Ferill 57. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 114  —  57. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um heilbrigðisáætlun.


Flm.: Elsa Lára Arnardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Lilja Alfreðsdóttir, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Heilbrigðisáætlunin verði unnin í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum. Við gerð heilbrigðisáætlunar verði m.a. tekið tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Jafnframt verði tekið tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða, svo eitthvað sé nefnt. Við gerð áætlunarinnar verði jafnframt litið til þess hvort sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala. Heilbrigðisáætlun verði lögð fyrir Alþingi í desember 2017.

Greinargerð.

    Markmiðið með þingsályktunartillögu þessari er að vinna að heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga voru margir á þeirri skoðun að bæta þyrfti heilbrigðiskerfið á Íslandi og voru Framsóknarmenn þeirra á meðal. Sérstaklega var rætt um mikilvægi stefnumótunar í heilbrigðismálum og nauðsyn þess að halda áfram að veita fjármagn til málaflokksins, eins og gert var á síðasta kjörtímabili undir stjórn Framsóknarflokksins. Í þessu samhengi var m.a. bent á McKinsey-skýrsluna sem kom út haustið 2016 málinu til stuðnings en þar kemur eftirfarandi fram:
    „Heildarframlög til heilbrigðismála á Íslandi árið 2014 námu 8,8% af vergri landsframleiðslu sem er nálægt meðaltali OECD en lægra en annars staðar á Norðurlöndunum, að Finnlandi undanskildu. Mat á útgjaldaþörf til heilbrigðismála á Íslandi krefst þess að horft sé til skilvirkni annarra heilbrigðiskerfa og tekið mið af land- og lýðfræðilegum þáttum sem áhrif hafa á þörf landsmanna fyrir heilbrigðisþjónustu. Ýmsir undirliggjandi þættir eru fyrir hendi á Íslandi sem hafa áhrif á skilvirkni og gæði heilbrigðisþjónustunnar og draga úr útgjaldaþörf til heilbrigðiskerfisins. Aftur á móti er einnig að finna óskilvirkni í íslenska heilbrigðiskerfinu sem veldur aukinni útgjaldaþörf.“
    Þetta gefur til kynna nauðsyn stefnumótunar í heilbrigðismálum en í lokaniðurstöðum McKinsey-skýrslunnar segir jafnframt:
    „Það eru áhugaverðir tímar í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðiskerfið stóð frammi fyrir miklum erfiðleikum í kjölfar bankahrunsins þegar fjárframlög til þess voru skert verulega en tókst að komast í gegnum erfiðleikana og veita áfram gæðaþjónustu. Þróunin á Landspítalanum var að mörgu leyti táknræn fyrir þetta tímabil. Spítalanum tókst að lækka kostnað umtalsvert án þess að fórna gæðum þjónustunnar samhliða síaukinni eftirspurn. Þrátt fyrir aðdáunarverða frammistöðu á síðustu árum er ekki allt eins og best verður á kosið í íslenska heilbrigðiskerfinu. Það skortir skýrari verkaskiptingu milli hinna ýmsu veitenda heilbrigðisþjónustunnar og sömuleiðis stjórntæki sem gera kleift að stýra þróuninni. Auk þessa hefur í þessari skýrslu verið bent á nokkur kerfislæg vandamál sem takmarka kostnaðarhagkvæmni eða vekja upp spurningar um gæði þjónustu í ákveðnum hlutum kerfisins.
    Nú þegar verið er að auka framlög til heilbrigðismála á Íslandi hefur skapast einstakt tækifæri til að takast á við þessi vandamál og tryggja að íslenska heilbrigðiskerfið veiti gæðaþjónustu á öllum sviðum á hagkvæman hátt. Með skýrri stefnu í heilbrigðiskerfinu og auknum fjárveitingum þangað sem þörfin er mest verður tryggt að fjárfestingarnar nýtist sem best sem leiðir til sterkara og hagkvæmara kerfis.“
    Í ljósi þeirra niðurstaðna sem birtast í McKinsey-skýrslunni og vegna skorts á stefnu í heilbrigðismálum leggja flutningsmenn tillögunnar til að unnin verði heilbrigðisáætlun fyrir Ísland og að sú vinna verði unnin eins skjótt og auðið er. Flutningsmenn tillögunnar telja mikilvægt að fagfólk í heilbrigðisstéttum komi að vinnunni því það þekkir best til og gagnlegt er að nýta þekkinguna og mannauðinn sem er fyrir hendi. Mikilvægt er að fagfólk komi víða að af landinu því aðstæður í heilbrigðiskerfinu geta verið mismunandi eftir því hvort unnið er á stórum spítala eða á minni heilbrigðisstofnun á landsbyggðinni. Við gerð heilbrigðisáætlunarinnar verði m.a. tekið tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Jafnframt verði tekið tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkabifreiða og aðgangs að sjúkraflugi, svo eitthvað sé nefnt. Við gerð áætlunarinnar verði jafnframt litið til þess hvort sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álaginu af Landspítalanum. Heilbrigðisáætlun verði lögð fyrir Alþingi í desember 2017.