Ferill 764. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1640  —  764. mál.
Nr. 56/145.


Þingsályktun

um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019.


    Alþingi ályktar skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, að samþykkja eftirfarandi framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019:

A. STJÓRNSÝSLAN
1. Jafnréttissjóður Íslands.
    Varið verði 100 millj. kr. af fjárlögum árlega til Jafnréttissjóðs Íslands. Jafnréttissjóður Íslands fjármagni eða styrki verkefni sem eru til þess fallin að efla jafnrétti kynjanna í ís­lensku samfélagi og á alþjóðavísu. Stjórn Jafnréttissjóðs Íslands auglýsi eftir umsóknum um styrki og úthluti þessu fé í samræmi við þingsályktun 13/144.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 100 millj. kr. á ári.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

2. Framkvæmdasjóður jafnréttismála.
    Varið verði 30 millj. kr. samtals af fjárlögum tímabundið til þriggja ára, 2017–2019, 10 millj. kr. árlega, til jafnréttisverkefna á vegum ráðuneyta til að nýta niðurstöður, reynslu og þekkingu eða innleiða tillögur sem telja má til afraksturs verkefna í framkvæmdaáætlun ríkis­stjórnarinnar. Velferðarráðuneytið úthluti þessu fé að fengnum tillögum annarra ráðuneyta. Viðmið við úthlutun verði kynnt ráðuneytum fyrir árslok 2016.
    Tímaáætlun: 2017–2019.
    Kostnaðaráætlun: 30 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

3. Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins, ráðuneyta og stofnana.
    Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins sem gerð er í samræmi við 2. mgr. 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, og jafnréttisáætlanir einstakra ráðuneyta verði endurskoðaðar á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar. Við endurskoðun jafnréttis­áætlana verði tekið mið af jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact. Jafnréttis­fulltrúar ráðuneytanna hafi umsjón með endurskoðun og eftirfylgni jafnréttisáætlana í umboði ráðuneytisstjóra og í samstarfi við Jafnréttisstofu.
    Tímaáætlun: Árslok 2016.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda ráðuneytanna.
    Ábyrgð: Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta og velferðarráðuneytið.

4. Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta.
    Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna vinni að kynjasamþættingu á málefnasviði hlutaðeigandi ráðuneytis. Enn fremur fjalli jafnréttisfulltrúar um jafnréttisstarf og hafi eftirlit með jafn­réttisstarfi á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis og stofnana þess. Þar á meðal komi þeir að gerð og endurskoðun jafnréttisáætlana ráðuneyta og gæti þess að allar skýrslur og rannsóknir sem gerðar eru á vegum hlutaðeigandi ráðuneytis eða stofnana séu kyngreindar.
    Jafnréttisfulltrúar afli sér þekkingar á sviði jafnréttismála og starfi eftir samþykktri starfs- og fræðsluáætlun.
    Starf jafnréttisfulltrúa feli m.a. í sér:
     a.      Að útbúa starfsáætlun jafnréttisfulltrúa allra ráðuneyta með mælikvörðum sem verði tilbúnir innan hálfs árs frá gildistöku framkvæmdaáætlunarinnar.
     b.      Að fylgja eftir verkefnum framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og skila framvinduskýrslum til Jafnréttisstofu. Gera skal grein fyrir stöðu verkefna í skýrslu ráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála sem lögð er fyrir Jafnréttisþing sem haldið er annað hvert ár.
     c.      Að móta heildstæða áætlun um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnu­mótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og stofnana ríkisins.
     d.      Að vinna að samræmingu á rafrænni skráningu ráðuneytanna á skipan í nefndir, ráð og stjórnir til að auðvelda eftirlit með 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr. til fræðslu jafnréttisfulltrúa og 300 þús. kr. til aðlögunar tölvukerfis.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

5. Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða.
    Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna móti í samstarfi við Jafnréttisstofu og undir forystu vel­ferðarráðuneytisins heildstæða áætlun til fjögurra ára um samþættingu kynja- og jafnréttis­sjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og stofnana ríkisins. Skipuð verði formlega verkefnisstjórn um verkefnið sem gert verði kleift að ráða sér starfsmann.
    Áætlunin taki mið af þeim samþættingarverkefnum sem þegar hafa verið unnin í ráðuneyt­unum, m.a. í tengslum við fyrri framkvæmdaáætlanir ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og áætlanir um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð.
    Í áætluninni felist m.a.:
     a.      Tillögur um innleiðingu kynjasamþættingar í starfsemi ráðuneytanna og stofnana ríkis­ins.
     b.      Tillögur um verkefni á málefnasviði hvers ráðuneytis sem tilraunaverkefni fyrsta árið og síðan ný verkefni á hverju ári.
     c.      Tillögur um gátlista um jafnréttismál sem fylgi stjórnarfrumvörpum og innleiðingu verk­ferlis við jafnréttismat.
     d.      Tillögur um fyrirliggjandi kyngreindar upplýsingar til stuðnings stefnumörkun og ákvörðunum. Greint verði á hvaða sviðum reglulegri upplýsingaöflun er ábótavant og úrbætur gerðar.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 4 millj. kr. til framkvæmdar verkefna auk launa sérfræðings.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

6. Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð.
    Unnið verði að kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð samkvæmt innleiðingaráætlun til fimm ára. Fjármála- og efnahagsráðuneytið beri ábyrgð á verkefninu og skal því stýrt af verkefnis­stjórn sem skipuð er fulltrúum allra ráðuneyta auk fulltrúa Jafnréttisstofu. Gerð verði grein fyrir stöðu verkefna í fjárlagafrumvarpi hvers árs. Verkefnisstjóri geri tillögur um eftirfylgni innleiðingaráætlunar með mælikvörðum fyrir öll ráðuneyti og vinni í nánu samstarfi við verk­efnisstjórn um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða.
    Tímaáætlun: Viðvarandi verkefni.
    Kostnaðaráætlun: Laun sérfræðings í hálfu starfi.
    Ábyrgð: Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna og fjármála- og efnahagsráðuneytið.

7. Úttekt á jafnréttislögum og stjórnsýslu jafnréttismála.
    Skipaður verði starfshópur sérfræðinga sem stýri úttekt á þróun, framkvæmd og eftirfylgni íslenskrar jafnréttislöggjafar og stjórnsýslu jafnréttismála. Kannað verði hvort markmið nú­gildandi laga og stjórnsýsla jafnréttismála sé í samræmi við alþjóðlega þróun og breytingar í íslensku samfélagi. Starfshópur skili skýrslu til ráðherra um niðurstöður sínar og leggi fram tillögur um úrbætur.
    Tímaáætlun: 2016–2018.
    Kostnaðaráætlun: 4 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

B. VINNUMARKAÐUR – LAUNAJAFNRÉTTI KYNJA
8. Jafnrétti á vinnumarkaði og launajafnrétti kynja.
    Á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar verði áfram unnið að framkvæmd og eftirfylgni þeirra verkefna sem tilgreind eru í aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynja. Í lok 2016 verði metið hvort verkefni aðgerðaáætlunarinnar hafi náð markmiðum sínum. Verkefni á sviði launajafnréttismála feli m.a. í sér eftirfarandi:
     a.      Skipunartími framkvæmdanefndar um launajafnrétti verði framlengdur til 2019.
     b.      Unnið verði að útbreiðslu og innleiðingu staðalsins ÍST 85:2012, jafnlaunakerfi, kröfur og leiðbeiningar.
     c.      Fram fari markvisst kynningarstarf á faggildri vottun jafnlaunakerfa samkvæmt reglu­gerð nr. 929/2014, um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli stað­alsins ÍST 85:2012.
     d.      Velferðarráðuneytið safni upplýsingum um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana og birti yfirlit í skýrslu ráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála sem gefin er út annað hvert ár.
     e.      Rannsóknarverkefnum aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launa­jafnrétti verði fylgt eftir með vitundar- og kynningarátaki stjórnvalda um aðgerðir gegn kynbundnum launamun.
     f.      Ríkisstjórnin samþykki að halda árlega jafnlaunadag sem nýttur verði til vitundarvakn­ingar um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði.
     g.      Unnin verði framkvæmdaáætlun um leiðir til að brjóta upp kynbundið náms- og starfs­val. Sérstaklega verði hugað að því að fjölga konum í iðngreinum, verk- og raunvísind­um og körlum í umönnunar- og kennslustörfum.
     h.      Unnin verði framkvæmdaáætlun um leiðir til samræmingar fjölskyldu- og atvinnulífs.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 7 millj. kr. árlega.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið í samstarfi við atvinnu­vega- og nýsköpunarráðuneytið, forsætisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðu­neytið.

9. Fæðingarorlof.
    Megintillögur starfshóps að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum verði nýttar sem leiðarljós við endurreisn fæðingarorlofskerfisins. Unnið verði að því að brúa bilið milli fæð­ingarorlofs og leikskólavistar.
    Tímaáætlun: 2016–2021.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

10. Lánatryggingasjóður kvenna.
    Starfsemi Svanna – lánatryggingasjóðs kvenna verði fram haldið. Markmið sjóðsins verði áfram að styðja nýsköpun í atvinnurekstri kvenna með því að veita ábyrgðir á lánum. Verk­efnið verði unnið í samstarfi við fjármálastofnanir og aðila sem veita ráðgjöf og handleiðslu við framkvæmd verkefna.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 60 millj. kr. Fjármagn er til í sjóði.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í samstarfi við Reykjavíkurborg.

C. KYN OG LÝÐRÆÐI
11. Kyn og fjölmiðlar.
    Á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar beiti mennta- og menningarmálaráðuneytið sér fyrir framkvæmd könnunar á aðgengi og birtingarmyndum kvenna og karla, stúlkna og drengja í fjölmiðlum og vinni að stefnumótun á þessu sviði.
    Verkefnið felist m.a. í eftirfarandi:
     a.      Að kanna aðgengi kvenna og karla að mismunandi fjölmiðlaefni.
     b.      Að kanna hvort og þá hvernig umfjöllun um konur og karla sé lituð af staðalmyndum um kynhlutverk.
     c.      Að kanna umfang og eðli kynbundinnar hatursorðræðu í fjölmiðlum.
     d.      Að vinna að stefnumótun og vitundarvakningu meðal fjölmiðla.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 4 millj. kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

12. Greining á stöðu flóttamanna og hælisleitenda út frá kyni og jafnrétti kynja.
    Innanríkisráðuneytið beri á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar ábyrgð á framkvæmd rannsóknar um stöðu hælisleitenda og flóttamanna út frá jafnréttis- og mannréttindasjónar­miðum.
    Verkefnið felist m.a. í eftirfarandi:
     a.      Að kanna hvort fullnægjandi tillit sé tekið til jafnréttis- og mannréttindasjónarmiða í íslenskri löggjöf og framkvæmd, m.a. með hliðsjón af kyni, kynhneigð eða kynímynd, viðkvæmum einstaklingum, þolendum ofbeldisbrota og mansals.
     b.      Að setja fram tillögur að úrbótum til að tryggja hælisleitendum og flóttamönnum sann­gjarna málsmeðferð og viðeigandi vernd.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 3,5 millj. kr.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneytið.

D. KYNBUNDIÐ OFBELDI OG OFBELDI Í NÁNUM SAMBÖNDUM
13. Samstarfsverkefni þriggja ráðherra um aðgerðir gegn ofbeldi.
    Velferðarráðuneytið hafi yfirumsjón með samstarfsverkefni þriggja ráðuneyta um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Markmið verkefnisins verði að bæta samvinnu og verklag við ofbeldisforvarnir og að styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála. Auk samvinnu milli stofnana verði rík áhersla lögð á samvinnu við frjáls félagasamtök.
    Verkefnið feli m.a. í sér:
     a.      Að efna til samráðs á landsvísu með það að markmiði að bæta samvinnu og verklag við ofbeldisforvarnir og styrkja samstarf við rannsókn mála.
     b.      Að undirbúa á vettvangi landssamráðsins aðgerðaáætlun til fjögurra ára.
     c.      Að efla getu og hæfni lögreglu við uppljóstrun ofbeldisbrota svo tryggja megi skjóta og örugga málsmeðferð.
     d.      Að auka þjálfun og menntun innan réttarvörslukerfisins.
     e.      Að styrkja velferðarþjónustuna við að veita þolendum ofbeldis uppbyggilegan stuðning og vernd.
     f.      Að veita gerendum ofbeldis aðstoð við að horfast í augu við vanda sinn og takast á við hann svo að draga megi úr ofbeldi.
     g.      Að auka fræðslu- og forvarnastarf sem byggist á rannsóknum og faglegri þekkingu.
    Tímaáætlun: 2016–2018.
    Kostnaðaráætlun: 4 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

14. Heimilisfriður.
    Meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem beita ofbeldi í nánum samböndum, sem sálfræð­ingar hafa veitt um árabil samkvæmt samningi við stjórnvöld, verði endurskoðað á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar. Endurskoðun hafi að markmiði að verkefnið bjóði upp á sér­hæfða þjónustu fyrir konur og karla sem beitt hafa ofbeldi í nánum samböndum. Efnt verði til útboðs um þjónustuna á grundvelli kröfulýsingar og í framhaldi verði gerður þjónustu­samningur til reynslu í tvö ár. Í þjónustusamningi verði m.a. gerð krafa um sérþekkingu starfsfólks á málaflokknum, reglulega miðlun upplýsinga til ráðuneytisins og möguleika á bæði einstaklings- og hópmeðferð.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 12 millj. kr. árlega.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

E. JAFNRÉTTI Í SKÓLASTARFI
15. Jafnrétti í skólastarfi.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar yfir­umsjón með eftirfarandi verkefnum:
     a.      Eflingu jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum þar sem áhersla verði lögð m.a. á jöfn tækifæri til starfsnáms.
     b.      Að jafna þátttöku kynja í félagslífi framhaldsskólanna.
     c.      Að koma á samstarfi við jafnréttisnefnd Kennarasambands Íslands um leiðir til að efla jafnréttisstarf í leik-, grunn- og framhaldsskólum.
     d.      Gerð aðgerðaáætlunar til að jafna kynjahlutfall starfsfólks skóla á öllum skólastigum.
     e.      Að efla samstarf jafnréttisfulltrúa íslenskra háskóla með árlegum fræðslufundum sem ráðuneytið sjái um.
     f.      Framkvæmd rannsóknar á stöðu kynjamenningar í háskólum.
     g.      Gerð aðgerðaáætlunar gegn mismunun og staðalmyndum í háskólasamfélaginu.
     h.      Að hvetja háskóla til að innleiða kynjafræði í grunnnám kennaranema og starfandi kenn­urum bjóðist námskeið í kynjafræðum.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 7,5 millj. kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

16. Jafnrétti við úthlutanir úr sjóðum á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis.
    Í framhaldi af tilraunaverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins í kynjaðri hag­stjórn og fjárlagagerð um útdeilingu fjármagns úr opinberum samkeppnissjóðum verði niður­stöðum fylgt eftir, m.a. með því að breyta umsóknar- og vinnureglum sjóðanna til að gæta jafnréttis og uppfylla kröfur um jafnt aðgengi kynja að fjármagni. Jafnframt verði unnið að því að tryggja jafnt aðgengi kvenna og karla að listamannalaunum og úthlutunum úr Kvik­myndasjóði.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 1,5 millj. kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

17. Þátttaka kvenna í íþróttastarfi.
    Á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar verði þátttaka kvenna í íþróttum efld. Aðgerðir miði að því að konur hætti síður iðkun íþrótta á unglingsárum, taki þátt í stjórnum íþrótta­félaga til jafns við karla, verði virkari sem þjálfarar og dómarar sem og í öllu íþróttastarfi. Umfjöllun um íþróttir í fjölmiðlum verði skoðuð.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

F. KARLAR OG JAFNRÉTTI
18. Karlar og jafnrétti.
    Tillögum nefndar um karla og jafnrétti sem skipuð var á grundvelli framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum 2011–2014 verði hrint í framkvæmd. Markmið stefnumótunar og verkefna verði að auka hlut drengja og karla í öllu jafnréttisstarfi og kanna hvernig stefnumótun á sviði jafnréttismála geti betur tekið mið af samfélagslegri stöðu karla. Skipa skal formlega að­gerðahóp um verkefnið. Með hópnum starfi sérfræðingur á sviði jafnréttismála í velferðar­ráðuneytinu.
    Helstu verkefni á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar felist m.a. í eftirfarandi:
     a.      Að kanna hvernig auðvelda megi körlum samhæfingu ábyrgðar á fjölskyldu- og atvinnu­lífi.
     b.      Að efna til vitundarvakningar um áhrif karlmennskuhugmynda á heilsu og lífsgæði karla. Hugað verði sérstaklega að því hvort karlar fari á mis við þjónustu í heilbrigðis­kerfinu.
     c.      Að rannsaka áhrif staðalmynda og karlmennskuhugmynda á náms- og starfsval drengja.
     d.      Að kanna tengsl milli námsvals og brottfalls drengja úr framhaldsskólum og háskólum.
     e.      Að mennta- og menningarmálaráðuneytið, velferðarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga undirbúi og hrindi í framkvæmd sérstöku átaksverkefni með það að mark­miði að fjölga körlum í umönnunar- og kennslustörfum á grundvelli framkvæmdaáætl­unar um uppbrot hins kynskipta vinnumarkaðar.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 3 millj. kr. árlega.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

19. Þátttaka karla í jafnréttismálum.
    Utanríkisráðuneytið leggi áherslu á hlutverk karla í jafnréttismálum á alþjóðavettvangi.
    Í því felist m.a. eftirfarandi:
     a.      Að haldnar verði rakarastofuráðstefnur hjá alþjóðastofnunum sem Ísland er aðili að í þeim tilgangi að fá karla til að axla ábyrgð á kynjajafnrétti.
     b.      Að halda uppi málflutningi af hálfu Íslands um þetta málefni hjá alþjóðastofnunum sem Ísland á aðild að og í tvíhliða samskiptum við önnur ríki.
     c.      Að hvetja íslenska karlmenn til að taka undir markmið HeForShe-herferðar UN Women í samræmi við skuldbindingar Íslands í IMPACT-átaki UN Women.
     d.      Að efla samvinnu innan íslenska stjórnkerfisins og við frjáls félagasamtök.
    Tímaáætlun: 2016–2017.
    Kostnaðaráætlun: 6 millj. kr.
    Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.

G. ALÞJÓÐASTARF
20. Staða jafnréttismála á norðurslóðum.
    Umræða um jafnréttismál á norðurslóðum verði efld og kastljósinu beint að stöðu kvenna og karla þar.
    Helstu verkefni á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar felist m.a. í eftirfarandi:
     a.      Eftirfylgni alþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin var í október 2014, á vegum utanríkis­ráðuneytisins, í samvinnu við Jafnréttisstofu, norðurslóðanet Íslands og samstarfsríki innan Norðurskautsráðsins, um stöðu kynjanna á norðurslóðum.
     b.      Stofnun alþjóðlegs samstarfsnets um jafnréttismál á norðurslóðum og uppsetningu vef­gáttar til að tengja saman ólíka hagsmunaaðila.
     c.      Að Ísland leggi áfram áherslu á jafnréttismál á vettvangi Norðurskautsráðsins á komandi árum sem byggist á niðurstöðum fyrrnefndrar ráðstefnuskýrslu.
    Tímaáætlun: 2016–2017.
    Kostnaðaráætlun: Að fullu fjármagnað.
    Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.

21. Kyn og loftslag.
    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og utanríkisráðuneytið fylgi eftir áherslum um mikil­vægi kynjasjónarmiða í nýju alþjóðlegu samkomulagi um loftslagsmál.
    Verkefnið felist m.a. í eftirfarandi:
     a.      Að lögð verði áhersla á að alþjóðleg verkefni á sviði þróunarsamvinnu, sem Ísland veitir fjármagn til á sviði loftslagsmála, stuðli að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna.
     b.      Að samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða verði gætt við úthlutun fjármagns til verkefna á sviði loftslagsmála.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: Að fullu fjármagnað.
    Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.

Samþykkt á Alþingi 7. september 2016.