Ferill 130. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 681  —  130. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 39/2016, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurbjörgu Stellu Guðmundsdóttur og Hörpu Theodórsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Steinlaugu Högnadóttur og Finn Þór Birgisson frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 39/2016, frá 5. febrúar 2016, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/95/ESB frá 22. október 2014 um breytingu á tilskipun 2013/34/ESB að því er varðar birtingu tiltekinna stórra fyrirtækja og samstæðna á ófjárhagslegum upplýsingum og upplýsingum um fjölbreytileika.
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 6. ágúst 2017. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Markmiðið tilskipunar 2014/95/ESB er að ná fram sambærilegu stigi á gagnsæi félagslegra og umhverfislegra upplýsinga hjá fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum innan Evrópusambandsins. Tilskipunin nær til félaga sem falla undir tilskipun 2013/34/ESB um árleg reikningsskil, samstæðureikningsskil o.fl. Samkvæmt tilskipuninni skal skýrsla stjórnar þessara félaga innihalda upplýsingar að því marki sem nauðsynlegar eru til skýringa á þróun, árangri, stöðu félagsins varðandi umhverfis-, félags- og starfsmannamál, virðingu fyrir mannréttindum og varnir gegn mútum.
     Tilskipunin var innleidd með lögum nr. 73/2016, um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum.
    Þrátt fyrir að framsetning tillögunnar teljist að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála gerir nefndin ákveðnar athugasemdir við meðferð málsins. Nefndin áréttar að reglur um þinglega meðferð EES-mála eiga lagastoð í lögum nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og er þeim m.a. ætlað að tryggja að frágangur lagafrumvarpa sem innleiða reglur sem byggjast á ESB-gerðum sé með tilteknum og samræmdum hætti.
    Nefndin gerir athugasemd við að tilskipunin hafi verið innleidd áður en stjórnskipulegum fyrirvara hafi verið aflétt. Sú málsmeðferð er ekki í samræmi við 5. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála þar sem fram kemur að „hlutaðeigandi ráðuneyti undirbúa samhliða eða í framhaldi af framlagningu þingsályktunartillögu nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga og leggja tímanlega fyrir þingið“.
    Þá vekur nefndin athygli á að innleiðing tilskipunarinnar gengur lengra en lágmarksákvæði tilskipunarinnar kveður á um. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laga nr. 73/2016 var slíkt aftur á móti hvergi tiltekið. Nefndin vísar í því samhengi til c-liðar 5. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála þar sem fram kemur að í athugasemdum við lagafrumvarp til innleiðingar skuli fram koma með skýrum og samræmdum hætti „að hvaða marki frumvarpið hafi að geyma frávik frá upphaflegu ESB-gerðinni, þ.e. hvort og þá að hve miklu leyti gengið er lengra en viðkomandi gerð gefur tilefni til“.
     Í greinargerð sem fylgdi þingsályktunartillögunni er tiltekið að innleiðing tilskipunarinnar kalli á breytingu á lögum nr. 3/2006. Nefndin telur að sú lagabreyting hafi þegar verið gerð með lögum nr. 73/2016.
    Nefndin gerir að öðru leyti ekki athugasemdir.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Teitur Björn Einarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Bryndís Haraldsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 2. maí 2017.

Jóna Sólveig Elínardóttir,
form.
Vilhjálmur Bjarnason,
frsm.
Ásta Guðrún Helgadóttir.
Birgir Ármannsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.