Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 2  —  2. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.


I. KAFLI

Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XLI í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „og 2017“ í 1.–5. mgr. kemur: 2017 og 2018.
     b.      Í stað orðanna „og 2016“ í 1.–5. mgr. kemur: 2016 og 2017.

II. KAFLI

Breyting á lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með síðari breytingum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
     a.      Í stað „117,25 kr.“ í 1. tölul. kemur: 119,85 kr.
     b.      Í stað „144,50 kr.“ í 3. tölul. kemur: 147,70 kr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      Í stað „481,40 kr.“ í 1. tölul. kemur: 492 kr.
     b.      Í stað „26,75 kr.“ í 2. tölul. kemur: 27,35 kr.
     c.      Í stað „26,75 kr.“ í 3. tölul. kemur: 27,35 kr.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 10. gr. laganna:
     a.      Í stað „604,75 kr.“ í 1. tölul. kemur: 618,05 kr.
     b.      Í stað „33,60 kr.“ í 2. tölul. kemur: 34,35 kr.

III. KAFLI

Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með síðari breytingum.

5. gr.

    Í stað „26,80 kr.“ í 14. gr. laganna kemur: 27,40 kr.

6. gr.

    Í stað „43,25 kr.“ og „45,85 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: 44,20 kr.; og: 46,85 kr.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004, með síðari breytingum.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
                 Kílómetragjald af gjaldskyldum bifreiðum skv. 1. tölul. 1. mgr., sbr. 3. tölul., skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetragjald, kr. Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetragjald, kr.
10.000–11.000 0,31 21.001–22.000 7,57
11.001–12.000 0,97 22.001–23.000 8,25
12.001–13.000 1,64 23.001–24.000 8,90
13.001–14.000 2,30 24.001–25.000 9,56
14.001–15.000 2,96 25.001–26.000 10,21
15.001–16.000 3,63 26.001–27.000 10,88
16.001–17.000 4,28 27.001–28.000 11,55
17.001–18.000 4,94 28.001–29.000 12,21
18.001–19.000 5,60 29.001–30.000 12,86
19.001–20.000 6,24 30.001–31.000 13,52
20.001–21.000 6,93 31.001 og yfir 14,18
     b.      6. mgr. orðast svo:
                 Sérstakt kílómetragjald af gjaldskyldum ökutækjum skv. 2. mgr. skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetragjald, kr. Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetragjald, kr.
5.000–6.000 9,30 18.001–19.000 24,55
6.001–7.000 10,06 19.001–20.000 25,65
7.001–8.000 10,83 20.001–21.000 26,79
8.001–9.000 11,60 21.001–22.000 27,90
9.001–10.000 12,35 22.001–23.000 28,99
10.001–11.000 13,45 23.001–24.000 30,11
11.001–12.000 14,89 24.001–25.000 31,22
12.001–13.000 16,31 25.001–26.000 32,34
13.001–14.000 17,73 26.001–27.000 33,44
14.001–15.000 19,16 27.001–28.000 34,56
15.001–16.000 20,58 28.001–29.000 35,68
16.001–17.000 22,00 29.001–30.000 36,79
17.001–18.000 23,44 30.001–31.000 37,88
31.001 og yfir 39,01

8. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ef ekki er komið með ökutæki til álestrar á öðru álestrartímabili ársins 2017, sem stendur frá 1. til 15. desember 2017, sbr. 1. mgr. 14. gr., skal reikna út meðaltal ekinna kílómetra á dag á tímabilinu milli álestra. Þá skal hið nýja gjald innheimt eftir meðaltalsakstri eftir 1. janúar 2018.
    Við ákvörðun kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds skv. 13. gr. á álestrartímabilinu 1. júní til 15. júní 2018 skal ríkisskattstjóri deila eknum kílómetrum frá fyrri álestri með dagafjölda sama tímabils og reikna kílómetragjald af hverjum eknum kílómetra miðað við fjölda gjaldskyldra daga fyrir 1. janúar 2018 og fjölda gjaldskyldra daga eftir 1. janúar 2018.

V. KAFLI

Breyting á lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988, með síðari breytingum.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað „5.810 kr.“ og „139 kr.“ í 2. mgr. kemur: 5.940 kr.; og: 142 kr.
     b.      Í stað „54.420 kr.“, „2,32 kr.“ og „85.660 kr.“ í 4. mgr. kemur: 55.615 kr.; 2,37 kr.; og: 87.545 kr.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 5. gr. laganna:
     a.      Í stað „0,0371%“ í a-lið 1. tölul. kemur: 0,0385%.
     b.      Í stað „0,0337%“ í b-lið 1. tölul. kemur: 0,0387%.
     c.      Í stað „0,452%“ í 2. tölul. kemur: 0,4403%.
     d.      Í stað „0,254%“ í 3. tölul. kemur: 0,35%.
     e.      Í stað „0,78%“ í 7. tölul. kemur: 0,8193%.
     f.      Í stað „0,84%“ í 8. tölul. kemur: 1,006%.
     g.      Í stað „0,0093% í 9. tölul. kemur: 0,0091%.
     h.      Í stað „0,0084%“ í 11. tölul. kemur: 0,0087%.
     i.      Í stað „0,0095%“ í 12. tölul. kemur: 0,01%.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað „300.000 kr.“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 500.000 kr.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði þessarar málsgreinar taka þó ekki til álagningar eftirlitsgjalds á fagfjárfestasjóði skv. 2. málsl. 6. tölul. 1. mgr. 5. gr., en árleg álagning eftirlitsgjalds á sjóðina miðast við formlega skrá Fjármálaeftirlitsins yfir þessa sjóði í byrjun álagningarárs og verður þeirri álagningu ekki breytt innan ársins.
     c.      Í stað orðanna „um fjármálagerninga“ í 4. mgr. kemur: um útgefendur fjármálagerninga.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, nr. 166/2011, með síðari breytingum.

12. gr.

    Í stað „0,03201%“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: 0,01132%.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

13. gr.

    Í stað „10.956 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: 11.197 kr.

14. gr.

    Í stað „2016 og 2017“ í ákvæði til bráðabirgða VII í lögunum kemur: 2016, 2017 og 2018.

15. gr.

    Í stað „2017“ tvívegis í ákvæði til bráðabirgða XII í lögunum kemur: 2018.

IX. KAFLI

Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða í lögunum:
     a.      Í stað „2017“ í 14. tölul. kemur: 2018.
     b.      Í stað „2017“ þrívegis í 1. málsl. 18. tölul. kemur: 2018.
     c.      Í stað „25,8%“ í 1. málsl. 18. tölul. kemur: 31,75%.

X. KAFLI

Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. málsl. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum:
     a.      Í stað „2017“ þrívegis kemur: 2018.
     b.      Í stað „25,8%“ í kemur: 31,75%.

XI. KAFLI

Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum.

18. gr.

    Í stað „1. janúar 2017 til 31. desember 2017“ í ákvæði til bráðabirgða XI í lögunum kemur: 1. janúar 2018 til 31. desember 2018.

XII. KAFLI

Breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, með síðari breytingum.

19. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði laganna skal skuldbinding ríkisins skv. 60. gr. á árinu 2018 samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar vera 1.811,1 millj. kr. Framlag til Kristnisjóðs skal vera 75 millj. kr. á árinu 2018.

XIII. KAFLI

Breyting á lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, með síðari breytingum.

20. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laganna, með síðari breytingum, skal gjald sem rennur til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga vera 931 kr. á mánuði árið 2018 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári.

XIV. KAFLI

Breyting á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum.

21. gr.

    Í stað „2017“ og „968 kr.“ í 4. mgr. 14. gr. laganna kemur: 2018; og: 627 kr.

XV. KAFLI

Breyting á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, með síðari breytingum.

22. gr.

    Í stað „16.800 kr.“ í 4. málsl. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: 17.200 kr.

XVI. KAFLI

Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      5. tölul. orðast svo: Fyrir vegabréfsáritun, 6–12 ára     4.200 kr.
     b.      6. tölul. orðast svo: Fyrir vegabréfsáritun, 13 ára og eldri     7.800 kr.
     c.      7. tölul. orðast svo: Fyrir vegabréfsáritun, framlenging     4.200 kr.
     d.      8. tölul. orðast svo: Fyrir vegabréfsáritanir samkvæmt fyrirgreiðslusamningi     4.200 kr.
     e.      9. tölul. orðast svo: Fyrir langtímavegabréfsáritun     7.800 kr.
     f.      10.–13. tölul. falla brott.
     g.      Orðið „íslenskan“ í a- og b-lið 27. tölul. fellur brott.
     h.      Í stað „15.000 kr.“ í a-lið 27. tölul. kemur: 25.000 kr.
     i.      Í stað „7.500 kr.“ í b-lið 27. tölul. kemur: 12.500 kr.
     j.      32.–34. tölul. falla brott.
     k.      35. tölul. verður svohljóðandi:
              a.      Fyrir afgreiðslu umsóknar um dvalarleyfi     15.000 kr.
              b.      Fyrir endurnýjun dvalarleyfis     15.000 kr.
              c.      Fyrir bráðabirgðadvalarleyfi     15.000 kr.
              d.      Fyrir dvalar- og atvinnuleyfi, flýtimeðferð     45.000 kr.
              e.      Fyrir endurútgáfu dvalarleyfisskírteinis     7.500 kr.
              f.      Fyrir dvalarskírteini fyrir aðstandendur EES-borgara sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar     15.000 kr.

24. gr.

    Í stað „5.–10. tölul. og 12.–15. tölul.“ í 2. málsl. 2. mgr. 20. gr. laganna kemur: 5.–9. tölul. og 14.–15. tölul.

XVII. KAFLI

Gildistaka.

25. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 13. gr. kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2018 vegna tekna ársins 2017.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 2.–12., 16.–18. og 21.–24. gr. gildi 1. janúar 2018.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í beinum tengslum við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018. Tillögur þess hafa bæði áhrif á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er að finna eftirfarandi tillögur að lagabreytingum:
          Tímabundnar útreikningsreglur og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta verði framlengdar óbreyttar um eitt ár.
          Hækkanir á almennu og sérstöku kílómetragjaldi, almennu og sérstöku bensíngjaldi, bifreiðagjaldi og gjaldi á áfengi og tóbak verði 2,2% í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018.
          Breytingar á gjaldskrám Fjármálaeftirlitsins verði í samræmi við áætlaðan rekstrarkostnað stofnunarinnar.
          Lækkun gjaldhlutfalls vegna greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara í samræmi við áætlaðan rekstrarkostnað stofnunarinnar.
          Hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra um 2,2% í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018.
          Framlenging á bráðabirgðaákvæði er kveður á um það að Framkvæmdasjóði aldraðra sé heimilt að verja fé til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða.
          Framlenging á bráðabirgðaákvæði er kveður á um það að komið skuli í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar.
          Framlenging á ákvæði til bráðabirgða til að sporna við því að víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju.
          Framlenging bráðabirgðaákvæða um hækkun á frítekjumarki örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar.
          Hækkun á framlagi til Kristnisjóðs.
          Hækkun á framlagi íslenska ríkisins til þjóðkirkjunnar.
          Hækkun á sóknargjöldum.
          Breytingar á fjárhæð losunarheimilda samkvæmt lögum um loftslagsmál.
          Hækkun á sérstöku gjaldi til Ríkisútvarpsins samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018.
          Breytingar á gjaldskrá ýmissa vottorða og leyfa í tengslum við vegabréf, dvalarleyfi og veitingu ríkisborgararéttar.

3. Nánar um einstaka liði frumvarpsins.
    Eftirfarandi er nánari umfjöllun um breytingartillögur frumvarpsins.

3.1. Vaxtabætur.
    Í lok árs 2010 voru gerðar margvíslegar breytingar á útreikningsreglum vaxtabóta. Þessar reglur áttu að gilda í tvö ár en hafa síðan verið framlengdar óbreyttar ár frá ári. Verði þessar útreikningsreglur ekki framlengdar nú taka við eldri reglur frá og með næstu áramótum með þeim afleiðingum að stuðningur ríkissjóðs í formi vaxtabóta dreifist á fleiri fjölskyldur, þ.e. fjölskyldur sem ekki njóta bóta í dag, en á sama tíma lækka bætur þeirra fjölskyldna sem notið hafa hámarksbóta (tekjulágar og eignalitlar fjölskyldur). Í ljósi þess að enn er unnið að heildarendurskoðun á húsnæðisstuðningi stjórnvalda á ýmsum sviðum (vaxtabótakerfi, húsaleigubótakerfi, félagsleg aðstoð o.fl.) er lagt til að útreikningsreglur vaxtabóta verði framlengdar eitt ár í viðbót sem þýðir að reiknireglur og viðmiðunarfjárhæðir kerfisins verði þær sömu á árinu 2018 og voru á þessu ári. Á grundvelli þeirra forsendna er áætlað að útgjöld vegna vaxtabóta nemi 4 milljörðum kr. á árinu 2018.

3.1.1. Barnabætur.
    Rétt er að nefna að í þessu frumvarpi eru ekki lagðar til breytingar á viðmiðunarfjárhæðum barnabóta og tekjuviðmiðunarmörkum þeirra eins og venja er þó að heildarútgjöld vegna barnabóta verði tæplega 11% hærri á næsta ári samanborið við yfirstandandi ár. Þannig er gert ráð fyrir að barnabætur í heild verði 9,5 milljarðar kr. á þessu ári en á gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2018 er reiknað með að þær verði 10,5 milljarðar kr. eða svipað og gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022. Ástæða þess er sú að barnabótakerfið og barnalífeyrir almannatrygginga er nú til endurskoðunar í starfshópi sem félags- og jafnréttismálaráðherra skipaði og á sá hópur að skila tillögum sínum í nóvember nk. Ekki þykir rökrétt að binda hendur hópsins fyrir fram með tillögum að lagabreytingum á barnabótakerfinu nú heldur verði horft til niðurstaðna starfshópsins við slíka tillögugerð síðar á árinu.

3.2. Verðlagsuppfærsla krónutöluskatta og gjalda.
    Í frumvarpinu er að finna tillögur um 2,2% hækkun á hinum svokölluðu krónutölusköttum og gjaldskrám í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Er þá miðað við áætlaða tólf mánaða breytingu á vísitölu neysluverðs yfir árið 2017. Hér er um að ræða almennt og sérstakt bensíngjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, bifreiðagjald, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins og gjald af áfengi og tóbaki. Ekki er lögð til hækkun á olíugjaldi og áfengisgjaldi á léttvín í frumvarpi þessu þar sem hækkun á olíugjaldi til samræmis við vörugjöld af bensíni og hækkun áfengisgjalds á léttvín til samræmis við áfengisgjald á bjór verður lögð til í öðrum frumvörpum. Gert er ráð fyrir að þessi hækkun skili ríkissjóði samanlagt 1,3 milljörðum kr. á ári að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt.

3.3. Gjaldskrár vegna kostnaðar við rekstur Fjármálaeftirlitsins.
    Lagðar eru til breytingar á gjaldhlutföllum eftirlitsgjalds skv. 5. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sbr. 2. gr. laganna. Breytingarnar endurspegla álagt eftirlitsgjald að fjárhæð 2,3 milljarðar kr. Gert er ráð fyrir að heildargjöld verði 2,4 milljarðar kr. og aðrar tekjur 56,4 millj. kr. Verði tilskipun um endurreisn og skilameðferð fjármála- og verðbréfafyrirtækja (tilskipun 2014/59/ESB), sem alla jafna gengur undir nafninu BRRD, innleidd í íslensk lög á komandi mánuðum mun sérstakt eftirlitsgjald vegna þess nema 50 millj. kr. Þannig er gert ráð fyrir að heildargjöld nemi 17,2 millj. kr. umfram samtölu tekna og verði mætt með lækkun á eigin fé stofnunarinnar, sem verði 116 millj. kr. í árslok 2018 eða sem nemur um 4,9% af áætluðu eftirlitsgjaldi næsta árs, sbr. heimild í 2. mgr. 3. gr. um ráðstöfun rekstrarafgangs og rekstrartaps. Gert er ráð fyrir að breytingarnar, sem taka mið af rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins, hafi ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.

3.4. Greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.
    Lögð er til lækkun á gjaldhlutfalli úr 0,03201% í 0,01132%, sbr. 4. gr. laga nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við rekstur stofnunarinnar og er lagt á gjaldskylda aðila, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Í 7. gr. er kveðið á um að tekið skuli tillit til rekstrarafgangs eða rekstrartaps af starfsemi umboðsmanns skuldara við ákvörðun á fjárhæð gjalds fyrir næsta almanaksár. Innheimtar tekjur af gjaldinu eru áætlaðar 340,2 millj. kr. á árinu 2018.

3.5. Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Lögð er til 2,2% hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2018. Samkvæmt því verður gjaldið 11.197 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2018 vegna tekna ársins 2017. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði um 50 millj. kr. viðbótartekjum á ári.

3.6. Rekstrarkostnaður hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttaka heimilismanna.
    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða XII í lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, verði framlengt. Er það gert til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Jafnframt er lagt til að ákvæði til bráðabirgða VII verði framlengt. Það leiðir til þess að heimilt verður að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða á árinu 2018. Verði frumvarpið að lögum munu útgjöld ríkissjóðs því aukast um 200 millj. kr. frá því sem annars hefði orðið vegna þessara ákvæða.

3.7. Samspil örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða.
    Með lögum nr. 106/2011, um breytingu á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, og lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (samspil örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða), sem samþykkt voru í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Landssamtaka lífeyrissjóða um víxlverkun örorkulífeyris almannatrygginga og lífeyris úr lífeyrissjóðum annars vegar og hins vegar hækkun frítekjumarks ellilífeyrisþega í áföngum frá 3. desember 2010, var tímabundið komið í veg fyrir þá víxlverkun milli örorkubóta frá almannatryggingum og örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum sem orðið hafði í samspili þessara tveggja meginstoða í lífeyristryggingum.
    Víxlverkanir þessar lýsa sér þannig að samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum, lækka lífeyrisgreiðslur og bætur félagslegrar aðstoðar í mörgum tilfellum vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Þá er mælt fyrir um það í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, að sjóðfélagi í lífeyrissjóði eigi rétt á örorkulífeyri úr viðkomandi sjóði hafi hann orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutaps sem er metið 50% eða meira. Ákvæðið hefur verið útfært nánar í samþykktum lífeyrissjóða þar sem kveðið er á um að heildartekjur örorkulífeyrisþega eftir orkutap verði ekki umfram þær tekjur sem hann hafði fyrir orkutap. Við samanburð á heildartekjum fyrir og eftir orkutap líta lífeyrissjóðir m.a. til greiðslna almannatrygginga sem oft hefur leitt til þess að greiðslur til örorkulífeyrisþega úr lífeyrissjóðum hafa lækkað eða jafnvel fallið niður. Við þá tekjulækkun öðlast hinir sömu einstaklingar aukin réttindi innan almannatryggingakerfisins sem aftur leiðir til enn frekari lækkunar á greiðslum frá lífeyrissjóðunum við næsta samanburð og síðan koll af kolli. Gagnkvæm tekjutenging almannatrygginga og greiðslna úr lífeyrissjóðum getur því leitt til tíðra breytinga á örorkulífeyrisgreiðslum og tilsvarandi óöryggis lífeyrisþega sem fyrst og fremst hafa komið örorkulífeyrisþegum illa.
    Til að komið verði í veg fyrir að framangreind víxlverkun eigi sér stað á árinu 2018 er lagt til að gildistími bráðabirgðaákvæða í lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð og ákvæðis til bráðabirgða XI í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda verði framlengdur um eitt ár. Ef ekki væri gripið til þess að framlengja ákvæðið er gert ráð fyrir að nettó mundu útgjöld ríkissjóðs lækka um 500 millj. kr.
    Gert er ráð fyrir að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar verði sú sama á árinu 2018. Frítekjumarkið er nú 1.315.200 kr. á ári sem jafngildir 109.600 kr. á mánuði. Verði það ekki framlengt mun frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna lækka úr 1.315.200 kr. á ári í 328.800 kr. og leiða til lækkunar bóta hjá þeim örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem hafa atvinnutekjur yfir frítekjumarkinu. Að óbreyttu ákvæði hefðu útgjöldin lækkað um 1 milljarð kr. á árinu 2018.

3.8. Framlag til þjóðkirkjunnar og Kristnisjóðs.
    Í frumvarpinu er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2018 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar muni hækka um 37,1 millj. kr. frá fjárlögum fyrir árið 2017. Jafnframt er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs hækki um 1,7 millj. kr. á árinu 2018.

3.9. Sóknargjöld.
    Í frumvarpinu er lagt til að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 920 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 931 kr. fyrir árið 2018. Lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga breytist að öllu jöfnu í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga. Nú er hins vegar, eins og í fjárlögum fyrir árið 2017, með breytingu á lögum nr. 91/1987, gert ráð fyrir að fastsetja fjárhæð sóknargjalda. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir samtals 3.256,1 millj. kr. framlagi til þeirra liða sem sóknargjald reiknast á að teknu tilliti til almennra aðhaldskrafna í forsendum frumvarpsins og nemur heildarhækkun sóknargjaldsins frá fjárlögum 2017 því 41,8 millj. kr.

3.10. Gjaldskyld losun gróðurhúsalofttegunda.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fjárhæð losunarheimilda skv. 4. mgr. 14. gr. laga nr. 70/2012, um loftslagsmál. Í 14. gr. laganna er kveðið á um losunargjald sem lagt er á rekstraraðila starfsstöðva sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir samkvæmt greininni. Í ljósi þess að losunargjaldið hefur einkenni skatts, sbr. 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar, þarf að uppfæra gjaldið árlega og er því mælt fyrir um fjárhæð gjaldsins í frumvarpinu. Lagt er til að fjárhæð losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar sem á sér stað árið 2018 skuli vera 627 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar. Nauðsynlegt er að lögfesta fjárhæð losunargjalds vegna losunar á árinu 2018 í síðasta lagi 31. desember 2017 svo rekstraraðilum starfsstöðva sem hafa verið undanskildar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir verði ljóst fyrir upphaf árs 2018 hver upphæð losunargjalds verður sem lagt verður á vegna losunar 2018.
    Í athugasemdum við 14. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál, var lagt til að við ákvörðun losunargjaldsins yrði byggt á upplýsingum um markaðsverð losunarheimilda frá Intercontinental Exchange markaðnum í London (ICE) en þar fóru fram, þegar frumvarpið var flutt, rúmlega 90% af viðskiptum með losunarheimildir í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Fjárhæð losunargjalds var 1.042 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar árið 2016 en lækkaði niður í 968 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar árið 2017.
    Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. laga um loftslagsmál skal Umhverfisstofnun fyrir 31. maí ár hvert afhenda innheimtumanni ríkissjóðs skýrslu um magn gjaldskyldrar losunar. Innheimtumaður ríkissjóðs í umdæmi starfsstöðvar skal því næst fyrir 1. júlí ár hvert leggja á og innheimta losunargjald af starfsstöðvum sem hafa verið undanþegnar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar um magn gjaldskyldrar losunar vegna innheimtu fyrir losun árið 2016 voru fjórar starfsstöðvar undanþegnar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Ein starfsstöð var með losun umfram þann fjölda heimilda sem henni hefði verið úthlutað endurgjaldslaust hefði starfsstöðin verið þátttakandi í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Starfsstöðinni sem bar að greiða losunargjald var Steinull hf. Gjaldskyld losun Steinullar hf. var 255 tonn CO2 og fjárhæð losunargjalds var 265.710 kr.
    Til að fá traustar og hlutlægar upplýsingar um markaðsverðið var samið við KPMG ehf. um að útbúa skýrslu um meðalverð losunarheimilda á tímabilinu 1. ágúst 2016 til 31. júlí 2017. Í skýrslu KPMG, dags. 1. ágúst 2017, kemur fram að meðalverð losunarheimilda á fyrrgreindu tímabili hafi verið 5,2 evrur á hvert tonn af koldíoxíði eða ígildi þess, eða 626,9 íslenskar krónur miðað við meðaltal af miðgengi evru hjá Seðlabanka Íslands á tímabilinu. Við útreikning meðalverðs var tekið mið af verðmyndun losunarheimilda í tveimur mismunandi kauphöllum.
    Lagt er til að framangreindir útreikningar KPMG verði lagðir til grundvallar við ákvörðun losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar sem á sér stað árið 2018. Starfsstöðvar sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfisins, skv. 14. gr. laganna, skulu samkvæmt því greiða 627 kr. fyrir hvert tonn losunar gróðurhúsalofttegunda frá viðkomandi starfsstöð á tímabilinu 1. janúar 2018 til 31. desember 2018. Eins og fram kemur í athugasemdum við 14. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál, er gert ráð fyrir að gjaldið verði endurskoðað á hverju ári miðað við nýjar upplýsingar. Gert er ráð fyrir því að breytingin muni hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs.

3.11. Sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins.
    Lagt er til að sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins verði hækkað úr 16.800 kr. í 17.200 kr. eða sem nemur hækkun vegna almennra verðlagsbreytinga milli áranna 2017 og 2018. Áætlaðar viðbótartekjur af hækkuninni nema um 100 millj. kr. árlega.

3.12. Breytingar á gjaldskrá Útlendingastofnunar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gjaldskrá Útlendingastofnunar samkvæmt lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, sem hefur verið óbreytt frá árinu 2009. Mikilvægt þykir að breyta núverandi gjaldskrá í samræmi við þróun á vísitölu neysluverðs frá árinu 2009 til júlí 2017 auk þess sem hún er ekki í samræmi við ný lög nr. 80/2016, um útlendinga, sem tóku gildi í byrjun árs 2017. Lög um útlendinga, nr. 80/2016, fólu í sér heildarendurskoðun á lögum nr. 96/2002. Við þá endurskoðun féllu ýmis ákvæði eldri laga brott eða þeim var breytt. Er því svo komið að í lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, er nú að finna gjaldtökuheimildir fyrir leyfum sem ekki eru lengur til eða heitum þeirra hefur verið breytt. Í samræmi við ný lög um útlendinga þykir því rétt að fella brott þau ákvæði í aukatekjulögum sem ekki eiga lengur við, ásamt tilvísunum til þeirra, og jafnframt aðlaga þau ákvæði sem þörf er á með tilliti til nýrra heita á útgefnum leyfum. Breytingin hefur ekki áhrif á tekjur ríkissjóðs.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Við vinnslu þessa frumvarps var m.a. stuðst við drög að fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018. Við gerð þess var haft samráð við dómsmálaráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, velferðarráðuneytið og Fjármálaeftirlitið.

6. Mat á áhrifum tillagna frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt.
    Eins og fram er komið eru tillögur frumvarpsins af margvíslegum toga og sama má segja um áhrif þeirra á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt. Óbreyttar viðmiðanir vaxtabótakerfisins lækka útgjöld vegna þeirra um 500 millj. kr. Hækkun útvarpsgjalds og gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra nemur samtals 150 millj. kr. en þau gjöld hafa ekki áhrif á vísitölu neysluverðs. Þá mun hækkun krónutölugjalda (áfengi, tóbak, eldsneyti) auka tekjurnar um 1.200 millj. kr. og óhjákvæmilega hafa áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar um nálægt 0,04%. Þegar allt er lagt saman verður niðurstaðan sú að áhrif tillagna frumvarpsins verði óveruleg á ráðstöfunartekjur og kaupmátt þeirra, eða kringum 0,08%. Til viðbótar kemur lækkun á gjaldi til umboðsmanns skuldara um tæpar 700 millj. kr. sem einnig hefur áhrif á tekjuhlið. Þá verða nettóáhrif tillagnanna á ríkissjóð jákvæð um u.þ.b. 1 milljarð kr. Er þá einungis miðað við áhrif umfram venjubundna verðuppfærslu.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með ákvæði þessu er lagt til að tímabundin hækkun á vaxtabótum sem að óbreyttu hefði fallið niður um næstu áramót verði framlengd um eitt ár. Því er ártalinu 2018 bætt við ákvæði til bráðabirgða XLI í lögunum, en það hefur að geyma ákvæði um vaxtabætur á árunum 2011, 2012, 2013, 2014, 2015, 2016 og 2017. Gert er ráð fyrir að ákvæðið komi til framkvæmda við ákvörðun á fyrirframgreiðslu vaxtabóta og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2018.

Um 2.–4. gr.

    Með greinunum er lagt til að fjárhæðir áfengisgjalda og tóbaksgjalda verði hækkaðar. Er um að ræða 2,2% hækkun gjalda vegna almennra verðlagsbreytinga 2018.

Um 5. og 6. gr.

    Lagt er til að almennt vörugjald af bensíni hækki um 0,60 kr. á hvern lítra, úr 26,80 kr. í 27,40 kr., og að sérstakt vörugjald af blýlausu bensíni hækki um 0,95 kr. á hvern lítra, úr 43,25 kr. í 44,20 kr. Einnig er lagt til að sérstakt vörugjald á hvern lítra af öðru bensíni hækki um 1 kr., úr 45,85 kr. í 46,85 kr. Hækkunin nemur 2,2% vegna almennra verðlagsbreytinga milli áranna 2017 og 2018 í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018.

Um 7. gr.

    Hér er gerð tillaga um hækkun á fjárhæðum kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds um 2,2% vegna almennra verðlagsbreytinga milli áranna 2017 og 2018 í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um hvernig kílómetragjald og sérstakt kílómetragjald skuli reiknað við áætlun og ákvörðun samkvæmt álestri ef ekki er komið með ökutæki til álestrar innan álestrartímabila.

Um 9. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að bifreiðagjald hækki um 2,2% vegna almennra verðlagsbreytinga milli áranna 2017 og 2018 í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018.

Um 10. gr.

    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir hækkun gildandi álagningarhlutfalla viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, greiðslustofnana, rafeyrisfyrirtækja, vátryggingamiðlara, verðbréfamiðstöðva, kauphalla, Íbúðalánasjóðs og Lánasjóðs sveitarfélaga. Lögð er til lækkun á gildandi álagningarhlutfalli vátryggingafélaga og lífeyrissjóða og að álagningarhlutfall verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana og rekstrarfélaga verðbréfasjóða og fagfjárfestasjóða haldist óbreytt.
    Framangreindar breytingar taka mið af endurmati á skiptingu kostnaðar við rekstur Fjármálaeftirlitsins í samræmi við ákvæði laga nr. 99/1999.

Um 11. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til hækkun á lágmarki fjárhæðar vegna greiðsluskiptingar sem kveðið er á um í 3. málsl. 2. mgr. 6. gr. Þessi fjárhæð hefur ekki tekið hækkunum á liðnum árum í takt við önnur gjöld og er lagt til að hún hækki úr 300.000 kr. í 500.000 kr.
    Fagfjárfestasjóðir eru ýmist reknir af rekstrarfélögum verðbréfa- og fjárfestingasjóða eða starfa sem lögaðilar. Mun færri fagfjárfestasjóðir hafa til þessa verið reknir sem lögaðilar. Umsjón rekstrarfélaga með fagfjárfestasjóðum svipar til umsjónar með öðrum sjóðum sem falla undir umsjón þeirra. Samkvæmt lögunum er ekki gert ráð fyrir að eftirlitsgjaldi á rekstrarfélög sé breytt innan árs vegna nýskráningar/stofnunar eða afskráningar einstakra verðbréfa- og/eða fjárfestingarsjóða í umsjón þessara félaga. Ætla má að slíkt yrði örðugt í framkvæmd vegna tíðra breytinga hvað þetta varðar. Þessu ákvæði er því ætlað að koma á eðlilegu samræmi varðandi framkvæmd álagningar eftirlitsgjalds sem varðar nefnda sjóði.
    Í 4. mgr. 6. gr. er átt við útgefendur fjármálagerninga en ekki afurðina. Það vantar því orðið útgefandi í málsgreinina.

Um 12. gr.

    Lögð er til breyting á því hlutfalli af álagningarstofni skv. 4. gr. laga nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, sem miðað er við þegar gjald sem ætlað er að standa undir kostnaði vegna reksturs umboðsmanns skuldara er lagt á gjaldskylda aðila, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna.

Um 13. gr.

    Hér er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra samkvæmt lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, verði hækkað um 2,2% og nemi 11.197 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2018 vegna tekna ársins 2017.

Um 14. og 15. gr.

    Lögð er til framlenging á gildistíma ákvæðis til bráðabirgða VII í lögum um málefni aldraðra þar sem kveðið er á um að Framkvæmdasjóður aldraðra hafi tímabundna heimild til að kosta rekstur hjúkrunarrýma aldraðra. Ástæða þessara ráðstafana er fjárhagsvandi ríkissjóðs og sparnaðarkrafa fjárlagaheimilda.
    Þá er gert ráð fyrir að gildistími ákvæðis til bráðabirgða XII í lögum um málefni aldraðra verði einnig framlengdur. Í ákvæðinu er kveðið á um að á tímabilinu frá 1. janúar 2018 til og með 31. desember 2018 sé unnt að óska eftir því við Tryggingastofnun ríkisins að stofnunin geri samanburð á útreikningi á kostnaðarþátttöku heimilismanna fyrir og eftir gildistöku laga nr. 166/2006 og laga nr. 120/2009. Með lögum nr. 166/2006 var dregið úr tengingum við tekjur maka heimilismanna og þær síðar afnumdar með lögum nr. 120/2009. Sýni samanburðurinn aukna kostnaðarþátttöku heimilismanns frá því sem var fyrir gildistöku þeirra laga skal leiðrétta dvalarframlag vegna ársins 2018 til samræmis við það. Sú niðurstaða sem er hagstæðari fyrir vistmanninn verður því ætíð valin við útreikning á kostnaðarþátttöku hans og útreikning dvalarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Hér er um framlengingu á sams konar ákvæði að ræða. Gildandi ákvæði um heimild til samanburðar á útreikningi á kostnaðarþátttöku heimilismanna samkvæmt eldri og yngri lögum rennur út 31. desember 2017.

Um 16. gr.

    Lögð er til framlenging á 14. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar út árið 2018 en að öðrum kosti hefði það runnið sitt skeið í lok árs 2017. Ákvæðið kveður á um það að þrátt fyrir ákvæði laganna skuli örorkulífeyrisþegi hafa 1.315.200 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar.
    Samkvæmt ákvæðinu skal við útreikning tekjutryggingar þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum á tímabilinu 1. janúar 2018 til og með 31. desember 2018 gera samanburð á útreikningi tekjutryggingar annars vegar samkvæmt þeim reglum sem gilda á árinu 2018 og hins vegar þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2013 auk 31,75% hækkunar og að teknu tilliti til þess tekjumarks sem myndast hefur við framkvæmd 16. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum. Þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna fyrir lífeyrisþega skal beitt.

Um 17. gr.

    Vísað er til skýringa við 16. gr. frumvarpsins en í 17. gr. er kveðið á um útreikning heimilisuppbótar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Skal sömu reglu beitt og getið er um í 16. gr. frumvarpsins.

Um 18. gr.

    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða XI í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða verði framlengt um eitt ár og gildi út árið 2018. Það mun hafa þau áhrif að óheimilt verður á árinu 2018 að láta almennar hækkanir sem kunna að verða á örorkulífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, og lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, leiða til lækkunar á örorkulífeyri sjóðfélaga úr lífeyrissjóði.

Um 19. gr.

    Í greininni er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2018 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar muni hækka um 37,1 millj. kr. frá fjárlögum fyrir árið 2017. Jafnframt er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs hækki um 1,7 millj. kr. á árinu 2018.

Um 20. gr.

    Í greininni er lagt til að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 920 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 931 kr. fyrir árið 2018. Ákvörðuð hækkun nemur því um 1,2%.

Um 21. gr.

    Lagt er til að fjárhæð losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar skv. 4. mgr. 14. gr. laga um loftslagsmál verði breytt til samræmis við breytingar á meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. júlí árið áður. Gert er ráð fyrir að breytingin muni hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs. Um nánari skýringar vísast til kafla 3.10 í greinargerðinni.

Um 22. gr.

    Lagt er til að sérstakt gjald sem ríkisskattstjóri leggur á samhliða álagningu opinberra gjalda skv. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu og rennur til Ríkisútvarpsins verði hækkað úr 16.800 kr. í 17.200 kr. til samræmis við almennar verðlagsbreytingar milli áranna 2017 og 2018.

Um 23. og 24. gr.

    Lagðar eru til breytingar á gjaldskrá fyrir ýmis vottorð og leyfi í tengslum við vegabréf, dvalarleyfi og veitingu ríkisborgararéttar í samræmi við þróun á vísitölu neysluverðs frá árinu 2009 til júlí 2017. Þá eru lagðar til breytingar á orðalagi og brottfall töluliða ásamt leiðréttingum á tilvísunum til samræmis við lög nr. 80/2016, um útlendinga.

Um 25. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.