Ferill 364. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 739  —  364. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 215/2016 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) og XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Finn Þór Birgisson og Steinlaugu Högnadóttur frá utanríkisráðuneyti og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 215/2016, frá 28. október 2016, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) og XX. viðauka (Umhverfismál), og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/757 frá 29. apríl 2015 um vöktun, skýrslugjöf og sannprófun á losun koltvísýrings frá sjóflutningum og um breytingu á tilskipun 2009/16/EB.
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 28. apríl 2017. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Reglugerð (ESB) 2015/757 er ætlað að draga úr áhrifum gróðurhúsalofttegunda og setja á fót kerfi til að vakta losun koldíoxíðs frá sjóflutningum. Þá eru í reglugerðinni settar fram reglur um nákvæma vöktun, skýrslugjöf og vottun koltvísýringslosunar í því skyni að dregið verði úr losun koltvísýrings frá sjóflutningum. Reglugerðin tekur til losunar skipa yfir 5.000 brúttótonnum að stærð, óháð því hvar skipið er skráð. Þá tekur reglugerðin ekki til vissra tegunda skipa, svo sem fiskveiði- eða fiskvinnsluskipa. Engin skip yfir 5.000 brúttótonnum eru skráð hér á landi og er Ísland því ekki fánaríki neins skips sem fellur undir gildissvið reglugerðarinnar. Stærsta breytingin verður því fólgin í auknu hafnareftirliti sem felst í því að þegar skip sem heyrir undir gildissvið reglugerðarinnar kemur að íslenskri höfn þarf að kanna hvort um borð sé vöktunaráætlun þar sem koltvísýringslosun skipsins kemur fram.
    Reglugerðin felur í sér að skila skuli losunarskýrslu vottaðri af þar til bærum vottunaraðila. Komi til þess að íslensk skip falli undir gildissvið reglugerðarinnar mun losunarskýrslu vera skilað til Eftirlitsstofnunar EFTA og Umhverfisstofnunar. Þar sem Ísland er ekki fánaríki neins skips sem fellur undir gildissvið reglugerðarinnar hefur Eftirlitsstofnun EFTA verið tilkynnt um að Ísland muni nýta undanþágu reglugerðarinnar sem felur í sér að Ísland þurfi ekki að koma á fót viðurlagakerfi til að framfylgja ákvæðum reglugerðarinnar. Komi til þess að Ísland verði fánaríki skips sem fellur undir gildissvið reglugerðarinnar kæmi það að öllum líkindum í hlut Umhverfisstofnunar að taka á móti losunarskýrslum og beita þvingunarúrræðum ef slíkri skýrslu yrði ekki skilað til stofnunarinnar.
    Þar sem ekki er að finna reglugerðarheimild til innleiðingar reglugerðar (ESB) 2015/757 í lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál, kallar innleiðingin á breytingar á lögunum.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 9. maí 2017.

Jóna Sólveig Elínardóttir,
form., frsm.
Álfheiður Ingadóttir. Ásta Guðrún Helgadóttir.
Birgir Ármannsson. Bryndís Haraldsdóttir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Teitur Björn Einarsson. Vilhjálmur Bjarnason.