Ferill 822. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1816  —  822. mál.
Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni um uppbyggingu Heimskautsgerðisins á Raufarhöfn.     1.      Hver er afstaða ráðherra ferðamála til áframhaldandi uppbyggingar Heimskautsgerði­sins á Raufarhöfn?
    Afstaða ráðherra til áframhaldandi uppbyggingar Heimskautsgerðisins á Raufarhöfn er afar jákvæð. Ráðherra fór og kynnti sér verkefnið sumarið 2014 ásamt öðrum verkefnum á svæðinu og ljóst er að hér er um framsýnt verkefni að ræða sem þakka má dugnaði þeirra sem hófu það. Heimskautsgerðið er lofsvert framtak heimamanna og er þegar farið að fanga athygli ferðamanna þó svo að verkefninu sé hvergi nærri lokið. Ráðherra vonast til að það takist að ljúka verkefninu sem fyrst svo það verði til að styrkja enn frekar ferðaþjónustu og efla byggð á svæðinu.
    Kannanir Ferðamálastofu sýna að íslensk menning og saga fær sífellt aukið vægi í ákvörð­un erlendra ferðamanna um að ferðast hingað til lands. Í þessu sambandi er það einnig hið staðbundna og sérstaka sem ferðamenn sækjast í auknum mæli eftir. Sú tegund upplifunar sem Heimskautsgerðið veitir fellur því vel að þessum áherslum sem og áherslum um betri dreifingu ferðamanna um landið.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir frekari fjárveitingum þannig að unnt verði að ljúka upp­byggingu Heimskautsgerðisins?
    Norðurþing hlaut 25 millj. kr. styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til uppbygg­ingar Heimskautsgerðisins árið 2013. Helmingur þeirrar fjárhæðar, eða 12,5 millj. kr., hefur verið greiddur út. Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu hafa orðið tafir á greiðslu helmings styrksins vegna þess að fullnægjandi gögnum um framvindu verkefnisins hefur ekki verið skilað en samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins stendur það þó til bóta. Þá getur verk­efnið vonandi haldið áfram og aðstandendur þess geta þá sótt um frekari styrki úr sjóðnum í framtíðinni. Ráðherra mun að sjálfsögðu beita sér fyrir áframhaldandi aukningu fjármuna til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða svo sjóðurinn geti áfram stutt við brýn og áhugaverð verkefni við uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum víða um land. Fjárveitingar til Fram­kvæmdasjóðs ferðamannastaða hafa hækkað mikið á undanförnum árum, en á tímabilinu 2014–2016 voru framlög ríkissjóðs til sjóðsins rúmir 2,3 milljarðar kr. samanborið við rúmar 600 millj. kr. á síðasta kjörtímabili. Þá hefur reglum sjóðsins verið breytt til að koma til móts við verkefni sem þessi með því að lækka kröfu um mótframlag styrkhafa úr 50% í 20% hjá einkaaðilum og sveitarfélögum.

     3.      Hver er afstaða ráðherra til uppbyggingar „nýrra“ áningarstaða fyrir ferðamenn og frekari dreifingu slíkra áfangastaða um landið en nú er?
    Að mati ráðherra er ljóst að dreifa þarf ferðamönnum betur um landið og er afstaða ráð­herra því jákvæð bæði til uppbyggingar nýrra áfangastaða og til betri dreifingar ferðamanna um landið. Samkvæmt lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, nr. 75/2011, er það eitt af markmiðum þeirra og hlutverka sjóðsins að fjölga viðkomustöðum ferðamanna til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.
    Dreifing ferðamanna um landið er ein af sjö megináherslum í Vegvísi í ferðaþjónustu. Undir þeim lið eru fjölmargar aðgerðir sem munu styrkja grundvöll uppbyggingar nýrra áfangastaða í dreifðari byggðum. Ein mikilvægasta aðgerðin er gerð stefnumótandi stjórnun­aráætlana þar sem áfangastaðir ferðamanna eru skipulagðir í hverjum landshluta og hófst það verkefni nú á haustmánuðum. Þá má einnig nefna nýstofnaðan Flugþróunarsjóð sem var settur á fót sl. sumar og hefur það markmið að koma á reglulegu millilandaflugi um flugvell­ina á Akureyri og Egilsstöðum.
    Meðal annarra aðgerða í Vegvísinum sem munu stuðla að bættri dreifingu ferðamanna er skilgreining svokallaðra „fyrirmyndarstaða“ sem einkennast af framúrskarandi hönnun og uppbyggingu, frekari útfærslur leiða til að skapa sveitarfélögum tekjur til að mæta kostnaði við uppbyggingu og rekstur ferðamannastaða, bættar merkingar og áframhaldandi áhersla á að kynna Ísland sem áfangastað allt árið um kring.
    Á norðausturhorni landsins eru Heimskautsgerðið og útsýnispallurinn í Skoruvíkurbjargi góð dæmi um nýja áfangastaði ferðamanna sem hafa nægt aðdráttarafl til þess að geta skipt sköpum fyrir þróun svæðisins. Þörf er á fleiri slíkum seglum í hinum dreifðu byggðum landsins.
    Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er nú betur í stakk búinn til að styðja slík verkefni með auknum fjármunum og lægri mótframlagskröfu en áður, en einnig er ljóst að vaxandi áhugi fjárfesta, bæði innlendra sem erlendra, á að fjárfesta í greininni gefur góð fyrirheit um framtíðina.