Ferill 361. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 736  —  361. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 59/2017 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Finn Þór Birgisson og Steinlaugu Högnadóttur frá utanríkisráðuneyti og Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2017, frá 17. mars 2017, um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/37/ESB frá 26. júní 2013 um breytingu á tilskipun 2003/98/EB um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 17. september 2017. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Tilskipun 2013/37/ESB er ætlað að tryggja samræmda framkvæmd á sviðum sem tengjast málefnum upplýsingasamfélagsins, þar á meðal verkefnum stjórnvalda um opin gögn og endurnotkun upplýsinga í opinberum skrám. Í gildandi tilskipun eru settar lágmarksreglur um endurnotkun og hagnýtar leiðir til að auðvelda endurnotkun gagna sem til eru og eru í vörslu opinberra aðila í aðildarríkjunum.
    Helsta breytingin sem tilskipunin felur í sér er að í stað heimildar er mælt fyrir um skyldu til að gera öll gögn endurnýtanleg, nema aðgangur að þeim sé undanþeginn eða takmarkaður, t.d. vegna persónuverndar. Reglurnar ná ekki til höfundavarinna gagna. Þá er gerð sú krafa að upplýsingar verði settar fram á sniði sem almenningur getur nýtt sér án endurgjalds. Gildissvið endurnotkunar er einnig víkkað út og nær yfir söfn, þ.m.t. bóka- og skjalasöfn. Að meginreglu skal ekki taka hærra gjald en nemur kostnaði við hverja beiðni um endurnotkun en undantekningar eiga við um söfn og aðstæður þar sem opinber aðili þarf að afla tekna til að standa straum af kostnaði við rekstur.
    Unnið hefur verið að sameiginlegri stefnumótun hjá ríki og sveitarfélögum um að auka aðgengi að gögnum og upplýsingum og hefur í því skyni verðið opnuð tilraunagátt, vefurinn island.is, þar sem almenningur, fyrirtæki og hagsmunaaðilar hafa aðgang að ópersónubundnum upplýsingum og skrám í vörslu ríkis og sveitarfélaga. Aukið aðgengi að upplýsingum fellur vel að markmiðum upplýsingalaga og er til þess fallið að styrkja upplýsingarétt og tjáningarfrelsi, auka möguleika almennings til þátttöku í lýðræðissamfélagi, veita stjórnvöldum aukið aðhald og auka traust á stjórnsýslu og stjórnvöld.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingar á upplýsingalögum, nr. 140/2012.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 9. maí 2017.

Jóna Sólveig Elínardóttir,
form.
Birgir Ármannsson,
frsm.
Álfheiður Ingadóttir.
Ásta Guðrún Helgadóttir. Bryndís Haraldsdóttir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Teitur Björn Einarsson. Vilhjálmur Bjarnason.