Ferill 434. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 911  —  434. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ellý Öldu Þorsteinsdóttur, Rún Knútsdóttur, Sigríði Tómasdóttur og Sturlaug Tómasson frá velferðarráðuneytinu, Guðjón Bragason, Gyðu Hjartardóttur og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Árna Múla Jónasson og Bryndísi Snæbjörnsdóttur frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Katrínu Þórdísi Jakobsen og Regínu Ásvaldsdóttur frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Umsagnir bárust frá velferðarráði Akureyrarbæjar, Blindrafélaginu, Endurhæfingu – þekkingarsetri, Félagi heyrnarlausra, Fljótsdalshéraði, Geðhjálp, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Hafnarfjarðarbæ, Jafnréttisstofu, Landssamtökunum Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Rannsóknasetri í fötlunarfræðum, ríkissaksóknara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Sjálfsbjörgu – landssambandi hreyfihamlaðra, Tabú, velferðarsviði Reykjavíkurborgar og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Meginforsendur og markmið tillögunnar eru að tryggja að fólk með fötlun, börn jafnt sem fullorðnir, geti lifað sjálfstæðu lífi með reisn. Mannréttindi verði að virða og leggja bann við aðgreiningu og mismunun á grundvelli fötlunar. Framkvæmdaáætlunin byggist á þremur lykilþáttum sem eru forsendur þjónustu við fatlað fólk, þ.e. fjármögnun, upplýsingasöfnun og upplýsingamiðlun. Þau stefnuatriði sem mörkuð eru í inngangi tillögunnar eiga við um allt fatlað fólk, óháð aldri búsetu, skerðingum o.fl., enda er tillögunni ætlað að innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í alla lagaumgjörð og framkvæmd.
    Fyrir nefndinni kom fram ábending um að í tillögu til þingsályktunar um þetta málefni sem lögð var fram til umsagnar á vef velferðarráðuneytisins 28. nóvember sl. hefði verið aðgerð sem ekki væri að finna í tillögunni sem hér er til umfjöllunar. Um er að ræða aðgerð til að skoða hvaða áhrif fjárveitingar til félags-, heilbrigðis- og menntamála hafa á líf fatlaðs fólk þannig að við fjárlagagerð verði ávallt skoðað hvernig fjárveitingar koma við fatlað fólk eins og gert er í kynjaðri fjárlagagerð með jafnrétti í huga. Umsagnaraðili telur mjög mikilvægt að þessari aðgerð sé haldið inni í áætluninni. Nefndin tekur undir þessa athugasemd og leggur til breytingartillögu þess efnis.
    Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er það gert að kröfu að til staðar sé sjálfstæð innlend mannréttindastofnun (e. National Human Rights Institution). Drög að frumvarpi til laga um sjálfstæða mannréttindastofnun hafa verið birt á vef dómsmálaráðuneytisins. Slík mannréttindastofnun mundi uppfylla kröfur sem gerðar eru til slíkra stofnana í svokölluðum Parísarviðmiðum sem samþykkt voru á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1993. Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að sett verði á fót slík sjálfstæð mannréttindastofnun sem hafi það hlutverk að efla og vernda mannréttindi hér á landi samkvæmt stjórnarskrá, lögum, alþjóðasamningum og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum.
    Í umsögnum sem bárust nefndinni var bent á að þýðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á íslenska tungu sé afar illa unnin og þar með óásættanleg. Í þýðingunni sé að finna alvarlegar villur sem geti jafnvel valdið misskilningi og ruglingi. Nefndin brýnir fyrir ráðuneytinu að fara þurfi vandlega yfir þýðingu sáttmálans með hliðsjón af þeim athugasemdum sem bárust nefndinni og geri lagfæringar þar sem við á.
    Þá bendir nefndin á að samhliða því þegar frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og samhliða frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga verða tekin fyrir á haustþingi 2017 þarf að skoða framkvæmdaáætlunina með tilliti til lagatilvísana og orðalags og hugsanlega uppfæra hana þannig að fullt samræmi verði á milli áætlunarinnar og nýs lagaumhverfis sem tæki þá gildi.
    Að teknu tilliti til þess sem að framan hefur komið fram leggur nefndin til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir lið F.5. komi nýr liður, svohljóðandi:
     F.6. Skoðað verði hvaða áhrif fjárveitingar til félags-, heilbrigðis- og menntamála hafa á líf fatlaðs fólks.
     Markmið: Heildarmynd af samfélagslegum stuðningi við fatlað fólk sé ljós.
     Lýsing: Við fjárlagagerð verði ávallt skoðað hvernig fjárveitingar koma við fatlað fólk eins og gert er í kynjaðri fjárlagagerð með jafnrétti í huga. Áhrif útgjaldabreytinga á sviði velferðar, heilbrigðis og menntunar á stöðu og líf fatlaðs fólks verði skoðuð. Sérstaklega verði hugað að stöðu ungs fólks þegar það hefur sjálfstætt líf og áætlunum framfylgt um að útrýma herbergjasambýlum í áföngum. Skipaður verði stýrihópur með fulltrúum samstarfsaðila.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, innanríkisráðuneytið, samtök fatlaðs fólks og sveitarfélög.
     Tími: 2017–2021.
     Kostnaður: Innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Breyttu verklagi komið á.

    Hildur Sverrisdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta skv. 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 24. maí 2017.

Nichole Leigh Mosty,
form., frsm.
Birgir Ármannsson. Elsa Lára Arnardóttir.
Guðjón S. Brjánsson. Halldóra Mogensen. Jóna Sólveig Elínardóttir.
Steingrímur J. Sigfússon. Vilhjálmur Árnason.