Ferill 68. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 397  —  68. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Arnljótsdóttur, Ágúst Geir Ágústsson og Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti og Ragnhildi Hjaltadóttur, Bryndísi Helgadóttur og Hermann Sæmundsson frá innanríkisráðuneyti.
    Með þingsályktunartillögunni er leitað eftir stuðningi Alþingis við fyrirhugaða breytingu á heiti og fjölda ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem forsætisráðherra hyggst gera tillögu um til forseta Íslands í samræmi við 15. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Fyrirhugaðar breytingar á Stjórnarráði Íslands fela í sér að í stað innanríkisráðuneytis komi annars vegar dómsmálaráðuneyti og hins vegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Með breytingunni fjölgar ráðuneytum úr átta í níu.
    Á fundum nefndarinnar var fjallað um ýmis atriði málsins, m.a. fagleg sjónarmið við fyrirhugaða skiptingu, kostnað við breytingarnar, hagkvæmni o.fl. Einnig var fjallað um tilganginn með uppskiptingunni sem er að skerpa á verkaskiptingu og auka skilvirkni. Um leið er pólitísk forysta og áhersla á málaflokkinn efld í takt við aukið mikilvægi hans.

Skipting innanríkisráðuneytis.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að með slíkri skiptingu mætti tryggja markvissari forystu í málaflokkum hvors ráðuneytis um sig og gera ráðuneytunum þannig betur fært að sinna þeim umfangsmiklu lögbundnu verkefnum sem nú heyra undir innanríkisráðuneytið. Miklar breytingar hafa orðið frá því að ráðuneytin voru sameinuð og ný og brýn verkefni hafa kallað á sérstaka forgangsröðun og athygli ráðherra, svo sem öryggis- og varnarmál, málefni tengd landamærum og löggæslumál. Þá hefur straumur flóttamanna til Evrópu margfaldast og aldrei hafa eins margir sótt um alþjóðlega vernd hérlendis og á síðasta ári. Auk þess stendur endurskipulagning dómskerfisins yfir og mikilvægt að vel takist til. Nauðsynlegt er að fara í markvissa uppbyggingu innviða eftir niðurskurð síðustu ára með skýra forgangsröðun, auk þess sem flutningur byggðamála til ráðuneytis samgöngu- og sveitarstjórnarmála gefur tækifæri til nýrrar stefnumótunar og þróunar á því sviði.
    Fram kom að breytingin stuðli einnig að aukinni sérþekkingu á þeim málefnasviðum sem um ræðir og skarpari stefnumótun sem leiði til þess að sérfræðieiningar verði mjög öflugar hver fyrir sig en áherslan innan Stjórnarráðsins hefur verið að byggja upp öflugt sérfræðingateymi innan allra ráðuneyta. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að byggja upp sérþekkingu á málefnasviðum og telur það grundvallarforsendu þess að efla ráðuneyti.

Sjálfstæð ráðuneyti.
    Á fundum nefndarinnar var kynnt að með skiptingunni verði til tvö sjálfstæð ráðuneyti með öllu sem því fylgir, þ.e. rekstrarlegum aðskilnaði, fjárlagagerð og stoðþjónustu, svo sem símsvörun, ferðareikningum og öryggismálum. Þá munu ráðuneytin hvort um sig úrskurða í sínum málum. Unnið er að fyrirhugaðri skiptingu í ráðuneytinu en í þeirri vinnu fer fram skoðun á því hvort unnt sé að samnýta húsnæði og ákveðna stoðþjónustu fyrir bæði ráðuneytin. Auk þess er almennt unnið að því að efla sameiginlega stoðþjónustu í Stjórnarráðinu öllu sem og sameiginleg útboð sem miði að aukinni hagræðingu í rekstri ráðuneyta.
    Á fundinum kom fram að með því að setja á fót nýtt ráðuneyti fjölgi ráðuneytisstjórum um einn auk þess sem hugsanlega þurfi að skipa nýjan skrifstofustjóra. Fjöldi starfsmanna í hvoru ráðuneyti verði um 40 manns. Fyrir nefndinni kom einnig fram að stefnumótun og mannauðsmál hafa verið til fyrirmyndar í innanríkisráðuneytinu. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að breytingarnar verði unnar í sem bestu samráði við starfsmenn í anda þeirrar stefnu sem mótuð hefur verið.
    Nefndin fjallaði almennt um skiptingu málefnasviðs milli ráðuneyta og þá sérstaklega varðandi stofnanir sem undir þau heyra. Var sérstaklega nefnt að hlutverk stofnana hefur breyst og þróast mjög mikið síðustu ár og því væri nauðsynlegt að huga að því undir hvaða ráðuneyti stofnanir ættu að heyra. Var nefnt sem dæmi breytt hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar í því sambandi. Meiri hlutinn leggur einnig áherslu á mikilvægi þess að breytingarnar verði unnar í góðu samstarfi við forystumenn stofnana og þá ekki síður ef þær eru færðar milli ráðuneyta.
    Nefndin ræddi nokkuð um sjálfstæðar úrskurðarnefndir sem starfa í miklum mæli utan ráðuneytanna. Með þeirri tilhögun er úrskurðarvald fært úr höndum ráðuneyta og þar með ábyrgðin á þeim málum og sérþekking. Meiri hlutinn telur æskilegt að draga úr því fyrirkomulagi og leggur áherslu á að hugað verði sérstaklega að því að færa þessi verkefni í auknum mæli inn til ráðuneytanna að nýju.

Kostnaður og umfang.
    Nefndin ræddi um kostnað og breytingar í starfsmannahaldi. Fyrir nefndina voru lagðar hugmyndir þar sem gert var ráð fyrir verulegum kostnaði við uppskiptinguna sem nefndin hafði athugasemdir við. Meiri hlutinn telur að auk eðlilegs upphafskostnaðar muni breytingarnar fela í sér kostnað vegna ráðningar ráðuneytisstjóra og ritara hans.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að með samþykkt þingsályktunartillögunnar sé ekki verið að samþykkja frekari útgjaldaaukningu vegna uppskiptingarinnar. Bendir meiri hlutinn í því sambandi á að innan Stjórnarráðsins er unnið að enn frekari samnýtingu og samþættingu stoðþjónustu almennt sem ætti að koma til móts við þann kostnaðarauka sem þessi uppskipting hefur í för með sér auk endurskoðunar á fyrirkomulagi sjálfstæðra úrskurðarnefnda.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Hildur Sverrisdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir áliti þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 17. mars 2017.

Brynjar Níelsson,
form.
Jón Steindór Valdimarsson, frsm. Njáll Trausti Friðbertsson.
Haraldur Benediktsson. Hildur Sverrisdóttir.