Ferill 426. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 559  —  426. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002 (refsing við tálmun eða takmörkun á umgengni).

Flm.: Brynjar Níelsson, Nichole Leigh Mosty, Elsa Lára Arnardóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Óli Björn Kárason.


1. gr.

    Við 98. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Tálmi það foreldri sem barn býr hjá hinu foreldrinu eða öðrum sem eiga umgengnisrétt samkvæmt úrskurði, dómi, dómsátt foreldra eða samningi þeirra staðfestum af sýslumanni að neyta umgengnisréttar, eða takmarki hann, varðar það fangelsi allt að fimm árum.

2. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Greinargerð.

    Samkvæmt 1. gr. a barnalaga, nr. 76/2003, og 7. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga börn rétt á að þekkja og umgangast báða foreldra sína. Í 46. gr. barnalaga er sérstaklega tekið fram að barn eigi rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá og þegar foreldrar búa ekki saman hvílir sú skylda á báðum að grípa til þeirra ráðstafana sem við verði komið til að tryggja að þessi réttur sé virtur. Jafnframt er tekið fram að foreldri sem barn býr hjá sé skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldrið nema hún sé andstæð hag og þörfum barnsins að mati dómara eða lögmælts stjórnvalds.
    Þrátt fyrir að kveðið sé á með skýrum hætti um skyldur þess foreldris sem barnið býr hjá til að stuðla að umgengni þess við hitt foreldrið er oft verulegur misbrestur á því. Alþekkt og nokkuð algengt er að það foreldri sem barn býr hjá tálmi alfarið eða takmarki verulega að barn umgangist hitt foreldrið og fari með því gegn úrskurði, dómi, dómsátt eða samningi aðila. Úrræði í barnalögum eru þau að sýslumaður getur, að kröfu þess sem rétt á til umgengni, skyldað þann sem fer með forsjá eða umsjá barnsins að láta af tálmunum að viðlögðum dagsektum, sbr. 48. gr. barnalaga. Óumdeilt er að þetta úrræði hefur ekki virkað til að tryggja þennan mikilvæga rétt barnsins. Þessi málsmeðferð hjá sýslumanni er bæði tímafrek og kostnaðarsöm auk þess sem ákvörðunum um dagsektir er sjaldan fylgt eftir með fjárnámi. Tálmi forsjármaður umgengni þrátt fyrir úrskurð um dagsektir og fjárnám getur dómari, að kröfu þess sem rétt á til umgengni við barn, úrskurðað að umgengni verði komið á með aðför í eitt skipti eða að umgengni á vissu tímabili verði komið á með aðfarargerð, sbr. 50. gr. laganna. Reynslan hefur sýnt að gjarnan þarf að fara oftar en einu sinni í slíkt dómsmál því tálmanir halda gjarnan áfram eftir hverja slíka aðgerð. Slíkur málarekstur er þannig tímafrekur og kostnaðarsamur auk þess að vera mjög íþyngjandi fyrir alla sem að málinu koma, ekki síst barnið.
    Ástæða þess að lögð er svona mikil áhersla á rétt barnsins og skyldur foreldra í lögum og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er sú að það skiptir verulegu máli fyrir velferð barnsins. Það er því andleg vanræksla að svipta barnið þessum rétti til að umgangast báða foreldra. Í 98. gr. barnaverndarlaga segir að þeir sem vanrækja barn andlega þannig að það stefni lífi eða heilsu þess í hættu skuli sæta refsingu. Ótal rannsóknir sýna að barni, sem er svipt þeim möguleika að eiga samskipti við foreldri, getur orðið það mjög tilfinningalega og andlega þungbært til framtíðar, ekki síst ef það hefur alist upp í samvistum við það foreldri í einhvern tíma. Af þeim sökum er mikilvægt að vanræksla gagnvart barni, sem felst í tálmunum eða takmörkunum á umgengni, fái sömu meðhöndlun barnaverndaryfirvalda og annars konar vanræksla og/eða ofbeldi gagnvart barni.
    Þótt löggjafinn hafi með nokkuð skýrum hætti litið svo á að þessi réttur barns til umgengni við báða foreldra skipti miklu máli fyrir velferð þess hafa núverandi ákvæði í lögum ekki tryggt með nægjanlegum hætti þennan rétt barnsins. Því er lagt til að bætt sé við 98. gr. barnaverndarlaga sérstöku ákvæði sem taki af öll tvímæli um að slík tálmun eða takmörkun á umgengni sé ólíðandi út frá velferð barns og sé því refsiverð. Orðalag ákvæðisins er sambærilegt því sem notað er í ákvæðum barnalaga er varða tálmanir á umgengni og má því byggja á þeirri skilgreiningu sem fram kemur í athugasemdum við frumvarp það sem lögfesti ákvæði barnalaga um dagsektir og aðför vegna tálmunar. Með tálmun er því vísað til atferlis foreldris sem er fólgið í því að koma í veg fyrir að barn fái að njóta umgengnisréttar við hitt foreldrið, t.d. með því að halda barni í læstri íbúð þegar á að sækja það, fara á brott með barn af heimili þess eða öðrum stað þar sem umgengni á að hefjast, koma ekki með barn á þann stað þar sem afhenda á barnið eða valda því með öðrum hætti að úrskurður verður ekki framkvæmdur. Augljóst er að í tálmun felst takmörkun á umgengni en tálmun er að einhverju leyti gildishlaðnara og því hætta á að krafa verði gerð um að takmörkun þurfi að vera mikil og meiri háttar til að talið verði að í henni felist tálmun. Til að tryggja skýrleika ákvæðisins er því lagt til að ákvæðið nái bæði til tálmunar og takmarkana. Gert er ráð fyrir að barnaverndaryfirvöld geti í þessum málum sem öðrum sem varða mikla hagsmuni barns gripið til annarra úrræða samkvæmt barnaverndarlögum, svo sem tímabundinnar vistunar utan heimilis eða sviptingu forsjár þess sem gerist brotlegur, sé brot alvarlegt eða ítrekað og ekki farið að tilmælum um úrbætur.
    Til að reyna að tryggja að barn fari ekki á mis við þá umgengni sem gagnast barninu best og undirstrika að tálmun og takmörkun á umgengni er brýnt brot á forsjárskyldum foreldris er lagt til að brot af þessu tagi varði allt að fimm ára fangelsi. Það er í samræmi við brot á 1. mgr. 98. gr. er varða hvers konar ofbeldi gagnvart börnum, m.a. vanrækslu.
    Gera má ráð fyrir því, verði frumvarpið að lögum, að aukið álag verði á barnaverndaryfirvöld, a.m.k. til að byrja með. Hins vegar má ætla að tafsöm og kostnaðarsöm meðferð mála hjá sýslumanni vegna tálmana á umgengni hverfi nánast. Því er líklegra að kostnaður vegna tálmunarmála muni í raun verða minni frekar en aukast, ekki síst fyrir málsaðila sjálfa.