Ferill 258. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 356  —  258. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum (kosningarréttur erlendra ríkisborgara).

Flm.: Pawel Bartoszek, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Jóna Sólveig Elínardóttir.


1. gr.

    3. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Enn fremur eiga kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar, ríkisborgarar ríkja Evrópusambandsins og EFTA-ríkja sem eiga lögheimili hér á landi og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag, enda fullnægi þeir að öðru leyti skilyrðum 1. mgr.

2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Kosningarréttur er lykilatriði í þátttöku manna í lýðræðislegu samfélagi. Erlendir ríkisborgarar eru nú um 8% allra íbúa Íslands. Þeir greiða hér skatta og leggja mikið til uppbyggingar samfélagsins, margir þeirra munu svo að öllum líkindum öðlast íslenskt ríkisfang þegar á líður. Flutningsmönnum þessa frumvarps þykir rétt að gefa þessum hópi aukið vægi og aukin völd þegar kemur að ákvörðunum sem varða nærumhverfi hans.
    Á undanförnum árum hefur þróunin verið í þá átt að ríki Evrópu hafa í auknum mæli veitt erlendum ríkisborgurum kosningarrétt í kosningum á lægri stjórnsýslustigum. Norðurlönd veittu ríkisborgurum hvers annars kosningarrétt til sveitarstjórna fyrir nokkru, gjarnan með ákveðnum búsetuskilyrðum, en hafa öll fallið frá slíkum skilyrðum, að Íslandi undanskildu. Þá hafa Norrænu ríkin þrjú sem eru aðilar að Evrópusambandinu veitt ESB-borgurum sambærilegan rétt.

Kosningarréttur til sveitarstjórna á Norðurlöndum.

Norrænir borgarar Borgarar EES-ríkja Aðrir
Finnland Strax Strax 3 ár (ótím. dvalarleyfi)
Danmörk Strax Strax 3 ár
Svíþjóð Strax Strax 3 ár
Noregur Strax 3 ár 3 ár
Ísland 3 ár 5 ár 5 ár

    Að mati flutningsmanna er rétt að færa kosningarrétt útlendinga til svipaðs horfs og annars staðar á Norðurlöndum. Er í því skyni lagt til að ríkisborgarar EFTA- og ESB-ríkja hljóti kosningarrétt þegar við lögheimilisflutning en að ríkisborgarar ríkja utan EFTA og ESB hljóti kosningarrétt eftir að hafa verið búsettir á Íslandi í þrjú ár. Staðan hér á landi yrði þá ámóta því sem þekkist í Danmörku og Svíþjóð. Í tilfelli ríkisborgara utan EFTA og ESB þykir flutningsmönnum rétt að miða kosningarrétt við fastan búsetutíma fremur en lagalega stöðu (ótímabundið dvalarleyfi), þar sem sú afmörkun er hvort í senn skýrari og einfaldari í framkvæmd.