Ferill 363. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 492  —  363. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 194/2016 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 194/2016, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:
     1.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 524/2013 frá 21. maí 2013 um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun 2009/22/EB (reglugerð um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu (ODR)).
     2.      Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/1051 frá 1. júlí 2015 um fyrirkomulag framkvæmdar á starfsemi rafræns vettvangs til lausnar deilumálum á Netinu, fyrirkomulag rafræna kvörtunareyðublaðsins og fyrirkomulag samstarfs milli tengiliða sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 524/2013 um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu.
     3.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/11/ESB frá 21. maí 2013 um lausn deilumála neytenda utan dómstóla og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun 2009/22/EB (tilskipun um lausn deilumála neytenda utan dómstóla (ADR)).

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 194/2016 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (sbr. fskj. I), og til að fella inn í samninginn þær gerðir sem tilgreindar eru í tillögugreininni (sbr. fskj. II–IV).
    Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir umrædda tilskipun var ákvörðun nr. 194/2016 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni gerðanna sem hér um ræðir. Þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið gerður þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþings fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu (ODR).
    Meginmarkmið reglugerðar (ESB) nr. 524/2013 um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð er að tryggja öfluga neytendavernd á Evrópska efnahagssvæðinu og að koma á fót rafrænum vettvangi til lausnar deilumálum neytenda á netinu. Forsenda góðrar neytendaverndar er að neytendur hafi aðgang að einföldum, skilvirkum, hraðvirkum og ódýrum leiðum til að leysa deilumál. Er það sérstaklega mikilvægt þegar neytendur eiga í viðskiptum yfir landamæri og á netinu.
    Aðgengi að leiðum til að leysa deilumál sem upp koma vegna sölu á vörum eða þjónustu á netinu eru mismunandi og misgóðar. Þá er vitund almennings um þær brotakennd sem grefur undan trausti neytenda og seljenda á því að stunda viðskipti á netinu. Með reglugerðinni er því komið á heildstæðri löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu um lausn deilumála, sem rísa vegna viðskipta á netinu, með rafrænni málsmeðferð.
    Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skal samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar stofnsetja miðlægan gagnagrunn fyrir neytendur og seljendur sem vilja leita lausnar á deilumáli, sem komið hefur upp vegna viðskipta á netinu, án dómstólameðferðar. Samkvæmt reglugerðinni skal gagnagrunnurinn vera á öllum opinberum tungumálum ESB. Í aðlögunartexta í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 194/2016 segir að gagnagrunnurinn skuli vera aðgengilegur á öllum tungumálum sem vísað er til í 1. mgr. 129. gr. EES-samningsins, þar á meðal íslensku.
    Þá skal hvert ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins tilnefna tengilið fyrir miðlæga gagnagrunninn sem veitir stuðning við lausn deilumála, sem tengjast kvörtunum sem lagðar eru fram í gegnum vettvanginn, með því að greiða fyrir samskiptum milli málsaðilanna og þar til bærs úrskurðaraðila í deilumálum utan dómstóla. Neytendasamtökin munu gegna hlutverki tengiliðar hér á landi.
    Ítarlegar samskiptareglur ásamt reglum um upplýsingagjöf, meðferð gagna o.fl. vegna samskipta neytenda, úrskurðarnefnda og landsstjórnvalda við hinn miðlæga gagnagrunn er að finna í framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/1051.

4. Lausn deilumála neytenda utan dómstóla (ADR).
    Samhliða reglugerð (ESB) nr. 524/2013 um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð var samþykkt tilskipun 2013/11/ESB um lausn deilumála neytenda utan dómstóla. Gerðirnar eru innbyrðis tengdar og koma hvor annarri til fyllingar. Tilskipun 2013/11/ESB er ætlað að tryggja aðgengi að úrskurðaraðilum í háum gæðaflokki í deilumálum utan dómstóla, en slíkt aðgengi er forsenda þess að rafræni vettvangurinn, sem reglugerð (ESB) nr. 524/2013 kveður á um, geti starfað sem skyldi.
    Tilskipunin mælir fyrir um almennar reglur um lausn deilumála utan dómstóla vegna ágreinings um skyldur samkvæmt sölu- eða þjónustusamningum, innan lands og yfir landamæri, þegar bæði seljandi og neytandi eru búsettir á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Með tilskipuninni er lögð almenn skylda á seljendur vöru og þjónustu að starfrækja eða gerast aðilar að einföldum og skilvirkum úrræðum fyrir neytendur til að leysa ágreining sem upp getur komið í viðskiptum. Þá er lögð skylda á ríki á Evrópska efnahagssvæðinu að tryggja að hægt sé að vísa deilumáli sem varðar seljanda vöru eða þjónustu, með staðfestu í viðkomandi ríki, til úrskurðaraðila utan dómstóla. Slík málsmeðferð felur í sér milligöngu úrskurðarnefnda sem leggja til eða fyrirskipa lausnir eða leiða saman málsaðila með það að markmiði að greiða fyrir sáttum og þannig niðurstöðu án dómstóla. Úrskurðaraðili sem gegnir þessu hlutverki hér á landi er fyrst og fremst kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa, en þá eru einnig sértækari kærunefndir sem fást við kvartanir vegna tiltekinnar tegundar þjónustu. Tilskipunin gerir þá kröfu til úrskurðarnefnda að halda úti vefsetri þar sem málsaðilar hafa greiðan aðgang að upplýsingum um hvers konar meðferð er lögð til. Úrskurðarnefnd þarf að geta látið málsaðilum í té upplýsingar á varanlegum miðli og gera neytanda kleift að leggja fram kvörtun annars staðar en á netinu, ef við á.
    Samkvæmt 13. gr. tilskipunarinnar skulu seljendur upplýsa neytendur undir hvaða úrskurðaraðila þeir heyra. Veffang viðkomandi úrskurðaraðila skal fylgja upplýsingum til neytenda.

5. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing framangreindra gerða hér á landi kallar á breytingar á lögum nr. 50/2000, um lausafjárkaup, lögum nr. 42/2000, um þjónustukaup, og lögum nr. 48/2003, um neytendakaup.
    Gert er ráð fyrir því að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á framangreindum lögum.



Fylgiskjal I.

Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 194/2016 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.


www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0492-f_I.pdf



Fylgiskjal II.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 524/2013 frá 21. maí 2013 um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun 2009/22/EB (reglugerð um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu (ODR)).


www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0492-f_II.pdf



Fylgiskjal III.

Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/1051 frá 1. júlí 2015 um fyrirkomulag framkvæmdar á starfsemi rafræns vettvangs til lausnar deilumálum á Netinu, fyrirkomulag rafræna kvörtunareyðublaðsins og fyrirkomulag samstarfs milli tengiliða sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 524/2013 um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu.


www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0492-f_III.pdf



Fylgiskjal IV.

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/11/ESB frá 21. maí 2013 um lausn deilumála neytenda utan dómstóla og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun 2009/22/EB (tilskipun um lausn deilumála neytenda utan dómstóla (ADR)).


www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0492-f_IV.pdf