Ferill 362. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 491  —  362. mál.
Stjórnartillaga.Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2016 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2016, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/60/ESB frá 15. maí 2014 um skil á menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis og breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 (endurútgefin).

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2016 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (sbr. fskj. I), og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/60/ESB frá 15. maí 2014 um skil á menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis og breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 (endurútgefin) (sbr. fskj. II).
    Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir umrædda tilskipun var ákvörðun nr. 121/2016 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir. Hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið gerður þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþings fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/60/ESB frá 15. maí 2014 um skil á menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis og breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 (endurútgefin).
    Samkvæmt 36. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins koma ákvæði um frjálsa vöruflutninga ekki í veg fyrir að leggja megi á innflutning, útflutning og umflutning vara bönn eða höft sem réttlætast af vernd þjóðarverðmæta er hafa listrænt, sögulegt eða fornleifafræðilegt gildi. Sambærilegt ákvæði er að finna í 13. gr. EES-samningsins.
    Tilskipun 2014/60/ESB leysir af hólmi tilskipun 93/7/EBE frá 15. mars 1993 um að skila menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis.
    Með tilskipun 93/7/EBE var tekið upp fyrirkomulag sem gerir aðildarríkjum Evrópusambandsins kleift að tryggja að menningarminjum, sem flokkaðar eru sem þjóðarverðmæti í skilningi 36. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, falla undir sameiginlega flokka menningarminja sem um getur í viðaukanum við þá tilskipun og hafa verið fluttar brott af yfirráðasvæði þeirra í bága við ráðstafanir aðildarríkja, verði skilað aftur til yfirráðasvæðis þeirra. Beiting tilskipunarinnar hefur þó sýnt að takmarkanir eru á fyrirkomulagi því sem á að tryggja að menningarminjum verði skilað. Tilskipuninni er beitt sjaldan, einkum vegna þess hve takmarkað gildissvið hennar er.
    Með tilskipun 2014/60/ESB er gildissviðið rýmkað þannig að það nái til hvers konar menningarminja sem aðildarríki flokkar eða skilgreinir, samkvæmt landslögum eða stjórnsýslureglum, sem þjóðarverðmæti með listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi í skilningi 36. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Enn fremur þurfa menningarminjar, flokkaðar eða skilgreindar sem þjóðarverðmæti, ekki lengur að tilheyra flokkum eða uppfylla viðmiðanir er varðar aldur og/eða fjárhagslegt gildi til þess að uppfylla skilyrði þess að þeim verði skilað á grundvelli tilskipunarinnar.
    Þá er samstarf milli aðildarríkja aukið til að stuðla að skilvirkari og samræmdari beitingu tilskipunarinnar. Þannig er þess krafist að stjórnvöld skiptist á upplýsingum um menningarminjar sem fluttar eru ólöglega í forritseiningu í IM-upplýsingakerfinu, sem er sérsniðin fyrir menningarminjar.
    Frestur til að meta hvort menningarminjar, sem finnast í öðru aðildarríki, teljast menningarminjar í skilningi tilskipunar 93/7/EBE hefur verið talinn of stuttur. Af þeim sökum lengir tilskipun 2014/60/ESB frestinn úr tveimur mánuðum í sex mánuði. Einnig er frestur til að hefja málsmeðferð vegna skila lengdur úr einu ári í þrjú ár, eftir að aðildarríki það sem menningarminjar voru fluttar frá, kemst að raun um staðsetningu menningarminjanna og hver sé handhafi þeirra eða vörsluaðili.
    Með tilskipun 2014/60/ESB eru einnig lagðar skyldur á herðar þeim sem verðmætin finnast hjá, þ.e. handhafa verðmætanna. Þannig er handhafa skylt að sýna fram á að hann hafi viðhaft tilhlýðilega aðgát og árvekni við öflun minjanna, þ.e. að það hafi ekki verið gert með ólöglegum hætti. Þá setur tilskipunin fram viðmið sem taka skal tillit til við mat á því hvort handhafi hafi viðhaft slíka tilhlýðilega aðgát og árvekni.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar 2014/60/ESB í landsrétt kallar á breytingar á lögum um skil menningarverðmæta til annarra landa nr. 57/2011. Gert er ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðherra muni leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögunum á yfirstandandi löggjafarþingi.Fylgiskjal I.

Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2016 frá 3. júní 2016
um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir
og vottun) og X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn.


www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0491-f_I.pdfFylgiskjal II.

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/60/ESB frá 15. maí 2014
um skil á menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis og breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 (endurútgefin).


www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0491-f_II.pdf