Ferill 67. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 124  —  67. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um brottfall laga um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999, með síðari breytingum.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.1. gr.

    Lög um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999, með síðari breytingum, falla úr gildi 1. janúar 2018.

2. gr.

    Frá og með 1. janúar 2018 skal Lífeyrissjóður bænda starfa á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum, og samþykkta er fyrir sjóðinn gilda. Stjórn Lífeyrissjóðs bænda skal aðlaga samþykktir sjóðsins ákvæðum laga nr. 129/1997 og leggja þær þannig breyttar fyrir ráðherra til staðfestingar, sbr. 28. gr. laganna, eigi síðar en 1. október 2017.

3. gr.

    Útgjöld vegna lífeyrisgreiðslna sem falla á sjóðinn vegna áunninna réttinda sjóðfélaga sem fæddir eru 1914 eða fyrr eða maka þeirra skulu greidd úr ríkissjóði.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Við vinnslu þess var leitað eftir afstöðu Lífeyrissjóðs bænda og Bændasamtaka Íslands.
    Frumvarpið er efnislega samhljóða frumvarpi sem mælt var fyrir á Alþingi á síðastliðnu löggjafarþingi (666. mál).
    Í frumvarpinu er lagt til að felld verði úr gildi lög um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999, með síðari breytingum.
    Lög um Lífeyrissjóð bænda voru fyrst samþykkt á Alþingi 18. desember 1970 sem lög nr. 101/1970. Lögin tóku gildi 1. janúar 1971 og hóf þá sjóðurinn starfsemi sína. Þeim lögum var breytt alloft og í júní árið 1984 voru sett ný heildarlög um sjóðinn, nr. 50/1984. Þau fólu m.a. í sér þá meginbreytingu að makar bænda urðu sjóðfélagar og fengu lífeyrisrétt. Með lögfestingu á almennu lífeyrissjóðalögunum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, fór að nýju fram heildarendurskoðun á lögum um Lífeyrissjóð bænda þar sem breyta þurfti lögunum til samræmis við lög nr. 129/1997 og aðlaga reglur sjóðsins að reglum annarra lífeyrissjóða eftir því sem kostur var. Ný heildarlög um sjóðinn tóku gildi 1. júlí 1999, nr. 12/1999.
    Frá gildistöku laganna hefur Lífeyrissjóður bænda starfað með því markmiði og skipulagi sem greinir í lögum nr. 129/1997, sérlögum um sjóðinn og samþykktum fyrir hann. Í núgildandi lögum er kveðið á um heimild til handa ríkissjóði til að greiða mótframlag sjóðfélaga í Lífeyrissjóði bænda. Allt frá stofnun sjóðsins árið 1970 greiddi ríkissjóður að hluta eða í heild framlag á móti iðgjaldi sjóðfélaga, sbr. 2. mgr. 4. gr. gildandi laga, en framlagið var ákveðið í fjárlögum hvers árs og reiknað á grundvelli afurðaverðs samkvæmt búvörusamningi. Í kjölfar hrunsins voru framlög úr ríkissjóði til lífeyrissjóðsins felld brott í áföngum og frá upphafi árs 2013 hefur iðgjaldið til lífeyrissjóðsins verið greitt af sjóðfélögum að fullu líkt og almennt gildir um þá sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.
    Í ljósi þessara breyttu forsendna þykir ekki ástæða til að sérlög gildi um sjóðinn. Því er lagt til að lög nr. 12/1999 verði felld úr gildi. Þannig muni sjóðurinn starfa á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og samþykkta fyrir sjóðinn. Hins vegar mun ríkissjóður áfram ábyrgjast eftirlaun til aldraðra í Lífeyrissjóði bænda, sbr. II. kafla laganna, og mun afnám laganna ekki leiða til réttindaskerðingar þeirra, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Útgjöld ríkissjóðs vegna umræddrar ábyrgðar námu um 12,7 m.kr. á árinu 2016, miðað við 14,7 m.kr. á árinu 2015, 18,1 m.kr. á árinu 2014, 22,3 m.kr. á árinu 2013 og 29,6 m.kr. á árinu 2012.
    Samþykkt frumvarpsins mun ekki leiða til neins kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. er lagt til að lög um Lífeyrissjóð bænda falli úr gildi 1. janúar 2018.

Um 2. gr.

    Í 2. gr. frumvarpsins er m.a. lagt til að stjórn Lífeyrissjóðs bænda hafi frumkvæði að því að aðlaga samþykktir sjóðsins að ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum, og leggi þær þannig breyttar fyrir fjármála- og efnahagsráðherra til samþykktar eigi síðar en 1. október 2017. Þannig er gert ráð fyrir að staðfestar samþykktir liggi fyrir um leið og lögin falla úr gildi og að ný stjórn taki við á grundvelli staðfestra samþykkta fyrir sjóðinn.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. er lagt til að kveðið verði á um að ríkissjóður ábyrgist útgjöld vegna lífeyrisgreiðslna sjóðfélaga sem fæddir eru 1914 eða fyrr eða útgjöld vegna lífeyrisgreiðslna til maka þeirra. Um er að ræða áunnin réttindi sjóðfélaga eða maka hans sem ríkissjóður ábyrgist.

Um 4. gr.

    Ákvæði 4. gr. þarfnast ekki frekari skýringa.