendra aðila. Fjármagnshöftunum var í upphafi aðeins ætlað að vara í skamman tíma, enda hafa langvarandi höft ýmis neikvæð áhrif, 2 auk þess að ganga gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, m.a. samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, þegar þau verða ekki lengur réttlætt sem neyðarráðstöfun. Ljóst er að það hefur tekið lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir að skapa þau skilyrði sem eru forsendur þess að unnt sé að losa fjármagnshöftin án þess að valda óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Áætlanir stjórnvalda um losun fjármagnshafta hafa ekki verið tímasettar heldur hefur framgangur þeirra verið háður ákveðnum skilyrðum. Þannig hafa áætlanirnar gert ráð fyrir að höftin verði afnumin í áföngum, sem hver um sig felur í sér minni skref, með efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika að leiðarljósi. Frá setningu haftanna hafa lög og reglur þar um verið endurskoðaðar nokkrum sinnum. Hafa breytingarnar m.a. miðað að því að losa um þau að einhverju leyti, ásamt því að loka glufum í regluverkinu. Sniðgönguhætta er ávallt til staðar þegar takmarkanir á tilteknar tegundir fjármagnshreyfinga á milli landa eru rýmkaðar á undan öðrum. Líkt og áður hefur komið fram eru aðstæður nú hagstæðar til að taka veigamikil skref við losun fjármagnshafta, að því tilskildu að þau séu framkvæmd af varfærni, án þess að stöðugleika sem höftin hafa stuðlað að verði teflt í tvísýnu.

2.2. Aðstæður til losunar fjármagnshafta.
    Aðstæður til frekari losunar fjármagnshafta eru að mörgu leyti ákjósanlegar:
     1.      Stórir áhættuþættir sem um árabil töfðu losun hafta heyra ýmist sögunni til eða hafa verið afmarkaðir tímabundið: uppgjöri slitabúa föllnu bankanna er lokið og aflandskrónueignir bundnar sérstökum takmörkunum.
     2.      Lífeyrissjóðir hafa fengið umtalsverðar heimildir til erlendrar fjárfestingar sem þeir hafa nýtt á undanförnum missirum. Uppsöfnuð þörf þeirra fyrir erlenda fjárfestingu hefur því minnkað.
     3.      Vaxtamunur gagnvart útlöndum, þróttmeiri efnahagsbati en í viðskiptalöndunum, lítil verðbólga og fjármagnsinnstreymi vegna þjónustuviðskipta með tilheyrandi gengishækkun krónunnar eru allt þættir sem eru til þess fallnir að draga úr hættu á almennum fjármagnsflótta.
     4.      Viðnámsþróttur innlendra heimila og fyrirtækja, fjármálastofnana, ríkissjóðs og þjóðarbúsins í heild gagnvart mögulegum sviptingum í fjármagnsflæði og gengi í tengslum við losunarferlið hefur aukist enda hefur efnahagur innlendra aðila styrkst til muna. Eiginfjárstaða einkaaðila, þ.m.t. fjármálafyrirtækja, hefur batnað verulega og dregið hefur úr gjaldmiðlamisvægi. Lausafjárstaða innlendra viðskiptabanka og greiðari aðgangur að fjármögnun á innlendum og erlendum mörkuðum gerir þá vel í stakk búna til að standa af sér töluverða lækkun innlána. Staða ríkissjóðs hefur enn fremur styrkst verulega á undanförnum árum. Ríkissjóður er nú rekinn með tekjuafgangi, hlutfall skulda af landsframleiðslu fer ört lækkandi og lánshæfismat hefur batnað. Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands hefur stækkað ört, einkum sá hluti hans sem er fjármagnaður í krónum og er töluvert fyrir ofan viðmið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um æskilega forðastöðu (e. reserve adequacy metric). Þjóðhagslegur sparnaður hefur haldist hár frá fjármálaáfallinu, viðskiptaafgangur verið viðvarandi og hrein erlend staða þjóðarbúsins ekki verið hagstæðari frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.
     5.      Umtalsverðar umbætur hafa einnig verið gerðar á umgjörð hagstjórnar, regluverki og eftirliti sem eru til þess fallnar að stuðla að varðveislu þjóðhagslegs og fjármálalegs stöðugleika, þótt enn skorti ákveðin varúðartæki og lagaumbætur, eins og vikið verður að hér á eftir.
    Efnahagsaðstæður og fyrri aðgerðir varðandi slitabú og aflandskrónur gera stjórnvöldum nú kleift að taka tiltölulega stórt skref í átt að fullri losun fjármagnshafta. Stærð þjóðarbúskaparins setur dýpt innlendra fjármálamarkaða hins vegar töluverðar skorður og því geta tiltölulega lítil áföll haft umtalsverð áhrif. Auk þess ríkir meiri óvissa um umfang mögulegs fjármagnsútstreymis við þau skref sem lögð eru til í frumvarpinu en við uppgjör slitabúa fallinna fyrirtækja og svokölluð aflandskrónuútboð. Því er mikilvægt að losun fjármagnshafta sé framkvæmd í skipulegum og trúverðugum áföngum og að varfærni sé gætt. Að öðrum kosti er hætt við að álag á lausafjárstöðu fjármálakerfisins og greiðslujöfnuð verði of mikið.

2.3. Þrepaskipt losun fjármagnshafta.
    Ferlið við losun fjármagnshafta hófst árið 2009 þegar nýfjárfesting var kynnt til sögunnar og var fljótlega í kjölfarið hafist handa við að lækka stöðu aflandskrónueigna, m.a. með gjaldeyrisútboðum og sértækum viðskiptum Seðlabanka Íslands. 3
    Í áætlun stjórnvalda frá júní 2015 var lagt til að losað yrði um fjármagnshöftin í þremur áföngum. Fyrsti áfanginn laut að slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja, annar áfanginn að aflandskrónueignum og hinn þriðji að heimilum og fyrirtækjum. Með frumvarpinu eru stigin veigamikil skref til losunar fjármagnshafta á heimili og fyrirtæki, í samræmi við þriðja áfanga áætlunar stjórnvalda.
    Regluverk fjármagnshaftanna hefur frá setningu þeirra tekið töluverðum breytingum sem hafa miðað að því að koma í veg fyrir sniðgöngu þeirra. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur lagt ríka áherslu á varfærni við losun hafta í áföngum og að mikilvægt sé að greina með heildstæðum hætti hvaða áhrif breytingar eða brottfellingar tiltekinna ákvæða hafa á regluverkið sem eftir stendur. Að öðrum kosti kann að verða hægt að sniðganga gildandi takmarkanir á milli losunaráfanga sem grefur undan áætluninni í heild sinni. Á þetta jafnt við um grunnstoðir regluverksins sem hafa verið í gildi frá setningu fjármagnshafta, svo sem skilaskyldu erlends gjaldeyris, sem og nýrri ákvæði um bindingarskyldu í tengslum við vaxtamunarviðskipti. 4
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sem fela í sér að tilteknar takmarkanir á fjármagnshreyfingum á milli landa í erlendum gjaldeyri og gjaldeyrisviðskiptum verði felldar niður, auk þess sem lagt er til að tilteknar heimildir samkvæmt lögunum verði rýmkaðar. Enn fremur er lagt til að dregið verði úr skyldu innlendra aðila til að skila erlendum gjaldeyri til landsins. Þá eru lagðar til breytingar á heimild Seðlabankans til upplýsingaöflunar í tengslum við eftirlit bankans og tilkynningarskylda um fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti til Seðlabankans skýrt tekin fram. Þessum breytingum er ætlað að styrkja eftirlitshlutverk Seðlabankans með fjármagnshreyfingum á milli landa og innlendum gjaldeyrismarkaði og gera honum kleift að rækja það meginhlutverk að stuðla að verðlags- og fjármálastöðugleika. Reynsla Íslands og annarra landa af losun fjármagnshafta á 9. og 10. áratug síðustu aldar sýnir hversu skjótt áhætta getur byggst upp í efnahagslífinu. Það er því mikilvægt að Seðlabankinn hafi heimild til upplýsingaöflunar og að hann hafi aðgang að tímanlegum og áreiðanlegum upplýsingum um fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti í því skyni að meta fjármálastöðugleika, greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins. Upplýsingaöflunin er einnig nauðsynleg fyrir beitingu varúðarreglna, þ.m.t. fjárstreymistækis.

2.3.1. Fyrsta skref frumvarpsins.
    Lagt er til að við gildistöku frumvarpsins verði bein erlend fjárfesting innlendra aðila ótakmörkuð en háð staðfestingu Seðlabanka Íslands, m.a. í ljósi þess að um mjög háar fjárhæðir getur verið að ræða. Nánar er fjallað um til hvaða þátta Seðlabankinn skal horfa við mat á því hvort um beina fjárfestingu er að ræða í athugasemdum við 7. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarpsins.
    Jafnframt er lagt til að fjárfesting í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðsla erlendra lána verði frjáls upp að ákveðnu fjárhæðarmarki, sem verður hækkað í áföngum. Lagt er til að heimildin verði bundin tilteknum skilyrðum um raunverulegt eignarhald, og fjármögnun viðskiptanna, auk þess sem lagt er til að gert verði að skilyrði að fjárfestingin sé vistuð hjá innlendum vörsluaðilum. Er með því skilyrði ætlunin að gera Seðlabankanum kleift að hafa yfirsýn og viðhafa viðunandi eftirlit með viðskiptum samkvæmt ákvæðinu, m.a. til að geta tekið upplýstar ákvarðanir um hækkun fjárhæðarmarksins í ákvæðinu, þegar aðstæður leyfa.
    Þá er lagt til að einstaklingum verði veitt heimild til einna fasteignakaupa erlendis á almanaksári, að undangenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands. Hingað til hafa lögbundnar heimildir einstaklinga til gjaldeyrisviðskipta vegna fasteigna erlendis takmarkast við viðskipti í tengslum við búferlaflutninga, og við hámarksfjárhæð 100 m.kr.
    Enn fremur er lagt til að dregið verði úr skyldu innlendra aðila til að skila erlendum gjaldeyri hingað til lands til þess að draga úr óhagræði einstaklinga og fyrirtækja vegna erlendra fjárfestinga. Lagt er til að skilaskylda nái ekki til fjármuna vegna lántöku einstaklinga hjá erlendum aðilum til kaupa á fasteign eða farartæki erlendis, eða fjármuna vegna lántöku aðila sem nýtt er til annarra fjárfestinga erlendis.
    Einnig er lagt til að heimildir Seðlabanka Íslands til upplýsingaöflunar verði auknar. Nánari umfjöllun um þennan lið er að finna í kafla 2.4.
    Að lokum er lagt til að ýmsar sértækar takmarkanir verði afnumdar og ýmsar sértækar heimildir samkvæmt lögunum verði rýmkaðar. Um einstök atriði er fjallað í III. kafla.

2.3.2. Annað skref frumvarpsins.
    Lagt er til að annað skref frumvarpsins að losun fjármagnshafta verði stigið hinn 1. janúar 2017, sbr. ákvæði til bráðabirgða í 14. gr. frumvarpsins. Á þeim tíma er gert ráð fyrir að innstæðuflutningur verði heimilaður með vissum fjárhæðartakmörkunum, að skilyrði um innlenda vörsluaðila erlendra verðbréfafjárfestinga verði fellt niður og að takmarkanir á reiðufjárkaupum í erlendum gjaldeyri verði aðeins bundnar við fjárhæðarmark 6. tölul. a- liðar 1. gr. frumvarpsins. Þar með munu innlendir og erlendir aðilar geta flutt innstæður og verðbréf til og frá landinu, átt viðskipti með verðbréf erlendis og keypt eða tekið út erlendan gjaldeyri í reiðufé innan þeirra fjárhæðarmarka sem ákvæðið setur þeim.
    Mikilvægt er að losun fjármagnshafta sé skipulögð þannig að komið verði í veg fyrir óhóflegt álag á lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja og greiðslujöfnuð. Fjárhæðarmörk á innstæðuflutninga og erlendar fjárfestingar þurfa því að taka mið af líklegu álagi á greiðslujöfnuð og greiningu á mögulegum áhrifum á lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja. Innstæðuflutningur felur í sér að innlend fjármálafyrirtæki tapa fjármögnun og þurfa því að ganga á lausar eignir eða verða sér úti um aðra fjármögnun. Því er ráðlegt að hækka fjárhæðarmörkin í skrefum.

2.3.3. Full losun fjármagnshafta.
    Full losun fjármagnshafta og tímasetning hennar er m.a. háð því að eignasöfn hafi aðlagast æskilegri samsetningu innlendra og erlendra eigna, því að útflæðisþrýstingur sé viðráðanlegur og að stjórnvöld fái svigrúm til að þróa viðeigandi varúðartæki og ná betri yfirsýn yfir fjármálakerfið. Þá skiptir stærð gjaldeyrisforða á hverjum tíma máli ásamt þróun viðskiptajafnaðar og ytri stöðu þjóðarbúsins.
    Áætlanir stjórnvalda eru í samræmi við ráðleggingar AGS um samþætta þriggja skrefa nálgun 5 við losun fjármagnshafta. Nánar tiltekið fela ráðleggingar sjóðsins í grófum dráttum í sér að fyrst skuli losað um höft á innflæði fjármagns vegna beinnar erlendrar fjárfestingar, því næst að losað skuli um höft á útflæði fjármagns vegna beinnar fjárfestingar erlendis, annarra langtímahreyfinga fjármagns og skammtímahreyfinga fjármagns að hluta, og að því loknu skuli losað um önnur höft. Þá ráðleggur sjóðurinn að samfara þessum skrefum sé eftirlit og yfirsýn stjórnvalda með utanríkisviðskiptum og fjármálamarkaði styrkt, m.a. með aukinni og skilvirkari gagnasöfnun.
    Gert er ráð fyrir að stjórnvöld muni snemma á næsta ári endurmeta aðstæður til hækkunar fjárhæðarmarka gjaldeyrisviðskipta og fjármagnshreyfinga skv. 1. og 2. gr. frumvarpsins, ásamt áframhaldandi undirbúningi að fullri losun fjármagnshafta. Lögð er sú skylda á Seðlabanka Íslands að endurskoða fjárhæðarmarkið fyrir 1. júlí 2017.
    Samhliða undirbúningi að fullri losun fjármagnshafta er nauðsynlegt að endurskoða heimildir stjórnvalda til að takmarka eða stöðva tímabundið ákveðna flokka fjármagnshreyfinga til og frá landinu og gjaldeyrisviðskipti, sem kunna að valda óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Eftir því sem losun fjármagnshafta vindur fram verður þörfin á slíkri heimild ríkari og hefur AGS bent á nauðsyn þess að stjórnvöld búi yfir stjórntækjum sem hægt væri að beita ef hætta er á að fjármagnsflæði raski stöðugleika í gengis- og peningamálum.
    Verði frumvarpið að lögum verða takmarkanir sem styðja við skilvirka framkvæmd fjármagnshafta enn til staðar ásamt því að ýmis ákvæði standa óbreytt, t.d. sem lúta að viðskiptum með íslenskar krónur, lánveitingum og lántökum, veitingu ábyrgða, afleiðuviðskiptum með krónu, auk þess sem ennþá verður mælt fyrir um skilaskyldu erlends gjaldeyris að meginstefnu til. Er það m.a. gert til að jafnræðis sé gætt varðandi þök verðbréfafjárfestinga og innstæðuflutninga. Þá eru í frumvarpinu ekki lagðar til breytingar á ráðstöfun aflandskrónueigna samkvæmt lögum nr. 37/2016, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.
    Verði frumvarpið að lögum munu lokaskref losunar fjármagnshafta beinast að þeim takmörkunum laganna sem eftir standa í lögum um gjaldeyrismál ásamt þeim takmörkunum sem gerðar eru á meðferð aflandskrónueigna í lögum nr. 37/2016. Ljóst er að markmið um fullt afnám fjármagnshafta er ekki náð fyrr en þær takmarkanir sem felast í framangreindum lögum verði felldar brott og aflandsmarkaður og álandsmarkaður renni saman. Þær lagabreytingar sem lagðar eru til að þessu sinni miða hins vegar að frekari losun á heimili og fyrirtæki.
    Frá miðju ári 2015 hafa lífeyrissjóðum verið veittar undanþágur fyrir erlendum fjárfestingum fyrir um 80 ma.kr. Þær undanþágur sem veittar eru í lögunum samkvæmt tillögum frumvarpsins duga lífeyrissjóðum skammt sökum stærðar þeirra. Því er gert ráð fyrir að þeim verði áfram veittar sérstakar heimildir til erlendra fjárfestinga samkvæmt ákvörðun Seðlabankans hverju sinni. Þegar höft verða losuð að fullu er æskilegt að ákvæði laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem lúta að áhættudreifingu og rekstri lífeyrissjóða verði endurskoðuð.
    Hingað til hefur verið kvöð á innlenda aðila að geyma innstæður sínar á reikningum hérlendis á grundvelli ákvæða laga um gjaldeyrismál og samkeppni innlendra viðskiptabanka við erlenda verið takmörkuð. Við losun hafta verður heimilt að flytja innstæður á milli landa án takmarkana, skilaskylda afnumin og samhliða mun samkeppni innlendra viðskiptabanka aukast við erlenda. Í því samhengi má nefna að nýlegar breytingar á Evrópureglum um innstæðutryggingar hafa ekki verið teknar upp í EES-samninginn, en þess er að vænta á næstu mánuðum og verða þær þá innleiddar í íslenskan rétt.
    Varúðarreglur hafa verið innleiddar í skrefum frá 2012 með það að markmiði að minnka kerfisáhættu fjármálakerfisins. Í því sambandi má nefna lausafjárreglur Seðlabankans og eiginfjárreglur Fjármálaeftirlitsins auk nýlega settra reglna um bindingarskyldu vegna nýs innstreymis erlends fjármagns. Fyrir liggur jafnframt endurskoðun reglna sem lúta að takmörkunum á lánveitingum til óvarinna aðila. 6 Slíkt varúðartæki minnkar kerfislegar áhættur vegna aukinnar skuldsetningar, eignaverðsbreytinga og útlánaáhættu í tengslum við lánveitingar í erlendum gjaldeyri. Áður en full losun fjármagnshafta er tæk er nauðsynlegt að endurskoða og móta framangreind öryggistæki og varúðarreglur ásamt því að styrkja eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans.

2.4. Auknar heimildir Seðlabanka Íslands til upplýsingaöflunar.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um gjaldeyrismál og lögum um Seðlabanka Íslands sem tryggja Seðlabanka Íslands viðeigandi úrræði til að afla upplýsinga og gagna svo að hann geti stuðlað að verðlags- og fjármálastöðugleika í samræmi við hlutverk hans. Nauðsynlegar upplýsingar og gögn varða til að mynda lántökur í erlendum gjaldmiðlum og upplýsingar um fjármálagerninga sem fela í sér sömu áhættu, svo sem afleiður sem fela í sér gjaldeyrisviðskipti. Upplýsingarnar gera bankanum kleift að meta á hverjum tíma greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins og gera spár þar að lútandi sem er undirstaða greiningar á kerfisáhættu á hverjum tíma. Mat á kerfisáhættu á hverjum tíma sýnir þá þörf á beitingu fjárflæðistækis eða annarra varúðartækja til að minnka uppsöfnun á kerfislegri áhættu. Fjármagnsinnflæðið í aðdraganda fjármálaáfallsins árið 2008 var að verulegu leyti drifið af beinum lánveitingum til fyrirtækja í erlendum gjaldeyri. Seðlabankinn bjó á þeim tíma hvorki yfir upplýsingum né gögnum sem vörpuðu fram skýrri mynd af þeim lántökum né af gjalddögum þeirra sem voru yfirvofandi. Þegar fjármálakreppan skall á um mitt ár 2007 reyndist erfitt að endurfjármagna lán erlendis og tóku innlendir bankar að miklu leyti yfir þessar lántökur með tilheyrandi áhættu á fjármálaáfalli innlends fjármálakerfis sem síðar raungerðist haustið 2008. Nauðsynlegt er því fyrir Seðlabankann að búa yfir upplýsingum og gögnum til greiningar á kerfisáhættu, enda getur bankinn þá gripið til viðeigandi varúðarráðstafana ef þörf er á með beitingu fjárflæðistækis eða annarra varúðartækja til að stuðla að fjármálastöðugleika.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið er liður í áætlunum stjórnvalda um losun fjármagnshafta og með því eru tekin veigamikil skref í átt að fullri losun. Markmið frumvarpsins er að veita einstaklingum og lögaðilum, bæði innlendum og erlendum, auknar heimildir til fjármagnshreyfinga á milli landa í erlendum gjaldeyri og til gjaldeyrisviðskipta. Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
          Heimildir til vöru- og þjónustuviðskipta eru rýmkaðar þannig að heimildin nær nú til allra greiðslna í tengslum við slík viðskipti, svo sem til endurgreiðslna vegna ofgreiðslna, afsláttar, afpantana og þess háttar greiðslna sem eru eðlilegur hluti af vöru- og þjónustuviðskiptum. Jafnframt eru afnumdar allar takmarkanir á innflutningi farartækja og kaupum á farartækjum erlendis.
          Reglur um flutning launagreiðslna, námslána, lífeyris, bóta og þess háttar greiðslna, sem aðili sem búsettur er erlendis hefur aflað sér hérlendis, eru rýmkaðar og einfaldaðar.
          Fjárhæðarmark heimildar til gjafa og styrkja til erlendra aðila er hækkað úr 3.000.000 kr. í 6.000.000 kr. á almanaksári og heimildin ekki lengur takmörkuð við innlenda aðila.
          Erlendum aðila er heimilað að flytja út leigugreiðslur sem hann aflar hérlendis. Heimildin nær til flutnings á öllum leigutekjum af fasteignum óháð staðsetningu þeirra fari greiðsla fram hérlendis. Heimildin nær m.a. til veiðiréttinda og vatnsréttinda.
          Fyrirframgreiðslur og uppgreiðslur lána og fjárfestingar í verðbréfum, hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, peningamarkaðsskjölum, öðrum framseljanlegum fjármálagerningum, peningakröfum í erlendum gjaldeyri og öðrum sambærilegum kröfuréttindum, eru heimilaðar að ákveðnu fjárhæðarmarki á tilteknu tímabili. Frá og með næstu áramótum verður heimildin rýmkuð frekar. Einnig er gert ráð fyrir að fjármagnshreyfingar á milli landa vegna innlagnar og úttektar af reikningum í innlánsstofnunum verði heimilaðar um næstu áramót. Aðilar geta nýtt heimildir sínar til fjárfestingar í verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóðum.
          Heimildir til endurfjárfestinga eru rýmkaðar.
          Bein erlend fjárfesting innlendra aðila (e. foreign direct investment) er heimiluð að tilteknum skilyrðum uppfylltum og háð staðfestingu Seðlabankans.
          Fjárhæðarmörk vegna framfærslu erlendis eru afnumin, en áfram sett skilyrði um að einstaklingar sýni fram á framfærslu erlendis. Framfærsluheimild innlendra einstaklinga sem búsettir eru erlendis er ekki lengur einskorðuð við að ástæða búsetu erlendis sé vegna starfs eða náms.
          Erlendum aðila er heimilað að kaupa erlendan gjaldeyri og flytja hann úr landi vegna greiðslu skatta, málskostnaðar samkvæmt dómsorði, slysa- og skaðabóta sem falla til hérlendis og fyrirframgreidds arfs samkvæmt staðfestri erfðafjárskýrslu.
          Einstaklingum er heimilað að kaupa eina fasteign erlendis á almanaksári. Ekki er lengur gert skilyrði um að fasteignakaup séu í tengslum við búferlaflutninga og hámarksfjárhæð slíkra viðskipta er afnumin. Heimildin nær jafnt til innlendra sem erlendra aðila.
          Heimildir til fjármagnshreyfinga á milli landa í innlendum gjaldeyri eru rýmkaðar vegna greiðslu málskostnaðar samkvæmt dómsorði, andvirðis slysa- og skaðabóta eða arfs sem erlendum einstaklingi hefur hlotnast samkvæmt erfðafjárskýrslu staðfestri af sýslumanni.
          Heimildir erlendra aðila til að nýta innlendan gjaldeyri í þeirra eigu hér á landi til fjárfestinga eru rýmkaðar.
          Almenn fjárhæðarmörk reiðufjárkaupa og úttektar á reiðufé af gjaldeyrisreikningum vegna ferðalaga eru hækkuð í 700.000 kr. fyrir hvern aðila og reiðufjárkaup ekki lengur takmörkuð við almanaksmánuð heldur hverja ferð fram til 1. janúar 2017. Auk þess er ekki lengur gert ráð fyrir fjárhæðarmörkum ef sýnt er fram á nauðsyn reiðufjárúttektar umfram fjárhæðarmörk. Eftir áramót verða reiðufjárkaup og úttektir á reiðufé í erlendum gjaldeyri felld undir fjárhæðarmark skv. 6. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarpsins og ekki lengur tengd ferðalögum erlendis. Auk þess verða lögaðilum veittar sömu heimildir til kaupa og úttektar á erlendum gjaldeyri í reiðufé.
          Takmarkanir á höfuðstólsgreiðslum skuldabréfa, sem lögfestar voru í mars 2012 vegna alvarlegrar sniðgöngu fjármagnshaftanna, eru afnumdar.
          Innlendum aðilum eru veittar víðtækar undanþágur frá skilaskyldu erlends gjaldeyris til að tryggja sem minnst óhagræði einstaklinga og fyrirtækja vegna erlendra fjárfestinga, til að mynda verða ekki skilaskyldir fjármunir sem innlendir aðilar eignast vegna lántöku einstaklings hjá erlendum aðilum til kaupa hans á fasteign eða farartæki erlendis eða fjármunir vegna lántöku aðila sem nýttir eru til annarra fjárfestinga.
          Seðlabankanum eru veittar frekari heimildir til upplýsingaöflunar til þess að tryggja að bankinn hafi aðgang að áreiðanlegum og tímanlegum upplýsingum í því skyni að standa vörð um fjármálastöðugleika, greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins.
          Frestur á tilkynningu um nýfjárfestingu er lengdur úr tveimur vikum í þrjár vikur.
          Þá eru lagðar til afleiddar breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands sem hafa bein tengsl við efni frumvarpsins.
          Að lokum eru lagðar til smávægilegar breytingar á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.
    Í kjölfar lögfestingar frumvarpsins mun Seðlabanki Íslands uppfæra reglur nr. 430/2016, um gjaldeyrismál, til samræmis.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Með frumvarpinu er lögð til ívilnandi aðgerð sem felur í sér losun fjármagnshafta í áföngum. Ekki er tilefni til að ætla að frumvarpið stangist á við stjórnarskrá eða mannréttindasáttmála sem Ísland er skuldbundið til að virða.
    Að því er varðar EES-samninginn fela fjármagnshöftin í sér ráðstöfun sem fellur undir 43. gr. hans. Með frumvarpinu eru stigin stór skref í þá átt að gera fjármagnshreyfingar til og frá Íslandi frjálsar á ný í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum.

V. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft víðtækt samráð við forsætisráðuneytið og Seðlabanka Íslands. Auk þess var haldinn fundur með Fjármálaeftirlitinu til að ræða efni frumvarpsins.

VI. Mat á áhrifum.
    Þótt höftin hafi verið nauðsynleg á sínum tíma þá aukast neikvæðar hliðarverkanir þeirra eftir því sem þeim er lengur viðhaldið. Losun fjármagnshafta sem mælt er fyrir um í þessu frumvarpi er til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á einstaklinga og fyrirtæki. Losunin er framkvæmd í skipulegum og varfærnum skrefum til þess að draga úr hættu á að álag á lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja og greiðslujöfnuð þjóðarbúsins verði of mikið. Strax eftir framkvæmd þeirra tveggja skrefa sem lögð eru til í frumvarpinu, þ.e. þegar um næstu áramót, ættu höftin ekki lengur að setja meginþorra heimila og fyrirtæki teljandi skorður. Innlendir aðilar munu þá geta bætt áhættudreifingu í eignasöfnum með erlendri fjárfestingu.

Áhrif á fyrirtæki og einstaklinga.
    Innlendir aðilar fá takmarkalausar heimildir til beinnar erlendrar fjárfestingar við gildistöku laganna. Fjárfesting verður þó fyrst um sinn háð staðfestingu hjá Seðlabankanum til þess að unnt sé að ganga úr skugga um að í reynd sé um beina erlenda fjárfestingu að ræða og koma í veg fyrir að heimildin verði nýtt til að komast hjá þeim fjárhæðarmörkum sem gilda um aðrar fjármagnshreyfingar. Frá innleiðingu fjármagnshafta hefur bein erlend fjárfesting verið háð undanþágu frá Seðlabankanum og nokkuð íþyngjandi skilyrðum. Bein erlend fjárfesting er oft til þess fallin að auka hagkvæmni í rekstri fyrirtækja, ekki síst þeirra sem eru í svo örum vexti að stærð innlends markaðar er farin að setja áframhaldandi vexti þröngar skorður. Fyrirtækjum verður auk þess heimilt að fjárfesta í erlendum verðbréfum upp að ákveðnu fjárhæðarmarki, sem er til þess fallið að gera fyrirtækjum kleift að dreifa áhættu í starfsemi yfir landamæri og auka þannig hagkvæmni.
    Fjárfesting einstaklinga hefur verið einskorðuð við innlenda fjármálamarkaði frá því að fjármagnshöft voru sett á. Á þeim tíma hefur sparnaður einstaklinga aukist umtalsvert. Sparnaður heimila er fyrst og fremst í innlánum, verðbréfasjóðum eða auðseljanlegum verðbréfum. Samkvæmt gögnum úr skattframtölum um eignir einstaklinga í árslok 2015 áttu um 260 þúsund einstaklingar innlán og skuldabréf að verðmæti 10 m.kr. eða minna, rúmlega 15 þúsund einstaklingar áttu á bilinu 10–100 m.kr. og einungis tæplega 800 einstaklingar, eða 0,3% framteljenda, áttu innlán og skuldabréf að samanlögðu verðmæti yfir 100 m.kr. Því er ljóst að með þeim ráðstöfunum sem settar eru fram í frumvarpinu ættu fjármagnshöftin ekki að setja þorra einstaklinga verulegar skorður og mjög fáum eftir næstu áramót. Einstaklingum verður þá frjálst að kaupa verðbréf beint eða fyrir milligöngu innlendra eða erlendra aðila og millifæra fjármuni milli innlánsreikninga á milli landa. Erlend fjárfesting einstaklinga sem er gerð til að dreifa áhættu eykur hagkvæmni, bæði fyrir einstaklingana sjálfa og þjóðarbúskapinn í heild sinni, ekki síst við skilyrði þegar afgangur er á viðskiptum við útlönd. Aukin erlend fjárfesting er til þess fallin að styrkja hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins, sem eykur viðnámsþrótt hans. Við núverandi aðstæður og vegna fyrri aðgerða stjórnvalda við losun hafta eru því forsendur til að greiða fyrir uppbyggingu sparnaðar einstaklinga erlendis. Önnur ákvæði í frumvarpinu rýmka einnig umtalsvert heimildir einstaklinga til fjármagnsflutninga á milli landa í tengslum við húsnæðiskaup, framfærslu og fleira.
    Aðstæður til losunar fjármagnshafta eru að mörgu leyti ákjósanlegar. Vaxtamunur gagnvart útlöndum er umtalsverður, hagvöxtur meiri en í viðskiptalöndunum, lítil verðbólga og fjármagnsinnstreymi vegna þjónustuviðskipta með tilheyrandi þrýstingi til gengishækkunar krónunnar draga úr hættu á miklu fjármagnsútflæði. Ekki er þó hægt að útiloka að nokkurt fjármagnsútstreymi eigi sér stað á grundvelli þeirra breytinga sem mælt er fyrir um í frumvarpinu. Þá gæti þrýstingur orðið nokkur á gengi til skamms tíma, sem aftur er til þess fallið að draga úr fjármagnsútflæði. Viðnámsþróttur einstaklinga og fyrirtækja gagnvart breytingum í gengi hefur þó aukist verulega. Því er ólíklegt að lækkun á gengi, sem kann að verða ef útflæði fjármagns verður umtalsvert vegna eignamyndunar innlendra aðila erlendis, hafi teljandi neikvæð áhrif.

Áhrif á ríkissjóð.
    Skuldastaða ríkissjóðs hefur batnað verulega síðustu ár og útlit er fyrir enn frekari bata á næstu árum. Stöðugleikaframlög slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja, bætt rekstrarafkoma og aðrar óreglulegar tekjur, hafa gefið færi til uppgreiðslu skulda. Samkvæmt fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs lækki um 346 ma.kr. á árunum 2016–2021 og að stærstur hluti lækkunarinnar muni eiga sér stað á yfirstandandi og næsta ári.
    Heildarskuldir ríkissjóðs voru 1.216 ma.kr. í lok júní. Um 30% þeirra eru tilkomnar vegna fjármögnunar á halla ríkissjóðs á árunum 2008–2013. Í ljósi bættrar afkomu auk fyrrgreindra óreglulegra tekna hefur dregið verulega úr þörf ríkissjóðs fyrir skuldabréfaútgáfu innan lands og útlit er fyrir að framhald verði á þeirri þróun á næstu árum. En til þess að viðhalda skilvirkum skuldabréfamarkaði mun ríkissjóður engu að síður halda útgáfu markflokkakerfisins áfram en þó mögulega með þeirri breytingu að lækka endanlega stærð útistandandi markflokka úr 100 ma.kr. í 60–70 ma.kr.
    Fjármagnshöftin hafa lækkað innlendan fjármögnunarkostnað ríkissjóðs með því að takmarka fjárfestingarkosti fjárfesta sem voru með fjármuni hér á landi þegar höftin voru sett á. Þetta birtist m.a. í því að langtíma ávöxtunarkrafa ríkisbréfa lækkaði á sama tíma og ríkissjóður gaf út mikið af nýjum skuldabréfum til að fjármagna hallarekstur árin 2009–2010. Í kjölfar losunar hafta má vænta þess að aðstæður á ríkisskuldabréfamarkaði færist í eðlilegra horf og eftirspurn eftir ríkisskuldabréfum gæti því dregist saman. Vaxtaferill ríkissjóðs gæti því hækkað með tilheyrandi kostnaði fyrir fjármögnun ríkissjóðs næstu árin. Fyrirsjáanlegur samdráttur í framboði á ríkisskuldabréfum á næstu árum vegur þó á móti þessu og því líklegt að áhrif losunar hafta á vexti ríkisskuldabréfa verði til lengri tíma óveruleg.
    Gjaldeyrisjöfnuður ríkissjóðs er í jafnvægi, þ.e. skuldir og eignir ríkissjóðs í erlendum gjaldeyri eru áþekkar. Mögulegar gengisbreytingar í tengslum við losun hafta hafa því hvað það varðar óveruleg bein áhrif á ríkissjóð. Verðtryggingarjöfnuður ríkissjóðs var hins vegar neikvæður um síðustu áramót og því mundi hækkun verðbólgu um 1% að öðru óbreyttu hafa um 1,5 ma.kr. áhrif á útgjöld ríkissjóðs vegna hækkunar vaxtagjalda.
    Alþjóðleg lánshæfismatsfyrirtæki hafa ítrekað bent á að fjármagnshöftin koma í veg fyrir að unnt sé að hækka lánshæfismat ríkissjóðs. Komi til hækkunar lánshæfismats ríkissjóðs í kjölfar frekari skrefa til losunar hafta gæti vaxtaálag og vaxtakostnaður ríkissjóðs því lækkað, enda njóta mörg önnur áþekk þróuð og tekjuhá ríki innan OECD mun hagstæðari lánskjara á alþjóðamörkuðum.
    Að öðru leyti eru þær ráðstafanir sem lagðar eru til í frumvarpinu ekki líklegar til þess að hafa teljandi áhrif á gjöld ríkissjóðs og ekki er gert ráð fyrir að efni frumvarpsins hafi bein áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Áhrif á fjármálafyrirtæki og fjármálamarkaði.
    Mikilvægt er að skipulag losunar hafta miði m.a. að því að takmarka hættu á að álag á lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja verði of mikið. Fjárhæðartakmörk á innstæðuflutning og til erlendrar fjárfestingar taka því mið af greiningu á mögulegum áhrifum á lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja. Fjármálafyrirtæki þurfa að ganga á lausar eignir þegar innstæður eru teknar út. Vænta má þess að þær breytingar sem mælt er fyrir um í frumvarpinu geti haft umtalsverð áhrif á laust fé fjármálafyrirtækja. Hætta á lausafjárþröng banka er fyrst og fremst háð trausti á fjármálakerfinu en einnig fyrrgreindum fjárhæðartakmörkunum á fjármagnsflutningum. Áhrifin á reglubundin lausafjárhlutföll gætu einnig reynst nokkur og mismunandi á milli banka. Ákvörðun um fjárhæðartakmörkin í frumvarpinu byggist á greiningu á þessu.
    Í lok júní sl. voru innlán samtals tæplega 1.700 ma.kr. og um 40% þeirra í eigu einstaklinga. Samþjöppun innlána einstaklinga er lítil og um 60% af innlánum einstaklinga eru undir 16,5 m.kr. Fyrirtæki eru með um 25% af innlánum. Erlendir aðilar eiga um 5% af innlánum og innlán í erlendum gjaldmiðlum eru um 13% af innlánum. Vert er að taka fram að veruleg úttekt á innlánum í erlendum gjaldmiðlum hefur takmörkuð eða engin áhrif á gjaldeyrismarkað, enda eiga bankarnir nægar lausar eignir í erlendum gjaldeyri á móti þeim.
    Ýmis álagspróf voru framkvæmd til að meta hversu vel bankarnir eru í stakk búnir til að takast á við mismikið útflæði innlána. Við þau fjárhæðartakmörk á fjármagnsflutninga sem sett eru fram í frumvarpinu verður ekki lausafjárþurrð hjá bönkum og þeir samtals uppfylla lausafjárreglur Seðlabankans miðað við þau álagspróf sem gerð hafa verið.
    Í kjölfar frekari losunar fjármagnshafta munu innlend heimili og fyrirtæki væntanlega fjárfesta í auknum mæli erlendis. Samdráttur í eftirspurn eftir verðbréfum innan lands mun þá auka fjármögnunarkostnað fjármálafyrirtækja að öðru óbreyttu. Jákvæður vaxtamunur við útlönd er þó til þess fallinn að draga úr þessum áhrifum sem og samdráttur í fjármagnsþörf ríkissjóðs. Áhrifin á fjármálafyrirtæki verða því væntanlega vel viðráðanleg við núverandi stöðu á fjármálamörkuðum.
    Til að meta áhrif tillagna frumvarpsins á greiðslujöfnuð þarf, auk innlánagreiningar, að huga að mögulegri áhættudreifingu fjárfesta sem eiga verðbréf eða hlutdeildarbréf í verðbréfasjóðum. Í lok júní voru heildareignir verðbréfasjóða tæplega 600 ma.kr. Af því voru um 400 ma.kr. í eigu einstaklinga og fyrirtækja. Nokkur hluti fjárfesta í sjóðum á eignir yfir þeim fjárhæðartakmörkum sem sett eru fram í frumvarpinu og væntanlegt útflæði vegna áhættudreifingar fjárfesta í sjóðum er því nokkuð temprað. Verðþróun á innlendum verðbréfamörkuðum og gengisþróun krónunnar mun einnig hafa umtalsverð áhrif á það hvenær og í hve ríkum mæli sjóðirnir kjósa að fjárfesta erlendis. Einstaklingar og fyrirtæki eiga einnig beint um 390 ma.kr. í verðbréfum, þar af eru 240 ma.kr. í hlutabréfum og um 150 ma.kr. í skuldabréfum.

Áhrif á greiðslujöfnuð og gjaldeyrisforða Seðlabankans.
    Við mat á áhrifum mögulegs útflæðis á greiðslujöfnuð í kjölfar þeirra skrefa við losun fjármagnshafta sem lögð eru til í frumvarpinu er horft til þróunar gjaldeyrisforðans og hann settur í samhengi við ýmis forðaviðmið. Í útreikningunum er gengi krónunnar haldið föstu. Hafa ber í huga að það er gert til hagræðis til þess að fá einfalda mynd af hugsanlegum áhrifum en felur ekki í sér stefnuyfirlýsingu. Öfugt við uppgjör slitabúa föllnu fjármálafyrirtækjanna og lausn aflandskrónuvandans þar sem stefnt var að því að aðgerðirnar hefðu ekki neikvæð áhrif á gengi krónunnar á það ekki við í þessu tilfelli enda er beinlínis nauðsynlegt til að hagstjórn virki eins og til er ætlast að gengið fái að aðlagast mismikilli ásókn innlendra aðila í erlenda eignamyndun.
    Staða gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands er nú sögulega sterk. Í lok júlí jafngilti forðinn um 721 ma.kr. og þar af var 475 ma.kr. forði fjármagnaður innan lands. Hlutfall forða og forðaviðmiðs (svokallað RAM-forðaviðmið (e. Reserve adequacy metric) sem tekur mið af margvíslegum þáttum sem hafa áhrif á greiðslujöfnuð þjóða og geta gefið vísbendingu um mögulegt útflæði fjármagns) var um 160% í lok júlí. Það nær því vel því hlutfalli sem Seðlabanki Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eru sammála um að sé æskilegt í aðdraganda þess að frekari skref verði stigin til að losa um fjármagnshöft, en það er um 150%. Miðað við útreikning um mögulegt útflæði við losun fjármagnshafta má vænta þess að áhrifin á greiðslujöfnuð geti orðið þónokkur, en verulega háð vilja fyrirtækja og einstaklinga til áhættudreifingar erlendis. Hver áhrifin verða á þróun forða fer hins vegar einnig eftir erlendum framtíðartekjum þjóðarbúsins en Seðlabankinn hefur keypt umtalsvert af erlendum gjaldeyri á markaði á undanförnum missirum eða sem nemur um 230 ma.kr. það sem af er ári og um 270 ma.kr. árið þar á undan. Fari sem horfir ætti mögulegt útflæði ekki að vera of íþyngjandi fyrir þjóðarbúið. Verði gjaldeyrisinnstreymi yfir losunarferlið áþekkt því sem það hefur verið undanfarin missiri er talið að hlutfall forða og RAM-forðaviðmiðsins muni lækka fyrst um sinn og fara niður fyrir efri mörk forðaviðmiðsins, en þó þannig að forðinn mun áfram verða nægjanlega mikill jafnvel þótt að miðað sé við mikið útflæðisálag. Þá má gera ráð fyrir að forðinn nái góðri stöðu á einu til tveimur árum.

Áhrif á stjórnsýslu ríkisins.
    Frá árinu 2010 hafa gjaldeyriseftirlitinu borist um 800–1.100 beiðnir um undanþágu frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, á ári og hefur hlutfallið skipst nokkuð jafnt á milli einstaklinga og lögaðila. Þá hefur afgreiðsluhlutfallið verið um 75%–100% á ári miðað við innsend erindi og eru yfirleitt rúmlega 300 mál í vinnslu hverju sinni. Eftirfarandi yfirlit sýnir hvernig fjöldi innsendra og afgreiddra beiðna um undanþágu hefur skipst á milli ára:

Ár Fjöldi innsendra undanþágubeiðna Fjöldi afgreiddra undanþágubeiðna
2009 390 248
2010 762 720
2011 971 946
2012 973 711
2013 883 880
2014 1.044 992
2015 1.080 1.040
2016 7 657 591

    Nú er lágmarksafgreiðslutími undanþágubeiðna almennt átta vikur. Þurfi að afla frekari gagna eða upplýsinga frá umsækjanda til þess að unnt sé að afgreiða undanþágubeiðni má búast við því að afgreiðslutíminn lengist sem því nemur. Einnig er afgreiðslutíminn lengri þegar um fordæmisgefandi mál er að ræða eða beiðnir sem varða töluverðar fjárhæðir þar sem mat Seðlabankans, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um gjaldeyrismál, er unnið í samvinnu við önnur svið bankans.
    Gert er ráð fyrir því að þær breytingar sem frumvarpið felur í sér muni leiða til þess að beiðnum um undanþágu frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, fækki um 50–65%. Jafnframt má gera ráð fyrir því að afgreiðslutími undanþágubeiðna styttist til muna. Á árinu 2015 nam beinn kostnaður við gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands 265 m.kr. Telja má líklegt að samhliða fækkun beiðna um undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál muni kostnaður við þennan þátt í rekstri bankans geta farið lækkandi á næstu árum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til ýmsar breytingar á 13. gr. b laganna.
    Í a-lið eru lagðar til breytingar á 2. mgr. sem fela í sér að undanþágum frá takmörkunum 1. mgr. á fjármagnshreyfingum á milli landa í erlendum gjaldeyri er fjölgað þannig að annars vegar eru undanþegnar fjármagnshreyfingar sem flokkast samkvæmt skiptingu greiðslujafnaðar undir viðskiptajöfnuð (e. current) og hins vegar eru undanþegnar tilteknar langtíma- og skammtímahreyfingar fjármagns að tilteknu fjárhæðarmarki og beinar fjárfestingar sem falla samkvæmt skiptingu greiðslujafnaðar undir fjárfestingarhreyfingar (e. capital).
     Um 1. tölul. Lögð er til útvíkkun á heimildum til fjármagnshreyfingar á milli landa í erlendum gjaldeyri enda sé sýnt fram á að þær séu vegna vöru- og þjónustuviðskipta. Undanþáguna er nú að finna í 2. mgr. 13. gr. b, sbr. 2. tölul. 3. mgr. 13. gr. b, laganna. Með breytingunni munu fleiri tilvik en aðeins fjármagnshreyfingar sem beinlínis varða kaup á vöru og þjónustu falla undir heimildina, svo sem endurgreiðslur vegna ofgreiðslu, afsláttar, afpantana o.þ.h., sem eru eðlilegur hluti af vöru- og þjónustuviðskiptum. Sama á við um fjármagnshreyfingar vegna kaupa á farartækjum, vinnuvélum og hrávöru sem eru eðlilegur þáttur í atvinnustarfsemi aðila en hafa hingað til verið óheimilar skv. 13. gr. f laganna. Þá falla einnig undir undanþáguna kaup einstaklinga á farartækjum til einkanota. Undir heimildina falla ekki kaup á hrávöru í fjárfestingarskyni, svo sem fjárfestingar í gulli og öðrum eðalmálmum eða olíu.
     Um 2. tölul. Lagt er til að núgildandi heimild 2. mgr. 13. gr. k laganna verði færð í 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. b laganna. Ekki er um efnislega breytingu á núgildandi heimild 2. mgr. 13. gr. k laganna að ræða að öðru leyti en því að ekki verður lengur gert að skilyrði fyrir innlenda aðila sem hyggjast nýta heimildina að ástæða búsetu þeirra erlendis sé starf eða nám erlendis. Ákvæðið tekur einnig til launa erlendra aðila sem þeir hafa aflað hérlendis síðastliðna sex mánuði, óháð búsetu þeirra og því hvort þeir töldust erlendir eða innlendir aðilar þegar þeir öfluðu teknanna. Með launatengdum gjöldum er m.a. átt við tryggingagjöld, lögbundin iðgjöld í lífeyrissjóði, orlofsgreiðslur og félagsgjöld til stéttarfélaga.
     Um 3. tölul. Lagt er til að núgildandi heimild 1. mgr. 13. gr. k laganna verði færð í 3. tölul. 2. mgr. 13. gr. b laganna. Jafnframt er lagt til að ákvæðinu verði breytt þannig að fjárhæðarmark heimildarinnar verði hækkað úr 3.000.000 kr. í 6.000.000 kr. og að ekki verði gerður greinarmunur á heimildum innlendra og erlendra aðila sem gefenda og styrkveitenda til fjármagnshreyfinga á milli landa á grundvelli heimildarinnar. Samkvæmt ákvæðinu skulu gjafir og styrkir lagðir inn á reikning í eigu móttakanda og skulu gefandi og styrkveitandi vera raunverulegir eigendur þeirra fjármuna sem um ræðir.
     Um 4. tölul. Í ákvæðinu kemur fram að fjármagnshreyfingar á milli landa í erlendum gjaldeyri séu heimilar þegar sýnt er fram á að þær séu vegna vaxta, verðbóta, samningsbundinna afborgana og arðs skv. 13. gr. j laganna. Ákvæðið felur ekki í sér breytingu á núgildandi rétti.
     Um 5. tölul. Í ákvæðinu kemur fram að fjármagnshreyfingar í erlendum gjaldeyri séu heimilar sé sýnt fram á að þær séu vegna leigutekna af fasteignum sem erlendur aðili hefur aflað hérlendis. Ákvæðið felur í sér óverulega breytingu á núgildandi heimild laganna til fjármagnshreyfinga á milli landa í erlendum gjaldeyri þar sem slíkar greiðslur hafa hingað til verið taldar til þjónustuviðskipta. Með leigutekjum er jafnframt átt við tekjur af réttindum tengdum fasteignum, svo sem námu-, vatns- og veiðiréttindum.
     Um 6. tölul. Lagt er til að heimilaðar verði fjármagnshreyfingar á milli landa í erlendum gjaldeyri vegna fyrirframgreiðslna og uppgreiðslna lána, fjárfestinga í verðbréfum, hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, peningamarkaðsskjölum, öðrum framseljanlegum fjármálagerningum, peningakröfum og öðrum sambærilegum kröfuréttindum í erlendum gjaldeyri, inn- og útflutnings verðbréfa eða innleggs á og úttektar af reikningum í innlánsstofnunum. Umræddar fjármagnshreyfingar hafa hingað til verið takmarkaðar af ákvæðum 13. gr. e og 13. gr. f laganna. Fjármagnshreyfingar á milli landa vegna fyrirframgreiðslna eða uppgreiðslna lána eru óheimilar samkvæmt ákvæði 4. mgr. 13. gr. g og teljast ekki til samningsbundinna afborgana í skilningi 1. mgr. 13. gr. j, sbr. 8. mgr. 13. gr. j laganna. Jafnframt er lagt til að úttektir í reiðufé verði heimilar skv. 4. málsl. a-liðar 2. gr. frumvarpsins. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í 14. gr. frumvarpsins er lagt til að heimildin verði bundin við 30.000.000 kr. fjárhæðarmark frá gildistöku frumvarpsins, sem hækkar síðan í 100.000.000 kr. 1. janúar 2017. Gert er ráð fyrir að Seðlabanki Íslands geti endurskoðað fjárhæðarmark ákvæðisins með reglum, sbr. 4. mgr. 13. gr. b og 5. mgr. 13. gr. c laganna, og að hann skuli endurskoða það fyrir 1. júlí 2017 skv. a-lið 14. gr. frumvarpsins. Ákvæðið felur í sér heimild til langtímahreyfinga fjármagns og skammtímahreyfinga fjármagns skv. 1., 2. og 4. tölul. eins og þær eru skilgreindar í 1. gr. laganna en tekur ekki til lánveitinga og lántaka til skemmri tíma en eins árs, sbr. 3. tölul. Heimildin er bundin við hvern aðila og er ekki framseljanleg, sbr. þó heimild í f-lið 10. gr. frumvarps þessa til að fjárfesta í verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóðum. Til dæmis teldist aðili sem hefði fjárfest í erlendum verðbréfum fyrir jafnvirði 50.000.000 kr., flutt innstæðu frá innlendu fjármálafyrirtæki til erlends að jafnvirði 40.000.000 kr. og tekið út reiðufé í erlendum gjaldeyri hjá innlendu fjármálafyrirtæki fyrir jafnvirði 10.000.000 kr. hafa fullnýtt heimild sína samkvæmt ákvæðinu. Lagt er til að fjármagnshreyfingar eða reiðufjárúttektir á grundvelli ákvæðisins verði háðar tilteknum skilyrðum sem ætlað er að koma í veg fyrir að aðilar fari fram hjá fjárhæðarmarki með því að láta aðra fjárfesta fyrir sína hönd eða nýta sér lögaðila sem lúta þeirra stjórn í því skyni.
    Í a-lið ákvæðisins er lagt til að fjárfestir sé raunverulegur eigandi fjármuna og á það skilyrði jafnt við um einstaklinga og lögaðila sem hyggjast nýta sér heimildina.
    Þá er skilyrði í b-lið ákvæðisins að einstaklingur sem nýtir sér heimildina hafi náð 18 ára aldri þegar fjármagnshreyfing eða reiðufjárúttekt á sér stað. Í því felst að foreldrar eða forráðamenn barns geta ekki átt fjármagnshreyfingar á milli landa eða reiðufjárúttekt í nafni barna sinna á grundvelli ákvæðisins. Þó er fjárhaldsmönnum einstaklinga sem ekki eru fjárráða heimilt að eiga fjármagnshreyfingar á milli landa eða reiðufjárúttekt á grundvelli ákvæðisins fyrir þeirra hönd.
    Í c-lið ákvæðisins er gert að skilyrði að eignastaða lögaðila sem nýtir sér heimildina hafi hinn 1. ágúst 2016 numið að minnsta kosti fjárhæð fyrirhugaðrar ráðstöfunar. Slík takmörkun er nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir að stofnaðir verði nýir lögaðilar eða þeir endurvaktir í þeim eina tilgangi að komast fram hjá fjárhæðarmarki ákvæðisins, enda er ákvæðinu einungis ætlað að ná til lögaðila sem eru í virkum rekstri.
    Þá er lagt til í d-lið ákvæðisins að því fjármálafyrirtæki sem framkvæmir fjármagnshreyfingu samkvæmt ákvæðinu sé skylt að tilkynna hana til Seðlabanka Íslands og að sú tilkynning skuli berist Seðlabankanum áður en fjármagnshreyfingin á sér stað. Gert er ráð fyrir að Seðlabanki Íslands ákvarði í reglum fyrirkomulag tilkynninga vegna reiðufjárúttektar. Framangreindu er ætlað að tryggja að bankinn geti haft eftirlit með því hvort fjárhæðarmarkið sé virt.
     Um 7. tölul. Lagt er til að fjármagnshreyfingar á milli landa í erlendum gjaldeyri vegna beinnar fjárfestingar innlendra aðila verði heimilar að því gefnu að fjárfestir sé raunverulegur eigandi fjármunanna. Bein fjárfesting er skilgreind í 1. gr. laganna, en samkvæmt henni er bein fjárfesting fjárframlag eða annað framlag til eigin fjár atvinnufyrirtækis eða kaup á eignarhlut til að eignast virk áhrif á stjórn þess. Enn fremur geta langtímalán frá eigendum fyrirtækis til þess talist bein fjárfesting. Í skilgreiningunni felst annars vegar skilyrði um að andlag fjárfestingarinnar sé atvinnufyrirtæki, og hins vegar skilyrði um virk áhrif á stjórn. Þannig tekur heimildin ekki til fjárfestingar í erlendu fyrirtæki ef starfsemi þess felst að verulegu leyti í óbeinni fjárfestingu (e. portfolio investment) eða sambærilegri starfsemi. Við hagskýrslugerð er gjarnan miðað við að 10% eignarhlutur hlutafjár veiti virk áhrif á stjórn 8 en þó geta kaup á minni hlut borið merki beinnar fjárfestingar og kaup á stærri hlut geta í eðli sínu verið líkari óbeinni fjárfestingu. 9 Lagt er til að Seðlabankinn meti hvort fjárfesting teljist bein fjárfesting og er hún háð staðfestingu hans. Við mat á því hvort fjárfesting teljist bein fjárfesting getur Seðlabankinn einnig litið til viðurkenndra alþjóðlegra viðmiða um hvað telst bein fjárfesting, svo sem skilgreiningar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (OECD). 10
     Um 8. tölul. Í ákvæðinu kemur fram að innflutningur á erlendum gjaldeyri á innlánsreikning hjá innlendu fjármálafyrirtæki sé heimill, þó ekki þegar greiðandi er innlendur aðili og viðtakandi er erlendur aðili. Ekki er um efnisbreytingu að ræða, en núgildandi heimild er í 2. málsl. 2. mgr. 13. gr. b laganna.
     Um 9. tölul. Í ákvæðinu er lögð til rýmkun á núgildandi heimild skv. 2. mgr. 13. gr. laganna til fjármagnshreyfingar í erlendum gjaldeyri á milli landa vegna framfærslu erlendra aðila og innlendra aðila sem eru búsettir erlendis. Ekki er lengur gert að skilyrði að innlendur aðili sem hyggst nýta heimildina sé búsettur erlendis vegna starfs eða náms. Þá er lagt til að fjárhæðarmörk heimildarinnar verði felld brott en heimildin er áfram háð því skilyrði að einstaklingar sýni fram á framfærslu sína erlendis hjá fjármálafyrirtæki hér á landi.
     Um 10. tölul. Í ákvæðinu er lagt til að heimila fjármagnshreyfingar á milli landa í erlendum gjaldeyri vegna greiðslu skatta og opinberra gjalda, málskostnaðar samkvæmt dómsorði og slysa- og skaðabóta. Hingað til hafa aðeins slíkar fjármagnshreyfingar vegna greiðslu slysabóta og arfs sem erlendum aðila hefur tæmst við dánarbússkipti verið heimilar skv. 2. mgr. 13. gr. b. Lagt er til að ekki verður lengur gert skilyrði að arfur hafi tæmst við dánarbússkipti. Með því nær heimildin nú einnig til fyrirframgreidds arfs að því gefnu að erfingi leggi fram erfðafjárskýrslu staðfesta af sýslumanni.
     Um 11. tölul. Í ákvæðinu er lagt til að innlendum og erlendum einstaklingum verði veitt heimild til fjármagnshreyfinga á milli landa í erlendum gjaldeyri vegna kaupa á einni fasteign erlendis á almanaksári að undangenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands. Ákvæðið felur í sér verulega rýmkun frá heimild skv. 2. mgr. 13. gr. f sem er bundin því skilyrði að kaupin séu gerð vegna búferlaflutninga einstaklinga frá landinu og fjárhæðarmarki að jafnvirði 100.000.000 kr. Lagt er til að einstaklingi verði heimilt að greiða staðfestingargjald vegna fasteignaviðskipta sem nemur allt að 15% af kaupverði fasteignar án undangenginnar staðfestingar. Kaup á búseturétti eða sambærilegum réttindum teljast til fasteignakaupa í skilningi ákvæðisins. Jafnframt er lagt til að einstaklingi sem selur eða móttekur tjónabætur vegna fasteignar erlendis verði heimilað að nýta söluandvirðið eða tjónabæturnar til kaupa á annarri fasteign erlendis innan sex mánaða.
    Í b-lið er lögð til breyting á ákvæði 4. tölul. 3. mgr., til samræmis við heimildir 10. tölul. a-liðar, sem felur í sér að fjármagnshreyfingar á milli landa í innlendum gjaldeyri vegna greiðslu málskostnaðar samkvæmt dómsorði og slysa- og skaðabóta. Um nánari skýringar vísast til athugasemda við 10. tölul. a-liðar.
    Í c-lið er lagt til að nýr töluliður bætist við 3. mgr. 13. gr. b laganna. Sambærilega heimild var áður að finna í 3. tölul. 3. mgr. 13. gr. b, sem var felldur brott með lögum nr. 35/2013, um breytingu á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Breytingin felur í sér að erlendum aðilum er veitt heimild til að nýta innlendan gjaldeyri til fjárfestinga hér á landi. Heimildin nær ekki til greiðslna með úttekt af reikningi sem er háður sérstökum takmörkunum í skilningi laga nr. 37/2016. Lagt er til að fjárfestingar lögaðila á grundvelli ákvæðisins séu háðar því skilyrði að kaupandi sé raunverulegur eigandi fjármunanna við gildistöku laganna. Einnig skulu fjármunir sem losna við sölu fjárfestinganna greiddir inn á reikning í eigu seljanda í innlendum gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. Lagt er til að heimildin verði bundin við fasteignir og tiltekna fjármálagerninga útgefna í innlendum gjaldeyri samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands.

Um 2. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á 2. mgr. 13. gr. c laganna sem felur í sér rýmkun á heimildum innlendra og erlendra aðila til að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi til samræmis við auknar heimildir til fjármagnshreyfinga í erlendum gjaldeyri milli landa, sbr. 1. gr. frumvarps þessa, og vísast til frekari skýringar til athugasemda við þá grein.
    Í a-lið er lagt til að heimilt verði að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi þegar sýnt er fram á að gjaldeyriskaupin séu vegna fjármagnshreyfinga á milli landa sem undanþegnar eru samkvæmt nýjum ákvæðum 1.–7. og 9.–11. tölul. 2. mgr. 13. gr. b laganna, sbr. a-lið 1. gr. frumvarpsins. Erlendir aðilar hafa hingað til ekki haft heimild til að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi, t.d. vegna vöru- og þjónustuviðskipta eða gjafa og styrkja. Þá er lagt til að það verði skilyrði fyrir gjaldeyriskaupunum skv. 1. málsl. málsgreinarinnar, vegna fjármagnshreyfinga á milli landa skv. 1., 3.–7. og 10.–11. tölul. 2. mgr. 13. gr. b, að móttakandi greiðslunnar sé erlendur aðili enda er ákvæðinu hvorki ætlað að veita innlendum né erlendum aðilum heimild til að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi til að afhenda innlendum aðilum í þeim tilvikum sem tilgreind eru í ákvæðinu. Einnig er lagt til að það verði skilyrði fyrir gjaldeyriskaupum erlendra aðila hjá fjármálafyrirtæki hér á landi á grundvelli 4. tölul. 2. mgr. 13. gr. b, sbr. 13. gr. j, að þau séu vegna slíkra greiðslna frá innlendum aðila hér á landi. Þessa takmörkun er nú að finna í 1. málsl. 3. mgr. 13. gr. c laganna. Jafnframt er lagt til að bann við kaupum og úttekt á erlendum gjaldeyri í reiðufé af gjaldeyrisreikningum hjá fjármálafyrirtæki hér á landi verði fært undir ákvæðið, en bannið er nú að finna í 1. mgr. 13. gr. d. Einnig er lagt til að heimila kaup og úttekt á erlendum gjaldeyri í reiðufé af gjaldeyrisreikningum hjá fjármálafyrirtækjum hér á landi innan fjárhæðarmarka 6. tölul. a- liðar 1. gr. frumvarpsins. Í því felst að nýting heimildarinnar dregst frá fjárhæðarmarki ákvæðisins. Breytingin felur í sér rýmkun á núgildandi heimild skv. 2. mgr. 13. gr. d þannig að heimildin er ekki einskorðuð við innlenda einstaklinga heldur nær heimildin nú jafnframt til erlendra einstaklinga og lögaðila.
    Í b-lið er lögð til leiðrétting á tilvísun sem felur ekki í sér efnislega breytingu.
    Í c-lið er lagt til að 3. mgr. 13. gr. c falli brott. Þær heimildir sem þar er mælt fyrir um er nú að finna í a-lið 2. gr. frumvarpsgreinarinnar.
    Í d-lið er lögð til leiðrétting á tilvísun til samræmis við breytinguna í c-lið.

Um 3. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að 13. gr. d falli brott til samræmis við þær breytingar sem felast í 1., 2. og 14. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að ekki verði lengur gert að skilyrði fyrir endurfjárfestingu að fjárfest hafi verið fyrir 28. nóvember 2008 í þeim fjármálagerningum sem nefndir eru í ákvæðinu. Breytingin er gerð til samræmis við heimildir aðila skv. 6. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarpsins. Fjármagnshreyfingum á milli landa vegna endurfjárfestingar á grundvelli ákvæðisins er ekki ætlað að koma til frádráttar framangreindu fjárhæðarmarki skv. 6. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að 13. gr. f falli brott til samræmis við þær breytingar sem felast í 1. og 2. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Í greininni eru lagðar til nokkrar breytingar á 13. gr. j laganna.
    Í a-lið er lögð til leiðrétting á tilvísun til samræmis við breytingu í b-lið.
    Í b-lið er lagt til að felld verði brott 3. mgr. 13. gr. j laganna sem felur í sér lýsingu á því hvernig reikna skuli út vexti skuldabréfa skv. 1. mgr. 13. gr. j laganna. Ákvæðið er óþarfi þar sem búið er að afmarka aflandskrónueignir með lögum nr. 37/2016, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.
    Í c-lið er lagt til að takmörkun á kaupum á erlendum gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi til greiðslu afborgana og verðbóta af höfuðstól skuldabréfa verði felld brott. Ákvæðið er óþarfi þar sem búið er að afmarka aflandskrónueignir með lögum nr. 37/2016.
    Í d-lið er lögð til leiðrétting á tilvísun til samræmis við breytingu í b-lið.

Um 7. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að 13. gr. k falli brott til samræmis við þær breytingar sem felast í 1. og 2. gr. frumvarps þessa.

Um 8. gr.

    Í 8. gr. frumvarpsins eru lagðar til nokkrar breytingar á 2. mgr. 13. gr. l sem fela í sér auknar undanþágur frá skilaskyldu á erlendum gjaldeyri.
    Í 1. tölul. er lagt til að ekki verði lengur gerð krafa um að búseta innlends aðila erlendis sé vegna starfs eða náms svo að hann sé undanþeginn skilaskyldu.
    Í 2. og 3. tölul. eru lagðar til undanþágur frá 3. mgr. 13. gr. g og 1. mgr. 13. gr. l sem fela í sér að undanþegnir skilaskyldu verði fjármunir vegna lántöku hjá erlendum aðila sem nýttir eru til kaupa á fasteign eða farartæki erlendis eða til fjárfestinga skv. 6.–7. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarps þessa.
    Í 4. tölul. kemur fram að á meðan frestur skv. 1. mgr. 13. gr. e til að endurfjárfesta er að líða eru fjármunirnir ekki skilaskyldir.
    Í 5., 6. og 7. tölul. eru lagðar til undanþágur frá 1. mgr. 13. gr. l í kjölfar þess að 13. gr. f er felld brott með frumvarpi þessu og felld undir 2. mgr. 13. gr. b, sbr. 1. og 5. gr. frumvarpsins. Undanþágurnar er nú að finna í 3. og 4. mgr. 13. gr. f og ekki eru gerðar efnislegar breytingar á þeim að öðru leyti en því að endurfjárfestingarheimild vegna farartækja er rýmkuð, sbr. 7. tölul., og tekur nú einnig til annarra farartækja en vélknúinna ökutækja sem teljast til viðskiptajafnaðar.

Um 9. gr.

    Í 9. gr. frumvarpsins eru lagðar til nokkrar breytingar á 13. gr. m.
    Í a-lið er lagt til að frestur til að tilkynna um nýfjárfestingu verði lengdur úr tveimur vikum í þrjár, m.a. til samræmis við aðra fresti samkvæmt lögunum og til að veita þeim sem nýta heimildina frekara svigrúm.
    Í b-lið er lagt til að við greinina bætist ný málsgrein þess efnis að söluandvirði og aðrar greiðslur vegna fjárfestinga skv. 6.–7. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarpsins (sem verða 6.–7. tölul. 2. mgr. 13. gr. b) teljist ekki nýtt innstreymi erlends gjaldeyris í skilningi 2. mgr. 13. gr. m. Breytingin felur í sér að aðilar sem nýta sér heimildirnar geta ekki nýtt söluandvirði eða aðrar greiðslur vegna þeirra til innlendrar nýfjárfestingar á grundvelli 13. gr. m. Eftir sem áður er þeim aðilum sem selja fjárfestingarnar heimilt að flytja inn söluandvirðið og aðrar greiðslur vegna þeirra, sbr. 8. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarps þessa, og eru innlendir aðilar skyldugir til þess að skila söluandvirðinu nýti þeir það ekki til endurfjárfestingar í samræmi við 13. gr. e, sbr. 13. gr. l laganna.

Um 10. gr.

    Í 10. gr. frumvarpsins eru lagðar til nokkrar breytingar á 13. gr. n.
    Í a- og c-lið eru lagðar til breytingar á orðalagi til samræmis við aðrar breytingar í frumvarpinu, en ekki er um efnislegar breytingar að ræða. Í breytingunum felst að heimildir aðila sem eru taldir upp í 1.–2. tölul. 3. mgr. og 6. mgr. 13. gr. n skerðast ekki vegna frumvarps þessa. Þannig er verið að tryggja að þeir aðilar sem höfðu undanþágur frá núgildandi ákvæðum laganna haldi þeim heimildum, án þess þó að þeim séu veittar auknar heimildir umfram aðra til kaupa á erlendum gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi á grundvelli breyttrar 2. mgr. 13. gr. c.
    Í b- og e-lið er lagt til að 4.–5. og 8.–9. mgr. falli brott þar sem þær voru settar í tengslum við uppgjör fallinna fjármálafyrirtækja og eiga ekki lengur við.
    Í d-lið er lögð til breyting til samræmis við aðrar breytingar í frumvarpinu.
    Í f-lið er lagt til að aðilar geti nýtt heimildir sínar skv. 6. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarpsins, sbr. 2. gr. frumvarpsins, til fjárfestinga í verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóðum. Ákvæðið gerir aðilum kleift að fjárfesta í innlendum sjóðum sem fjárfesta í erlendum verðbréfum í stað þess að fjárfesta beint í hinum erlendu verðbréfum, m.a. til bættrar eignadreifingar og aukins hagræðis. Fjárfesting aðila í erlendum verðbréfum á grundvelli ákvæðisins kemur til frádráttar fjárhæðarmarki skv. 6. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarpsins en er ekki til viðbótar við þá heimild. Gerð er krafa um að rekstraraðili viðkomandi sjóðs tilkynni Seðlabanka Íslands um fjárfestingar á grundvelli ákvæðisins. Með rekstraraðila er bæði átt við rekstrarfélög og önnur félög sem geta sinnt rekstri sjóða á grundvelli laga um verðbréfa-. fjárfestingar- og fagfjárfestasjóði. Í ljósi þess að rekstrarfyrirkomulag sjóða, fjárfestingarstefna þeirra og uppgjör viðskipta er fjölbreytt er lagt til að Seðlabankanum sé heimilt að setja reglur um nánari framkvæmd ákvæðisins, t.d. að hve miklu leyti fjárfesting í sjóði kemur til frádráttar frá fjárhæðarmarki 6. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarpsins ef sjóður fjárfestir bæði í innlendum og erlendum verðbréfum.

Um 11. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til breyting á 4. mgr. 13. gr. o sem felur í sér að í stað þess að Seðlabanki Íslands geti sett nánari reglur um framkvæmd ákvæða 13. gr. e – 13. gr. n verði honum heimilt að setja reglur um undanþágur frá takmörkunum þeirra greina. Seðlabankinn geti því ákveðið í reglum að veita aðilum rýmri heimildir til gjaldeyrisviðskipta og fjármagnshreyfinga en fyrrgreind ákvæði gera ráð fyrir, en aldrei þrengri.

Um 12. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á ákvæði 14. gr. laganna til að tryggja að Seðlabankinn hafi aðgang að áreiðanlegum gögnum í því skyni að standa vörð um fjármálastöðugleika, greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins. Nánari rökstuðning fyrir þörfinni á auknum heimildum til upplýsingaöflunar er að finna í kafla 2.4. í almennum athugasemdum frumvarpsins.
    Í a-lið er lögð til rýmkun á núgildandi heimildum Seðlabankans til upplýsingaöflunar svo að þær taki einnig til fjármagnshreyfinga á milli landa, en ekki eingöngu gjaldeyrisviðskipta. Á grundvelli ákvæðisins er skylt að láta Seðlabankanum í té upplýsingar og gögn svo að hann geti sinnt nauðsynlegu eftirliti á grundvelli laganna og lagt mat á horfur þjóðarbúsins í heild svo að hægt sé að hafa yfirsýn yfir fjármála- og efnahagslegan stöðugleika.
    Breytingum í b-lið er ætlað að tryggja auknar heimildir Seðlabankans til upplýsingaöflunar svo að bankinn geti sinnt því lögbundna hlutverki að stuðla að verðlags- og fjármálastöðugleika.
    Í c-lið er lagt til að þagnarskylduákvæði takmarki ekki skyldu aðila til að veita Seðlabankanum upplýsingar. Ákvæðið er í samræmi við önnur ákvæði laganna um upplýsingaskyldu aðila.
    Í d-lið er lagt til að skylt verði að tilkynna Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar milli landa. Ákvæðið gerir ráð fyrir að Seðlabanki Íslands setji reglur um tilkynningu fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipta og um undanþágur frá tilkynningarskyldu í tilfelli viðskipta sem ekki er talin sérstök þörf á að séu tilkynnt. Tilkynningarskylda samkvæmt ákvæðinu hvílir á þeim aðilum sem standa að tilkynningarskyldum gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum eða framkvæma þau eða hafa um þau milligöngu. Í reglunum er hægt að kveða á um með hvaða hætti beri að tilkynna viðskipti samkvæmt ákvæðinu, form þeirra o.þ.h.

Um 13. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til tæknileg breyting til samræmis við aðrar breytingar í frumvarpinu.

Um 14. gr.

    Hér er lagt til að tvö ný ákvæði til bráðabirgða bætist við lögin.
    Í a-lið er lagt til að þrátt fyrir 1. málsl. 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. b skuli fjármagnshreyfingar hvers aðila samkvæmt ákvæðinu aðeins heimilar að samanlögðu jafnvirði 30.000.000 kr. fram til 1. janúar 2017. Jafnframt að lögð verði sú skylda á Seðlabanka Íslands að endurskoða fjárhæðarmörk 1. málsl. 6. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarpsins fyrir 1. júlí 2017 í samræmi við reglusetningarheimildir Seðlabankans samkvæmt lögunum.
    Þá er lagt til að fram til áramóta verði vörslur verðbréfa hjá innlendum vörsluaðila í þeim tilgangi að gera eftirlit skilvirkara og auðvelda heildarsýn yfir fjárfestingar á grundvelli ákvæðisins. Jafnframt er lagt til að fram til áramóta verði fjármagnshreyfingar á milli landa í erlendum gjaldeyri, sem fela í sér inn- og útflutning verðbréfa eða innlegg á og úttekt af reikningum í innlánsstofnunum, enn óheimilar. Þá er lagt til að úttektir á erlendum gjaldeyri í reiðufé verði takmarkaðar við heimildir ákvæðis til bráðabirgða V fram til áramóta. Þannig takmarkast heimild 6. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarpsins við langtímahreyfingar fjármagns og skammtímahreyfingar fjármagns skv. 1. og 2. tölul. eins og þær eru skilgreindar í 1. gr. laganna en tekur ekki til annarra skammtímahreyfinga fjármagns, til að mynda flutnings á innstæðum á bankareikningum. Að öðru leyti vísast til skýringa við 6. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarpsins.
    Í b-lið er lagt til að fram til áramóta verði fjárhæðarheimildir einstaklinga til að kaupa erlendan gjaldeyri í reiðufé rýmkaðar verulega frá því sem nú er skv. 13. gr. d.
    Lagt er til að ekki verði gerður greinarmunur á heimildum innlendra og erlendra aðila til að kaupa erlendan gjaldeyri í reiðufé hjá fjármálafyrirtæki hér á landi.
    Lagt er til að heimild til kaupa á erlendum gjaldeyri eða úttektar á reiðufé hækki úr 350.000 kr. á almanaksmánuði á hvern einstakling í 700.000 kr. fyrir hverja ferð. Ef sérstaklega er sýnt fram á aukna þörf fyrir reiðufé á ferðalagi erlendis hefur einstaklingur heimild til þess að kaupa erlendan gjaldeyri eða taka hann út í reiðufé upp að því marki sem að hann getur sýnt fram á nauðsyn fjárhæðar og áskilnað um greiðslu í reiðufé.
    Lagt er til að áfram verði gert að skilyrði að einstaklingur sem er innlendur aðili kaupi eða taki út erlendan gjaldeyri í reiðufé hjá því fjármálafyrirtæki þar sem hann er með viðskipti sín. Þetta skilyrði er nú að finna í 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. d laganna.
    Einnig er lagt til að fjárhæðarmark sem nú er tilgreint í 6. mgr. 13. gr. d laganna hækki úr 350.000 kr. á mánuði í 700.000 kr. til samræmis við aðrar breytingar.
    Að lokum er lagt til að brot gegn ákvæðunum varði við refsiákvæði laganna.

Um 15. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi.

Um 16. gr.

    Í 1. tölul. er lögð til breyting á lögum um Seðlabanka Íslands til að tryggja bankanum viðeigandi úrræði til að afla upplýsinga og gagna til að rækja hlutverk sitt og til að stuðla að verðlags- og fjármálastöðugleika. Nánari rökstuðning fyrir þörfinni á auknum heimildum til upplýsingaöflunar er að finna í kafla 2.4. í almennum athugasemdum frumvarpsins.
    Í a-lið 2. tölul. eru lagðar til breytingar sem fela í sér rýmkun á undanþágum frá því hvað telst til aflandskrónueigna samkvæmt lögum nr. 37/2016, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Ekki stóð til að láta greiðslustofnanir skv. 3. tölul. og staðfestar nýfjárfestingar skv. 4. tölul. 3. gr. laganna falla undir gildissvið laganna.
    Í b-lið 2. tölul. er lögð til breyting sem felur í sér að markaðsvirði annarra aflandskrónueigna en skv. 1. tölul. 3. mgr. 9. gr. skuli aldrei vera lægra virði en nafnvirði eða bókfært virði undirliggjandi eigna félagsins sem telst til aflandskrónueignar.
Neðanmálsgrein: 1
1     Sjá International Monetary Fund, Liberalizing Capital Flows and Managing Outflows: IMF Policy Paper, 13. mars 2012, bls. 16 og 19.
Neðanmálsgrein: 2
2     Nánari umfjöllun um neikvæð áhrif fjármagnshafta er að finna í almennum athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt (786. mál á 144. löggjafarþingi), og í almennum athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 37/2016, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum (777. mál á 145. löggjafarþingi).
Neðanmálsgrein: 3
3     Nánari umfjöllun um þessar aðgerðir og fyrri áætlanir stjórnvalda um losun fjármagnshafta er að finna í almennum athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt (786. mál á 144. löggjafarþingi), og í almennum athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 37/2016, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum (777. mál á 145. löggjafarþingi).
Neðanmálsgrein: 4
4     Með lögum nr. 42/2016, um breytingu á lögum um gjaldeyrismál o.fl., var Seðlabankanum veitt heimild til að setja reglur sem ætlað er að tempra nýtt skammtímainnflæði erlends gjaldeyris, sjá reglur nr. 490/2016.
Neðanmálsgrein: 5
5     Sjá International Monetary Fund, Liberalizing Capital Flows and Managing Outflows: IMF Policy Paper, /13. mars 2012, bls. 16 og 19.
Neðanmálsgrein: 6
6     Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu o.fl. (384. mál 145. löggjafarþings) og frumvarp til laga um fasteignalán til neytenda (383. mál 145. löggjafarþings).
Neðanmálsgrein: 7
7     Miðað er við fjölda undanþágubeiðna fyrstu sjö mánuði ársins 2016.
Neðanmálsgrein: 8
8     Til að mynda notast Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunin (OECD) við þetta hlutfall, sjá Benchmark Definition of Foreign Investment, 4th ed., OECD.
Neðanmálsgrein: 9
9     Arnór Sighvatsson, 1996, Fjármálatíðindi (2), bls. 130.
Neðanmálsgrein: 10
10     Sjá t.d. Balance of Payments and International Investment Position Manual, 6th ed., IMF og Benchmark Definition of Foreign Investment, 4th ed., OECD.