Ferill 8. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 1812  —  8. mál.
Viðbót.

2. umræða.


Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt,
nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Líneyju Rut Halldórsdóttur frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Björn Inga Victorsson og Geir Þorsteinsson frá Knatt­spyrnusambandi Íslands, Úlf H. Hróbjartsson frá Siglingasambandi Íslands, Bjarna Lárusson og Óskar H. Albertsson frá ríkisskattstjóra, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins og Mörtu G. Blöndal frá Viðskiptaráði Íslands. Umsagnir bárust frá Íþrótta- og Ólympíusam­bandi Íslands, Knattspyrnusambandi Íslands, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að þjónusta og vörusala íþrótta- og æskulýðsfélaga sem stunduð er í því skyni að afla fjár til að standa undir kjarnastarfsemi þeirra verði undanþegin virðisaukaskatti. Einnig er lagt til að íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélög fái endurgreiddan virðisaukaskatt vegna tilgreinds kostnaðar við íþróttamannvirki á árinu 2016. Markmið frum­varpsins eru að styðja við starfsemi íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélaga, einkum sjálf­boðaliðastarf, og uppbyggingu íþróttamannvirkja. Mál svipaðs efnis voru lögð fram á 143. og 144. löggjafarþingi (487. og 411. mál).
    Síðustu ár hefur verið unnið að endurskoðun á reglum um virðisaukaskatt og vörugjöld í því skyni að einfalda og bæta skilvirkni kerfisins. Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði stýrihóp í því skyni. Nefndin leggur til að þessar tillögur verði teknar til skoðunar hjá stýri­hópnum ásamt öðrum atriðum er verið hafa til umræðu hjá nefndinni að undanförnu, t.d. hvað varðar virðisaukaskatt af bókum, tónlist og starfsemi efnisveitna. Nefndin leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Vilhjálmur Bjarnason skrifar undir álitið með vísan til 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda.
    Brynjar Níelsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 12. október 2016.

Frosti Sigurjónsson,
form.
Willum Þór Þórsson,
frsm.
Brynhildur Pétursdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. Líneik Anna Sævarsdóttir. Sigríður Á. Andersen.
Valgerður Bjarnadóttir. Vilhjálmur Bjarnason.