Ferill 783. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1593  —  783. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Högna S. Kristjánsson, Unni Orradóttur Ramette og Finn Þór Birgisson frá utanríkisráðuneyti, Ólaf Friðriksson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Sigurgeir Sindra Sigurgeirsson, Sigurð Eyþórsson og Ernu Bjarnadóttir frá Bændasamtökum Íslands og fyrir hönd samninganefndar Bændasamtaka Íslands, Björgvin Jón Bjarnason frá Svínaræktarfélagi Íslands, Ingimund Bergmann og Jón Magnús Jónsson frá Félagi kjúklingabænda, Arnar Árnason og Margréti Gísladóttur frá Landssambandi kúabænda, Svavar Halldórsson og Þorgeir Inga Pétursson frá Landssamtökum sauðfjárbænda, Pálma Vilhjálmsson frá Mjólkursamsölunni, Bjarna Ragnar Brynjólfsson frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Gunnar Þór Gíslason frá Samtökum mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja, Róbert Farestveit frá Alþýðusambandi Íslands, Jóhannes Gunnarsson og Guðrúnu Ósk Óskarsdóttur frá Neytendasamtökunum, Ágúst Andrésson frá Landssamtökum sláturleyfishafa, Gunnlaug Eiðsson frá Kjarnafæði hf., Þórólf Guðnason sóttvarnalækni, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Almar Guðmundsson og Björgu Ástu Þórðardóttur frá Samtökum iðnaðarins, Andrés Magnússon frá Samtökum verslunar og þjónustu, Ólaf Stephensen og Pál Rúnar M. Kristjánsson frá Félagi atvinnurekenda, Jón Gíslason og Þorvald H. Þorvaldsson frá Matvælastofnun, Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræðum, Pál Gunnar Pálsson og Birgi Óla Einarsson frá Samkeppniseftirlitinu, Auði H. Ingólfsdóttur, lektor við Háskólann á Bifröst, og Sigurð Eyberg Jóhannsson, umhverfis- og auðlindafræðing.
    Þá bárust umsagnir frá meiri hluta atvinnuveganefndar, 1. minni hluta atvinnuveganefndar, 2. minni hluta atvinnuveganefndar, Alþýðusambandi Íslands, Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekanda, Félagi kjúklingabænda og Svínaræktarfélagi Íslands, Kjarnafæði hf., Landssambandi kúabænda, Neytendasamtökunum, Ólafi Hauki Jónssyni, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði sf., Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja, Samtökum verslunar og þjónustu og Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni.
    Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Evrópusambandsins (ESB) um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur, í formi bréfaskipta og sem breytingu á bókun 3 við EES-samninginn, sem áritaður var 17. september 2015. Samningurinn tekur til viðskipta með óunnar landbúnaðarvörur og viðskipta með unnar landbúnaðarvörur og felur í sér umtalsverða aukningu á tollfrjálsum innflutningskvótum auk þess tollar eru felldir niður á fjölda tollskrárnúmera. Málið er að nokkru tengt frumvarpi til breytinga á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum, 680. máli, sem nú er til umfjöllunar í atvinnuveganefnd þó svo að það frumvarp taki til talsvert fleiri þátta en lögfestingar samningsins.

Niðurfelling tolla.
    Með samningnum er m.a. samið um gagnkvæma niðurfellingu tolla í viðskiptum milli Íslands og ESB á yfir 340 tollskrárnúmerum. Ekki báru allar vörur á þessum númerum tolla á Íslandi og því er um að ræða raunverulega niðurfellingu tolla á yfir 100 tollskrárnúmerum sem áður báru tolla. Að auki er samið um lækkun tolla á yfir 20 tollskrárnúmerum.

Aukinn kvóti á innflutning á landbúnaðavörum.
    Samningurinn felur einnig í sér aukinn kvóta fyrir lambakjöt, pylsur, skyr, smjör og nautakjöt til ESB-landa og nýjan kvóta fyrir svínakjöt, alifuglakjöt, unnið lambakjöt og ost. Kvótarnir verða innleiddir í skrefum á fjórum árum. Í flestum flokkum er um að ræða fulla gagnkvæmni að því leyti að ívilnanir sem eru veittar eru sambærilegar milli samningsaðila. Það á þó ekki við um lambakjöt, skyr og smjör þar sem enginn kvóti er veittur fyrir flutningi frá Íslandi til ESB-landa á þessum vörum. Þá er kvóti fyrir innflutning á alifuglakjöti, svínakjöti, pylsum og osti til Íslands hærri en fyrir flutning frá Íslandi til ESB-landa.

Innflutningur á landbúnaðarvörum.
    Þó svo að um sé að ræða aukningu á innflutningskvóta kom fram á fundi nefndarinnar að í mörgum tilfellum væri ekki um að ræða raunaukningu frá núverandi innflutningi, sbr. töflu.
    
Kvóti nú Árlegur innflutningur 2014 Árlegur innflutningur 2015 Heildarkvóti eftir fjögurra ára innleiðingartímabil Mismunur á heildarkvóta og innflutningi árið 2014 Mismunur á heildarkvóta og innflutningi árið 2015
Nautakjöt 100 1.037 1.045 696 -341 -349
Svínakjöt 200 556 598 700 144 102
Alifuglar, þar með talið lífrænt alifuglakjöt 200 1.020 1.018 1.056 36 38
Ostur 100 251 266 610 359 344

    Haldist eftirspurn svipuð þarf til að mynda að flytja inn nautakjöt umfram þann kvóta sem samið er um. Innflutningur á alifuglum er nú þegar svipaður því heildarmagni sem samið er um. Af töflunni má sjá að ostur sker sig að nokkru úr þar sem samningurinn gerir ráð fyrir talsvert hærri kvóta en sem nemur árlegum innflutningi síðustu ár. Nefndin fékk upplýsingar um að það magn er að hluta vegna stóraukins útflutningskvóta fyrir skyr. Þá eru 230 tonn af ostakvótanum sérmerkt upprunamerktum osti enda var lögð áhersla á það í samningaviðræðunum að auka þá fremur kvóta í þeim flokkum sem hefur verið skortur á hér á landi til að milda áhrif á íslenskan landbúnað og auka valmöguleika neytenda. Í samræmi við það eru 200 tonn af alifuglakvóta sérmerkt lífrænum alifugli og útifuglum.

Gagnkvæmni.
    Nokkur gagnrýni kom fram á að samningurinn gerði ráð fyrir gagnkvæmni að því leyti að samið væri um sama magn innflutnings frá ESB-löndum til Íslands og frá Íslandi til ESB- landa. Bent var á að innflutningur frá Íslandi hefði ekki áhrif á stóran markað ESB þar sem hlutfall slíks innflutnings af heildarneyslu matvæla væri svo lágt að það mældist vart. Að sama skapi gæti innflutningur frá ESB-löndum haft mikil áhrif á markaðinn á Íslandi þar sem sá kvóti sem samið er um væri nálægt 20% af heildarneyslu.
    Fyrir nefndinni kom fram að ESB hefði ekki verið tilbúið til að líta til mismunandi stærða markaðar enda fælu samningar sem þessir almennt í sér gagnkvæmni. Eins og þegar hefur komið fram hefur innflutningur í mörgum tegundum verið svipaður því sem nú er samið um og bent var á að líta bæri til þess þegar rætt væri um hugsanleg áhrif af samningnum á íslenskan markað.
    Þá kom fram fyrir nefndinni að umsamdir innflutningskvótar mundu ekki breytast næstu árin en heildarneysla matvæla hefur aukist síðustu ár og mun væntanlega gera áfram. Haldist sú þróun áfram þarf væntanlega að mæta þeirri eftirspurn með aukinni framleiðslu innan lands eða auknum innflutningi umfram umsamda kvóta.

Skekkt samkeppnisstaða.
    Fyrir nefndinni var lýst áhyggjum af því að með samningnum væri innlendum framleiðendum gert að keppa á markaði þar sem samkeppnisstaða þeirra væri mjög skekkt. Þannig fengju framleiðendur landbúnaðarvara í ESB mun hærri ríkisstyrki en þekktust hér á landi. Þeir gætu í krafti stærðar sinnar dregið úr framleiðslukostnaði umfram það sem hægt væri að gera hér á landi og þær kröfur sem þeim væri gert að uppfylla væru ekki eins strangar og hér á landi og því ekki jafnkostnaðarsamar og fyrir íslenska bændur.
    Athugasemdir um skekkta samkeppnisstöðu komu ekki einungis frá landbúnaðinum heldur einnig frá innlendum framleiðendum sem bentu á að þótt tollar á fullunnar vörur væru felldir niður væru enn tollar á það hráefni sem þeir notuðu til framleiðslunnar. Með þessu væri staða innlendra framleiðenda gerð mun lakari en erlendra keppninauta þeirra.
    Þá komu fram sjónarmið þess efnis að vegna smæðar íslensks markaðar gætu erlendir framleiðendur frá ESB stundað undirboð á markaði hér og sett vörur á markað á verði sem væri langt undir framleiðsluverði til að tryggja sér markaðshlutdeild. Þetta gæti skaðað innlendan landbúnað og skekkt verulega samkeppnisstöðu hans enda hafi hann ekki svigrúm til að svara slíkum undirboðum.
    Einnig var bent á að með niðurfellingu tolla á fullunnum vörum væri samkeppnisstaða innlendra framleiðenda skekkt þar sem áfram væru tollar á því hráefni sem þeir notuðu í framleiðslu sína.
    Meiri hlutinn telur að tryggja þurfi að viðskiptasamningar verði ekki til þess að skekkja samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar. Mikilvægt er þó einnig að heilbrigð samkeppni sé til staðar. Meiri hlutinn áréttar að bæði Ísland og Evrópusambandið eru aðilar að samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um undirboðstolla og hafa skuldbundið sig samkvæmt honum. Stjórnvöld geta því brugðist við undirboðum komi til þeirra.

Hagur neytenda.
    Mikilvægt er að hagsmunir neytenda séu hafðir að leiðarljósi við gerð og afgreiðslu tollasamninga. Þeir hagsmunir felast augljóslega í aukinni samkeppni sem skilar sér í fjölbreyttara vöruúrvali og lægra vöruverði. Brýnt er þó einnig að líta til annarra hagsmuna neytenda, t.d. að neytendur viti hver uppruni vöru er og geti tekið upplýstar ákvarðanir við vörukaup, að vara sé örugg, gæði hennar séu tryggð og að horft sé til lýðheilsusjónarmiða.
    Þá eru almannahagsmunir fólgnir í því að vistspori og kolefnisfótspori sé haldið í lágmarki. Á fundi nefndarinnar um það efni kom fram að innlend framleiðsla skilar sér oft í minna vistspori af landbúnaðarvörum enda bætist þá ekki ofan á mengun af flutningi vara milli landa. Það er þó ekki algilt enda myndast vistspor af flutningi fóðurs, áburðar, ofbeit o.fl.
    Fyrir nefndinni kom fram að matvælaöryggi á Íslandi væri með því besta í heiminum en víða í Evrópu væri pottur brotinn í þessum efnum. Meðal þess sem kom fram var að víða í ESB væru sýkingar algengari, sýklalyfjanotkun í landbúnaði mun algengari, tíðni baktería sem væru ónæmar fyrir sýklalyfjum hærri og eftirlit ekki jafnvirkt og hér á landi.
    Meiri hlutinn áréttar að reglur um matvælaöryggi eru samræmdar á Evrópska efnahagssvæðinu. Þó eru strangari reglur hér er varða kamfílóbakteríur og salmonellu. Í Evrópu er almennt ekki vöktun fyrir kamfílóbakteríunni og þar gilda einungis reglur um tvær tegundir salmonellu. Hér á landi gilda reglur um allar tegundir salmonellu og ef hún greinist t.d. í alifuglum er öllum fuglum úr eldishópi fargað.
    Samkvæmt samræmdum reglum er óheimilt að nota sýklalyf í fóður dýra og bannað að nota sýklalyf til vaxtarauka eða til að fyrirbyggja sjúkdóma. Þrátt fyrir þetta fékk nefndin upplýsingar um að sýklalyfjaónæmi hefði greinst talsvert oftar víða í Evrópu en hér á landi og að ástandið væri talsvert verra í sunnanverðri Evrópu. Einnig kom fram að innflutningur á alifuglum og svínakjöti hingað til lands væri að mestu frá öðrum norrænum löndum en staðan hvað varðar sýklalyfjaónæmi þar væri svipuð og hér á landi.
    Sýklalyfjaónæmi er þegar bakteríur hafa orðið ónæmar fyrir sýklalyfjum, m.a. vegna óhóflegrar notkunar sýklalyfja. Hafi sýklalyf verið notuð í fóður í fyrirbyggjandi tilgangi eða sem vaxtaraukandi aukast líkur á sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum. Sýklalyfjaónæmi er sívaxandi vandamál á alþjóðavísu og hefur verið sagt að það sé ein helsta heilbrigðisógn í heiminum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur tekið málið upp, Sameinuðu þjóðirnar munu ræða það í haust, það er til skoðunar hjá ESB og á Íslandi er verið að skipa starfshóp með fulltrúum sóttvarnalæknis, Matvælastofnunar, velferðarráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis til að leita leiða til að sporna við sýklalyfjaónæmi á Íslandi.
    Mikilvægt er að leita leiða til að bregðast við sýklalyfjaónæmi. Staðan á Íslandi er góð og mikilvægt að tryggja neytendum heilsusamar vörur. Ein leið að því markmiði er að tryggja að sambærilegar kröfur séu gerðar til innfluttrar vöru og innlendrar. Önnur er að uppfræða almenning og tryggja að upprunamerkingar á vörum séu skýrar og læsilegar. Einnig er afar brýnt að eftirlit með matvælum sé virkt og skilvirkt og að því sé ekki eingöngu beint að innlendum landbúnaði heldur einnig að innflutningi vara og að landbúnaðarvörum á markaði.

Tillögur starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra.
    Í apríl sl. skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp til að kanna áhrif tollasamnings við ESB og nýrra aðbúnaðarreglugerða frá júní 2016. Starfshópnum var ætlað að meta áhrif samningsins á einstakar búgreinar og þá einkum svína- og alifuglarækt sem og meta kostnað og áhrif nýrra reglugerða um velferð búfjár á þær búgreinar. Hópurinn lagði fram tillögur í átta liðum þar sem tekið er á mörgum af þeim álitaefnum sem gerð er grein fyrir í áliti þessu og fram komu fyrir nefndinni, m.a. um tollkvóta, jöfnun samkeppnisstöðu innlendra aðila og reglur um heilbrigðiskröfur til landbúnaðarvara. Í áliti meiri hluta atvinnuveganefndar er tekið undir þessar tillögur og því beint til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að fara gaumgæfilega yfir þær.

Samantekt.
    Með samningnum er samið um niðurfellingu tolla og aukinn kvóta á innflutningi og útflutningi á landbúnaðarvörum. Samningurinn felur í sér hagsbætur fyrir neytendur með auknu vöruúrvali og lægra verði auk þess sem hann felur í sér tækifæri fyrir íslenska framleiðendur. Fyrir nefndinni komu fram mismunandi sjónarmið um samninginn og hugsanleg áhrif hans. Meiri hlutinn áréttar að innflutningskvótar sem samið er um eru mjög svipaðir árlegum innflutningi undanfarin tvö ár. Nauðsynlegt er þó að tryggja að stoðum sé ekki kippt undan matvælaframleiðslu í landinu. Matvælaöryggi á Íslandi hefur verið mikið, sýkingar eru fátíðar og gripið er fljótt og vel inn í komi þær upp. Mikilvægt er að tryggja fæðuöryggi Íslendinga og horfa til allra þátta og áhrifa af samningnum. Verði farið í aðgerðir í tengslum við fyrirliggjandi samning áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að þær verði ekki til að hamla samkeppni heldur verði markaðshvetjandi og til þess fallnar að leiðrétta skekkta samkeppnisstöðu og skapa jafnstöðu íslensks landbúnaðar og íslenskra framleiðenda við erlenda keppinauta.
    Fyrir nefndinni kom fram nokkur gagnrýni á að ekki hefði verið nægilegt samráð haft við hagsmunaaðila við samningsgerðina og telur meiri hlutinn brýnt að hugað verði að slíku samráði við gerð samninga sem þessara. Þá beinir meiri hlutinn því til utanríkisráðuneytis að huga að því hvort færa eigi forræði á framkvæmd tollasamningsins til fjármála- og efnahagsráðuneytis eins og aðra framkvæmd á tollalögum.
    Meiri hlutinn leggur til að málið verði samþykkt.
    Frosti Sigurjónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. ágúst 2016.

Hanna Birna Kristjánsdóttir,
form., frsm.
Karl Garðarsson. Vilhjálmur Bjarnason.
Elín Hirst. Óttarr Proppé. Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Össur Skarphéðinsson.


Fylgiskjal I.
    

Umsögn

um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Utanríkismálanefnd hefur óskað eftir áliti frá atvinnuveganefnd um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur. Í tillögunni er leitað staðfestingar Alþingis á samningi milli Íslands og Evrópusambandsins um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur.
    Nefndin hefur ekki fjallað með formlegum hætti um tillöguna en á yfirstandandi löggjafarþingi hefur nefndin fjallað um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum (680. mál). Frumvarpið sem nefndin hefur enn til meðferðar var lagt fram til að lögfesta viðeigandi lagabreytingar í kjölfar þess að stjórnvöld rituðu undir nýja búvörusamninga við Bændasamtök Íslands.
    Meiri hlutinn telur samning Íslands og Evrópusambandsins óhjákvæmilega tengjast umfjöllun um frumvarpið og starfsumhverfi landbúnaðarins og hefur í nokkrum umsögnum til nefndarinnar um frumvarpið einnig verið fjallað um samninginn og þær breytingar sem í honum felast. Meiri hlutinn telur samninginn leiða til mikilla breytinga á starfsumhverfi íslensks landbúnaðar og telur brýnt að ef tillagan verður samþykkt verði frumvarpið að verða að lögum og þar með búvörusamningar til tíu ára sem þó fela í sér endurskoðun á gildistímanum.
    Meiri hlutinn vísar til niðurstaðna úr skýrslu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um tollasamning og nýjar aðbúnaðarreglugerðir frá júní 2016. Starfshópnum var ætlað að meta áhrif samninganna á einstaka búgreinar og þá einkum svína- og alifuglarækt sem og meta kostnað og áhrif nýrra reglugerða um velferð búfjár á þær búgreinar.
    Meiri hlutinn tekur undir sameiginlegar tillögur starfshópsins og beinir því til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að fara gaumgæfilega yfir þær og leita leiða til að koma þeim í framkvæmd. Tillögurnar eru eftirfarandi: Að skorti á skrokkhlutum verði beint inn í tollkvóta með því að afmarka hluta ESB-tollkvótans fyrir þá vöruflokka sem er skortur á, að miðað verði við ígildi kjöts með beini þegar magn tollkvóta er reiknað út, að tollkvótum verði oftar úthlutað á ári hverju, að stjórnvöld leiti allra leiða til að setja frekari reglur um fyrirkomulag innflutnings með tilliti til gæðakrafna einkum hvað varðar lyfjanotkun og heilbrigðiskröfur afurða, að stjórnvöld skipi starfshóp sem greini stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart mögulegum breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi, að heimilað verði að nýta fjármuni sem eru ætlaðir til fjárfestinga svínabænda til úreldingar, að leitað verði leiða til að ráðstafa andvirði tekna af útboði tollkvóta fyrir hvítt kjöt til fjárfestinga og stuðnings fyrir svína- og alifuglabændur til að uppfylla kröfur vegna nýrra aðbúnaðarreglugerða og að stofnaður verði nýr lánaflokkur hjá Byggðastofnun með lægri vexti en önnur lán fyrir svína- og alifuglabændur til að mæta nýjum aðbúnaðarreglugerðum.
    Meiri hlutinn ítrekar að brýnt er að verði tillagan samþykkt á yfirstandandi þingi skuli frumvarpið um breytingu á búvörulögum o.fl. einnig verða að lögum.
    Páll Jóhann Pálsson var fjarverandi við afgreiðslu álitsins.

Alþingi, 19. ágúst 2016.
Jón Gunnarsson, form.,
Haraldur Benediktsson,
Ásmundur Friðriksson,
Þorsteinn Sæmundsson,
Þórunn Egilsdóttir.



Fylgiskjal II.


Umsögn

um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur

Frá 1. minni hluta atvinnuveganefndar.


    Fyrsti minni hluti er sammála því að rétt sé að opinber stuðningur komi til landbúnaðarframleiðslu, en lykilatriði er að sá stuðningur raski ekki samkeppni meira en nauðsyn krefur og tryggi bændum og neytendum hámarksávinning. Samhliða umfangsmiklum opinberum stuðningi hefur Ísland undirgengist víðtæka samninga um afmarkaðan markaðsaðgang fyrir erlenda landbúnaðarframleiðslu sem eiga að veita innlendri framleiðslu aðhald jafnt í gæðum og verði. Útfærsla á útboðum tollkvóta undanfarna áratugi hefur hins vegar skipulega verið með þeim hætti að samkeppni hefur hvorki verið fullnægjandi í verði né gæðum og tollar frekar nýttir til að skapa viðskiptahindranir. Innlendir framleiðendur hafa getað boðið í tollkvóta og geta í reynd boðið eins hátt verð og þeim sýnist því að þeim mun hærra sem verðið er þeim mun minni verður samkeppni við hina innlendu framleiðslu. Því hærra sem verðið er, því erfiðara verður að kaupa gæðaframleiðslu og því leiðir útboðsfyrirkomulagið líka til þess að gæðasamkeppni verður ekki eins mikil og ella hefði verið. Hæstiréttur hefur kveðið upp dóma um ágalla núverandi kerfis. Það er því einboðið að breyta kerfinu og ákvæðum búvörulaga um útboð tollkvóta ef virða á milliríkjaskuldbindingar Íslands.
    Það er áhyggjuefni að þess sér ekki stað að meiri hlutinn hafi skilning á þessu. Hugmyndir af þeim toga sem fram koma í umsögn meiri hluta nefndarinnar og eru þess efnis að andvirði tollkvóta eigi að vera til tekjuöflunar fyrir innlenda framleiðslu eru í algerri mótsögn við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og alþjóðleg markmið tengd opnun markaða landbúnaðarvara. Þá sýna þær hve vegavillt ráðandi öfl eru orðin þegar kemur að því flókna neti einangrunarhyggju sem illu heilli hefur verið vafið um búvöruframleiðsluna og skaðar bæði bændur og neytendur.
    Fyrsti minni hluti telur því brýnt að leggja af útboð tollkvóta og telur rétt að þeim verði fremur úthlutað með hlutkesti eða öðrum leiðum sem ekki spenna upp verð innfluttrar framleiðslu. Ef einhverjum hluta tollkvótanna yrði áfram úthlutað með útboði er afar brýnt að innlendum framleiðendum verði meinað að bjóða í kvótana.

Alþingi, 19. ágúst 2016.
Árni Páll Árnason.



Fylgiskjal III.


Umsögn

um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

Frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar.


    Annar minni hluti tekur undir það sem segir í áliti meiri hluta atvinnuveganefndar um að mikilvægt sé að tillögum starfshóps um tollasamning og nýjar aðbúnaðarreglugerðir frá júní 2016 verði hrint í framkvæmd. Því miður ganga þessar tillögur að ýmsu leyti allt of skammt til að vega upp á móti þeim gjörbreyttu starfsskilyrðum sem vissar greinar landbúnaðarins, og að hluta til landbúnaðurinn í heild, munu standa frammi fyrir komi tollasamningurinn til framkvæmda. Þetta á við um stuðning við greinar á borð við alifugla- og svínarækt sem þurfa að takast á við stóraukna samkeppni við innflutta framleiðslu þann aðlögunartíma sem samningurinn gefur til að mæta fyrirhuguðum breytingum og allt of lítinn beinan stuðning til þessara greina og reyndar fleiri, svo sem nautakjötsframleiðslu, til að mæta útgjöldum vegna nýrra aðbúnaðarreglna.

Gagnrýnivert verklag við tollasamningsgerð.
    Óhjákvæmilegt er að gagnrýna hvernig að gerð þessa tollasamnings við Evrópusambandið var staðið. Lokið var við samninginn og hann undirritaður af Íslands hálfu án nokkurs samráðs og án nokkurrar aðkomu bænda. Ráðuneytin sem að samningnum stóðu virðast hafa haft takmarkaða þekkingu á því sem um var samið eins og glöggt kom í ljós í framhaldinu þegar farið var að spyrja út í einstök atriði og hvernig framkvæmdinni yrði háttað en þá kom í ljós að útfærsla ýmissa mikilvægra atriða var mjög á reiki. Það hvort mörg hundruð tonna tollkvótar eru reiknaðir út miðað við vöðva eða ígildi kjöts með beini, svo dæmi sé tekið, hefur mikil áhrif á útkomu samningsins.

Slakur undirbúningur að gildistöku tollasamnings ógnar hollustuháttum og dýravelferð.
    Undirbúningur þess að tryggja gæði, hollustu, og heilnæmi stóraukins magns innfluttra matvæla virðist vera lítill sem enginn og vekur það furðu. Um allan heim er nú aukin meðvitund um skaðsemi mikillar sýklalyfjanotkunar við matvælaframleiðslu enda er hættan á ónæmum bakteríum talin ein helsta ógnin við heilsu manna í framtíðinni. Á Íslandi er lyfjanotkun í lágmarki í landbúnaðarframleiðslu og einnig hefur náðst hér mikill árangur í baráttu við kampýlóbakter- og salmonellusýkingar sem eru víða til mikilla vandræða í öðrum löndum. Taka ber aðvaranir sóttvarnalæknis og annarra heilbrigðisyfirvalda í þessu sambandi mjög alvarlega enda mikið í húfi hvað snertir heilsufar neytenda. Kostnaður vegna búfjársjúkdóma sem ekki hefur gætt hér áður gæti einnig reynst gríðarlegur og áhrif mögulegra sjúkdóma á dýravelferð yrði mjög neikvæð.
    Eftirlit virðist einnig ófullnægjandi með því að framleiðsla þeirra vara sem hingað verða fluttar inn fari fram við sómasamlegar aðstæður hvað varðar dýravelferð. Strangar kröfur í þeim efnum væru þó í takt við það að nú er verið að innleiða hér á landi metnaðarfullar reglur á sviði dýravelferðar. Það er vissulega vel og eins og vera ber að Ísland skipi sér í fremstu röð hvað aðbúnað og velferð dýra snertir. Ekki verður horft framhjá því að því fylgir mikill kostnaður og það er í hæsta máta ósanngjarnt að ætla innlendri framleiðslu án nokkurs teljandi stuðnings að keppa við stóraukinn innflutning á sama tíma og framleiðslukostnaður eykst, jafnvel við vörur sem framleiddar eru við ósæmilegar aðstæður hvað dýravelferð og kjör og réttindi starfsmanna varðar og þættu ólíðandi hér á landi.

Óljóst er um áhrif samningsins á efnahag og umhverfi.
    Allri greiningarvinnu vegna áhrifa samningsins er áfátt og spurningum ósvarað um það hvernig samningurinn og það sem hann ber með sér samrýmist umhverfissjónarmiðum, hver áhrifin verða á innlenda framleiðslu og matvælavinnslu, hver afleidd áhrif verða á aðrar greinar landbúnaðarins en alifugla- og svínaræktina o.s.frv.
    Í anda niðurstöðu Parísarráðstefnunnar um aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum ber öllum ríkjum, og Íslandi þar með, að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka vistspor mannlegrar starfsemi. Stórauknir matvælaflutningar milli landa koma illa heim og saman við slíka viðleitni. Á hinn bóginn má nefna gildi þeirrar framleiðslu sem kemur frá innlendri garðyrkju og gróðurhúsum, heilnæmar gæðavörur sem fara beint á markað hér án flutninga milli landa með tilheyrandi losun og þar að auki er endurnýjanleg „græn“ orka nýtt við framleiðsluna.
    Vönduð greining á öllum framangreindum atriðum, og reyndar fleiru, svo sem líklegum byggðaáhrifum samningsins, hefði þurft að liggja fyrir áður en samningurinn var undirritaður, en lágmark er að sú greiningarvinna fari fram áður en Alþingi lýkur umfjöllun sinni.
    Niðurstaða 2. minni hluta nefndarinnar er því að leggja til að afgreiðslu samningsins verði frestað og tíminn nýttur næstu mánuði til að ljúka nauðsynlegri greiningarvinnu um áhrif samningsins, hrinda í framkvæmd fullnægjandi aðlögunar- og stuðningsaðgerðum í þágu þeirra greina sem verða fyrir mestum áhrifum eigi að samþykkja samninginn og undirbúa um leið framkvæmd hans þannig að hagsmuna innlendrar framleiðslu verði gætt, hollustu- og heilnæmissjónarmiða, dýraverndarsjónarmiða, vinnumarkaðssjónarmiða, neytendasjónarmiða o.s.frv.

Alþingi 19. ágúst 2016.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.