Ferill 900. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1808  —  900. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.


Flm.: Sigurður Ingi Jóhannsson, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson,
Katrín Jakobsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Óttarr Proppé.


    Alþingi ályktar, í tilefni þess að árið 2018 er öld liðin frá því er íslenskt ríki, sjálfstætt, frjálst og fullvalda, var á ný stofnað með sambandslögunum 1918, að:
     a.      kjósa nefnd með fulltrúum allra þingflokka er undirbúi hátíðahöld árið 2018 í samræmi við ályktun þessa; nefndin ráði framkvæmdastjóra og annað starfslið eftir þörfum og eins og fjárveitingar leyfa og starfi árin 2017 og 2018;
     b.      halda hátíðarfund á Þingvöllum 18. júlí 2018 en þann dag fyrir einni öld var samningum um fullveldi Íslands lokið;
     c.      fela ríkisstjórninni að efna til hátíðahalda 1. desember 2018 þegar öld verður liðin frá því að sambandslögin öðluðust gildi; jafnframt efni ríkisstjórnin af því tilefni til sam­keppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar og skipulags á Stjórnarráðsreit;
     d.      fela undirbúningsnefnd að:
                  1.      láta taka saman rit um aðdraganda sambandslaganna, efni laganna og framkvæmd þeirra, svo og rit um inntak fullveldisréttar er Ísland öðlaðist að þjóðarétti árið 1918;
                  2.      stofna til sýningar í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins til að minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis og fullveldis þjóðar­innar;
                  3.      stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagna á afmælisárinu svo að fornar bókmenntir Íslendinga séu jafnan öllum tiltækar, jafnt á bók sem stafrænu formi;
                  4.      hvetja skóla til að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku sam­félagi með sambandslögunum árið 1918.
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminja­safns.
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa ályktunartillögu um uppbyggingu inn­viða fyrir máltækni fyrir íslenska tungu og fimm ára áætlun um það efni.
    Alþingi ályktar að fela Þingvallanefnd að ljúka stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar.

Greinargerð.

    Árið 2018 verður ein öld liðin frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki, sjálfstætt ríki í samfélagi þjóðanna. Atburðirnir, sem urðu í júlí 1918 er samningar um fullveldi Íslands stóðu yfir og varð lokið 18. júlí 1918, með gildistöku 1. desember 1918, verða að teljast þeir allra merkustu í sögu þjóðarinnar frá upphafi og því tvímælalaust mikið tilefni til að minnast þeirra með hátíðahöldum á árinu 2018.
    Þótt raunverulegum afskiptum Dana af málefnum Íslands hafi í raun lokið með heima­stjórn, íslenskum ráðherra, íslensku framkvæmdarvaldi og þingræði í nútímaskilningi, verður það ekki fyrr en 1918 sem Ísland öðlast sess meðal þjóðanna sem frjálst og fullvalda ríki. Eitt ákvæði í samningunum fól í sér að Danir tilkynntu öðrum þjóðum um hina nýju stöðu Ís­lands. Ísland og Danmörk höfðu sameiginlegan þjóðhöfðingja, konunginn í Kaupmannahöfn, en afskipti hans af íslenskum málum eftir 1918 voru engin, enda framkvæmdu íslenskir ráð­herrar vald hans með ábyrgð gagnvart Alþingi. Svo var um samið 1918 að Danir færu að formi til með samskipti Íslendinga við aðrar þjóðir, þ.e. utanríkisþjónustuna, svo og gæslu landhelginnar á næstu árum. Hins vegar var ljóst hvar æðsta vald á þeim sviðum lá, hjá Íslendingum sjálfum. Að mörgu leyti var staða konungsríkisins Íslands eftir 1918 áþekk þeirri stjórnskipulegu stöðu sem Kanada, Ástralía, Nýja-Sjáland og fleiri samveldisríki búa nú við.
    Vorið 1918 kusu báðar deildir Alþingis nefndir til þess að vinna athugun á framhaldi vinnu við að skilgreina samband Danmerkur og Íslands eftir að hið svokallaða „uppkast“ fór út um þúfur. Báru þær fram tillögu til þingsályktunar um kosningu fjögurra manna nefndar til samninga við Dani. Sama vor skipaði danska stjórnin fjóra fulltrúa í dansk-íslenska samn­inganefnd. Komst nefndin að sameiginlegri niðurstöðu og skilaði frumvarpi til dansk-ís­lenskra sambandslaga. Féllust stjórnir beggja landanna á frumvarpið óbreytt og var það lagt fram haustið eftir og samþykkt bæði á Alþingi og á danska þinginu. Í samræmi við breytingu á stjórnarskránni frá 1915 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla hér á landi um frumvarpið 19. okt­óber 1918. Var það samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta en kjörsókn var þó fremur dræm. Dansk-íslensku sambandslögin voru síðan staðfest af konungi 30. nóvember 1918 og gengu í gildi 1. desember sem lög nr. 39/1918.
    Sambandslögin voru milliríkjasamningur sem gilti einnig sem lög í hvoru landi. Í 1. gr. laganna var mælt fyrir um að Danmörk og Ísland væru frjáls og fullvalda ríki í sambandi um einn og sama konung. Danska ríkisheildin hafði því rofnað og eftir stóðu tvö jafnstæð ríki. Í fullveldinu fólst að Ísland varð sjálfstæður þjóðréttaraðili í samskiptum við önnur ríki. Færðist forræði í utanríkismálum þá yfir til íslenska ríkisins, en skv. 7. gr. sambandslaganna fór Danmörk áfram með utanríkismál Íslands í umboði þess.
    Fullveldinu fylgdi einnig að íslenska ríkið fékk fullt ákvörðunarvald um skipan dóms­valdsins en Hæstiréttur Danmerkur hafði fram að því verið æðsti dómstóll landsins. Var Hæstiréttur Íslands stofnaður með lögum nr. 22/1919 og tók hann til starfa árið eftir.
    Að öðru leyti fjölluðu sambandslögin einkum um tímabundna meðferð Danmerkur á ýmsum íslenskum málum, um gagnkvæm réttindi borgaranna og að skipa skyldi ákveðnum málum með samningum milli ríkjanna.
    Í 18. gr. laganna sagði að fyrir árslok 1940 gætu þing Dana og Alþingi hvort um sig krafist endurskoðunar laganna. Yrði ekki gerður nýr samningur innan þriggja ára frá því að krafan kæmi fram gæti hvort þing fyrir sig fellt samninginn úr gildi. Jafnframt voru sett ströng skilyrði fyrir því að ákvörðun um sambandsslit teldist gild en til þess þurfti samþykki a.m.k. 2/ 3 hluta þingmanna í báðum deildum þings eða sameinuðu þingi og þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem a.m.k. 3/ 4 hlutar kjósenda tækju þátt og a.m.k. 3/ 4 hlutar greiddra atkvæða yrðu með samningsslitum.
    Vegna breytinga á stöðu Íslands sem fullvalda ríkis þurfti að gera nauðsynlegar breytingar á skipulagi stofnana þess, m.a. varðandi skipan konungsvalds, ráðherra, ríkisstjórnar og ríkis­ráðs, og mæla fyrir um samningsgerð við önnur ríki og réttarstöðu útlendinga. Var því sam­þykkt árið 1920 ný stjórnarskrá sem bar heitið stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, sbr. stjórnarskipunarlög nr. 9 frá 18. maí 1920. Fleiri breytingar voru gerðar, m.a. var kosningar­réttur rýmkaður og kveðið á um að Alþingi skyldi koma saman ár hvert.
    Þegar nær dró fyrirhugaðri endurskoðun sambandslaganna varð æ ljósara að stjórnmála­menn hér á landi stefndu að sambandsslitum, enda litu margir á sambandslögin sem bráða­birgðaráðstöfun. Þróun heimsmála varð til að flýta þeirri atburðarás. Í byrjun árs 1940 skip­aði forsætisráðherra fjögurra manna nefnd til að semja frumvarp að nýrri stjórnarskrá og hafði hún lokið verkefninu um mitt sama ár, en ekki varð þó af því að frumvarpið yrði lagt fram það ár. Þegar Þjóðverjar hernámu Danmörku 9. apríl 1940 brugðust íslensk stjórnvöld skjótt við. Aðfaranótt 10. apríl lagði ríkisstjórnin tvær þingsályktunartillögur fyrir Alþingi. Önnur fjallaði um æðsta vald í málefnum ríkisins og að ráðuneyti Íslands færi að svo stöddu með konungsvald. Með hinni ákvað Alþingi að þar sem Danmörk gæti ekki rækt umboð sitt til meðferðar utanríkismála né til landhelgisgæslu tæki Ísland að svo stöddu meðferð málanna í sínar hendur. Hinn 17. maí 1941 samþykkti Alþingi svo þrjár ályktanir þar sem kom fram að Ísland teldi sig hafa öðlast rétt til fullra sambandsslita, ríkisstjóri yrði kosinn til eins árs og að lýðveldi yrði stofnað jafnskjótt og sambandinu við Dani hefði verið slitið.
    Lokapunkturinn á því ferli sem markaði upphaf lýðveldis voru svo ályktanir Alþingis 16. júní 1944, önnur um niðurfellingu dansk-íslenska sambandslagasamningsins frá 1918 og hin um gildistöku stjórnarskrár lýðveldisins. Báðar tillögurnar höfðu áður hlotið yfirgnæfandi stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Var því lýst yfir á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum 17. júní 1944 að nýja stjórnarskráin væri gengin í gildi. Á sama þingfundi fór fram kosning fyrsta forseta Íslands.
    Í þingsályktunartillögunni er lagt til að kosin verði nefnd, sem skipuð verði fulltrúum allra þingflokka, er undirbúi hátíðahöld árið 2018 í samræmi við ályktunina. Gert er ráð fyrir því að nefndin ráði framkvæmdastjóra og annað starfslið eftir þörfum og eins og fjárveitingar leyfa og starfi árin 2017 og 2018. Alþingi mun útvega framkvæmdastjóra og nefndinni starfs­aðstöðu og annast fjárreiður vegna afmælisársins. Fjármála- og efnahagsráðherra er falið að afmarka sérstaka fjárveitingu í frumvarpi til fjárlaga, samtals 200 millj. kr., þ.e. 100 millj. kr. í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 og 100 millj. kr. í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018, til að mæta útgjöldum í tengslum við viðburði og verkefni í samræmi við álykun þessa og kostnaði sem hlýst af starfi nefndarinnar. Nefndin skal leggja fram fjárhagsáætlun og fjárþörf verði endurskoðuð samkvæmt henni eftir þörfum.
    Með þingsályktunartillögunni er stefnt að því að Alþingi haldi, svo sem venja hefur skap­ast um á hátíðarstundum í sögu þjóðarinnar, þingfund á Þingvöllum. Fundurinn verði haldinn í júlí 2018 og þá miðað við þann tíma ársins þegar Alþingi féllst á samningsdrögin og hin raunverulega efnisniðurstaða fékkst, en það var 18. júlí 1918. Er einnig í þessu efni höfð hlið­sjón af því hvenær ársins hentugast er að halda slíkar minningarhátíðir utan dyra á Þing­völlum. Er haft í huga að fundurinn gæti að efni og formi líkst hátíðarfundunum 1974, 1994 og árið 2000, þ.e. að hann færi fram undir berum himni, á þingfundinum afgreiddi þingið mikilvægt málefni, t.d. með þingsályktun, auk almennra hátíðahalda þann dag á Þingvöllum. Er þá ráð fyrir því gert að þingflokkar sameinist um það málefni sem Alþingi afgreiddi á fundinum.
    Í þingsályktunartillögunni er ríkisstjórninni jafnframt falið að undirbúa hátíðahöld, m.a. við Stjórnarráðið í Reykjavík, til að minnast þeirra atburða er þar urðu að tilhlutan íslenskra stjórnvalda til að fagna gildistöku sambandslaganna og fullveldis Íslands 1. desember 1918. Í tillögunni er lagt til að ríkisstjórnin efni af þessu tilefni til samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar og skipulags á Stjórnarráðsreit.
    Flutningsmenn telja jafnframt eðlilegt að ríkisstjórnin hafi samráð við félög stúdenta um hátíðahöld 1. desember 2018, en stúdentar hafa í marga áratugi heiðrað minningu fullveldis 1. desember ár hvert með samkomum og hátíðahöldum, ekki síst í Háskóla Íslands.
    Haft er í huga að hátíðahöldin við Stjórnarráðið 1. desember 2018 kallist á við athöfnina sem var við Stjórnarráðshúsið einni öld fyrr, 1. desember 1918.
    Í tillögunni er ráðgert að Alþingi kjósi nefnd fulltrúa allra þingflokka er undirbúi hátíða­höldin. Leitast verði við að fá til nefndarstarfsins menn sem í senn hafi reynslu af undir­búningi athafna af þessu tagi og hafi nauðsynlega þekkingu á sögu Íslands og þeirri sögu sem verkefnið snýst um. Stefnt er að því að nefndin verði kosin fyrir lok þessa árs og geti tekið til starfa með nýju ári. Nefndinni er svo ætlað að standi fyrir þeim verkefnum sem nánar eru tilgreind í d-lið tillögunnar.
    Í tillögunni er undirbúningsnefndinni falið að láta semja rit um aðdraganda sambands­laganna, samningaviðræðurnar og atburðina sumarið og haustið 1918, svo og inntak þeirra og framkvæmd. Er haft í huga að samningur verði gerður við Sögufélag, félag íslenskra sagn­fræðinga, sem kveðji til fræðimenn er leggi efni til ritsins. Er við það miðað að atburðirnir verði raktir sagnfræðilega, en jafnframt gerð grein fyrir inntaki hins nýja stjórnarforms, svo og þjóðréttarlegri stöðu Íslands eftir 1918, auk annarra atriða sem undirbúningsnefndin og þeir sérfræðingar sem verða kvaddir til koma sér saman um.
    Þá er í tillögunni lagt til að Árnastofnun gangist fyrir sýningu á afmælisárinu á handritum í eigu safnsins sem hæfa tilefninu. Má þar sérstaklega nefna lagahandrit þess, en mörg þeirra þykja með mestu dýrgripum safnsins. Fer vel á því á þessum tímamótum að minna á hina löngu og merku lagahefð á Íslandi sem nær allt frá stofnun Alþingis 930. Enn fremur á safnið talsvert af fornum bréfum sem eru merkir vitnisburðir um stjórnsýslu á Íslandi um margar aldir. Er miðað við að undirbúningsnefndin efni til samstarfs við stjórn og forstöðumann Árnastofnunar um fyrirkomulag sýningarinnar.
    Án alls vafa er menningararfur og tunga þjóðarinnar sá grundvöllur sem frelsisbarátta hennar var reist á á 18. og 19. öld. Þar skipa Íslendingasögurnar höfuðmáli. Mikilvægt er að sá merki menningararfur sé öllum landsmönnum ávallt tiltækur, þ.e. að sögurnar séu til í að­gengilegu bókarformi bæði fyrir almenning og skólafólk. Á undanförnum árum hefur tekist að kynna Íslendingasögurnar í hinum enskumælandi heimi, svo og í glæsilegum útgáfum annars staðar á Norðurlöndum. Er því eðlilegt að næsta átak á þessu sviði snúi að Íslandi og að á grundvelli þessarar útgáfu komi sögurnar út í aðgengilegum útgáfum á íslensku. Er þá reiknað með að byggt sé á traustum fræðilegum útgáfum og nýjustu rannsóknum en síður að efnt sé til frekari handrita- og fræðirannsókna af þessu tilefni, enda skammur tími til stefnu. Jafnframt slíkri útgáfu sé tryggt að sögurnar séu líka aðgengilegar á stafrænu formi eins og tæknin býður hverju sinni.
    Í þingsályktunartillögunni er lagt til að undirbúningsnefndin hvetji skóla til að beina sjón­um að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum árið 1918 og minni jafnframt sérstaklega á þau tímamót sem verða árið 2018.
    Í þingsályktunartillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að sjá til þess að í fjár­málaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns. Mikilvægt er að koma á fót hér á landi slíkri byggingu er hýsi merkar náttúruminjar og tryggja Náttúruminjasafni með því aðstöðu til frambúðar.
    Í þingsályktunartillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa ályktunar­tillögu um uppbyggingu innviða fyrir máltækni fyrir íslenska tungu og fimm ára áætlun um það efni. Unnið hefur verið um nokkurt skeið að undirbúningi innviðauppbyggingar fyrir máltækni fyrir íslenska tungu með það að markmiði að koma henni til jafns við tungumál þjóða sem við berum okkur einkum saman við. Mikilvægt að tryggja áframhaldandi grund­völl þess starfs svo að íslenska verði áfram gjaldgeng í hinum stafræna heimi.
    Loks þykir fara vel á því að fela Þingvallanefnd, sem Alþingi kýs, að ljúka á næstu miss­irum stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum. Þingvallanefnd hefur um tíma unnið að þessu verkefni og er komin langt áleiðis. Tekur það m.a. til upp­byggingar aðstöðu fyrir ferðamenn á Hakinu, varðveislu náttúruminja og gróðurs á svæðinu, framtíðarnotkunar Þingvallabæjarins og aðkomu Alþingis að hinum forna þingstað, svo og stjórnar þjóðgarðsins sjálfs. Fyrir liggur allmikið efni, svo og hugmyndir og tillögur, sem nefndin hefur verið að vinna úr. Er þess vænst að með tillögum nefndarinnar megi marka framtíðarskipulag Þingvalla. Jafnframt er ályktað um að Þingvallanefnd opni sýningu 2018, sem hefur verið í undirbúningi, um sögu Þingvalla og náttúrufar.