Ferill 68. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 422  —  68. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Frá 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Fyrsti minni hluti tekur fram að sérstaklega hafi verið fundið að því eftir efnahagshrunið að ráðuneytin væru of mörg og of smá og þess vegna var ráðist í umfangsmiklar breytingar á Stjórnarráðinu til að styrkja það með sameiningu ráðuneyta. Þá var auk þess þannig um það búið í löggjöfinni um Stjórnarráðið að fleiri en einn ráðherra gætu skipað hvert ráðuneyti.
    Fyrsti minni hluti telur mikilvægt að slíkur sveigjanleiki sé fyrir hendi í löggjöfinni til að Stjórnarráðið geti lagað sig að pólitískum og/eða efnislegum áherslum hverju sinni. Verður vart séð að sú sé raunin í þessu máli.
    Fyrsti minni hluti telur ámælisvert að ekki hafi legið fyrir kostnaðarmat eða nýtt skipurit þegar málið var lagt fram og ber því þess merki að um sé að ræða fyrst og fremst ráðstöfun sem snýst um jafnvægi milli flokka í myndun ríkisstjórnar. Þannig eru ekki skýr efnisleg rök lögð til grundvallar ákvörðuninni og um að ræða skort á faglegum grunni sem viðunandi getur talist. Þegar kallað var eftir kostnaðarmati tók það nokkurn tíma og loks kom í ljós að gert var ráð fyrir allt að sjö nýjum stöðugildum og kostnaði sem nemi nálægt 120 millj. kr. á ári. Þannig væri um að ræða ráðstöfun sem mundi kosta allt að hálfum milljarði á kjörtímabilinu án þess að um það væri sérstaklega fjallað í framsögu ráðherra eða í gögnum málsins. Samkvæmt niðurstöðu meiri hlutans er þeim tilmælum beint til ráðuneytisins að í stað þessara sjö stöðugilda verði látið nægja að bæta við stöðu ráðuneytisstjóra og ritara hans við þessa breytingu.
    Fyrsti minni hluti telur málið vanreifað, fyrir því liggi ekki faglegur rökstuðningur, verið sé að tvístra starfskröftum í ráðuneytum í stað þess að samþætta og samnýta í þágu ábyrgrar ráðstöfunar opinbers fjár og sterkari ráðuneyta og loks sé ljóst, af vandræðagangi varðandi kostnaðarmat og skipurit, að undirbúningi var verulega áfátt. Í þessu ljósi getur 1. minni hluti ekki stutt málið.

Alþingi, 14. mars 2017.

Svandís Svavarsdóttir.