Ferill 776. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1813  —  776. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum (bifreiðastyrkir).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ágúst Þór Sigurðsson frá velferðar­ráðuneyti. Umsögn barst frá Guðnýju Jónsdóttur.
    Með frumvarpinu er lagt til að styrki og uppbætur til bifreiðakaupa og reksturs bifreiða skuli veita óháð því hver annast að jafnaði aksturinn, enda sé bifreiðin nýtt til aksturs með bótaþega. Þá er lagt til að óheimilt sé að binda styrkveitingar því skilyrði að bótaþegi hafi sjálfur ökuréttindi eða einhver annar á heimili hans.
    Kveðið er á um heimild til greiðslu uppbóta og styrkja vegna reksturs og kaupa á bifreið­um í 10. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Þá hefur verið sett reglugerð, nr. 170/2009, um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í 1. tölul. 2. mgr. 2. gr., 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. og 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er sett það skilyrði fyrir veitingu uppbóta og styrkja til reksturs og kaupa á bifreiðum að hinn hreyfi­hamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Sams konar skilyrði er sett í 1. mgr. 5. gr. sem kveður á um hæstu styrki til þeirra sem eru verulega hreyfihamlaðir og komast ekki af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar.
    Fyrir nefndinni kom fram að ástæðan fyrir þessu skilyrði í reglugerðinni væri einkum sú að með því væri spornað gegn mögulegri misnotkun en brögð hefðu verið að því að bifreiðar sem keyptar voru og reknar með þessum stuðningi af hálfu ríkisins og ætlaðar hinum hreyfi­hamlaða hefðu verið gerðar út frá öðru heimili en heimili og búsetustað hins hreyfihamlaða. Bent skal á að um er að ræða heimildarákvæði í lögum um félagslega aðstoð og því er það háð mati hverju sinni hvort talið sé rétt að beita heimildinni, en ekki skylt, og þá í samræmi við nánari viðmið sem útfærð eru í reglugerð.
    Í skýrslu starfshóps um stuðningskerfi til að auðvelda för hreyfihamlaðs fólks, frá desem­ber 2014, er fjallað um þetta álitaefni og leggur starfshópurinn til að heimilaðar verði undan­tekningar frá skilyrðinu um ökuréttindi hins hreyfihamlaða eða annars heimilismanns. Lagði starfshópurinn til að þess verði þá jafnframt gætt að slíkri opnun fylgi skilyrði, t.d. að það verði bundið við þá hreyfihömluðu einstaklinga sem búa sjálfstætt og hafa persónulega að­stoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag viðkomandi. Þannig mundi undantekningin t.d. ekki ná til þeirra hreyfihömluðu einstaklinga sem búa á sambýlum þar sem ekki er um sjálfstæða búsetu að ræða.
    Nefndin áréttar að reglur um styrki og uppbætur til bifreiðakaupa og reksturs bifreiða til hreyfihamlaðra einstaklinga eru settar með reglugerð nr. 170/2009 og því unnt að tryggja að þau réttindi sem kveðið er á um í frumvarpinu nái fram að ganga með breytingu á henni. Leggur nefndin því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að tryggja að reglum sé breytt í samræmi við efni frumvarpsins og þau skilyrði sem ráðuneytið telur nauðsynleg samkvæmt framangreindu.

Alþingi, 12. október 2016.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form., frsm.
Elsa Lára Arnardóttir. Halldóra Mogensen.
Birgir Ármannsson. Steinunn Þóra Árnadóttir. Guðmundur Steingrímsson.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Unnur Brá Konráðsdóttir. Páll Jóhann Pálsson.