Ferill 378. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 939  —  378. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ellý Þorsteinsdóttur, Guðríði Bolladóttur og Ingibjörgu Broddadóttur frá velferðarráðuneytinu og Braga Guðbrandsson og Heiðu Björgu Pálmadóttur frá Barnaverndarstofu. Umsagnir bárust frá Barnaheillum, barnaverndarnefnd á norðanverðum Vestfjörðum, Barnaverndarstofu, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, umboðsmanni barna og UNICEF á Íslandi.
    Framkvæmdaáætlunin byggist á meginmarkmiðum barnaverndarlaga um ábyrgð og skyldur ríkisins í barnaverndarmálum. Velferðarráðuneytið, Barnaverndarstofa og barnaverndarnefndir sveitarfélaga skulu vinna samkvæmt fjórum meginmarkmiðum áætlunarinnar sem eru að þróa barnaverndarstarf í landinu, að efla þjónustu barnaverndar, að bæta hæfni, getu og þekkingu starfsfólks barnaverndar og að tryggja framboð og aðgengi að úrræðum sem byggjast á gagnreyndum aðferðum. Líkt og fram kemur í greinargerð með tillögunni tekur framkvæmdaáætlunin mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun auk annarra alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Þá kemur fram að lögð sé áhersla á mannréttindi og samfélagsþátttöku barna og að áætlunin taki einnig mið af þeirri þróun sem orðið hafi í þjónustu við börn og í meðferðarúrræðum barnaverndar. Lögð sé áhersla á að skapa lagastoð fyrir ýmis úrræði í barnavernd sem byggjast á gagnreyndum aðferðum og festa þau þannig í sessi.
    Í umsögn Barnaverndarstofu um framkvæmdaáætlunina kemur fram að þau atriði sem fram koma í tillögunni séu almennt til þess fallin að efla barnaverndarstarf í landinu, enda hafi velflestir þeirra þátta sem áætlunin tilgreinir í upphafi komið frá Barnaverndarstofu. Barnaverndarstofa vill þó benda á að skv. 3. mgr. 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, skal ráðherra leggja fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum. Framkvæmdaáætlun þessari er því einungis ætlað að gilda til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2018. Barnaverndarstofa telur útilokað að hægt verði að hrinda í framkvæmd eða ljúka öllum þeim verkefnum sem tilgreind eru í framkvæmdaáætluninni á u.þ.b. einu ári. Barnaverndarstofa beri ábyrgð á 11 liðum af 15 sem tilgreindir eru í áætluninni og að hún hafi hvorki fjármuni né starfslið til að ráðast í svo umfangsmikil verkefni á svo skömmum tíma.
    Barnaverndarstofa leggur til að áætlunin verði einskorðuð við nokkra vel skilgreinda þætti sem mögulegt sé að ljúka á gildistíma áætlunarinnar og leggur einkum áherslu á að fjórum þáttum áætlunarinnar verði hrundið í framkvæmd á gildistíma áætlunarinnar, þ.e. 1. tölul. um nýtt meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu, 5. tölul. um ESTER-matskerfið í barnavernd, 7. tölul. um skipan starfshóps um breytingar á barnaverndarlögum og kafla E um fóstur (13.–15. tölul.).
    Nefndin tekur undir athugasemdir Barnaverndarstofu og telur ólíklegt að öll markmið áætlunarinnar komist til framkvæmda á einu ári. Engu að síður er ljóst að einhver verkefni eru þegar komin til framkvæmda og fagnar nefndin þeirri vinnu sem þegar er hafin. Nefndin telur mikilvægt að halda áfram þeirri vinnu og að vinna að öðrum verkefnum hefjist sem fyrst. Þá leggur nefndin áherslu á að þessi áætlun gildi ekki lengur en til 1. júní 2018 og því er mikilvægt að ráðuneytið hefji vinnslu næstu áætlunar, sem taka á gildi eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2018, strax í haust. Telur nefndin mikilvægt að ráðuneytið verði kallað til viðræðna við nefndina í haust til að ræða stöðu málsins. Til samræmis við framangreint leggur nefndin til breytingu á 1. málsl. tillögugreinarinnar.
    Þá telur nefndin afar mikilvægt að tryggt verði að fullnægjandi meðferðarheimili og/eða vistunarúrræði verði til staðar í því millibilsástandi sem varir þar til nýtt meðferðarheimili verður tekið í notkun. Nefndin leggur til breytingu á 1. tölul. þess efnis.
    Í 2. tölul. er fjallað um PMTO-þjónustu og fagnar nefndin þeirri áherslu sem lögð er á það verkefni. Engu að síður telur nefndin mikilvægt að önnur þjónusta verði ekki takmörkuð. Mikil og góð reynsla hefur verið af ART-þjónustu og leggur nefndin áherslu á að samningar um þá þjónustu verði framlengdir og að áfram verði unnið að því að þróa hana. Nefndin leggur því til að nýr töluliður bætist við þar sem fram kemur að ART-þjónusta barnaverndar verði efld.
    Nefndin tekur undir ábendingu Barnaverndarstofu um að fyrirsögn 4. tölul. þurfi að breyta. Væntanlega sé ætlunin að vísa til vinnuálags en ekki vinnulags sem samræmist betur efnisinnihaldi töluliðarins. Leggur nefndin til breytingu á þessu.
    Þá hefur nefndin áhyggjur af aukinni tíðni tilkynninga um ofbeldi gegn börnum. Tilkynningar um ofbeldi gegn börnum voru 1.590 árið 2007 en 10 árum síðar voru þær 2.638. Flestar tilkynningarnar um ofbeldi voru vegna tilfinningalegs/sálræns ofbeldis eða 1.642 á árinu 2016 og hafa aldrei verið fleiri. Leggur nefndin því til að við bætist nýr töluliður sem fjallar um þetta mikilvæga mál.
    Í 8. tölul. er kveðið á um að settar verði fram tillögur um breytingar á barnaverndarlögum til að festa MST-fjölkerfameðferð í sessi og tryggja aðgengi að þjónustunni á landsvísu. Nefndin leggur áherslu á að um varanlegt úrræði á landsvísu sé að ræða og gerir tillögu að breytingu þess efnis.
    Í 9. tölul. er fjallað um Barnahús. Nefndin telur mikilvægt að kveðið verði á um mótun verklagsreglna og þjónustu við fötluð börn og gerir tillögu að viðbót við töluliðinn.
    Að lokum telur nefndin mikilvægt að 12. tölul. um afdrifa- og árangurskannanir eigi einnig við um önnur úrræði á vegum barnaverndarnefnda sveitarfélaga, svo sem varanlegt, tímabundið og styrkt fóstur hjá ættingjum eða óskyldum. Gerir nefndin tillögu að breytingu sem nær til fleiri úrræða.
    Að öllu framangreindu sögðu leggur nefndin til að framkvæmdaáætlunin verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „sem gildi til 1. júní 2018“ í 1. málsl. tillögugreinarinnar komi: sem gildi þar til ný reglubundin áætlun, sbr. 3. mgr. 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, tekur gildi en þó ekki lengur en til 1. júní 2018.
     2.      Við 1. mgr. 1. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Á meðan á byggingu nýs meðferðarheimilis stendur skal tryggt að úrræðið uppfylli samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins þannig að unglingarnir verði ekki vistaðir meðal fullorðinna eða í einangrun, hvort sem um er að ræða gæsluvarðhald eða afplánun fangelsisdóms.
     3.      Á eftir 2. tölul. komi nýr töluliður, svohljóðandi: ART-þjónusta.
                 ART-þjónusta barnaverndar verði efld. Í því felist meðal annars að:
                  a.      áfram verði unnið að uppbyggingu ART-þjónustusvæða á landsvísu,
                  b.      ART-meðferðaraðilum sem hlotið hafa viðeigandi þjálfun verði fjölgað,
                  c.      fram fari reglulegt eftirlit með gæðum þjónustunnar.
                  Markmið: Að bjóða upp á úrræði vegna hegðunarvanda barna sem felst í því að efla foreldra í uppeldishlutverki sínu og stuðla að bættum samskiptum barna og foreldra.
                  Kostnaðaráætlun: 30 millj. kr.
                  Ábyrgð: Barnaverndarstofa.
                  Samstarfsaðilar: Velferðarráðuneytið og barnaverndarnefndir.
                  Mælikvarði: ART-þjónustusvæðum fjölgi. Þá fari reglulegt gæðaeftirlit fram á sama tímabili.
     4.      Í stað orðsins „Vinnulag“ í fyrirsögn 4. tölul. komi: Vinnuálag.
     5.      Á eftir 7. tölul. komi nýr töluliður, svohljóðandi: Viðbrögð við fjölgun tilkynninga um ofbeldi gegn börnum.
                 Börnum sem hafa upplifað heimilisofbeldi verði tryggður nauðsynlegur stuðningur og þjónusta.
                  Markmið: Að bregðast við mikilli fjölgun tilkynninga um ofbeldi gegn börnum.
                  Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda velferðarráðuneytisins.
                  Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
                  Samstarfsaðilar: Barnaverndarstofa, barnaverndarnefndir, Kvennaathvarfið og lögreglan.
                  Mælikvarði: Settar verði fram tillögur um hvernig barnaverndaryfirvöld hyggjast bregðast við mikilli fjölgun, þ.m.t nauðsynlegar lagabreytingar.
     6.      Við 8. tölul.
                  a.      Á eftir orðunum „og tryggja“ í 1. mgr. komi: varanlegt.
                  b.      Í stað orðanna „með tillögum fyrir 1. júní 2018“ í liðnum Mælikvarði komi: fyrir 1. júní 2018 með tillögum um hvernig megi tryggja varanlega MST-þjónustu á landsvísu.
     7.      Við liðinn Markmið í 9. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sérstök áhersla verði lögð á mótun verklagsreglna og þjónustu við fötluð börn.
     8.      Á eftir orðinu „Barnaverndarstofu“ í 1. mgr. og í liðnum Mælikvarði í 12. tölul. komi: og barna sem hafa verið í varanlegu, tímabundnu og styrktu fóstri, hjá ættingjum eða óskyldum.

Alþingi, 26. maí 2017.

Nichole Leigh Mosty,
form., frsm.
Birgir Ármannsson. Elsa Lára Arnardóttir.
Guðjón S. Brjánsson. Halldóra Mogensen. Hildur Sverrisdóttir.
Jóna Sólveig Elínardóttir. Steingrímur J. Sigfússon. Vilhjálmur Árnason.