Ferill 57. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Nr. 19/146.

Þingskjal 1003  —  57. mál.


Þingsályktun

um gerð heilbrigðisáætlunar.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að halda áfram vinnu við gerð heilbrigðisáætlunar og leggja hana fyrir Alþingi eins fljótt og mögulegt er. Í áætluninni verði verkferlar innan heilbrigðiskerfisins skýrðir og þar komi fram hvaða aðilar eigi að veita þjónustu innan kerfisins. Skilgreint verði hvaða þjónustu eigi að veita á Landspítalanum, hvaða þjónustu eigi að veita á heilbrigðisstofnunum víða um landið og hvaða þjónustu einkaaðilar eigi að hafa möguleika til að sinna og hvort það sé hagkvæmt og æskilegt. Áætlunin taki tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu án tillits til búsetu verði einnig tryggt með öflugri utanspítalaþjónustu. Jafnframt verði tekið tillit til forvarna, lýðheilsu, íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi og fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða. Í áætluninni komi einnig fram hvort og hvaða sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala. Við gerð þessarar heilbrigðisáætlunar verði haft samráð við fagfólk víðs vegar af landinu, helstu hagsmunaaðila og notendur. Velferðarnefnd Alþingis verði reglubundið upplýst um framgang málsins.
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið komi að vinnu við gerð heilbrigðisáætlunar til að tryggja fjármagn til málaflokksins og menntun fagfólks í heilbrigðisgreinum.
    Markviss vinna að heilbrigðisáætlun hefjist strax á árinu 2017. Alþingi verði upplýst um framgang málsins eigi síðar en í upphafi haustþings 2017 og síðan með reglulegu millibili þar til verkinu er lokið.

Samþykkt á Alþingi 31. maí 2017.