Ferill 100. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 885  —  100. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (samfélagsþjónusta ungra brotamanna).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir bárust frá Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Fangelsismálastofnun ríkisins, Hreini S. Hákonarsyni, fangapresti þjóðkirkjunnar, innanríkisráðuneytinu, Lögmannafélagi Íslands og umboðsmanni barna.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með það að markmiði að hægt verði að veita ungum brotamönnum meira aðhald og þannig mögulega koma í veg fyrir að þeir leiðist á braut frekari afbrota.
    Nefndin fjallaði um frumvarpið samhliða frumvarpi til laga um fullnustu refsinga (þskj. 399) sem er til umfjöllunar í nefndinni.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að nýju ákvæði, 57. gr. b, verði bætt við almenn hegningarlög, nr. 19/1940, og samkvæmt ákvæðinu verði heimilt að setja það sem skilyrði fyrir skilorðsbindingu fangelsisrefsingar að dómþoli inni af hendi samfélagsþjónustu enda sé hann sakborningur á aldrinum 15–21 árs. Felur frumvarpið í sér að úrræðið samfélagsþjónusta verði eitt af sérskilyrðum sem hægt verði að binda við frestun á fullnustu fangelsisrefsinga.
    Samfélagsþjónusta er eitt af þeim úrræðum sem stjórnvöld hafa við fullnustu dóms um óskilorðsbundið fangelsi eða vararefsingu fésekta. Samfélagsþjónusta sem fullnustuúrræði hefur gefist vel hér á landi og endurkomutíðni þeirra sem afplána með samfélagsþjónustu er lægri hér en í öðrum ríkjum Norðurlanda.
    Við meðferð frumvarpsins fékk nefndin þær upplýsingar að ráðherra hefur falið refsiréttarnefnd að skoða hvort gera eigi breytingar á núverandi kerfi þannig að samfélagsþjónusta verði ein tegund refsingar, og þá í hvaða tilvikum og að hvaða skilyrðum uppfylltum slíkt kæmi til greina. Nefndin fékk þær upplýsingar að niðurstaðna sé að vænta á vormánuðum. Einnig kann að mati nefndarinnar að vera nauðsynlegt að laga ákvæði laga um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, að breytingu almennra hegningarlaga.
    Nefndin er jákvæð í garð frumvarpsins og beinir því til refsiréttarnefndar að kanna hvaða áhrif frumvarpið felur í sér miðað við núverandi kerfi er lýtur að samfélagsþjónustu fyrir 1. júní 2016. Jafnframt er mikilvægt að mati nefndarinnar að farið verði yfir hvaða stuðning og meðferðarúrræði þurfi til að stuðla að betrun dómþola á aldrinum 15–21 árs sem inna af hendi samfélagsþjónustu.
    Í ljósi alls framangreinds leggur nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 23. febrúar 2016.


Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Róbert Marshall.
Karl Garðarsson. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Haraldur Einarsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.