Ferill 172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 577 — 172. mál.
Svar
dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni um úrskurði um umgengni barna við umgengnisforeldra.
1. Hversu margir úrskurðir um umgengni barna við umgengnisforeldra hafa verið kveðnir upp á ári sl. tíu ár? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
Ráðuneytið aflaði upplýsinga hjá sýslumannsembættum og eru svör sem bárust ráðuneytinu sundurliðuð í töflu 1.
Tafla 1. Upplýsingar um fjölda úrskurða um umgengni barna við umgengnisforeldra hjá embættum sýslumanna frá 2007 til 2016.
Fjöldi úrskurða um umgengni | |
2007 | 62 |
2008 | 65 |
2009 | 79 |
2010 | 66 |
2011 | 74 |
2012 | 66 |
2013 | 53 |
2014 | 59 |
2015 | 51 |
2016 | 64 |
Samtals | 639 |
2. Hversu oft lauk umgengnismálum á sama tímabili með samkomulagi? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
Ráðuneytið aflaði upplýsinga hjá sýslumannsembættum og eru svör sem bárust ráðuneytinu sundurliðuð í töflu 2.
Tafla 2. Upplýsingar um fjölda umgengnismála sem lauk með samkomulagi hjá embættum sýslumanna frá 2007 til 2016.
Samkomulag um umgengni | |
2007 | 160 |
2008 | 186 |
2009 | 192 |
2010 | 168 |
2011 | 222 |
2012 | 196 |
2013 | 256 |
2014 | 271 |
2015 | 216 |
2016 | 211 |
Samtals | 2078 |
3. Í hversu mörgum tilfellum var sett fram krafa um beitingu dagsekta til að þvinga fram umgengni og í hversu mörgum tilfellum úrskurðaði sýslumaður um beitingu dagsekta? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
Ráðuneytið aflaði upplýsinga hjá sýslumannsembættum og eru svör sem bárust ráðuneytinu sundurliðuð í töflu 3.
Tafla 3. Upplýsingar um fjölda mála þar sem sett var fram krafa um beitingu dagsekta til að þvinga fram umgengni og fjöldi úrskurða um beitingu dagsekta hjá embættum sýslumanna frá 2007 til 2016.
Krafa um dagsektir | Úrskurðir um dagsektir | |
2007 | 34 | 12 |
2008 | 28 | 10 |
2009 | 53 | 14 |
2010 | 40 | 12 |
2011 | 55 | 12 |
2012 | 54 | 4 |
2013 | 75 | 13 |
2014 | 68 | 7 |
2015 | 72 | 6 |
2016 | 71 | 17 |
Samtals | 550 | 107 |
4. Í hversu mörgum tilfellum var sett fram krafa um aðför til að koma á umgengni og í hversu mörgum tilfellum úrskurðaði dómari að umgengni skyldi komið á með aðför? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
Ráðuneytið aflaði upplýsinga hjá sýslumannsembættum og dómstólaráði og eru svör sem bárust ráðuneytinu frá sýslumannsembættum um þau mál þar sem sett var fram krafa um aðför til að koma á umgengni sundurliðuð í töflu 4. Varðandi fjölda mála þar sem dómari úrskurðaði að umgengni skyldi komið á með aðför fékk ráðuneytið þær upplýsingar frá dómstólaráði að málaskrá héraðsdómstólanna byði ekki upp á sér skráningu varðandi börn þannig að ekki var hægt að veita upplýsingar vegna fyrirspurnarinnar. Þá ber þess að geta að þær upplýsingar fengust hjá embættum sýslumanna að einu máli, árið 2008, hafi lokið með innsetningu.
Tafla 4. Upplýsingar um fjölda mála þar sem sett var fram krafa um aðför til að koma á umgengni hjá embættum sýslumanna frá 2007 til 2016.
Krafa um aðför | |
2007 | 1 |
2008 | 2 |
2009 | 3 |
2010 | 1 |
2011 | 0 |
2012 | 1 |
2013 | 0 |
2014 | 0 |
2015 | 1 |
2016 | 0 |
Samtals | 9 |
5. Hver er meðalafgreiðslutími úrskurða sýslumanns um umgengni þegar foreldra greinir á um umgengnina?
Ráðuneytið aflaði upplýsinga hjá sýslumannsembættum og eru svör sem bárust ráðuneytinu sundurliðuð eftir embættum í töflu 5. Þess ber að geta að samkvæmt 33. gr. a barnalaga, nr. 76/2003, er foreldrum skylt að leita sátta áður en krafist er úrskurðar um umgengni. Er í svarinu miðað við málsmeðferðartíma frá því að beiðni um umgengni berst sýslumanni og þar til úrskurður um umgengni er kveðinn upp. Er hér því einungis átt við mál sem enda með úrskurði. Hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu kom einnig fram að sáttameðferð í þeim málum sem hefði lokið með úrskurði hefði að jafnaði tekið u.þ.b. fjóra mánuði. Foreldrar hefðu forræði á því hve langan tíma sáttameðferð tæki, þar sem henni væri sjálfhætt ef foreldrar vildu ekki taka þátt í henni frekar. Þá væri í mörgum þessara mála óskað liðsinnis sérfræðings í málefnum barna samkvæmt 74. gr. barnalaga sem óhjákvæmilega lengdi málsmeðferðartímann. Liðsinni gæti t.d. falist í því að koma á og hafa eftirlit með umgengni, ræða við barn til að komast að vilja þess eða til að rannsaka frekar og leggja mat á tilgreindar aðstæður sem er verið að fást við. Í einhverjum málanna væri einnig boðin sérfræðiráðgjöf samkvæmt 33. gr. laganna. Embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu tók einnig fram að í fæstum málum lægi umgengni niðri á meðan málin væru til meðferðar. Hefði umgengni legið niðri þegar beiðni bærist embættinu væri unnið að því í gegnum allt ferlið að koma umgengninni aftur á. Í því sambandi mætti jafnframt benda á að í sumum þessara mála hefði sýslumaður kveðið upp úrskurð um fyrirkomulag umgengninnar til bráðabirgða þar til endanleg niðurstaða lægi fyrir á grundvelli 47. gr. a barnalaga.
Tafla 5. Meðalafgreiðslutími hjá embættum sýslumanna vegna úrskurða um umgengni.
Meðalafgreiðslutími í mánuðum | |
Sýslumaðurinn á Austurlandi | 5 |
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu | 14 |
Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra | 7 |
Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra | 6–8 |
Sýslumaðurinn á Suðurlandi | 4–6 |
Sýslumaðurinn á Suðurnesjum | 7 |
Sýslumaðurinn á Vestfjörðum | 5–7 |
Sýslumaðurinn á Vesturlandi | 6–7 |
Sýslumaðurinn í Vestmanneyjum | 6 |
6. Telur ráðherra þörf á aðgerðum til að koma í veg fyrir að forsjáraðili tálmi umgengni barns við foreldri eða annan sem á umgengnisrétt við barnið? Ef svo er, hvaða aðgerðir telur ráðherrann mögulegar til að ná því markmiði?
Dómsmálaráðherra hefur þegar ákveðið að taka almennt til skoðunar meðferð umgengnis- og dagsektarmála hjá embættum sýslumanna og skoða m.a. sérstaklega málsmeðferðartíma og kanna hvort og þá hvaða úrbætur þarf að gera á lögum, reglugerðum, verklagi og framkvæmd. Að beiðni ráðherra hefur ráðuneytið þegar óskað eftir upplýsingum frá embættum sýslumanna um tölfræði annars vegar og ábendingum og tillögum hins vegar um það sem betur mætti fara í þessum málum sem gæti stytt málsmeðferðartíma
Þess má þó geta að þau úrræði sem eru til staðar í barnalögum þegar annað foreldri kemur í veg fyrir umgengni foreldris og barns eru í fyrsta lagi dagsektir og í öðru lagi krafa um aðför. Samkvæmt 33. gr. a barnalaga er foreldrum skylt að leita sátta áður en krafist er úrskurðar um dagsektir og höfðað er mál um aðför. Samkvæmt 48. gr. barnalaga getur umgengni við barn samkvæmt úrskurði, dómi, dómsátt foreldra eða samningi þeirra, staðfestum af sýslumanni, verið þvinguð fram með dagsektum tálmi sá sem hefur forsjá barns hinu foreldrinu eða öðrum sem eiga umgengnisrétt við barnið að neyta hans. Sýslumaður getur, að kröfu þess sem rétt á til umgengni við barn, skyldað þann sem með forsjá barnsins fer til að láta af tálmunum að viðlögðum dagsektum allt að 30.000 kr. fyrir hvern dag. Samkvæmt ákvæðinu verða dagsektir ekki lagðar á fyrir lengra tímabil en 100 daga í senn. Þá getur sýslumaður, að kröfu þess sem rétt á til umgengni við barn, úrskurðað að dagsektir falli ekki niður fyrr en látið hafi verið af tálmunum og að umgengni hafi farið þrisvar fram undir eftirliti sérfræðings í samræmi við gildandi skipan á umgengni.
Samkvæmt 49. gr. barnalaga má gera fjárnám fyrir dagsektum samkvæmt kröfu þess sem tálmað er að njóta umgengnisréttar og renna þær í ríkissjóð. Kröfu skal beint til sýslumanns sem sér um að beina greiðsluáskorun til gerðarþola. Ef gerðarþoli lætur ekki af tálmunum sendir sýslumaður aðfararbeiðni til héraðsdóms.
Ef foreldri sem barn býr hjá heldur áfram að hindra umgengni þrátt fyrir úrskurð um dagsektir og fjárnám fyrir ógreiddum dagsektum getur dómari, að kröfu þess sem á rétt til umgengni við barn, heimilað að henni verði komið á með aðfarargerð, sbr. 50. gr. barnalaga, þ.e. að barn sé tekið úr umsjá foreldrisins sem það býr hjá og fært umgengnisforeldrinu. Dómari getur, að kröfu þess sem rétt á til umgengni við barn, úrskurðað að umgengni verði komið á með aðför í eitt skipti eða að umgengni á vissu tímabili verði komið á með aðfarargerð. Samkvæmt 4. mgr. 50. gr. barnalaga gilda að öðru leyti ákvæði 45. gr. barnalaga um meðferð máls og framkvæmd aðfarar. Dómara ber t.d. að gæta ákvæða 43. gr. barnalaga sem kveður á um að veita skuli barni, sem náð hefur nægilegum þroska, kost á að tjá sig um mál nema telja megi að slíkt geti haft skaðleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit málsins. Þá getur dómari hafnað aðfararbeiðni ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga með tilliti til hagsmuna barns. Ef til aðfarar kemur skal sýslumaður boða fulltrúa barnaverndarnefndar í umdæmi þar sem aðför fer fram til að vera viðstaddan gerðina og skal hann gæta hagsmuna barns, sbr. 3. mgr. 45. gr. barnalaga. Sýslumaður getur leitað liðsinnis lögreglu við gerðina og er lögreglu skylt að verða við slíkum fyrirmælum sýslumanns. Lögreglumenn skulu vera óeinkennisklæddir við gerðina. Framkvæmd aðfarar skal hagað þannig að sem minnst álag verði fyrir barn og er sýslumanni heimilt að stöðva gerðina telji hann sérstaka hættu á að barn hljóti skaða af framhaldi hennar.
Því hefur verið haldið fram að þegar grípa þurfi til aðgerða af hálfu yfirvalda til að koma á umgengni vegist á tvenns konar hagsmunir. Annars vegar hagsmunir barns og foreldris af því að njóta umgengninnar og hins vegar hagsmunir barns af því að framkvæmd umgengninnar valdi því ekki of miklum erfiðleikum eða skaða. Framkvæmd þvingunarúrræða verði að taka mið af þeirri hættu sem geti verið samfara því fyrir barn að þvinga fram umgengni með tilteknum ráðum. Í frumvarpi til breytinga á barnalögum, sem urðu að lögum nr. 61/2012 og tóku gildi 1. janúar 2013, var upphaflega lagt til að heimild 50. gr. barnalaga um heimild til þess að koma á umgengni með aðför yrði felld brott. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu kemur m.a. fram að áhættan af því að barn bíði skaða af framkvæmd aðfarar væri svo mikil að ekki væri á það hættandi að grípa til svo afdrifaríkra úrræða. Í frumvarpinu voru á sama tíma lagðar til breytingar sem vonast var til að hefðu jákvæð áhrif og drægju úr deilum foreldra og ykju þannig líkur á að umgengnistálmanir ættu sér ekki stað. Fram kom að miklar vonir væru bundnar við að leiðbeiningar, ráðgjöf og sáttameðferð drægju úr illvígum deilum foreldra og tryggðu frekar að þeir kæmust að niðurstöðu sem þeir gætu virt og unað við. Við meðferð málsins á Alþingi voru hins vegar gerðar þær breytingar á frumvarpinu í velferðarnefnd að fella ekki brott 50. gr. barnalaga. Nefndin vísaði m.a. til þess að ekki væru fram komin nægjanleg rök til að fella algerlega brott úr lögunum aðfararheimild til að koma á umgengni án þess að í staðinn kæmi annað raunhæft úrræði sem hægt væri að grípa til ef verulegar tálmanir yrðu á umgengni. Þá bæri einnig að líta til þess að reynslan sýndi að mjög harðar umgengnisdeilur væru fátíðar og sjaldan reyndi á beitingu slíkra þvingunarúrræða sem lengst ganga eins og aðför, en aðdragandi þeirra væri nær undantekningarlaust djúpstæður og langvarandi ágreiningur foreldra sem óhjákvæmilega hefði alltaf áhrif á barnið sem á í hlut. Nefndin taldi að hafa þyrfti í huga að aðför væri lokaúrræði til að koma á umgengni sem hefði verið ákveðin með staðfestum samningi, úrskurði, dómi eða dómsátt. Væri úrræðið ekki í lögum væri ekki hægt að stöðva tálmun á umgengni nema höfðað væri forsjármál sem nefndin taldi óásættanlegt.
Til samanburðar má geta þess að í Noregi er einungis gert ráð fyrir dagsektum. Í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð er gert ráð fyrir dagsektum og möguleika á aðför til að koma á umgengni við tilteknar aðstæður. Í Svíþjóð er einungis gripið til aðfarar í undantekningartilvikum. Þá er jafnframt litið til vilja barns, en ef barn hefur aldur og þroska til getur dómari synjað um aðför í samræmi við vilja barns. Dómari getur þó einnig farið gegn vilja barns í slíkum málum ef það er talið þjóna hagsmunum barnsins. Þá getur dómari hafnað beiðni um aðför með hliðsjón af hagsmunum barns ef því kann að stafa hætta af því að umgengni verði komið á með aðför. Í Finnlandi er einnig kveðið á um afstöðu barns til aðfarar til að koma á umgengni. Ef barn hefur náð 12 ára aldri er aðför til að koma á umgengni ekki framkvæmd gegn vilja barns. Sama á við um börn undir 12 ára aldri ef þau eru talin hafa þroska til. Í Finnlandi er sáttameðferð einnig mikilvægur þáttur í umræddum málum. Í Danmörku er fyrst gripið til sáttameðferðar og ef ekki næst sátt er unnt að kveða á um dagsektir. Einungis ef umgengni kemst ekki á þrátt fyrir beitingu dagsekta er unnt að grípa til aðfarar til að koma á umgengni. Í Danmörku er einnig litið til afstöðu barnsins til aðfarar til að koma á umgengni hafi barnið aldur og þroska til. Frá 2015 hafa dönsk yfirvöld jafnframt boðið foreldrum í slíkum málum upp á ráðgjöf sérfræðinga í málefnum barna. Ráðgjöfin er veitt foreldrum í sitt hvoru lagi og er markmið hennar að komast hjá því að beita þurfi aðför til að koma á umgengni með hliðsjón af hagsmunum barns og upplifunar þess af slíkri aðfarargerð.
Af framansögðu má sjá að þegar eru til staðar í lögum ákveðin úrræði sem hægt er að beita þegar annað foreldri kemur í veg fyrir umgengni foreldris og barns.