Ferill 638. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1683 — 638. mál.
Síðari umræða.
Nefndarálit
um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018.
Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.
Minni hluti nefndarinnar lýsir yfir stuðningi við breytingartillögur meiri hlutans en vill þó koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum ásamt því að leggja til frekari breytingar á samgönguáætlun.
Minni hlutinn gagnrýnir harðlega lág framlög til samgöngumála á þessu kjörtímabili og þann drátt sem orðið hefur á afgreiðslu samgönguáætlunar. Minni hlutinn telur ört vaxandi álag á vegakerfi landsins, m.a. vegna hraðrar aukningar á fjölda ferðamanna sem koma til landsins, kalla á önnur og meiri viðbrögð stjórnvalda en lögð eru til í þeirri samgönguáætlun sem hér er til umfjöllunar.
Framlög til samgöngumála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu 2006–2015.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Framlög til samgöngumála námu ríflega 2,5% af vergri landsframleiðslu þegar best lét, árið 2008. Síðan þá hefur hlutfall þetta haldist í sögulegu lágmarki í kringum 1,1–1,3% undanfarin ár. Auðsjáanlega hafa framlög til samgöngumála ekki fylgt almennum uppgangi í efnahagslífinu undanfarin ár og enn síður stórauknum ferðamannastraumi. Eftirfarandi tafla sýnir tölur um fjölda ferðamanna sem komið hafa til landsins árlega frá 2006.
Fjöldi ferðamanna 2006–2016.
Ár | Fjöldi ferðamanna | Aukning frá árinu áður |
2016* | 1.177.346 | 32,7% |
2015 | 1.289.140 | 29,2% |
2014 | 997.556 | 23,6% |
2013 | 807.349 | 20,0% |
2012 | 672.773 | 19,0% |
2011 | 565.611 | 15,8% |
2010 | 488.622 | -1,1% |
2009 | 493.900 | -1,6% |
2008 | 502.000 | -3,5% |
2007 | 485.000 | 14,9% |
2006 | 442.280 | 12,9% |
* Tölur fyrir 2016 ná yfir fyrstu átta mánuði ársins. |
Minni hlutinn gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega fyrir að hafa vanrækt samgöngukerfi landsins á tíma þessa mikla uppgangs í ferðaþjónustunni með fordæmalausri fjölgun ferðamanna og þannig auknu álagi á alla innviði landsins. Víðast hvar er ástand vega óviðunandi vegna skorts á viðhaldi. Á fundum nefndarinnar bentu fulltrúar Vegagerðarinnar á að veita þyrfti 8–9 milljarða kr. árlega í viðhald vega til þess eins að halda í horfinu en að 11 milljarða kr. þyrfti árlega til að bæta mætti ástand vega og öryggi samhliða nauðsynlegu viðhaldi. Samkvæmt tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun eins og hún liggur fyrir stendur þessi tala í 7 milljörðum kr. árin 2017 og 2018. Verði sú tillaga samþykkt er ljóst að vegakerfið mun halda áfram að versna því eins og fyrr segir dugar sú fjárhæð ekki einu sinni til þess að halda í horfinu. Breytingartillögur meiri hlutans gera ráð fyrir að þessi liður hækki í 8 milljarða kr. á ári fyrir tvö síðari ár áætlunarinnar. Minni hlutinn telur efni standa til þess að hækka þessa fjárhæð enn frekar og leggur því til þess að fjárhæðin verði hækkuð í 9,5 milljarða kr. árlega svo að hefja megi uppbyggingu vegakerfisins að nýju eftir tímabil sveltis og vanrækslu.
Minni hlutinn telur mikilvægt að við áætlanagerð í samgöngumálum séu þekking og álit sérfræðinga á sviðinu virt að verðleikum og reynt að forðast tilviljanakenndar ákvarðanir. Settar verði upp skýrar vinnureglur þar sem tekið verði tillit til breytna eins og álags og öryggis og byggða- og atvinnuþróunar þegar unnið er með samgönguáætlun í þinginu. Einnig telur minni hlutinn að samgönguáætlun og áhrif einstakra framkvæmda skuli metin út frá loftslagsmarkmiðum enda mikil tækifæri í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Þá telur minni hlutinn tilefni til að auka hlut landshlutasamtaka við forgangsröðun framkvæmda.
Minni hlutinn telur að hraða beri vinnu við að minnka hlut jarðefnaeldsneytis í samgöngum og auka notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Þá vill minni hlutinn leggja áherslu á fjölbreytilega samgöngumáta og telur mikilvægt að stuðlað verði að eflingu almenningssamgangna og hlúð betur að innviðum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Minni hlutinn kallar eftir því að framvegis verði settar fram sérstakar hjólreiðaáætlanir og áætlanir um eflingu almenningssamgangna sem hluta samgönguáætlana.
Minni hlutinn telur mikilvægt að gott samráð verði haft við gerð langtímaáætlunar í samgöngum og sjónarmið um öryggi, álag og atvinnu- og byggðaþróun látin ráð för við forgangsröðun verkefna. Sem dæmi um verkefni sem hafa þarf í huga við gerð langtímaáætlunar má nefna að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar. Með auknum ferðamannastraumi hefur álagið á brautina aukist hratt á undanförnum árum og ljóst er að ráðast þarf í framkvæmdir til að auka öryggi, sbr. kaflann frá Fitjum og að flugstöðinni. Þar styður minni hlutinn að ráðist verði hratt í úrbætur með hringtorgum en leggur þunga áherslu á að það sé eingöngu lausn til bráðabirgða og að ráðist verði sem fyrst í tvöföldun vegarins með tilheyrandi framkvæmdum á gatnmótum. Þá leggur minni hlutinn áherslu á að breikkun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss verði í langtímaáætlun enda álag á þeim hluta mikið, jafnframt að brúin yfir Jökulsá verði sett á áætlun ásamt Laxárdalsheiði yfir í Hrútafjörð, Brekknaheiði og vegum um Langanesströnd svo dæmi séu tekin.
Minni hlutinn leggur jafnframt til að ráðist verði í athuganir fyrir gerð Álftafjarðarganga, rannsókn verði gerð á algerum aðskilnaði aksturstefna milli Reykjavíkur og Akureyrar, farið verði fyrir alvöru í fjölgun ferðamannaleiða og langtímaáætlun verði gerð um hjólreiðastíga og almenningssamgöngur um land allt. Framangreind verkefni eru ekki tæmandi listi heldur dæmi um verkefni sem tímabært er að meta og setja inn á langtímaáætlun. Þörfin fyrir skýra sýn og mat á verkefnum er orðin brýn á öllum landsvæðum og leggur minni hlutinn þunga áherslu á fyrirsjáanleika í forgangsröðun út frá hlutlægum breytum.
Sem fyrr segir telur minni hlutinn að verja hefði þurft enn meiri fjármunum til viðhalds vega en breytingartillögur meiri hlutans kveða á um. Telur minni hlutinn að brýnt sé að bæta nú þegar 2,5 milljörðum kr. við það fjármagn sem veitt er til þessa liðar í samgönguáætlun árlega árin 2017 og 2018. Að auki leggur minni hlutinn til að 1.000 millj. kr. til viðbótar verði varið í að bæta öryggi á vegum, m.a. með fækkun einbreiðra brúa, að auknu fjármagni verði varið til eflingar almenningssamgangna og að eftirfarandi verkefni færist inn á samgönguáætlun þá sem nú er til afgreiðslu auk þeirra sem fyrr hafa verið nefnd:
– Vegaframkvæmdir við Látrabjarg.
– Vegaframkvæmdir í Árneshreppi.
– Malbikun malarvegar á Skógarströnd.
– Endurbætur vega í Dölum.
– Átak í héraðs- og tengivegum um allt land.
– Vegur yfir Öxi fylgi strax á eftir framkvæmdum við Berufjarðarbotn.
Árið 2013 voru settar á fjárlög 45 millj. kr. sem framlag ríkisins til gerðar göngubrúar yfir Markarfljót. Aðrir aðilar hafa að auki safnað framlögum til verksins. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar mun fyrirliggjandi fjármagn til þessa verks nú vera um 84 millj. kr. og er talið að um 130 millj. kr. vanti upp á svo að ráðast megi í framkvæmdir og ljúka þeim. Minni hlutinn hvetur til þess að fé verði veitt til þess að ljúka þessu verki í næstu fjárlögum.
Með auknu samstarfi sveitarfélaga að því er varðar menntun, menningu, atvinnu og þjónustu eykst þörfin fyrir öfluga innanhéraðsvegi og því að horft sé til jarðganga í meiri mæli þegar sífellt er algengara úti um land að fólk þurfi að aka langan veg á degi hverjum. Í ljósi þessa er mikilvægt að unnin verði forgangsröðun í gangagerð í samstarfi við sveitarfélögin sem taki mið af byggðastefnu, atvinnuþróun og öryggissjónarmiðum. Í þessu sambandi vill minni hlutinn leggja áherslu á að haldið verði áfram við undirbúning og framkvæmdir Dýrafjarðarganga og Seyðisfjarðarganga svo dæmi séu tekin.
Minni hlutinn vill hvetja til þess að þegar stórframkvæmdir í samgöngum eru metnar og undirbúnar séu áhrif þeirra á stöðu kynjanna metin. Minni hlutinn minnir jafnframt á skarðan hlut flugvalla í samgönguáætlun og kallar eftir skýrri stefnumótun stjórnvalda á því sviði.
Auk framangreinds vill minni hlutinn hvetja til þess að samstarf verði haft við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um þróun og fjármögnun svokallaðrar borgarlínu, nýs léttlesta- eða hraðvagnakerfis, á grundvelli svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins. Slíkt kerfi mundi stórefla almenningssamgöngur og auðvelda þéttingu byggðar um allt höfuðborgarsvæðið og þar með yrði unnið í þágu loftslagsmarkmiða og dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Í þessu samhengi minnir minni hlutinn einnig á þingsályktunartillögu um athugun á hagkvæmni lestarsamgangna, sem samþykkt var af Alþingi á 144. löggjafarþingi (101. mál), þar sem Alþingi ályktaði að fela innanríkisráðherra að láta kanna hagkvæmni lestarsamgangna milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur annars vegar og léttlestakerfis innan höfuðborgarsvæðisins hins vegar. Þeirri vinnu átti samkvæmt samþykkt Alþingis að ljúka um mitt ár 2016 og er mikilvægt að henni verði lokið sem fyrst.
Að þessu sögðu er minni hlutinn fylgjandi samþykkt samgönguáætlunar með þeim breytingum sem meiri hluti og minni hluti leggja til í sérstökum þingskjölum.
Alþingi, 14. september 2016.
Katrín Júlíusdóttir, frsm. |
Svandís Svavarsdóttir. | Róbert Marshall. |
Ásta Guðrún Helgadóttir. |