Ferill 130. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 189  —  130. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 39/2016, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 39/2016 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/95/ESB frá 22. október 2014 um breytingu á tilskipun 2013/34/ESB að því er varðar birtingu tiltekinna stórra fyrirtækja og samstæðna á ófjárhagslegum upplýsingum og upplýsingum um fjölbreytileika.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 39/2016 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (sbr. fskj. I), og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/95/ESB frá 22. október 2014 um breytingu á tilskipun 2013/34/ESB að því er varðar birtingu tiltekinna stórra fyrirtækja og samstæðna á ófjárhagslegum upplýsingum og upplýsingum um fjölbreytileika (sbr. fskj. II).
    Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir umrædda tilskipun var ákvörðun nr. 39/2016 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES- samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir. Hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið gerður þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/95/ESB frá 22. október 2014 um breytingu á tilskipun 2013/34/ESB að því er varðar birtingu tiltekinna stórra fyrirtækja og samstæðna á ófjárhagslegum upplýsingum og upplýsingum um fjölbreytileika.
    Í ályktunum sínum frá 6. febrúar 2013 um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja lagði Evrópuþingið áherslu á mikilvægi þess að félög birtu upplýsingar um sjálfbærni, t.d. félagslega og umhverfislega þætti, með það fyrir augum að greina áhættu tengda sjálfbærni og auka traust fjárfesta og neytenda. Birting ófjárhagslegra upplýsinga styður við mælingar, eftirlit og stjórnun á frammistöðu félaga og áhrifum þeirra á samfélagið. Því hvatti Evrópuþingið framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að leggja fram tillögu að nýrri löggjöf um birtingu ófjárhagslegra upplýsinga af hálfu félaga í því skyni að taka tillit til margþætts eðlis samfélagslegrar ábyrgðar félaga og ná fram nægilegu samanburðarhæfi til að uppfylla þarfir fjárfesta og annarra hagsmunaaðila, sem og þörf neytenda, fyrir greiðan aðgang að upplýsingum um áhrif félaga á samfélagið.
    Markmið tilskipunar 2014/95/ESB er að samhæfa kröfur til félaga í öllum atvinnugreinum innan Evrópska efnahagssvæðisins hvað varðar gagnsæi félagslegra og umhverfislegra upplýsinga. Þannig er gerðinni ætlað að auka gagnsæi í birtingu stærri félaga á ófjárhagslegum upplýsingum er lúta að samfélagi, umhverfi, starfsfólki og mannréttindum.
    Í tilskipuninni er lögð áhersla á mikilvægi upplýsinga stærri félaga varðandi samfélagslega og umhverfislega þætti og leggur hún því ekki skyldur á lítil og meðalstór félög.
    Í 1. gr. tilskipunarinnar er nýju ákvæði, 19. gr. a, bætt við tilskipun 2013/34/ESB um árleg reikningsskil, samstæðureikningsskil og tilheyrandi skýrslur tiltekinna tegunda fyrirtækja. Með ákvæðinu er lögð skylda á stór félög, sem varða hagsmuni almennings og hafa, á dagsetningu efnahagsreiknings, yfir 500 starfsmenn að meðaltali á fjárhagsárinu, að birta yfirlit yfir ófjárhagsleg atriði í skýrslu stjórnar félags. Skilgreiningu á því hvað telst stórt félag eða félag sem varðar hagsmuni almennings er að finna í tilskipun 2013/34/ESB.
    Yfirlit yfir ófjárhagslegar upplýsingar skal innihalda upplýsingar, að því marki sem nauðsynlegt er, til skýringar á þróun, árangri og stöðu félagsins varðandi umhverfis-, félags- og starfsmannamál, virðingu fyrir mannréttindum og varnir gegn spillingu og mútum, þ.m.t.:
     a.      stutta lýsingu á viðskiptalíkani félagsins,
     b.      lýsingu á stefnu félagsins í tengslum við ofangreind málefni, ásamt lýsingu á því hvaða áreiðanleikakönnunarferli félagið framfylgir,
     c.      yfirlit yfir árangur af stefnu félagsins í ofangreindum málum,
     d.      lýsingu á megináhættum sem stafa af þeim málefnum sem tengjast starfsemi félagsins, þ.m.t. eftir því sem við á og í réttu hlutfalli, um viðskiptatengsl, vörur eða þjónustu sem líkleg eru til að hafa skaðleg áhrif á þessum sviðum og hvernig félagið stýrir þessum áhættuþáttum og
     e.      ófjárhagslega lykilmælikvarða sem eru viðeigandi fyrir viðkomandi félag.
    Hvað umhverfistengd málefni varðar ættu að koma fram í yfirlitinu upplýsingar um fyrirliggjandi og fyrirsjáanleg áhrif af starfsemi félagsins á umhverfið. Að því er félagsleg og starfsmannatengd málefni varðar geta veittar upplýsingar tekið til aðgerða til að tryggja jafnrétti kynjanna, vinnuskilyrða og heilbrigðis og öryggis á vinnustað. Með hliðsjón af mannréttindum, baráttu gegn spillingu og mútum skal yfirlitið taka til upplýsinga um stefnu félagsins í mannréttindamálum og hvernig félagið spornar við spillingu og mútum. Ef félag fylgir ekki stefnu í tengslum við eitt eða fleiri þessara málefna skal skýr og rökstudd skýring á því hvers vegna það er ekki gert koma fram í yfirlitinu.
    Tilskipunin gerir ráð fyrir því að samstæður geti útbúið ófjárhagslega skýrslu fyrir samstæðuna sem heild. Þannig er dótturfélag, sem fjallað er um í skýrslu samstæðunnar, undanskilið þeirri skyldu að útbúa yfirlit yfir ófjárhagslegar upplýsingar.
    Aðildarríkin skulu gera ráð fyrir því að félög, sem skila skýrslu um ófjárhagslegar upplýsingar, geti reitt sig á innlenda, evrópska eða alþjóðlega ramma og skulu félög, í því tilviki, tilgreina við hvaða ramma þau styðjast. Dæmi um slíka ramma eru viðmiðunarreglur Efnahags- og framfarastofnunarinnar fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki og alþjóðlegi staðallinn ISO 26000 um samfélagslega ábyrgð.
    Í tilskipuninni er einnig gerð sú krafa til félaga sem eru með verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði að birta í árlegri yfirlýsingu sinni um stjórnarhætti lýsingu á stefnu félagsins um fjölbreytileika í tengslum við stjórn, framkvæmdastjórn og eftirlitsstjórn, með tilliti til þátta á borð við aldur, kyn eða menntunarlegan og faglegan bakgrunn. Þá skal gera grein fyrir markmiði stefnunnar, hvernig henni er komið til framkvæmda og niðurstöðum skýrslutímabilsins. Ef engri slíkri stefnu er fylgt skal ástæða þess tilgreind í skýrslunni.
    Þá skal löggiltur endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki kanna hvort ofangreindar upplýsingar, þ.e. um fjölbreytileika og önnur ófjárhagsleg málefni, hafi verið veittar. Einnig geta aðildarríki gert þá kröfu að óháður gæðatryggingaaðili sannreyni þær upplýsingar sem fram koma í skýrslunni um ófjárhagsleg málefni. Þannig er eftirlit með því að félög uppfylli skyldur sínar samkvæmt tilskipuninni tryggt.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingu á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði fram frumvarp þess efnis á 145. löggjafarþingi 2015– 2016, er varð að lögum nr. 73/2016, um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum (einföldun og innleiðing ársreikningatilskipunar 2013/34/ESB). Með lögunum voru tilskipun 2013/34/ESB og tilskipun 2014/95/ESB innleiddar í landsrétt.



Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 39/2016 frá 5. febrúar 2016
um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.


www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0189-f_I.pdf




Fylgiskjal II.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/95/ESB frá 22. október 2014
um breytingu á tilskipun 2013/34/ESB að því er varðar birtingu tiltekinna
stórra fyrirtækja og samstæðna á ófjárhagslegum upplýsingum
og upplýsingum um fjölbreytileika.


www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0189-f_II.pdf