Ferill 865. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
Þingskjal 1637 — 865. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
(Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem undirritaður var af hálfu Íslands 30. mars 2007.
Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.
Með þingsályktun nr. 43/140, um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 (440. mál 140. löggjafarþings 2011–2012), ályktaði Alþingi að undirbúa skyldi fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og stefna bæri að því að ljúka þeirri vinnu á árinu 2013. Skipa skyldi samstarfsnefnd ráðuneyta um undirbúning fullgildingar samningsins og áttu ráðuneytin að yfirfara gildandi löggjöf á sínum málefnasviðum með tilliti til þeirra skuldbindinga sem samningurinn felur í sér.
Innan stjórnarráðsins var umsjón með verkefninu hjá innanríkisráðuneyti en einstakir verkþættir á ábyrgð annarra ráðuneyta. Komið var á fót samráðsvettvangi stjórnarráðsins með aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Leiddi greining á efni samningsins og lagaumhverfi í ljós að 17 ákvæði samningsins kölluðu á nánari skoðun eða lagabreytingar.
Undirbúningur fullgildingar hefur tekið lengri tíma en áætlað var vegna umfangs verkefnisins. Vinnan er nú hins vegar það langt komin innan ráðuneytanna að rétt þykir að leggja nú fram þingsályktunartillögu um fullgildingu samningsins. Felst jafnframt í henni yfirlýsing Alþingis um að þeim lagafrumvörpum sem enn er eftir að samþykkja verði veitt brautargengi svo að þau mikilvægu réttindi fatlaðs fólks sem samningurinn verndar nái fram að ganga.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti samninginn um réttindi fatlaðs fólks og valkvæða bókun hans 13. desember 2006. Hinn 30. mars 2007 var opnað fyrir undirskriftir og þann dag undirrituðu 81 aðildarríki samninginn, þar á meðal Ísland. Síðan þá hafa 166 aðildarríki fullgilt samninginn. Samningurinn viðurkennir mannréttindi fatlaðs fólks, sem eru þau sömu og annarra, en staðfestir jafnframt rétt fatlaðs fólks til að njóta þessara réttinda. Markmið samningsins, eins og fram kemur í 1. gr. hans, er að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi og að auka virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess.
Áætlað er að um 10% mannkyns teljist til fatlaðs fólks og því er um að ræða stærsta minnihlutahóp heims. Litið hefur verið á málefni fatlaðs fólks sem viðfangsefni velferðar- og heilbrigðiskerfa en ekki sem mannréttindi einstaklinga. Ástæða fyrir tilurð alþjóðlegs mannréttindasáttmála um réttindi fatlaðs fólks er sú staðreynd að þrátt fyrir að fatlað fólk eigi sömu mannréttindi og aðrir þá er því oft ekki gert kleift að nýta sér réttindi sín. Samningurinn er því til fyllingar öðrum mannréttindasamningum en felur ekki í sér ný réttindi til fatlaðs fólks. Öllu heldur útskýrir hann skyldur aðildarríkjanna til að virða og tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til að njóta mannréttinda sinna. Kjarni samningsins snýr að jafnrétti en jafnrétti er tryggt í 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.
Samningurinn skiptist í fimm hluta. Í fyrsta hluta koma fram, auk formálsorða, markmið samningsins og skilgreiningar. Í öðrum hluta (3.–9. gr.) er að finna grundvallarreglur samningsins. Í þriðja hluta (10.–30. gr.) er kveðið á um þau réttindi sem eiga að njóta verndar samkvæmt samningnum. Í fjórða hluta (31.–40. gr.) eru ákvæði um framkvæmd samningsins og eftirlit með honum og í fimmta hluta (41.–50. gr.) eru hefðbundnar lokagreinar.
Almennar meginreglur.
Samningurinn kveður á um almennar meginreglur (3. gr.) sem veita aðildarríkjum og öðrum aðilum leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd samningsins. Meginreglurnar eru:
* Virðing fyrir eðlislægri mannlegri reisn, sjálfræði einstaklinga, þ.m.t. frelsið til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði einstaklinga.
* Bann við mismunun.
* Full og virk þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar.
* Virðing fyrir fjölbreytileika og viðurkenning á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannkyni.
* Jöfn tækifæri.
* Aðgengi.
* Jafnrétti á milli karla og kvenna.
* Virðing fyrir getu fatlaðra barna sem þróast og breytast og virðing fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína.
Réttindi fatlaðs fólks.
Þau borgaralegu, menningarlegu, efnahagslegu, stjórnmálalegu og félagslegu réttindi sem samningurinn mælir fyrir um taka til allra einstaklinga en samningurinn tekur á þeim aðgerðum sem aðildarríki verða að grípa til í því skyni að tryggja að fatlað fólk njóti þeirra til jafns við aðra. Samningurinn tekur einnig sérstaklega á réttindum kvenna og barna (6. og 7. gr.) og sviðum þar sem aðgerða aðildarríkja er þörf, svo sem vitundarvakningar (8. gr.), tölfræði og gagnasöfnunar (31. gr.) og alþjóðlegs samstarfs (32. gr.).
Þau réttindi sem samningurinn fjallar sérstaklega um eru:
* Jafnrétti og bann við mismunun (5. gr.).
* Réttur til lífs, frelsis og mannhelgi (10. og 14. gr.).
* Réttarstaða til jafns við aðra (12. gr.).
* Frelsi frá því að sæta pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (15. gr.).
* Frelsi frá því að sæta misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum (16. gr.).
* Réttur til líkamlegrar og andlegrar friðhelgi (17. gr.).
* Ferðafrelsi og réttur til ríkisfangs (18. gr.).
* Réttur til að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu (19. gr.).
* Skoðana- og tjáningarfrelsi (21. gr.).
* Virðing fyrir einkalífi (22. gr.).
* Virðing fyrir heimili og fjölskyldu (23. gr.).
* Réttur til menntunar (24. gr.).
* Réttur til heilsu (25. gr.).
* Réttur til vinnu (27. gr.).
* Réttur til viðunandi lífskjara (28. gr.).
* Réttur til þátttöku í stjórnmálum og opinberu lífi (29. gr.).
* Réttur til þátttöku í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi (30. gr.).
Aðgerðir á vegum aðildarríkis.
Samningurinn tekur sérstaklega á sviðum þar sem aðildarríki þurfa að beita sér með ákveðnum hætti til þess að fatlað fólk fái notið réttinda sinna enda er það ekki það sama að eiga réttindi og geta nýtt sér þau. Af þeim sökum leggur samningurinn aðildarríkjum þá skyldu á herðar að skapa þær aðstæður að fatlað fólk geti nýtt sér réttindi sín til jafns við aðra. Þau ákvæði sem snúa að þessum þáttum varða:
* Vitundarvakningu (8. gr.) svo að einstaklingar með og án fötlunar skilji réttindi sín og ábyrgð.
* Aðgengi (9. gr.) sem er grundvallaratriði svo að einstaklingar fái notið réttinda og geti lifað sjálfstæðu lífi.
* Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð (11. gr.) en við aðstæður sem þessar þarf sérstaklega að huga að vernd fatlaðs fólks.
* Aðgangur að réttarkerfi (13. gr.) sem er grundvallaratriði svo að fatlað fólk geti krafist réttinda sinna.
* Ferlimál einstaklinga (20. gr.) en það að geta komist ferða sinna er grundvallarþáttur í að lifa sjálfstæðu lífi.
* Hæfing og endurhæfing (26. gr.) til að gera fötluðu fólki kleift að öðlast og viðhalda sem mestu sjálfstæði og getu.
* Tölfræði og gagnaöflun (31. gr.) sem er grunnur þess að móta og innleiða stefnu til að efla og vernda réttindi fatlaðs fólks.
Alþjóðlegt samstarf.
Í samningnum er einnig að finna sérstakt ákvæði sem fjallar um alþjóðlegt samstarf við að ná markmiðum samningsins (32. gr.).
Almennar skuldbindingar aðildarríkja.
Almennar skuldbindingar aðildarríkja samkvæmt samningnum (4. gr.) fela í sér:
* að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að innleiða þau réttindi sem samningurinn felur í sér,
* að gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki verði breytt eða þau afnumin,
* að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanir,
* að láta hjá líða að aðhafast nokkuð það sem fer í bága við samninginn og sjá til þess að opinber yfirvöld og stofnanir vinni í samræmi við ákvæði hans,
* að gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að útrýma mismunun vegna fötlunar af hálfu einstaklinga, stofnana eða einkaaðila,
* að framkvæma eða efla rannsóknir og þróun á vörum, þjónustu, tækjum og aðstöðu með algildri hönnun skv. 2. gr. samningsins sem breyta þarf sem allra minnst og með sem minnstum tilkostnaði til þess að mæta sérþörfum fatlaðs fólks, að auka framboð á þeim og ýta undir algilda hönnun þegar móta á staðla og leiðbeiningar,
* að framkvæma eða efla rannsóknir og þróun á nýrri tækni og sjá til þess að hún sé tiltæk og notuð, þ.m.t. upplýsinga- og samskiptatækni og hjálpartæki, sem henta fötluðu fólki, með áherslu á tækni á viðráðanlegu verði, og
* að láta fötluðu fólki í té aðgengilegar upplýsingar um hjálpartæki, þ.m.t. nýja tækni, og um annars konar aðstoð, stoðþjónustu og aðstöðu, að auka þekkingu fagfólks og starfsfólks, sem vinnur með fötluðu fólki, á þeim réttindum sem eru viðurkennd með samningnum til þess að unnt sé að betrumbæta þá aðstoð og þjónustu sem þau réttindi tryggja.
Eftirlitskerfi samningsins.
Samningurinn mælir fyrir um bæði innlent og alþjóðlegt eftirlit með framkvæmd samningsins.
Um innlent eftirlit (33. gr.) er gerð sú krafa að aðildarríki hafi eina miðstöð eða fleiri innan stjórnsýslunnar sem greiða skal fyrir málum er varða framkvæmd samningsins. Að auki er lögð sú skylda á aðildarríki að koma á fót kerfi sem fylgist með framkvæmd samningsins innan lands og fullnægi meginreglum um stöðu og starfsemi innlendra stofnana á sviði verndar og eflingar mannréttinda. Eru þær meginreglur betur þekktar sem Parísarreglurnar.
Alþjóðlegt eftirlit samningsins (34.-39. gr.) felur í sér að komið verði á fót nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem skipuð sé óháðum sérfræðingum. Með reglulegri skýrslugjöf aðildarríkjanna til nefndarinnar vinnur hún athugasemdir og tillögur til aðildarríkjanna um það sem betur má fara.
Við samninginn hefur einnig verið gerður valkvæður viðauki sem felur í sér tvær eftirlitsleiðir til viðbótar sem nefndin getur nýtt sér. Annars vegar er um að ræða kvörtunarleið fyrir einstaklinga til nefndarinnar og hins vegar leið fyrir nefndina til að rannsaka alvarleg eða kerfisbundin brot gegn samningnum, með samþykki viðkomandi aðildarríkis. Ekki er lagt til að svo stöddu að viðaukinn verði fullgiltur hér á landi.
Segja má að ákvæði 33. gr. samningsins feli í sér nýmæli á sviði alþjóðlegra mannréttindasamninga en ekki hefur áður verið sett fram krafa um innlent eftirlitskerfi sem fullnægi Parísarreglunum.
Staða innleiðingar.
Eins og áður hefur komið fram samþykkti Alþingi hinn 11. júní 2012 framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks til ársins 2014 (440. mál 140. löggjafarþings). Á grundvelli hennar leiddi innanríkisráðuneytið samstarfsnefnd ráðuneyta en einnig var haft samráð við hagsmunaaðila. Ítarleg greining á ákvæðum samningsins hefur farið fram og á grundvelli þeirrar greiningar hafa verið útbúin frumvörp til laga sem ætlað er að aðlaga íslenska löggjöf að ákvæðum samningsins. Þá bíða ýmis átaksverkefni er varða framkvæmd samningsins þess að hann verði fullgiltur.
Þegar hafa verið gerðar ýmsar breytingar á íslenskri löggjöf til undirbúnings fullgildingu samningsins. Árið 2011 samþykkti Alþingi lög um réttindagæslu fatlaðs fólks, nr. 88/2011, m.a. með hliðsjón af 12. gr. samningsins. Er þar kveðið á um réttindavakt ráðuneytisins, réttindagæslumenn fatlaðs fólks og persónulega talsmenn fyrir fatlað fólk. Markmið laganna er að sjá til þess að einstaklingar sem vegna fötlunar eiga erfitt með að gæta réttinda sinna fái við það stuðning og að sjálfsákvörðunarréttur fatlaðs fólks sé virtur. Í lögunum er einnig kveðið á um aðgerðir til þess að draga úr nauðung í þjónustu við fatlað fólk og tiltekið með skýrum hætti í hvaða tilvikum megi heimila slíkt og hvaða skilyrði þurfi þá að uppfylla.
Þá hafa verið gerðar breytingar á lögræðislögum, nr. 71/1997, með lögum nr. 84/2015. Þær tóku sérstaklega mið af 12. gr. samningsins eins og hún hefur verið skýrð af nefndinni um réttindi fatlaðs fólks. Samtökin Geðhjálp hafa gert athugasemdir við þær breytingar með hliðsjón af samningnum um réttindi fatlaðs fólks. Þær athugasemdir verða teknar til nánari skoðunar samhliða því sem reynsla kemst á áhrif breytinganna. Í þessu samhengi má árétta hve mikilvægt er að fullgilda samninginn svo að unnt sé að fá rýni nefndarinnar á þessar breytingar sem og aðrar sem gerðar eru í því skyni að fullnægja skuldbindingum samningsins.
Með lögum nr. 111/2012 voru gerðar breytingar á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, og lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, til þess að mæta ákvæðum 29. gr. samningsins um rétt fatlaðs fólks til þátttöku í stjórnmálum og opinberu lífi. Meginatriði þeirra breytinga var að tryggja rétt fatlaðs fólks til að ákveða hver aðstoði það við atkvæðagreiðslu í kosningum.
Að auki hefur sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins verið lögfestur. Þá hefur tilraunaverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) verið starfrækt frá árinu 2011 á grundvelli bráðabirgðaákvæðis IV í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992. Fyrstu samningarnir voru gerðir árið 2012 en þá var gerður 21 samningur. Síðan 2013 hafa rúmlega 50 samningar verið í gildi á hverjum tíma. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu skal festa ákvæði um NPA í lög fyrir árslok 2016.
Þá voru samþykkt lög nr. 115/2015, um breytingu á ýmsum lögum til undirbúnings fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem fólu í sér breytingu á hugtakanotkun í alls 29 lögum.
Ýmis fleiri ákvæði í gildandi lögum voru tekin til skoðunar við vinnuna og má þar nefna sem dæmi 180. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um neitun um vöru og þjónustu. Þar var haft samráð við refsiréttarnefnd sem taldi ekki ástæðu til að breyta ákvæðinu til að innleiða samninginn.
Lög á sviði menningarmála miða að aðgengi alls almennings og byggjast á því viðhorfi að þarfir fatlaðs fólks séu tryggðar innan þess ramma. Menningarstefna mennta- og menningarmálaráðuneytis frá 2013 tekur mið af því. Nýleg stefnumótun í íþrótta- og æskulýðsmálum nær til allra hópa í samfélaginu, þ.m.t. fatlaðs fólks. Samkvæmt lögum nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, skal það veita heyrnarskertum aðgang að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu með textun á fréttum og öðru sjónvarpsefni, með textavarpi, útsendingum á táknmáli og/eða öðrum miðlunarleiðum. Einnig eru í lögunum ákvæði um fleiri hópa fatlaðs fólks.
Að auki hefur við vinnuna verið farið yfir ýmis atriði er varða stefnu stjórnvalda í málum fatlaðs fólks, svo sem aðalnámskrá fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Almennir hlutar aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla tóku gildi 2011 og greinasvið grunnskóla 2013 og byggjast á lögum um viðkomandi skólastig frá 2008. Við samningu laganna og aðalnámskránna var samningurinn um réttindi fatlaðs fólks m.a. hafður til hliðsjónar. Um þessar mundir fer fram heildarúttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar hér á landi.
Stefna stjórnvalda um aðgengismál, t.d. á opinberum vefsíðum, hefur nýlega verið endurskoðuð með hliðsjón af samningnum.
Þörf fyrir frekari lagabreytingar.
Þau frumvörp sem eiga eftir að fá þinglega meðferð eru:
Frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk og breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, en stefnt er að því að leggja það fram veturinn 2016–2017.
Varða ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í 1., 3., 4., 19., 25., 26. og 27. gr.
Ákvæði laganna um þjónustu við fatlað fólk eru endurskoðuð í samræmi við skuldbindingar samningsins. Má þar nefna markmiðsákvæði, ákvæði um búsetu, akstursþjónustu og notendasamráð. Einnig er skerpt á rétti einstaklingsins til að ráða því hvenær, hvernig og af hverjum þjónustan er veitt. Lögð eru til nýmæli varðandi notendasamninga, notendastýrða persónulega aðstoð, sértæka frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ráðgjöf og þjónustu við börn með miklar þroska- og geðraskanir.
Samspil laga um þjónustu við fatlað fólk og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er endurskoðað þannig að skerpt er á þeirri almennu þjónustu sem veitt er á grundvelli laga um félagsþjónustu en lögum um þjónustu við fatlað fólk er ætlað að mæta þeim sem hafa meiri stuðningsþarfir. Kafli sem fjallar um félagslega heimaþjónustu hefur verið endurskoðaður og ákvæði um almenna þjónustu, svo sem ferðaþjónustu, færð í lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ákvæði um rétt til þjónustu hafa verið skýrð frekar. Lögð eru til nýmæli varðandi notendaráð fyrir þá hópa sem nýta sér þjónustu sveitarfélaga auk þess sem lagt er til að sett verði á fót samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks. Lagt er til að húsnæðis- og félagsmálaráðherra verði gert skylt að leggja fram framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.
Frumvarp til laga um bann við mismunun.
Varðar 5. gr. samningsins.
Markmið frumvarpsins er að uppfylla kröfur 5. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um jafnrétti og bann við mismunun, innleiða tilskipun Evrópusambandsins 2000/43/EB frá 29. júní 2000 um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis og tilskipun 2000/78/EB frá 27. nóvember 2000 um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi. Ríkisstjórn Íslands samþykkti í janúar 2003 að gæta skyldi efnislegs samræmis í íslenskum rétti og þeim rétti er gilti innan Evrópusambandsins á grundvelli tilskipananna.
Endurskoðun laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.
Varðar 23. og 25. gr. samningsins.
Nefnd var skipuð af heilbrigðisráðherra 9. mars 2016 til að endurskoða lögin.
Frumvarp til laga um sjálfstæða mannréttindastofnun.
Varðar ákvæði 33. gr. samningsins.
Það er krafa samkvæmt samningnum að til staðar sé kerfi, sem fullnægir þeim kröfum sem gerðar eru til sjálfstæðra innlendra mannréttindastofnana, sem sinni eftirliti með framkvæmd hans. Innanríkisráðuneytið hefur unnið drög að frumvarpi um stofnun slíkrar sjálfstæðrar mannréttindastofnunar og er áætlað að það verði lagt fram á Alþingi haustið 2016.
Frávik frá hefðbundinni fullgildingu.
Sem fyrr segir er full þörf á að ljúka við að fullgilda samninginn um réttindi fatlaðs fólks enda hefur Ísland þegar með undirritun samningsins skuldbundið sig til að virða meginreglur hans. Rétt þykir að telja fram þau rök sem hníga til þess að fullgilda beri samninginn nú þegar þrátt fyrir að nauðsynlegri lagasetningu sé ekki að fullu lokið:
* Samningurinn felur að mestu í sér aðlögun mannréttinda sem nú þegar eru í gildi að aðstæðum fatlaðs fólks. Ekki er því um að ræða grundvallarbreytingar á því hvernig mannréttindi fatlaðs fólks eru skilgreind. Óumdeilt er hins vegar að fullgilding samningsins mun marka mikilvægan áfanga í réttindabaráttu fatlaðs fólks.
* Fullgilding samningsins leggur ríka skyldu á stjórnvöld til að ljúka við nauðsynlegar lagabreytingar.
* Stór hluti þeirra skyldna sem lagðar eru á ríki samkvæmt samningnum er í formi aðgerða sem ekki eru háðar lagabreytingum. Má þar nefna vitundarvakningu, þjálfun og fræðslu. Við fullgildingu verður hægt að hefja fjölda verkefna á þeim sviðum sem annars mundu bíða.
* Eftirlitskerfi samningsins sem kveður á um starfsemi nefndar og skýrslugjöf til hennar um framkvæmd samningsins er mikilvægur spegill á störf stjórnvalda og mikilvægur vettvangur fyrir réttindabaráttu fatlaðs fólks. Við fullgildingu samningsins virkjast þetta eftirlitskerfi.
* Þróun og útfærsla þeirra réttinda sem samningurinn kveður á um verður viðvarandi verkefni stjórnvalda, óháð einstökum lagabreytingum.
Fylgiskjal I.
SAMNINGUR UM RÉTTINDI FATLAÐS FÓLKS
Formálsorð.
Ríkin, sem eiga aðild að samningi þessum,
a) sem minnast meginreglna, sem kunngerðar eru í sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem eðlislæg reisn og verðleikar og jöfn og óafsalanleg réttindi alls fólks eru viðurkennd sem undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum,
b) sem viðurkenna að Sameinuðu þjóðirnar hafa kunngert og samþykkt í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamningunum um mannréttindi, að öllum beri öll þau réttindi og eigi tilkall til þess frelsis sem þar er greint frá án hvers kyns aðgreiningar,
c) sem árétta að gervöll mannréttindi og mannfrelsi eru algild, ódeilanleg, innbyrðis háð og samtvinnuð og árétta nauðsyn þess að fatlað fólk njóti þeirra að fullu án mismununar,
d) sem minnast alþjóðasamningsins um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, alþjóðasamningsins um afnám alls kynþáttamisréttis, samningsins um afnám allrar mismununar gagnvart konum, samningsins gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, samningsins um réttindi barnsins og alþjóðasamningsins um verndun réttinda allra farandlaunþega og fjölskyldumeðlima þeirra,
e) sem viðurkenna að hugtakið fötlun er breytingum undirorpið og að fötlun er afsprengi víxláhrifa milli fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem eru hindranir í vegi fullrar og árangursríkrar samfélagsþátttöku þess til jafns við aðra,
f) sem viðurkenna mikilvægi áhrifa meginreglna og stefnumótandi leiðbeininga, sem alþjóðlega aðgerðaáætlunin í þágu fatlaðs fólks og samræmdu reglurnar um jöfnun tækifæra fyrir fatlað fólk hafa að geyma, fyrir framgang, mótun og mat á stefnum, fyrirætlunum, áætlunum og aðgerðum innanlands, í heimshlutum og á alþjóðavettvangi, í því skyni að jafna enn frekar tækifæri fötluðu fólki til handa,
g) sem leggja áherslu á mikilvægi þess að samþætta málefni fatlaðs fólks sem óaðskiljanlegan þátt í viðeigandi áætlunum um sjálfbæra þróun,
h) sem viðurkenna einnig að mismunun gagnvart sérhverjum einstaklingi á grundvelli fötlunar gengur gegn eðlislægri reisn og verðleikum manneskjunnar,
i) sem viðurkenna enn frekar margbreytileika fatlaðs fólks,
j) sem viðurkenna nauðsyn þess að stuðla að og vernda mannréttindi alls fatlaðs fólks, einnig þess sem þarf mikinn stuðning,
k) sem hafa af því áhyggjur að þrátt fyrir þá margvíslegu gerninga og skuldbindingar sem áður getur er samfélagsþátttaka fatlaðs fólks sem jafnrétthárra samfélagsþegna hindruð og mannréttindi þess brotin í öllum heimshlutum,
l) sem viðurkenna mikilvægi alþjóðasamstarfs um að bæta lífsskilyrði fatlaðs fólks í öllum löndum, einkum þróunarlöndum,
m) sem viðurkenna þarft framlag fatlaðs fólks, nú og sem orðið getur, til almennrar velsældar og fjölbreytni innan samfélaga þess og að njóti fatlað fólk mannréttinda og mannfrelsis til fulls og sé stuðlað að fullri þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu muni það leiða til aukinnar tilfinningar þess fyrir því að tilheyra samfélaginu og til verulegrar framþróunar, jafnt á hinu mannlega sviði sem og því félagslega og efnahagslega og til þess að fátækt verði útrýmt,
n) sem viðurkenna mikilvægi þess fyrir fatlað fólk að það njóti sjálfræðis og sjálfstæðis, sem nær yfir frelsi til að taka eigin ákvarðanir,
o) sem telja að fatlað fólk ætti að eiga kost á að taka virkan þátt í ákvarðanatökuferli um stefnur og áætlanir, meðal annars þær sem varða það með beinum hætti,
p) sem hafa áhyggjur af erfiðum aðstæðum fatlaðs fólks sem sætir margþættri eða síaukinni mismunun vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðlegs, þjóðernislegs eða félagslegs uppruna eða frumbyggjauppruna, eigna, ætternis, aldurs eða annarrar stöðu,
q) sem viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru oft í meiri hættu, innan heimilis sem utan, að verða þolendur ofbeldis, áverka eða misþyrminga, vanrækslu eða hirðuleysis, illrar meðferðar eða misneytingar,
r) sem viðurkenna að fötluð börn ættu að njóta til fulls allra mannréttinda og mannfrelsis til jafns við önnur börn og minnast skuldbindinga í þá veru sem aðildarríki að samningnum um réttindi barnsins hafa undirgengist,
s) sem leggja áherslu á nauðsyn þess að ávallt sé tekið mið af kynjasjónarmiðum í þeirri viðleitni að stuðla að því að fatlað fólk njóti fullra mannréttinda og mannfrelsis,
t) sem vilja draga fram þá staðreynd að meirihluti fatlaðs fólks býr við fátækt og viðurkenna í því sambandi að knýjandi þörf er á að vinna gegn þeim neikvæðu áhrifum sem fátækt hefur á fatlað fólk,
u) sem hafa hugfast að forsenda þess að fatlað fólk njóti fullrar verndar, einkum þegar vopnuð átök standa yfir og undir erlendri hersetu, er að friður og öryggi byggist á fullri virðingu fyrir markmiðum og meginreglum mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og því að gildandi gerningar á sviði mannréttinda séu hafðir í heiðri,
v) sem viðurkenna mikilvægi aðgengis fatlaðs fólks að hinu efnislega, félagslega, efnahagslega og menningarlega umhverfi, að það njóti heilbrigðis og menntunar og mikilvægi þess að það hafi aðgengi að upplýsingum og samskiptamiðlum til þess að gera því kleift að njóta allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls,
w) sem gera sér ljóst að það er á ábyrgð einstaklingsins sjálfs, sem hefur skyldum að gegna við aðra einstaklinga og samfélag sitt, að berjast fyrir framgangi réttinda sem eru viðurkennd samkvæmt alþjóðaréttarskránni og því að þau séu virt,
x) sem eru þess fullviss að fjölskyldan er hin eðlilega frumeining samfélagsins sem samfélagi og ríki ber að veita vernd og að fatlað fólk og fjölskyldumeðlimir þess ættu að fá nauðsynlega vernd og aðstoð til þess að gera fjölskyldum kleift að leggja sitt af mörkum til þess að fatlað fólk geti notið réttinda sinna til fulls og til jafns við aðra,
y) sem eru þess fullviss að víðtækur og heildrænn alþjóðasamningur, sem ætlað er að stuðla að og vernda réttindi og mannlega reisn fatlaðs fólks, muni verða mikilvægt framlag til þess að bæta úr djúpstæðri félagslega erfiðri aðstöðu fatlaðs fólks og muni stuðla að þátttöku þess sem borgarar og á vettvangi stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála og menningarmála til jafns við aðra, bæði í þróunarlöndum og iðnríkjum,
hafa orðið ásátt um eftirfarandi:
1. gr.
Markmið.
Til fatlaðs fólks teljast m.a. þeir sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og virka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.
2. gr.
Skilgreiningar.
„samskipti“ taka til tungumála, framsetningu texta, punktaleturs, snertitáknmáls, stækkaðs leturs, aðgengilegrar margmiðlunar, einnig ritmáls, talmáls, auðskilins máls, talgervla og aukinna og óhefðbundinna samskiptaleiða, -máta og -forms, meðal annars aðgengilegra upplýsinga- og samskiptatækni,
„tungumál“ tekur til talaðs máls og táknmáls og annars konar máls sem ekki er talað,
„mismunun vegna fötlunar“ merkir hvers konar aðgreiningu, útilokun eða takmörkun vegna fötlunar sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að torvelda eða koma í veg fyrir að öll mannréttindi og mannfrelsi séu viðurkennd, þeirra sé notið eða þau séu nýtt, til jafns við annað fólk, á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála og menningarmála, sem borgari eða á öðrum sviðum. Hugtakið tekur til mismununar í hvaða mynd sem er, einnig að fötluðu fólki sé neitað um viðeigandi aðlögun,
„viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og mannfrelsi,
„algild hönnun“ merkir hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu, sem allir geta nýtt sér, að því marki sem mögulegt er, án þess að koma þurfi til umbreyting eða sérstök hönnun. „Algild hönnun“ útilokar ekki hjálpartæki fyrir tiltekna hópa fatlaðs fólks, sé þeirra þörf.
3. gr.
Almennar meginreglur.
a) virðing fyrir eðlislægri reisn, sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði einstaklinga,
b) bann við mismunun,
c) full og virk þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar,
d) virðing fyrir frávikum og viðurkenning fatlaðs fólks sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannlegu eðli,
e) jöfn tækifæri,
f) aðgengi,
g) jafnrétti á milli karla og kvenna,
h) virðing fyrir getu fatlaðra barna sem er breytingum undirorpin og virðing fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína,
4. gr.
Almennar skuldbindingar.
Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
a) að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að þau réttindi sem eru viðurkennd með samningi þessum verði að veruleika,
b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
c) að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð,
d) að láta hjá líða að aðhafast nokkuð það sem fer í bága við samning þennan og sjá til þess að opinber yfirvöld og stofnanir vinni í samræmi við ákvæði hans,
e) að gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að uppræta mismunun vegna fötlunar sem einstaklingur, stofnun eða einkaaðili gerir sig sekan um,
f) að framkvæma eða stuðla að rannsóknum og þróun á framleiðsluvörum, þjónustu, tækjum og aðstöðu sem eru hönnuð með algildi í huga skv. 2. gr. samnings þessa og umbreyta þarf sem allra minnst og með sem minnstum tilkostnaði til þess að mæta sérþörfum fatlaðs fólks, til að stuðla að framboði á þeim og notkun og til að stuðla að algildri hönnun þegar móta á staðla og leiðbeiningar,
g) að framkvæma eða stuðla að rannsóknum og þróun á nýrri tækni, og sjá til þess að hún sé tiltæk og notuð, einnig á upplýsinga- og samskiptatækni, hreyfihjálpartækjum, búnaði og hjálpartækni sem henta fötluðu fólki, með áherslu á tækni á viðráðanlegu verði,
h) að láta fötluðu fólki í té aðgengilegar upplýsingar um hreyfihjálpartæki, búnað og hjálpartækni, einnig um nýja tækni og aðstoð, stoðþjónustu og aðstöðu í annarri mynd,
i) að stuðla að þjálfun og þekkingu fagfólks og starfsfólks, sem vinnur með fötluðu fólki, á þeim réttindum sem eru viðurkennd með samningi þessum til þess að unnt sé að betrumbæta þá aðstoð og þjónustu sem þau réttindi tryggja.
2. Að því er varðar efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi skuldbindur sérhvert aðildarríki sig til þess að gera ráðstafanir, eins og efni þess frekast leyfa og með þátttöku í alþjóðasamstarfi, eftir því sem þörf krefur, í því skyni að fyrrnefnd réttindi verði í einu og öllu virk í áföngum með fyrirvara um þær skuldbindingar samkvæmt samningi þessum sem gilda nú þegar samkvæmt reglum þjóðaréttar.
3. Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
4. Ekkert í samningi þessum hefur áhrif á ákvæði sem stuðla frekar að því að réttindi fatlaðs fólks verði að veruleika og lög aðildarríkis eða reglur þjóðaréttar, sem gilda gagnvart hlutaðeigandi aðildarríki, kunna að innihalda. Eigi skal takmarka eða víkja frá nokkrum mannréttindum og mannfrelsi, sem eru viðurkennd eða gilda í aðildarríki að samningi þessum samkvæmt lögum, samningum, reglum eða venju, undir því yfirskini að slík réttindi eða frelsi sé ekki viðurkennt eða viðurkennt í minna mæli samkvæmt samningi þessum.
5. Ákvæði samnings þessa gilda alls staðar í sambandsríkjum án nokkurra takmarkana eða undanþága.
5. gr.
Jafnrétti og bann við mismunun.
2. Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og skilvirka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.
3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að stuðla að jöfnuði og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.
4. Eigi ber að líta á sértækar ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram jafnrétti til handa fötluðu fólki í reynd, sem mismunun samkvæmt skilmálum samnings þessa.
6. gr.
Fatlaðar konur.
2. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja þróun, framgang og valdeflingu kvenna til fulls í því skyni að tryggt sé að þær geti nýtt sér og notið þeirra mannréttinda og mannfrelsis sem sett eru fram í samningi þessum.
7. gr.
Fötluð börn.
2. Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.
3. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er eðlilegt tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika.
8. gr.
Vitundarvakning.
a) til þess að stuðla að vitundarvakningu alls staðar innan samfélagsins, einnig á vettvangi fjölskyldunnar, um fatlað fólk og að auka virðingu fyrir réttindum og mannlegri reisn þess,
b) til þess að vinna á móti staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki, einnig þeim sem eru reist á kyni og aldri, á öllum sviðum lífsins,
c) til þess að stuðla að vitund um getu og framlag fatlaðs fólks.
2. Meðal aðgerða í þessu skyni má nefna:
a) að hefja og vinna stöðugt að átaksverkefnum um vitundarvakningu hjá almenningi sem miða að því:
i. að gera almenning móttækilegan fyrir réttindum fatlaðs fólks,
ii. að stuðla að jákvæðri ímynd fatlaðs fólks og efla vitund í samfélaginu um málefni þess,
iii. að stuðla að því að kunnátta, verðleikar og geta fatlaðs fólks séu viðurkennd í ríkari mæli, enn fremur framlag þess til vinnustaða og vinnumarkaðarins,
b) að ýta undir það viðhorf á öllum skólastigum, meðal annars hjá öllum börnum frá unga aldri, að virða beri réttindi fatlaðs fólks,
c) að hvetja fjölmiðla af hvaða gerð sem er til þess að gefa þá mynd af fötluðu fólki sem samræmist tilgangi samnings þessa,
d) að stuðla að því að gerðar séu þjálfunaráætlanir um vitundarvakningu sem varða fatlað fólk og réttindi þess.
9. gr.
Aðgengi.
a) bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, einnig til skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisþjónustu og vinnustaða,
b) upplýsinga- og samskiptaþjónustu og annarrar þjónustu, einnig til rafrænnar þjónustu og neyðarþjónustu.
2. Aðildarríki skulu og gera viðeigandi ráðstafanir til þess að:
a) þróa, útbreiða og fylgjast með því að lágmarkskröfum og leiðbeiningum sé fullnægt viðvíkjandi aðgengi að aðstöðu og þjónustu sem almenningi stendur opin eða er veitt,
b) tryggja að einkaaðilar, sem bjóða fram aðstöðu og þjónustu sem almenningi stendur opin eða er veitt, taki mið af hvers kyns aðgengi fatlaðs fólks,
c) hagsmunaaðilum sé veitt fræðsla um aðgengismál sem varða fatlað fólk,
d) hafa leiðbeiningar með punktaletri og auðlesnar og auðskiljanlegar merkingar í byggingum og annarri aðstöðu, sem almenningi stendur opin,
e) láta í té ýmiss konar aðstoð á staðnum og þjónustu milliliða, þar á meðal fylgdarmanna, lesara og faglærðra táknmálstúlka, með það að markmiði að auðvelda aðgengi að byggingum og annarri aðstöðu sem almenningi stendur opin,
f) stuðla að því að fatlað fólk fái notið annars konar viðeigandi aðstoðar og þjónustu sem tryggir því aðgang að upplýsingum,
g) stuðla að aðgangi fatlaðs fólks að nýrri upplýsinga- og samskiptatækni og kerfum þar að lútandi, einnig að Netinu,
h) við hönnun, þróun, framleiðslu og dreifingu aðgengilegrar upplýsinga- og samskiptatækni og kerfa þar að lútandi sé frá upphafi unnið að því að slík tækni og kerfi verði aðgengileg með sem minnstum tilkostnaði.
10. gr.
Réttur til lífs.
11. gr.
Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð.
12. gr.
Réttarstaða til jafns við aðra.
2. Aðildarríkin skulu viðurkenna að fatlað fólk njóti gerhæfis til jafns við aðra á öllum sviðum lífsins.
3. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái þann stuðning sem það kann að þarfnast þegar það nýtir gerhæfi sitt.
4. Aðildarríkin skulu tryggja að allar ráðstafanir, sem varða nýtingu gerhæfis, feli í sér viðeigandi og árangursríkar verndarráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög. Þessar verndarráðstafanir skulu tryggja að með ráðstöfunum, sem varða nýtingu gerhæfis, séu réttindi, vilji og séróskir viðkomandi einstaklings virt, slíkar ráðstafanir leiði ekki til hagsmunaárekstra eða hafi ótilhlýðileg áhrif, þær séu til samræmis við og sniðnar að aðstæðum viðkomandi einstaklings, gildi í sem skemmstan tíma og séu endurskoðaðar reglulega af til þess bæru, sjálfstæðu og hlutlausu yfirvaldi eða stofnun á sviði dómsmála. Verndarráðstafanirnar skulu vera í samræmi við þau áhrif sem fyrrnefndar ráðstafanir hafa á réttindi og hagsmuni viðkomandi einstaklings.
5. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi og árangursríkar ráðstafanir, samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, til þess að tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til þess að eiga eða erfa eignir, að stýra eigin fjármálum og hafa jafnan aðgang að bankalánum, veðlánum og annars konar lánafyrirgreiðslu, jafnframt því að tryggja að fatlað fólk sé ekki svipt eignum sínum eftir geðþótta.
13. gr.
Aðgangur að réttarvörslukerfinu.
2. Í því skyni að stuðla að því að tryggja megi fötluðu fólki virkan aðgang að réttarvörslukerfinu skulu aðildarríkin stuðla að viðeigandi fræðslu og þjálfun fyrir það fólk sem starfar á sviði réttarvörslu, einnig fyrir lögreglumenn og starfsfólk fangelsa.
14. gr.
Frelsi og mannhelgi.
a) njóti réttar til frelsis og mannhelgi,
b) sé ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða eftir geðþótta og að frelsissvipting í hvaða mynd sem er sé lögum samkvæmt og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu.
2. Sé fatlað fólk svipt frelsi með einhverjum hætti skulu aðildarríkin ábyrgjast að því séu tryggð mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og það hljóti meðferð sem samræmist markmiðum og meginreglum samnings þessa, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun.
15. gr.
Frelsi frá því að sæta pyndingum eða annarri grimmdarlegri, ómannúðlegri eða lítillækkandi meðferð eða refsingu.
2. Aðildarríkin skulu gera allar árangursríkar ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu og innan réttarkerfisins, eða aðrar ráðstafanir, í því skyni að koma í veg fyrir að fatlað fólk, jafnt og aðrir, sæti pyndingum eða annarri grimmdarlegri, ómannúðlegri eða lítillækkandi meðferð eða refsingu.
16. gr.
Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum.
2. Aðildarríkin skulu einnig gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er, einnig með því að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, ásamt þeim sem annast það, viðeigandi aðstoð og stuðning, sem tekur mið af kyni og aldri, meðal annars með því að veita upplýsingar og fræðslu um hvernig beri að forðast, átta sig á og tilkynna um misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar. Aðildarríkin skulu tryggja að sú þjónusta sem veitir vernd taki mið af kyni, aldri og fötlun.
3. Í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er skulu aðildarríkin tryggja að óháð yfirvöld hafi virkt eftirlit með allri aðstöðu og áætlunum sem er ætlað að þjóna fötluðu fólki.
4. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að stuðla að líkamlegum, vitsmunalegum og sálrænum bata, endurhæfingu og félagslegri enduraðlögun fatlaðs fólks, sem verður þolendur misnotkunar í gróðaskyni, ofbeldis eða misþyrminga í einhverri mynd, meðal annars með því að bjóða fram þjónustu sem veitir vernd. Slíkur bati og enduraðlögun skulu fara fram í umhverfi sem stuðlar að bættri heilsu, velferð, sjálfsvirðingu, reisn og sjálfræði viðkomandi einstaklings, þar sem tillit er tekið til sérþarfa hans miðað við kyn og aldur.
5. Aðildarríkin skulu taka upp skilvirka löggjöf og stefnu, einnig löggjöf og stefnu þar sem sérstakt tillit er tekið til kvenna og barna, til þess að tryggt sé að unnt sé að staðreyna og rannsaka misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar sem beinast gegn fötluðu fólki og ákæra vegna slíkrar háttsemi ef það á við.
17. gr.
Verndun friðhelgi einstaklingsins.
18. gr.
Umferðarfrelsi og ríkisfang.
a) hafi rétt til að öðlast ríkisfang og breyta því og sé ekki svipt ríkisfangi sínu eftir geðþótta eða vegna fötlunar,
b) sé ekki, vegna fötlunar, svipt tækifæri til að fá, hafa umráð yfir og nýta sér skjöl um ríkisfang sitt eða önnur auðkenningarskjöl eða til að hagnýta viðeigandi verklag, t.d. málsmeðferð vegna innflytjendamála, sem kann að vera nauðsynlegt til þess að gera því auðveldar um vik að nýta sér réttinn til umferðarfrelsis,
c) hafi frelsi til að yfirgefa hvaða land sem er, þar með talið sitt eigið,
d) sé ekki, eftir geðþótta eða vegna fötlunar, svipt réttinum til að koma til síns eigin lands.
2. Fötluð börn skulu skráð þegar eftir fæðingu og eiga frá fæðingu rétt til nafngiftar, rétt til þess að öðlast ríkisfang og, eftir því sem unnt er, rétt til þess að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.
19. gr.
Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu.
a) að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir,
b) að fatlað fólk hafi aðgang að margs konar þjónustu, svo sem heimaþjónustu, búsetuúrræðum og annarri stoðþjónustu samfélagsins, einnig að persónulegri aðstoð sem er nauðsynleg til að geta lifað í samfélaginu án aðgreiningar og til þess að koma í veg fyrir einangrun og aðskilnað frá samfélaginu,
c) að þjónusta á vegum samfélagsins og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða til jafns við aðra og mæti þörfum þess.
20. gr.
Ferlimál einstaklinga.
a) að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur og gegn viðráðanlegu gjaldi,
b) að greiða fyrir aðgangi fatlaðs fólks að gæðahjálpartækjum, -búnaði, -stuðningstækni og ákjósanlegri persónulegri aðstoð og milliliðum af ýmsu tagi, einnig með því að hafa tæki og þjónustu tiltæk á viðráðanlegu verði,
c) að bjóða fram fræðslu og þjálfun í hreyfifærni fyrir fatlað fólk og sérhæft starfslið sem vinnur með fötluðu fólki,
d) að hvetja framleiðendur hjálpartækja, búnaðar og stuðningstækni til þess að taka tillit til allra þátta ferlimála fatlaðs fólks.
21. gr.
Tjáningar- og skoðanafrelsi og aðgangur að upplýsingum.
a) að láta fötluðu fólki í té upplýsingar, sem almenningi eru ætlaðar, í aðgengilegu formi og með aðgengilegri tækni, sem hæfir einstaklingum með mismunandi fötlun, tímanlega og án aukakostnaðar,
b) að viðurkenna og auðvelda notkun táknmáls, punktaleturs, aukinna og óhefðbundinna samskiptaleiða og allra annarra aðgengilegra samskiptaleiða, -máta og -forms sem fatlað fólk kýs að nota í opinberum samskiptum,
c) að brýna fyrir einkaaðilum sem bjóða almenningi þjónustu, einnig gegnum Netið, að veita upplýsingar og þjónustu í aðgengilegu og nothæfu formi fyrir fatlað fólk,
d) að hvetja fjölmiðla, einnig upplýsingaveitur á Netinu, til þess að gera þjónustu sína aðgengilega fötluðu fólki,
e) að viðurkenna notkun táknmáls og auka notkun þess.
22. gr.
Virðing fyrir einkalífi.
2. Aðildarríkin skulu tryggja að farið sé með upplýsingar um persónulega hagi, heilsufar og endurhæfingu fatlaðs fólks sem trúnaðarmál á sama hátt og gildir um aðra.
23. gr.
Virðing fyrir heimili og fjölskyldu.
a) að réttur alls fatlaðs fólks, sem hefur náð tilskildum aldri, til að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu, með frjálsu og fullu samþykki hjónaefnanna, sé virtur,
b) að réttur fatlaðs fólks til óheftrar og ábyrgrar ákvarðanatöku um fjölda barna og tíma milli fæðinga og til að hafa aðgang, sem hæfir aldri, að upplýsingum og fræðslu um frjósemisheilbrigði og fjölskylduáætlanir sé viðurkenndur og að því séu veitt nauðsynleg ráð sem gera því kleift að nýta sér þennan rétt,
c) að fatlað fólk, þar með talin börn, fái haldið frjósemi sinni til jafns við aðra.
2. Aðildarríkin skulu tryggja réttindi og ábyrgð fatlaðs fólks með tilliti til lögráðs, forráðs, fjárhalds eða ættleiðingar barna eða svipaðrar íhlutunar, þar sem þessi hugtök eru til í landslögum, og hagsmunir barnsins skulu í öllum málum varða mestu. Aðildarríkin skulu veita fötluðu fólki viðeigandi aðstoð við að uppfylla skyldur sínar sem uppalendur barna.
3. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum jafnan rétt með tilliti til fjölskyldulífs. Til þess að þessi réttur verði að veruleika og í því skyni að koma í veg fyrir að fötluðum börnum sé leynt, þau yfirgefin, vanrækt eða að þau séu þolendur aðskilnaðar skulu aðildarríkin skuldbinda sig til þess að veita fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra snemma alhliða upplýsingar, þjónustu og stuðning.
4. Aðildarríkin skulu tryggja að barn sé ekki tekið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra nema lögbær yfirvöld ákveði, með fyrirvara um endurskoðun dómsvalds og í samræmi við gildandi lög og málsmeðferð, að slíkur aðskilnaður sé nauðsynlegur ef það er barninu fyrir bestu. Barn skal aldrei taka frá foreldrum sínum vegna fötlunar barnsins eða annars foreldris eða beggja.
5. Aðildarríkin skulu reyna til þrautar, ef kjarnafjölskylda er ófær um að annast fatlað barn, að sjá barninu fyrir annarri umönnun innan stórfjölskyldunnar, en að öðrum kosti tryggja því umönnun hjá fjölskyldu innan samfélagsins.
24. gr.
Menntun.
a) að mannleg geta og tilfinning fyrir reisn og eigin verðleikum þroskist til fulls og til þess að virðing fyrir mannréttindum, mannfrelsi og mannlegri fjölbreytni vaxi,
b) að fatlað fólk geti fullþroskað persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu,
c) að gera fötluðu fólki kleift að taka virkan þátt í frjálsu samfélagi.
2. Til þess að þessi réttur megi verða að veruleika skulu aðildarríkin tryggja:
a) að fatlað fólk sé ekki útilokað frá almenna menntakerfinu vegna fötlunar og að fötluð börn séu ekki útilokuð frá gjaldfrjálsu skyldunámi á grunnskólastigi eða námi á framhaldsskólastigi vegna fötlunar,
b) að fatlað fólk hafi aðgang til jafns við aðra að endurgjaldslausri grunn- og framhaldsskólamenntun án aðgreiningar, sem uppfyllir almennar kröfur um gæði, í þeim samfélögum þar sem það býr,
c) að viðeigandi aðlögun sé veitt viðkomandi einstaklingi til þess að þörfum hans sé mætt,
d) að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning innan almenna menntakerfisins til þess að greiða fyrir árangursríkri menntun þess,
e) að skilvirkur, einstaklingsmiðaður stuðningur standi til boða í umhverfi sem hámarkar námsþroska og félagslegan þroska sem samræmist markmiðinu um fulla þátttöku allra.
3. Aðildarríkin skulu gera fötluðu fólki kleift að öðlast hagnýta og félagslega færni í því skyni að greiða fyrir fullri þátttöku þess, til jafns við aðra, í skólastarfi og sem þjóðfélagsþegnar. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í þessu skyni, meðal annars:
a) auðvelda fólki að læra punktaletur, óhefðbundna ritun, auknar og óhefðbundnar samskiptaleiðir, -máta og -form og færni í áttun og hreyfifærni, ásamt því að greiða fyrir jafningjastuðningi og jafningjaráðgjöf,
b) auðvelda fólki að læra táknmál og stuðla að sjálfsmynd heyrnarlauss og heyrnarskerts fólks með tilliti til tungumáls,
c) tryggja að menntun einstaklinga, og þá sérstaklega barna, sem eru blindir eða sjónskertir, heyrnarlausir eða heyrnarskertir eða fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu fari fram á viðeigandi tungumálum og tjáningarmáta sem hentar viðkomandi einstaklingi og í umhverfi sem hámarkar námsþroska og félagsþroska.
4. Í því skyni að tryggja að fyrrnefnd réttindi verði að veruleika skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að ráða kennara, einnig fatlaða kennara sem eru sérhæfðir í táknmáli og/eða punktaletri, og að þjálfa sérfræðinga og starfsfólk sem starfa á öllum sviðum menntakerfisins. Fyrrnefnd þjálfun skal samlöguð vitund um fötlun og notkun viðeigandi aukinna og óhefðbundinna samskiptaleiða, -máta og -forma, kennsluaðferða og námsgagna sem er ætlað að styðja fatlað fólk.
5. Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk geti hafið almennt nám á háskólastigi, starfsþjálfun og notið fullorðinsfræðslu og náms alla ævi án mismununar og til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu, í þessu skyni, tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.
25. gr.
Heilsa.
a) sjá fötluðu fólki fyrir heilsugæslu og heilbrigðisáætlunum sem eru ókeypis eða á viðráðanlegu verði og eins að umfangi, gæðum og á sama stigi og gildir fyrir aðra einstaklinga, meðal annars með tilliti til kyn- og frjósemisheilbrigðis og að því er varðar samfélagsáætlanir á sviði lýðheilsu,
b) bjóða fram þá heilbrigðisþjónustu sem fatlað fólk þarfnast, einkum vegna fötlunar sinnar, sem felur í sér eins snemmbæra greiningu og inngrip eftir því sem við á og þjónustu sem miðar að því að draga úr fötlun eins og frekast er unnt og koma í veg fyrir frekari fötlun, einnig meðal barna og eldri einstaklinga,
c) bjóða fram fyrrnefnda heilbrigðisþjónustu eins nálægt samfélögum fólks og frekast er unnt, einnig í dreifbýli,
d) gera þá kröfu til fagfólks í heilbrigðisþjónustu að það annist fatlað fólk eins vel og aðra, meðal annars á grundvelli frjáls og upplýsts samþykkis, með því, auk annars, að vekja til vitundar um mannréttindi, mannlega reisn, sjálfræði og þarfir fatlaðs fólks með þjálfun fyrir starfsfólk, bæði innan einkarekinnar og opinberrar heilsugæslu, og með útbreiðslu siðferðislegra viðmiðana meðal þeirra,
e) leggja bann við mismunun gagnvart fötluðu fólki að því er varðar sjúkratryggingar og líftryggingar, þar sem slíkar tryggingar, sem skulu boðnar fram á sanngjarnan og réttmætan hátt, eru heimilar samkvæmt landslögum,
f) koma í veg fyrir að einstaklingum sé synjað um heilsugæslu eða heilbrigðisþjónustu eða um mat og drykk þannig að um mismunun vegna fötlunar sé að ræða.
26. gr.
Hæfing og endurhæfing.
a) hefjist eins snemma og frekast er unnt og séu byggðar á þverfaglegu mati á þörfum og styrks hvers einstaklings um sig,
b) stuðli að þátttöku í samfélaginu og þjóðfélaginu á öllum sviðum án aðgreiningar, séu valfrjálsar og standi fötluðu fólki til boða sem næst samfélögum þess, einnig í dreifbýli.
2. Aðildarríkin skulu stuðla að þróun grunnþjálfunar og stöðugrar þjálfunar sérfræðinga og starfsfólks sem vinna við hæfingu og endurhæfingu.
3. Aðildarríkin skulu stuðla að því að hjálpartæki og tækni, sem eru hönnuð fyrir fatlað fólk og notuð eru til hæfingar og endurhæfingar, séu tiltæk og þekking á þeim sé fyrir hendi.
27. gr.
Vinna og starf.
a) að leggja bann við mismunun vegna fötlunar að því er varðar öll mál sem tengjast störfum af hvaða tagi sem er, meðal annars nýliðunar-, ráðningar- og starfsskilyrði, starfsöryggi, starfsframa og öryggi og hollustuhætti á vinnustað,
b) að vernda rétt fatlaðs fólks, til jafns við rétt annarra, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða, einnig jafnra tækifæra og launajafnréttis, öryggis og hollustu á vinnustað og til verndar gegn áreitni, og til þess að fá úrlausn kvörtunarmála,
c) að tryggja að fatlað fólk geti nýtt réttindi sín sem meðlimir stéttarfélaga til jafns við aðra,
d) að gera fötluðu fólki kleift að hafa með virkum hætti aðgang að almennri tækni- og starfsráðgjöf, atvinnumiðlun og starfs- og endurmenntun,
e) að skapa atvinnutækifæri fyrir fatlað fólk og stuðla að starfsframa þess á vinnumarkaði, ásamt því að auka aðstoð við að finna starf, fá það, halda því og fara aftur inn á vinnumarkað,
f) að fjölga tækifærum til að starfa sjálfstætt, stunda frumkvöðlastarfsemi, þróa samvinnufélög og stofna eigin fyrirtæki,
g) að ráða fatlað fólk til starfa innan opinbera geirans,
h) að stuðla að því að fatlað fólk verði ráðið til starfa innan einkageirans með því að marka stefnu við hæfi og gera viðeigandi ráðstafanir sem kunna að felast í áætlunum um sértækar aðgerðir, hvatningu og öðrum aðgerðum,
i) að tryggja að fatlað fólk á vinnustað fái notið viðeigandi aðlögunar,
j) að stuðla að því að fatlað fólk geti aflað sér starfsreynslu á almennum vinnumarkaði,
k) að stuðla að starfstengdri og faglegri endurhæfingu fatlaðs fólks, að því að það haldi störfum sínum og að framgangi áætlana um að það geti snúið aftur til starfa.
2. Aðildarríkin skulu tryggja að fötluðu fólki sé ekki haldið í þrældómi eða ánauð og að því sé veitt vernd, til jafns við aðra, gegn þvingunar- eða nauðungarvinnu.
28. gr.
Viðunandi lífskjör og félagsleg vernd.
2. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til félagslegrar verndar og til þess að njóta þess réttar án mismununar vegna fötlunar og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika, einnig ráðstafanir:
a) til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan aðgang að hreinu vatni og að tryggja aðgang að viðeigandi þjónustu, tækjabúnaði og annarri aðstoð gegn viðráðanlegu gjaldi vegna þarfa sem tengjast fötlun,
b) til þess að tryggja fötluðu fólki, einkum fötluðum konum og stúlkum og fötluðu eldra fólki, aðgang að áætlunum á sviði félagslegrar verndar og áætlunum um að draga úr fátækt,
c) til þess að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, sem lifa í fátækt, aðgang að aðstoð frá hinu opinbera til þess að mæta útgjöldum vegna fötlunar, einnig útgjöldum vegna viðeigandi þjálfunar, ráðgjafar, aðstoðar í fjármálum og hvíldarumönnunar,
d) til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að húsnæðiskerfi á vegum hins opinbera,
e) til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan aðgang að eftirlaunum og eftirlaunasjóðum.
29. gr.
Þátttaka í stjórnmálum og opinberu lífi.
a) tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að taka virkan og fullan þátt í stjórn-málum og opinberu lífi til jafns við aðra, með beinum hætti eða fyrir atbeina fulltrúa eftir frjálsu vali, þar með eru talin réttur og tækifæri til þess að kjósa og vera kosinn, einnig með því:
i. að tryggja að kosningaaðferðir, kosningaaðstaða og kjörgögn séu við hæfi, aðgengileg og auðskilin og auðnotuð,
ii. að vernda rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum án ógnana og til þess að bjóða sig fram í kosningum, að gegna embættum með virkum hætti og að sinna öllum opinberum störfum á öllum stigum stjórnsýslu, jafnframt því að greiða fyrir notkun hjálpartækja og nýrrar tækni þar sem við á,
iii. að fatlað fólk geti tjáð vilja sinn sem kjósendur á frjálsan hátt og að heim-ilað sé í þessu skyni, þar sem nauðsyn krefur og að ósk þess, að það njóti aðstoðar einstaklinga að eigin vali við að greiða atkvæði,
b) stuðla ötullega að mótun umhverfis þar sem fatlað fólk getur tekið virkan og fullan þátt í opinberri starfsemi, án mismununar og til jafns við aðra, og hvetja til þátttöku þess í opinberri starfsemi, einnig:
i. þátttöku í starfsemi frjálsra félagasamtaka og samtaka, sem láta sig málefni almennings varða og stjórnmálalíf viðkomandi lands, og í störfum og stjórn stjórnmálaflokka,
ii. þátttöku í því að mynda og gerast aðilar að samtökum fatlaðs fólks til þess að rödd þess heyrist á alþjóðavettvangi, heima fyrir á landsvísu og innan landsvæða og sveitarfélaga.
30. gr.
Þátttaka í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi.
a) njóti aðgengis að menningarefni í aðgengilegu formi,
b) njóti aðgengis að sjónvarpsdagskrám, kvikmyndum, leikhúsi og öðrum menningarviðburðum í aðgengilegu formi,
c) njóti aðgengis að stöðum þar sem flutningur menningarefnis eða þjónusta á sviði menningar fer fram, t.d. leikhúsum, söfnum, kvikmyndahúsum, bókasöfnum og ferðamannastöðum og njóti, eftir því sem við verður komið, aðgengis að minnisvörðum og stöðum sem eru mikilvægir í þjóðmenningarlegu tilliti.
2. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái tækifæri til að þróa og nota sköpunargáfu sína og listræna og vitsmunalega getu, ekki einvörðungu í eigin þágu heldur einnig í því skyni að auðga samfélagið.
3. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir, samkvæmt reglum þjóðaréttar, til þess að tryggja að í lögum, sem vernda hugverkarétt, séu ekki ákvæði sem koma á ósanngjarnan hátt, eða með einhverjum þeim hætti sem hefur mismunun í för með sér, í veg fyrir að fatlað fólk hafi aðgang að menningarefni.
4. Fatlað fólk skal eiga rétt á, til jafns við aðra, að sérstök menningarleg samsemd þess og samsemd með tilliti til tungumáls séu viðurkenndar og njóti stuðnings, þar með talið táknmál og menning heyrnarlauss og heyrnarskerts fólks.
5. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir, í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að taka til jafns við aðra þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi, til þess að:
a) hvetja til og stuðla að þátttöku fatlaðs fólks, eins og frekast er unnt, í almennu íþróttastarfi á öllum stigum,
b) tryggja fötluðu fólki tækifæri til þess að skipuleggja, þróa og taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi fyrir fatlað fólk og hvetja til framboðs á viðeigandi tilsögn, þjálfun og fjármagni í þessu skyni og með sama hætti og gildir um aðra,
c) tryggja fötluðu fólki aðgang að stöðum þar sem íþrótta- og tómstundastarf fer fram og að ferðamannastöðum,
d) tryggja fötluðum börnum aðgang, til jafns við önnur börn, að leikjum og tómstunda- og frístunda- og íþróttastarfi, einnig innan skólakerfisins,
e) tryggja fötluðu fólki aðgang að þjónustu þeirra sem annast skipulagningu tómstundastarfs, ferðamennsku og frístunda- og íþróttastarfs.
31. gr.
Tölfræðilegar upplýsingar og gagnasöfnun.
a) vera í samræmi við lögmætar verndarráðstafanir, einnig löggjöf um persónuvernd, til þess að tryggt sé að trúnaðarskylda sé virt og einkalíf fatlaðs fólks,
b) vera í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar viðmiðunarreglur um vernd mannréttinda og mannfrelsis og siðareglur sem gilda um söfnun og notkun tölfræðilegra upplýsinga.
2. Upplýsingar, sem er safnað samkvæmt þessari grein, skal sundurliða eftir því sem við á og nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín.
3. Aðildarríkin skulu ábyrgjast miðlun fyrrnefndra tölfræðilegra upplýsinga og tryggja fötluðu fólki og öðrum aðgengi að þeim.
32. gr.
Alþjóðlegt samstarf.
a) að tryggja að alþjóðlegt samstarf, einnig alþjóðlegar þróunaráætlanir, nái til fatlaðs fólks og sé því aðgengilegt,
b) að efla og auka afkastagetu, einnig með því að skiptast á og miðla með gagnkvæmum hætti upplýsingum, reynslu, þjálfunaráætlunum og bestu starfsvenjum,
c) að greiða fyrir samvinnu á sviði rannsókna og auðvelda aðgengi að vísinda- og tækniþekkingu,
d) að láta í té, eftir því sem við á, tækni- og efnahagsaðstoð, einnig með því að auðvelda aðgang að og gagnkvæma miðlun aðgengilegrar og gagnlegrar tækni og með yfirfærslu á tækni.
2. Ákvæði þessarar greinar hafa engin áhrif á þá skyldu sérhvers aðildarríkis að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum.
33. gr.
Framkvæmd og eftirlit innanlands.
2. Aðildarríkin skulu, í samræmi við réttar- og stjórnkerfi hvers ríkis um sig, viðhalda, treysta, tiltaka eða koma á rammaáætlun, einnig einu eða fleiri sjálfstæðum kerfum, eftir því sem við á, í því skyni að stuðla að, vernda og fylgjast með framkvæmd samnings þessa. Aðildarríkin skulu, þegar þau tiltaka slíkt kerfi eða koma því á, taka mið af þeim meginreglum sem gilda um stöðu og starfsemi innlendra stofnana á sviði verndar og eflingar mannréttinda.
3. Borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem fara með mál þess, skal eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.
34. gr.
Nefnd um réttindi fatlaðs fólks.
2. Þegar samningur þessi öðlast gildi skulu tólf sérfræðingar skipa nefndina. Eftir að sextíu aðilar hafa fullgilt samninginn eða gerst aðilar að honum skal fjölgað í nefndinni um sex sem þýðir að heildarfjöldi nefndarmanna verður átján.
3. Nefndarmenn sitja í nefndinni á eigin forsendum sem einstaklingar og skulu hafa þroskaða siðferðisvitund og viðurkennda menntun og hæfi og reynslu á því sviði sem samningur þessi fjallar um. Óskað er eftir því að aðildarríkin taki eðlilegt tillit til ákvæða 3. mgr. 4. gr. samnings þessa þegar þau tilnefna frambjóðendur sína.
4. Aðildarríkin kjósa nefndarmenn að teknu tilliti til jafnrar dreifingar milli heimshluta, þess að fulltrúar komi frá ólíkum menningarþjóðfélögum og helstu réttarkerfum og að teknu tilliti til jafnrar þátttöku kynjanna og þátttöku fatlaðra sérfræðinga.
5. Nefndarmenn skulu kjörnir í leynilegri atkvæðagreiðslu af lista einstaklinga, sem aðildarríkin tilnefna úr hópi þegna sinna, þegar fundir þings aðildarríkjanna fara fram. Á þeim fundum sem eru ákvörðunarbærir eigi tveir þriðju aðildarríkjanna þar fulltrúa skulu þeir einstaklingar sem eru kjörnir til setu í nefndinni vera þeir sem hljóta flest atkvæði og hreinan meirihluta atkvæða þeirra aðildarríkja sem eiga fulltrúa sem eru viðstaddir og greiða atkvæði.
6. Halda ber fyrstu kosningu eigi síðar en sex mánuðum eftir þann dag þegar samningur þessi öðlast gildi. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda aðildarríkjunum bréf, með eigi skemmri fyrirvara en fjórum mánuðum fyrir þann dag þegar sérhver kosning skal fara fram, og óska eftir tilnefningum þeirra innan tveggja mánaða. Aðalframkvæmdastjórinn tekur því næst saman skrá í stafrófsröð um alla einstaklinga sem þannig eru tilnefndir og gefur til kynna hvaða aðildarríki tilnefndi þá og sendir að svo búnu skrána þeim ríkjum sem eru aðilar að samningi þessum.
7. Kjörtímabil nefndarmanna er fjögur ár. Heimilt er að endurkjósa þá einu sinni. Engu að síður skal kjörtímabili sex þeirra sem eru kosnir í fyrstu kosningu ljúka að tveimur árum liðnum; strax að lokinni fyrstu kosningu skal fundarstjóri, á fundi þeim er um getur í 5. mgr. þessarar greinar, velja nöfn fyrrnefndra sex nefndarmanna með hlutkesti.
8. Kjör hinna sex viðbótarnefndarmanna skal fara fram þegar reglubundnar kosningar fara fram í samræmi við viðeigandi ákvæði þessarar greinar.
9. Falli nefndarmaður frá eða segir af sér eða lýsi því yfir að hann geti ekki, af einhverri annarri ástæðu, gegnt skyldum sínum skal aðildarríkið, sem tilnefndi hann, skipa annan sérfræðing, sem hefur menntun og hæfi og uppfyllir þær kröfur er um getur í viðeigandi ákvæðum þessarar greinar, til þess að starfa í nefndinni út kjörtímabilið.
10. Nefndin setur sér starfsreglur.
11. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal útvega nauðsynlegt starfsfólk og aðstöðu til þess að nefndin geti sinnt störfum sínum með skilvirkum hætti samkvæmt samningi þessum og boða til fyrsta fundar hennar.
12. Þeir sem sitja í nefndinni, sem er komið á fót samkvæmt samningi þessum, skulu með samþykki allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þiggja laun úr sjóðum Sameinuðu þjóðanna samkvæmt þeim skilmálum og skilyrðum sem allsherjarþingið kann að ákveða, að teknu tilliti til mikilvægis þeirra ábyrgðarstarfa sem nefndin sinnir.
13. Nefndarmönnum ber réttur til aðstöðu, forréttinda og friðhelgi sérfræðinga, sem reka erindi Sameinuðu þjóðanna, eins og mælt er fyrir um í viðeigandi hlutum samningsins um réttindi og friðhelgi Sameinuðu þjóðanna.
35. gr.
Skýrslugjöf aðildarríkjanna.
2. Eftir það skulu aðildarríkin senda skýrslur sínar eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti og oftar í hvert sinn sem nefndin fer fram á það.
3. Nefndin skal fastsetja leiðbeiningar um efni skýrslnanna.
4. Aðildarríki, sem hefur sent nefndinni heildstæða frumskýrslu, þarf ekki að endurtaka áður veittar upplýsingar í skýrslum sem á eftir fara. Óskað er eftir því, þegar aðildarríkin undirbúa skýrslur til nefndarinnar, að þau geri það með opnum og gagnsæjum hætti og taki eðlilegt tillit til ákvæðisins í 3. mgr. 4. gr. samnings þessa.
5. Í skýrslunum er heimilt að geta um þá þætti og erfiðleika sem hafa áhrif á það hversu vel miðar að efna skuldbindingar samkvæmt samningi þessum.
36. gr.
Umfjöllun um skýrslur.
2. Dragist verulega á langinn að aðildarríki sendi skýrslu sína getur nefndin tilkynnt hlutaðeigandi aðildarríki um að nauðsynlegt sé að kanna framkvæmd samnings þessa í því aðildarríki, á grundvelli áreiðanlegra upplýsinga sem nefndin hefur aðgang að, hafi viðkomandi skýrsla ekki verið send innan þriggja mánaða frá tilkynningunni. Nefndin skal bjóða hlutaðeigandi aðildarríki að taka þátt í fyrrnefndri könnun. Bregðist aðildarríkið við með því að senda viðkomandi skýrslu gilda ákvæði 1. mgr. þessarar greinar.
3. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal gera öllum aðildarríkjunum kleift að nálgast skýrslurnar.
4. Aðildarríkin skulu gera almenningi í eigin löndum auðvelt um vik að nálgast skýrslur sínar og greiða fyrir aðgangi að þeim tillögum og tilmælum sem varða þessar skýrslur.
5. Nefndin skal, eftir því sem hún telur við eiga, senda sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna, sjóðum og stofnunum þeirra sem annast áætlanagerð á þeirra vegum og öðrum bærum stofnunum skýrslur frá aðildarríkjunum, til þess að unnt sé að taka fyrir beiðni um, eða vísbendingu um þörf fyrir, tæknilega ráðgjöf eða aðstoð, sem þar kemur fram, ásamt athugasemdum nefndarinnar og tilmælum, ef um þau er að ræða, viðvíkjandi þessum beiðnum eða vísbendingum.
37. gr.
Samvinna milli aðildarríkjanna og nefndarinnar.
2. Nefndin skal, í samskiptum sínum við aðildarríkin, taka eðlilegt tillit til leiða og aðferða við að auka getu innanlands til þess að framkvæma samning þennan, einnig í gegnum alþjóðlegt samstarf.
38. gr.
Tengsl nefndarinnar við aðrar stofnanir.
a) Skulu sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna og aðrar stofnanir þeirra hafa rétt til þess að eiga fyrirsvar þegar fjallað er um framkvæmd þeirra ákvæða samnings þessa sem umboð þeirra tekur til. Nefndin getur óskað eftir því við sérstofnanirnar og aðrar bærar stofnanir, eftir því sem hún telur við hæfi, að þær leggi fram sérfræðiálit um framkvæmd samningsins innan þeirra sviða sem umboð hverrar um sig tekur til. Nefndin getur óskað eftir því við sérstofnanir og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna að þær leggi fram skýrslur um framkvæmd samningsins á þeim sviðum sem starfsemi þeirra tekur til.
b) Þegar nefndin uppfyllir skyldur sínar eftir umboði sínu skal hún hafa samráð, eftir því sem við á, við aðrar hlutaðeigandi stofnanir, sem er komið á fót samkvæmt alþjóðasamningum um mannréttindi, í því skyni að tryggja samsvörun leiðbeininga, tillagna og almennra tilmæla hverrar um sig viðvíkjandi skýrslu-gerð og að forðast tvíverknað og skörun í störfum þeirra.
39. gr.
Skýrsla nefndarinnar.
40. gr.
Þing aðildarríkjanna.
2. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal kalla saman þing aðildarríkjanna eigi síðar en sex mánuðum eftir að samningur þessi öðlast gildi. Aðalframkvæmdastjórinn boðar til funda annað hvert ár eftir það eða eins oft og þing aðildarríkjanna ákveður.
41. gr.
Vörsluaðili.
42. gr.
Undirritun.
43. gr.
Samþykki fyrir því að vera bundinn af samningi þessum.
44. gr.
Svæðisstofnanir um samvinnu.
2. Vísanir til „aðildarríkja“ í samningi þessum eiga við fyrrnefndar stofnanir eins langt og valdheimildir þeirra ná.
3. Að því er varðar 1. mgr. 45. gr. og 2. og 3. mgr. 47. gr. samnings þessa skal eigi telja með skjöl sem svæðisstofnun um samvinnu afhendir til vörslu.
4. Svæðisstofnanir um samvinnu geta, í málum sem valdheimildir þeirra ná til, neytt atkvæðisréttar á þingi aðildarríkja með sama fjölda atkvæða og fjöldi aðildarríkja þeirra, sem eru aðilar að samningi þessum, segir til um. Slík stofnun skal ekki neyta atkvæðisréttar síns ef eitthvert aðildarríki hennar neytir atkvæðisréttar síns og öfugt.
45. gr.
Gildistaka.
2. Gagnvart sérhverju ríki eða svæðisstofnun um samvinnu, sem fullgildir samning þennan, staðfestir hann formlega eða gerist aðili að honum eftir afhendingu tuttugasta skjalsins um slíka athöfn til vörslu, skal samningurinn öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að hlutaðeigandi ríki eða slík stofnun hefur afhent viðkomandi skjal sitt til vörslu.
46. gr.
Fyrirvarar.
2. Heimilt er að draga fyrirvara til baka hvenær sem er.
47. gr.
Breytingar.
2. Breyting, sem er innleidd og samþykkt í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar, öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að fjöldi skjala um staðfestingu, sem hafa verið afhent til vörslu, jafngildir fjölda samningsríkja að tveimur þriðju þann dag þegar breytingin er samþykkt. Eftir það öðlast breytingin gildi gagnvart hvaða aðildarríki sem er á þrítugasta degi eftir að það afhendir skjal sitt um staðfestingu til vörslu. Breyting er aðeins bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa staðfest hana.
3. Breyting, sem er innleidd og samþykkt í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar og varðar 34., 38., 39. og 40. gr. einvörðungu, skal, ákveði þing aðildarríkja það einróma, öðlast gildi gagnvart öllum aðildarríkjum á þrítugasta degi eftir að fjöldi skjala um staðfestingu, sem hafa verið afhent til vörslu, jafngildir fjölda aðildarríkja að tveimur þriðju þann dag þegar breytingin er samþykkt.
48. gr.
Úrsögn.
49. gr.
Aðgengilegt form.
50. gr.
Gildir textar.
ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð ríkisstjórna sinna, undirritað samning þennan.
Fylgiskjal II.
Convention on the Rights of Persons with Disabilities
Preamble
The States Parties to the present Convention
a) Recalling the principles proclaimed in the Charter of the United Nations which recognize the inherent dignity and worth and the equal and inalienable rights of all members of the human family as the foundation of freedom, justice and peace in the world,
b) Recognizing that the United Nations, in the Universal Declaration of Human Rights and in the International Covenants on Human Rights, has proclaimed and agreed that everyone is entitled to all the rights and freedoms set forth therein, without distinction of any kind,
c) Reaffirming the universality, indivisibility, interdependence and interrelatedness of all human rights and fundamental freedoms and the need for persons with disabilities to be guaranteed their full enjoyment without discrimination,
d) Recalling the International Covenant on Economic, Social and Cultural Rights, the International Covenant on Civil and Political Rights, the International Convention on the Elimination of All Forms of Racial Discrimination, the Convention on the Elimination of All Forms of Discrimination against Women, the Convention against Torture and Other Cruel, Inhuman or Degrading Treatment or Punishment, the Convention on the Rights of the Child, and the International Convention on the Protection of the Rights of All Migrant Workers and Members of Their Families,
e) Recognizing that disability is an evolving concept and that disability results from the interaction between persons with impairments and attitudinal and environmental barriers that hinders their full and effective participation in society on an equal basis with others,
f) Recognizing the importance of the principles and policy guidelines contained in the World Programme of Action concerning Disabled Persons and in the Standard Rules on the Equalization of Opportunities for Persons with Disabilities in influencing the promotion, formulation and evaluation of the policies, plans, programmes and actions at the national, regional and international levels to further equalize opportunities for persons with disabilities,
g) Emphasizing the importance of mainstreaming disability issues as an integral part of relevant strategies of sustainable development,
h) Recognizing also that discrimination against any person on the basis of disability is a violation of the inherent dignity and worth of the human person,
i) Recognizing further the diversity of persons with disabilities,
j) Recognizing the need to promote and protect the human rights of all persons with disabilities, including those who require more intensive support,
k) Concerned that, despite these various instruments and undertakings, persons with disabilities continue to face barriers in their participation as equal members of society and violations of their human rights in all parts of the world,
l) Recognizing the importance of international cooperation for improving the living conditions of persons with disabilities in every country, particularly in developing countries,
m) Recognizing the valued existing and potential contributions made by persons with disabilities to the overall wellbeing and diversity of their communities, and that the promotion of the full enjoyment by persons with disabilities of their human rights and fundamental freedoms and of full participation by persons with disabilities will result in their enhanced sense of belonging and in significant advances in the human, social and economic development of society and the eradication of poverty,
n) Recognizing the importance for persons with disabilities of their individual autonomy and independence, including the freedom to make their own choices,
o) Considering that persons with disabilities should have the opportunity to be actively involved in decisionmaking processes about policies and programmes, including those directly concerning them,
p) Concerned about the difficult conditions faced by persons with disabilities who are subject to multiple or aggravated forms of discrimination on the basis of race, colour, sex, language, religion, political or other opinion, national, ethnic, indigenous or social origin, property, birth, age or other status,
q) Recognizing that women and girls with disabilities are often at greater risk, both within and outside the of violence, injury or abuse, neglect or negligent treatment, maltreatment or exploitation,
r) Recognizing that children with disabilities should have full enjoyment of all human rights and fundamental freedoms on an equal basis with other children, and recalling obligations to that end undertaken by States Parties to the Convention on the Rights of the Child,
s) Emphasizing the need to incorporate a gender perspective in all efforts to promote the full enjoyment of human rights and fundamental freedoms by persons with disabilities,
t) Highlighting the fact that the majority of persons with disabilities live in conditions of poverty, and in this regard recognizing the critical need to address the negative impact of poverty on persons with disabilities,
u) Bearing in mind that conditions of peace and security based on full respect for the purposes and principles contained in the Charter of the United Nations and observance of applicable human rights instruments are indispensable for the full protection of persons with disabilities, in particular during armed conflicts and foreign occupation,
v) Recognizing the importance of accessibility to the physical, social, economic and cultural environment, to health and education and to information and communication, in enabling persons with disabilities to fully enjoy all human rights and fundamental freedoms,
w) Realizing that the individual, having duties to other individuals and to the community to which he or she belongs, is under a responsibility to strive for the promotion and observance of the rights recognized in the International Bill of Human Rights,
x) Convinced that the family is the natural and fundamental group unit of society and is entitled to protection by society and the State, and that persons with disabilities and their family members should receive the necessary protection and assistance to enable families to contribute towards the full and equal enjoyment of the rights of persons with disabilities,
y) Convinced that a comprehensive and integral international convention to promote and protect the rights and dignity of persons with disabilities will make a significant contribution to redressing the profound social disadvantage of persons with disabilities and promote their participation in the civil, political, economic, social and cultural spheres with equal opportunities, in both deve-loping and developed countries,
Have agreed as follows:
Article 1
Purpose
Persons with disabilities include those who have long-term physical, mental, intellectual or sensory impairments which in interaction with various barriers may hinder their full and effective participation in society on an equal basis with others.
Article 2
Definitions
"Communication" includes languages, display of text, Braille, tactile communication, large print, accessible multimedia as well as written, audio, plain-language, human-reader and augmentative and alternative modes, means and formats of communication, including accessible information and communication technology;
"Language" includes spoken and signed languages and other forms of non-spoken languages;
"Discrimination on the basis of disability" means any distinction, exclusion or restriction on the basis of disability which has the purpose or effect of impairing or nullifying the recognition, enjoyment or exercise, on an equal basis with others, of all human rights and fundamental freedoms in the political, economic, social, cultural, civil or any other field. It includes all forms of discrimination, including denial of reasonable accommodation;
"Reasonable accommodation" means necessary and appropriate modification and adjustments not imposing a disproportionate or undue burden, where needed in a particular case, to ensure to persons with disabilities the enjoyment or exercise on an equal basis with others of all human rights and fundamental freedoms;
"Universal design" means the design of products, environments, programmes and services to be usable by all people, to the greatest extent possible, without the need for adaptation or specialized design. "Universal design" shall not exclude assistive devices for particular groups of persons with disabilities where this is needed.
Article 3
General principles
a) Respect for inherent dignity, individual autonomy including the freedom to make one's own choices, and independence of persons;
b) Non-discrimination;
c) Full and effective participation and inclusion in society;
d) Respect for difference and acceptance of persons with disabilities as part of human diversity and humanity;
e) Equality of opportunity;
f) Accessibility;
g) Equality between men and women;
h) Respect for the evolving capacities of children with disabilities and respect for the right of children with disabilities to preserve their identities.
Article 4
General obligations
a) To adopt all appropriate legislative, administrative and other measures for the implementation of the rights recognized in the present Convention;
b) To take all appropriate measures, including legislation, to modify or abolish existing laws, regulations, customs and practices that constitute discrimination against persons with disabilities;
c) To take into account the protection and promotion of the human rights of persons with disabilities in all policies and programmes;
d) To refrain from engaging in any act or practice that is inconsistent with the present Convention and to ensure that public authorities and institutions act in conformity with the present Convention;
e) To take all appropriate measures to eliminate discrimination on the basis of disability by any person, organization or private enterprise;
f) To undertake or promote research and development of universally designed goods, services, equipment and facilities, as defined in article 2 of the present Convention, which should require the minimum possible adaptation and the least cost to meet the specific needs of a person with disabilities, to promote their availability and use, and to promote universal design in the development of standards and guidelines;
g) To undertake or promote research and development of, and to promote the availability and use of new technologies, including information and communications technologies, mobility aids, devices and assistive technologies, suitable for persons with disabilities, giving priority to technologies at an affordable cost;
h) To provide accessible information to persons with disabilities about mobility aids, devices and assistive technologies, including new technologies, as well as other forms of assistance, support services and facilities;
i) To promote the training of professionals and staff working with persons with disabilities in the rights recognized in this Convention so as to better provide the assistance and services guaranteed by those rights.
2. With regard to economic, social and cultural rights, each State Party undertakes to take measures to the maximum of its available resources and, where needed, within the framework of international cooperation, with a view to achieving progressively the full realization of these rights, without prejudice to those obligations contained in the present Convention that are immediately applicable according to international law.
3. In the development and implementation of legislation and policies to implement the present Convention, and in other decision-making processes concerning issues relating to persons with disabilities, States Parties shall closely consult with and actively involve persons with disabilities, including children with disabilities, through their representative organizations.
4. Nothing in the present Convention shall affect any provisions which are more conducive to the realization of the rights of persons with disabilities and which may be contained in the law of a State Party or international law in force for that State. There shall be no restriction upon or derogation from any of the human rights and fundamental freedoms recognized or existing in any State Party to the present Convention pursuant to law, conventions, regulation or custom on the pretext that the present Convention does not recognize such rights or freedoms or that it recognizes them to a lesser extent.
5. The provisions of the present Convention shall extend to all parts of federal states without any limitations or exceptions.
Article 5
Equality and non-discrimination
2. States Parties shall prohibit all discrimination on the basis of disability and guarantee to persons with disabilities equal and effective legal protection against discrimination on all grounds.
3. In order to promote equality and eliminate discrimination, States Parties shall take all appropriate steps to ensure that reasonable accommodation is provided.
4. Specific measures which are necessary to accelerate or achieve de facto equality of persons with disabilities shall not be considered discrimination under the terms of the present Convention.
Article 6
Women with disabilities
2. States Parties shall take all appropriate measures to ensure the full development, advancement and empowerment of women, for the purpose of guaranteeing them the exercise and enjoyment of the human rights and fundamental freedoms set out in the present Convention.
Article 7
Children with disabilities
2. In all actions concerning children with disabilities, the best interests of the child shall be a primary consideration.
3. States Parties shall ensure that children with disabilities have the right to express their views freely on all matters affecting them, their views being given due weight in accordance with their age and maturity, on an equal basis with other children, and to be provided with disability and age-appropriate assistance to realize that right.
Article 8
Awareness-raising
a) To raise awareness throughout society, including at the family level, regarding persons with disabilities, and to foster respect for the rights and dignity of persons with disabilities;
b) To combat stereotypes, prejudices and harmful practices relating to persons with disabilities, including those based on sex and age, in all areas of life;
c) To promote awareness of the capabilities and contributions of persons with disabilities.
2. Measures to this end include:
a) Initiating and maintaining effective public awareness campaigns designed:
i. To nurture receptiveness to the rights of persons with disabilities;
ii. To promote positive perceptions and greater social awareness towards persons with disabilities;
iii. To promote recognition of the skills, merits and abilities of persons with disabilities, and of their contributions to the workplace and the labour market;
b) Fostering at all levels of the education system, including in all children from an early age, an attitude of respect for the rights of persons with disabilities;
c) Encouraging all organs of the media to portray persons with disabilities in a manner consistent with the purpose of the present Convention;
d) Promoting awareness-training programmes regarding persons with disabilities and the rights of persons with disabilities.
Article 9
Accessibility
a) Buildings, roads, transportation and other indoor and outdoor facilities, in-cluding schools, housing, medical facilities and workplaces;
b) Information, communications and other services, including electronic services and emergency services.
2. States Parties shall also take appropriate measures to:
a) Develop, promulgate and monitor the implementation of minimum standards and guidelines for the accessibility of facilities and services open or provided to the public;
b) Ensure that private entities that offer facilities and services which are open or provided to the public take into account all aspects of accessibility for persons with disabilities;
c) Provide training for stakeholders on accessibility issues facing persons with disabilities;
d) Provide in buildings and other facilities open to the public signage in Braille and in easy to read and understand forms;
e) Provide forms of live assistance and intermediaries, including guides, readers and professional sign language interpreters, to facilitate accessibility to build-ings and other facilities open to the public;
f) Promote other appropriate forms of assistance and support to persons with disabilities to ensure their access to information;
g) Promote access for persons with disabilities to new information and communications technologies and systems, including the Internet;
h) Promote the design, development, production and distribution of accessible information and communications technologies and systems at an early stage, so that these technologies and systems become accessible at minimum cost.
Article 10
Right to life
Article 11
Situations of risk and humanitarian emergencies
Article 12
Equal recognition before the law
2. States Parties shall recognize that persons with disabilities enjoy legal capacity on an equal basis with others in all aspects of life.
3. States Parties shall take appropriate measures to provide access by persons with disabilities to the support they may require in exercising their legal capacity.
4. States Parties shall ensure that all measures that relate to the exercise of legal capacity provide for appropriate and effective safeguards to prevent abuse in accordance with international human rights law. Such safeguards shall ensure that measures relating to the exercise of legal capacity respect the rights, will and preferences of the person, are free of conflict of interest and undue influence, are proportional and tailored to the person's circumstances, apply for the shortest time possible and are subject to regular review by a competent, independent and impartial authority or judicial body. The safeguards shall be proportional to the degree to which such measures affect the person's rights and interests.
5. Subject to the provisions of this article, States Parties shall take all appropriate and effective measures to ensure the equal right of persons with disabilities to own or inherit property, to control their own financial affairs and to have equal access to bank loans, mortgages and other forms of financial credit, and shall ensure that persons with disabilities are not arbitrarily deprived of their property.
Article 13
Access to justice
2. In order to help to ensure effective access to justice for persons with disabilities, States Parties shall promote appropriate training for those working in the field of administration of justice, including police and prison staff.
Article 14
Liberty and security of the person
a) Enjoy the right to liberty and security of person;
b) Are not deprived of their liberty unlawfully or arbitrarily, and that any deprivation of liberty is in conformity with the law, and that the existence of a disability shall in no case justify a deprivation of liberty.
2. States Parties shall ensure that if persons with disabilities are deprived of their liberty through any process, they are, on an equal basis with others, entitled to guarantees in accordance with international human rights law and shall be treated in compliance with the objectives and principles of this Convention, including by provision of reasonable accommodation.
Article 15
Freedom from torture or cruel, inhuman or degrading treatment or punishment
2. States Parties shall take all effective legislative, administrative, judicial or other measures to prevent persons with disabilities, on an equal basis with others, from being subjected to torture or cruel, inhuman or degrading treatment or punishment.
Article 16
Freedom from exploitation, violence and abuse
2. States Parties shall also take all appropriate measures to prevent all forms of exploitation, violence and abuse by ensuring, inter alia, appropriate forms of gender- and age-sensitive assistance and support for persons with disabilities and their families and caregivers, including through the provision of information and education on how to avoid, recognize and report instances of exploitation, violence and abuse. States Parties shall ensure that protection services are age-, gender- and disability-sensitive.
3. In order to prevent the occurrence of all forms of exploitation, violence and abuse, States Parties shall ensure that all facilities and programmes designed to serve persons with disabilities are effectively monitored by independent authorities.
4. States Parties shall take all appropriate measures to promote the physical, cognitive and psychological recovery, rehabilitation and social reintegration of persons with disabilities who become victims of any form of exploitation, violence or abuse, including through the provision of protection services. Such recovery and reintegration shall take place in an environment that fosters the health, welfare, self-respect, dignity and autonomy of the person and takes into account gender- and age-specific needs.
5. States Parties shall put in place effective legislation and policies, including women- and child-focused legislation and policies, to ensure that instances of exploitation, violence and abuse against persons with disabilities are identified, investigated and, where appropriate, prosecuted.
Article 17
Protecting the integrity of the person
Article 18
Liberty of movement and nationality
a) Have the right to acquire and change a nationality and are not deprived of their nationality arbitrarily or on the basis of disability;
b) Are not deprived, on the basis of disability, of their ability to obtain, possess and utilize documentation of their nationality or other documentation of identification, or to utilize relevant processes such as immigration proceedings, that may be needed to facilitate exercise of the right to liberty of movement;
c) Are free to leave any country, including their own;
d) Are not deprived, arbitrarily or on the basis of disability, of the right to enter their own country.
2. Children with disabilities shall be registered immediately after birth and shall have the right from birth to a name, the right to acquire a nationality and, as far as possible, the right to know and be cared for by their parents.
Article 19
Living independently and being included in the community
a) Persons with disabilities have the opportunity to choose their place of residence and where and with whom they live on an equal basis with others and are not obliged to live in a particular living arrangement;
b) Persons with disabilities have access to a range of in-home, residential and other community support services, including personal assistance necessary to support living and inclusion in the community, and to prevent isolation or segregation from the community;
c) Community services and facilities for the general population are available on an equal basis to persons with disabilities and are responsive to their needs.
Article 20
Personal mobility
a) Facilitating the personal mobility of persons with disabilities in the manner and at the time of their choice, and at affordable cost;
b) Facilitating access by persons with disabilities to quality mobility aids, devices, assistive technologies and forms of live assistance and intermediaries, including by making them available at affordable cost;
c) Providing training in mobility skills to persons with disabilities and to speci-alist staff working with persons with disabilities;
d) Encouraging entities that produce mobility aids, devices and assistive techno-logies to take into account all aspects of mobility for persons with disabilities.
Article 21
Freedom of expression and opinion, and access to information
a) Providing information intended for the general public to persons with dis-abilities in accessible formats and technologies appropriate to different kinds of disabilities in a timely manner and without additional cost;
b) Accepting and facilitating the use of sign languages, Braille, augmentative and alternative communication, and all other accessible means, modes and formats of communication of their choice by persons with disabilities in official interactions;
c) Urging private entities that provide services to the general public, including through the Internet, to provide information and services in accessible and usable formats for persons with disabilities;
d) Encouraging the mass media, including providers of information through the Internet, to make their services accessible to persons with disabilities;
e) Recognizing and promoting the use of sign languages.
Article 22
Respect for privacy
2. States Parties shall protect the privacy of personal, health and rehabilitation information of persons with disabilities on an equal basis with others.
Article 23
Respect for home and the family
a) The right of all persons with disabilities who are of marriageable age to marry and to found a family on the basis of free and full consent of the intending spouses is recognized;
b) The rights of persons with disabilities to decide freely and responsibly on the number and spacing of their children and to have access to age-appropriate information, reproductive and family planning education are recognized, and the means necessary to enable them to exercise these rights are provided;
c) Persons with disabilities, including children, retain their fertility on an equal basis with others.
2. States Parties shall ensure the rights and responsibilities of persons with disabilities, with regard to guardianship, wardship, trusteeship, adoption of children or similar institutions, where these concepts exist in national legislation; in all cases the best interests of the child shall be paramount. States Parties shall render appropriate assistance to persons with disabilities in the performance of their child-rearing responsibilities.
3. States Parties shall ensure that children with disabilities have equal rights with respect to family life. With a view to realizing these rights, and to prevent concealment, abandonment, neglect and segregation of children with disabilities, States Parties shall undertake to provide early and comprehensive information, services and support to children with disabilities and their families.
4. States Parties shall ensure that a child shall not be separated from his or her parents against their will, except when competent authorities subject to judicial review determine, in accordance with applicable law and procedures, that such separation is necessary for the best interests of the child. In no case shall a child be separated from parents on the basis of a disability of either the child or one or both of the parents.
5. States Parties shall, where the immediate family is unable to care for a child with disabilities, undertake every effort to provide alternative care within the wider family, and failing that, within the community in a family setting.
Article 24
Education
a) The full development of human potential and sense of dignity and self-worth, and the strengthening of respect for human rights, fundamental freedoms and human diversity;
b) The development by persons with disabilities of their personality, talents and creativity, as well as their mental and physical abilities, to their fullest potential;
c) Enabling persons with disabilities to participate effectively in a free society.
2. In realizing this right, States Parties shall ensure that:
a) Persons with disabilities are not excluded from the general education system on the basis of disability, and that children with disabilities are not excluded from free and compulsory primary education, or from secondary education, on the basis of disability;
b) Persons with disabilities can access an inclusive, quality and free primary education and secondary education on an equal basis with others in the communities in which they live;
c) Reasonable accommodation of the individual's requirements is provided;
d) Persons with disabilities receive the support required, within the general education system, to facilitate their effective education;
e) Effective individualized support measures are provided in environments that maximize academic and social development, consistent with the goal of full inclusion.
3. States Parties shall enable persons with disabilities to learn life and social development skills to facilitate their full and equal participation in education and as members of the community. To this end, States Parties shall take appropriate measures, including:
a) Facilitating the learning of Braille, alternative script, augmentative and alternative modes, means and formats of communication and orientation and mobility skills, and facilitating peer support and mentoring;
b) Facilitating the learning of sign language and the promotion of the linguistic identity of the deaf community;
c) Ensuring that the education of persons, and in particular children, who are blind, deaf or deafblind, is delivered in the most appropriate languages and modes and means of communication for the individual, and in environments which maximize academic and social development.
4. In order to help ensure the realization of this right, States Parties shall take appropriate measures to employ teachers, including teachers with disabilities, who are qualified in sign language and/or Braille, and to train professionals and staff who work at all levels of education. Such training shall incorporate disability awareness and the use of appropriate augmentative and alternative modes, means and formats of communication, educational techniques and materials to support persons with disabilities.
5. States Parties shall ensure that persons with disabilities are able to access general tertiary education, vocational training, adult education and lifelong learning without discrimination and on an equal basis with others. To this end, States Parties shall ensure that reasonable accommodation is provided to persons with disabilities.
Article 25
Health
a) Provide persons with disabilities with the same range, quality and standard of free or affordable health care and programmes as provided to other persons, including in the area of sexual and reproductive health and population-based public health programmes;
b) Provide those health services needed by persons with disabilities specifically because of their disabilities, including early identification and intervention as appropriate, and services designed to minimize and prevent further disabilities, including among children and older persons;
c) Provide these health services as close as possible to people's own communities, including in rural areas;
d) Require health professionals to provide care of the same quality to persons with disabilities as to others, including on the basis of free and informed consent by, inter alia, raising awareness of the human rights, dignity, autonomy and needs of persons with disabilities through training and the promulgation of ethical standards for public and private health care;
e) Prohibit discrimination against persons with disabilities in the provision of health insurance, and life insurance where such insurance is permitted by national law, which shall be provided in a fair and reasonable manner;
f) Prevent discriminatory denial of health care or health services or food and fluids on the basis of disability.
Article 26
Habilitation and rehabilitation
a) Begin at the earliest possible stage, and are based on the multidisciplinary assessment of individual needs and strengths;
b) Support participation and inclusion in the community and all aspects of society, are voluntary, and are available to persons with disabilities as close as possible to their own communities, including in rural areas.
2. States Parties shall promote the development of initial and continuing training for professionals and staff working in habilitation and rehabilitation services.
3. States Parties shall promote the availability, knowledge and use of assistive devices and technologies, designed for persons with disabilities, as they relate to habilitation and rehabilitation.
Article 27
Work and employment
a) Prohibit discrimination on the basis of disability with regard to all matters concerning all forms of employment, including conditions of recruitment, hiring and employment, continuance of employment, career advancement and safe and healthy working conditions;
b) Protect the rights of persons with disabilities, on an equal basis with others, to just and favourable conditions of work, including equal opportunities and equal remuneration for work of equal value, safe and healthy working conditions, including protection from harassment, and the redress of grievances;
c) Ensure that persons with disabilities are able to exercise their labour and trade union rights on an equal basis with others;
d) Enable persons with disabilities to have effective access to general technical and vocational guidance programmes, placement services and vocational and continuing training;
e) Promote employment opportunities and career advancement for persons with disabilities in the labour market, as well as assistance in finding, obtaining, maintaining and returning to employment;
f) Promote opportunities for self-employment, entrepreneurship, the development of cooperatives and starting one's own business;
g) Employ persons with disabilities in the public sector;
h) Promote the employment of persons with disabilities in the private sector through appropriate policies and measures, which may include affirmative action programmes, incentives and other measures;
i) Ensure that reasonable accommodation is provided to persons with disabilities in the workplace;
j) Promote the acquisition by persons with disabilities of work experience in the open labour market;
k) Promote vocational and professional rehabilitation, job retention and return-to-work programmes for persons with disabilities.
2. States Parties shall ensure that persons with disabilities are not held in slavery or in servitude, and are protected, on an equal basis with others, from forced or compulsory labour.
Article 28
Adequate standard of living and social protection
2. States Parties recognize the right of persons with disabilities to social protection and to the enjoyment of that right without discrimination on the basis of disability, and shall take appropriate steps to safeguard and promote the realization of this right, including measures:
a) To ensure equal access by persons with disabilities to clean water services, and to ensure access to appropriate and affordable services, devices and other assistance for disability-related needs;
b) To ensure access by persons with disabilities, in particular women and girls with disabilities and older persons with disabilities, to social protection programmes and poverty reduction programmes;
c) To ensure access by persons with disabilities and their families living in situations of poverty to assistance from the State with disability-related expenses, including adequate training, counselling, financial assistance and respite care;
d) To ensure access by persons with disabilities to public housing programmes;
e) To ensure equal access by persons with disabilities to retirement benefits and programmes.
Article 29
Participation in political and public life
a) Ensure that persons with disabilities can effectively and fully participate in political and public life on an equal basis with others, directly or through freely chosen representatives, including the right and opportunity for persons with disabilities to vote and be elected, inter alia, by:
i. Ensuring that voting procedures, facilities and materials are appropriate, accessible and easy to understand and use;
ii. Protecting the right of persons with disabilities to vote by secret ballot in elections and public referendums without intimidation, and to stand for elections, to effectively hold office and perform all public functions at all levels of government, facilitating the use of assistive and new technologies where appropriate;
iii. Guaranteeing the free expression of the will of persons with disabilities as electors and to this end, where necessary, at their request, allowing assistance in voting by a person of their own choice;
b) Promote actively an environment in which persons with disabilities can effectively and fully participate in the conduct of public affairs, without discrimination and on an equal basis with others, and encourage their participation in public affairs, including:
i. Participation in non-governmental organizations and associations concerned with the public and political life of the country, and in the activities and administration of political parties;
ii. Forming and joining organizations of persons with disabilities to represent persons with disabilities at international, national, regional and local levels.
Article 30
Participation in cultural life, recreation, leisure and sport
a) Enjoy access to cultural materials in accessible formats;
b) Enjoy access to television programmes, films, theatre and other cultural activities, in accessible formats;
c) Enjoy access to places for cultural performances or services, such as theatres, museums, cinemas, libraries and tourism services, and, as far as possible, enjoy access to monuments and sites of national cultural importance.
2. States Parties shall take appropriate measures to enable persons with disabilities to have the opportunity to develop and utilize their creative, artistic and intellectual potential, not only for their own benefit, but also for the enrichment of society.
3. States Parties shall take all appropriate steps, in accordance with international law, to ensure that laws protecting intellectual property rights do not constitute an unreason-able or discriminatory barrier to access by persons with disabilities to cultural materials.
4. Persons with disabilities shall be entitled, on an equal basis with others, to recognition and support of their specific cultural and linguistic identity, including sign languages and deaf culture.
5. With a view to enabling persons with disabilities to participate on an equal basis with others in recreational, leisure and sporting activities, States Parties shall take appropriate measures:
a) To encourage and promote the participation, to the fullest extent possible, of persons with disabilities in mainstream sporting activities at all levels;
b) To ensure that persons with disabilities have an opportunity to organize, develop and participate in disability-specific sporting and recreational activities and, to this end, encourage the provision, on an equal basis with others, of ap-propriate instruction, training and resources;
c) To ensure that persons with disabilities have access to sporting, recreational and tourism venues;
d) To ensure that children with disabilities have equal access with other children to participation in play, recreation and leisure and sporting activities, including those activities in the school system;
e) To ensure that persons with disabilities have access to services from those in-volved in the organization of recreational, tourism, leisure and sporting acti-vities.
Article 31
Statistics and data collection
a) Comply with legally established safeguards, including legislation on data protection, to ensure confidentiality and respect for the privacy of persons with disabilities;
b) Comply with internationally accepted norms to protect human rights and fundamental freedoms and ethical principles in the collection and use of statistics.
2. The information collected in accordance with this article shall be disaggregated, as appropriate, and used to help assess the implementation of States Parties' obligations under the present Convention and to identify and address the barriers faced by persons with disabilities in exercising their rights.
3. States Parties shall assume responsibility for the dissemination of these statistics and ensure their accessibility to persons with disabilities and others.
Article 32
International cooperation
a) Ensuring that international cooperation, including international development programmes, is inclusive of and accessible to persons with disabilities;
b) Facilitating and supporting capacity-building, including through the exchange and sharing of information, experiences, training programmes and best practices;
c) Facilitating cooperation in research and access to scientific and technical knowledge;
d) Providing, as appropriate, technical and economic assistance, including by facilitating access to and sharing of accessible and assistive technologies, and through the transfer of technologies.
2. The provisions of this article are without prejudice to the obligations of each State Party to fulfil its obligations under the present Convention.
Article 33
National implementation and monitoring
2. States Parties shall, in accordance with their legal and administrative systems, maintain, strengthen, designate or establish within the State Party, a framework, including one or more independent mechanisms, as appropriate, to promote, protect and monitor implementation of the present Convention. When designating or establishing such a mechanism, States Parties shall take into account the principles relating to the status and functioning of national institutions for protection and promotion of human rights.
3. Civil society, in particular persons with disabilities and their representative organizations, shall be involved and participate fully in the monitoring process.
Article 34
Committee on the Rights of Persons with Disabilities
2. The Committee shall consist, at the time of entry into force of the present Convention, of twelve experts. After an additional sixty ratifications or accessions to the Convention, the membership of the Committee shall increase by six members, attaining a maximum number of eighteen members.
3. The members of the Committee shall serve in their personal capacity and shall be of high moral standing and recognized competence and experience in the field covered by the present Convention. When nominating their candidates, States Parties are invited to give due consideration to the provision set out in article 4.3 of the present Convention.
4. The members of the Committee shall be elected by States Parties, consideration being given to equitable geographical distribution, representation of the different forms of civilization and of the principal legal systems, balanced gender representation and participation of experts with disabilities.
5. The members of the Committee shall be elected by secret ballot from a list of persons nominated by the States Parties from among their nationals at meetings of the Conference of States Parties. At those meetings, for which two thirds of States Parties shall constitute a quorum, the persons elected to the Committee shall be those who obtain the largest number of votes and an absolute majority of the votes of the representatives of States Parties present and voting.
6. The initial election shall be held no later than six months after the date of entry into force of the present Convention. At least four months before the date of each election, the Secretary-General of the United Nations shall address a letter to the States Parties inviting them to submit the nominations within two months. The Secretary-General shall subsequently prepare a list in alphabetical order of all persons thus nominated, indicating the State Parties which have nominated them, and shall submit it to the States Parties to the present Convention.
7. The members of the Committee shall be elected for a term of four years. They shall be eligible for reelection once. However, the term of six of the members elected at the first election shall expire at the end of two years; immediately after the first election, the names of these six members shall be chosen by lot by the chairperson of the meeting referred to in paragraph 5 of this article.
8. The election of the six additional members of the Committee shall be held on the occasion of regular elections, in accordance with the relevant provisions of this article.
9. If a member of the Committee dies or resigns or declares that for any other cause she or he can no longer perform her or his duties, the State Party which nominated the member shall appoint another expert possessing the qualifications and meeting the requirements set out in the relevant provisions of this article, to serve for the remainder of the term.
10. The Committee shall establish its own rules of procedure.
11. The Secretary-General of the United Nations shall provide the necessary staff and facilities for the effective performance of the functions of the Committee under the present Convention, and shall convene its initial meeting.
12. With the approval of the General Assembly, the members of the Committee established under the present Convention shall receive emoluments from United Nations resources on such terms and conditions as the Assembly may decide, having regard to the importance of the Committee's responsibilities.
13. The members of the Committee shall be entitled to the facilities, privileges and immunities of experts on mission for the United Nations as laid down in the relevant sections of the Convention on the Privileges and Immunities of the United Nations.
Article 35
Reports by States Parties
2. Thereafter, States Parties shall submit subsequent reports at least every four years and further whenever the Committee so requests.
3. The Committee shall decide any guidelines applicable to the content of the reports.
4. A State Party which has submitted a comprehensive initial report to the Committee need not, in its subsequent reports, repeat information previously provided. When preparing reports to the Committee, States Parties are invited to consider doing so in an open and transparent process and to give due consideration to the provision set out in article 4.3 of the present Convention.
5. Reports may indicate factors and difficulties affecting the degree of fulfilment of obligations under the present Convention.
Article 36
Consideration of reports
2. If a State Party is significantly overdue in the submission of a report, the Committee may notify the State Party concerned of the need to examine the implementation of the present Convention in that State Party, on the basis of reliable information available to the Committee, if the relevant report is not submitted within three months following the notification. The Committee shall invite the State Party concerned to participate in such examination. Should the State Party respond by submitting the relevant report, the provisions of paragraph 1 of this article will apply.
3. The Secretary-General of the United Nations shall make available the reports to all States Parties.
4. States Parties shall make their reports widely available to the public in their own countries and facilitate access to the suggestions and general recommendations relating to these reports.
5. The Committee shall transmit, as it may consider appropriate, to the specialized agencies, funds and programmes of the United Nations, and other competent bodies, reports from States Parties in order to address a request or indication of a need for technical advice or assistance contained therein, along with the Committee's observations and recommendations, if any, on these requests or indications.
Article 37
Cooperation between States Parties and the Committee
2. In its relationship with States Parties, the Committee shall give due consideration to ways and means of enhancing national capacities for the implementation of the present Convention, including through international cooperation.
Article 38
Relationship of the Committee with other bodies
a) The specialized agencies and other United Nations organs shall be entitled to be represented at the consideration of the implementation of such provisions of the present Convention as fall within the scope of their mandate. The Com-mittee may invite the specialized agencies and other competent bodies as it may consider appropriate to provide expert advice on the implementation of the Convention in areas falling within the scope of their respective mandates. The Committee may invite specialized agencies and other United Nations organs to submit reports on the implementation of the Convention in areas falling within the scope of their activities;
b) The Committee, as it discharges its mandate, shall consult, as appropriate, other relevant bodies instituted by international human rights treaties, with a view to ensuring the consistency of their respective reporting guidelines, suggestions and general recommendations, and avoiding duplication and over-lap in the performance of their functions.
Article 39
Report of the Committee
Article 40
Conference of States Parties
2. No later than six months after the entry into force of the present Convention, the Conference of the States Parties shall be convened by the Secretary-General of the United Nations. The subsequent meetings shall be convened by the Secretary-General of the United Nations biennially or upon the decision of the Conference of States Parties.
Article 41
Depositary
Article 42
Signature
Article 43
Consent to be bound
Article 44
Regional integration organizations
2. References to "States Parties" in the present Convention shall apply to such organizations within the limits of their competence.
3. For the purposes of article 45, paragraph 1, and article 47, paragraphs 2 and 3, any instrument deposited by a regional integration organization shall not be counted.
4. Regional integration organizations, in matters within their competence, may exercise their right to vote in the Conference of States Parties, with a number of votes equal to the number of their member States that are Parties to this Convention. Such an organization shall not exercise its right to vote if any of its member States exercises its right, and vice versa.
Article 45
Entry into force
2. For each State or regional integration organization ratifying, formally confirming or acceding to the Convention after the deposit of the twentieth such instrument, the Convention shall enter into force on the thirtieth day after the deposit of its own such instrument.
Article 46
Reservations
2. Reservations may be withdrawn at any time.
Article 47
Amendments
2. An amendment adopted and approved in accordance with paragraph 1 of this article shall enter into force on the thirtieth day after the number of instruments of acceptance deposited reaches two thirds of the number of States Parties at the date of adoption of the amendment. Thereafter, the amendment shall enter into force for any State Party on the thirtieth day following the deposit of its own instrument of acceptance. An amendment shall be binding only on those States Parties which have accepted it.
3. If so decided by the Conference of States Parties by consensus, an amendment adopted and approved in accordance with paragraph 1 of this article which relates exclusively to articles 34, 38, 39 and 40 shall enter into force for all States Parties on the thirtieth day after the number of instruments of acceptance deposited reaches two thirds of the number of States Parties at the date of adoption of the amendment.
Article 48
Denunciation
Article 49
Accessible format
Article 50
Authentic texts
In witness thereof the undersigned plenipotentiaries, being duly authorized thereto by their respective Governments, have signed the present Convention.